Vestmannaeyjar 100 ára afmæli - Fjölbreytt sýning á verkum Jóa Listó:

Sannur listamaður í öllu sem hann hefur tekið sér fyrir hendur

Ljósmyndir: Óskar Pétur Friðriksson

 

 

Það er ekki einfalt að flokka listasýningar. Sumir nefna gæði eða hvað þær eru skemmtilegar, vel upp settar, fjölbreytnin mikil og hvað margir mæta við opnuna. Alltaf er matið hvers og eins en sýning Jóhanns Jónssonar, Jóa Listó í Einarsstofu sem opnuð var fimmtudaginn 21. mars og stóð til mánaðamótanna næstu skorar hátt í öllum þessum flokkum. Um það voru fjölmargir gestir við opnunina  sammála. Hún sýnir ótrúlegan feril mikils listamanns. Manns sem komið hefur víða við á ferlinum. Málað einstakar vatnslitamyndir, teiknað, gert skúlptúra, hannað frímerki og bókakápur, gert leiðbeiningamyndir fyrir sjómenn og myndskreytt kennslubækur fyrir skipstjórnarmenn.

 

Allt unnið af sömu ástríðunni og viljanum til  að skila sem bestu og nákvæmustu verki. Sýningarstjóri er Gunnar Júlíusson, sem aldrei gengur verks öðru vísi en að klára það með stæl. Og útkoman er einstök og sýningin er eitthvað  sem helst enginn mátti missa af.

 

Listó verður til

Þegar fólk lendir í vandræðum með að lýsa upplifun sinni af listviðburði, veit ekki hvað listamaðurinn er að fara er oft sagt að þetta eða hitt hafi verið athyglisvert. Ekki þarf að grípa til þessa þegar rætt er um þessa heiðurssýningu Jóhanns Jónssonar því öll hans verk tala beint til þess sem á horfir. Stráksins að norðan sem skolaði á land í Vestmannaeyjum upp úr miðri síðustu öld. Þar kynntist hann henni Guðbjörgu Engilbertsdóttur, festi ráð sitt, stofnaði heimili og fór að vinna í Fiskiðjunni.

 

Ekki alveg draumastarfið því strax sem barn byrjaði Jói að teikna og hefur ekki stoppað síðan. Í Vestmannaeyjum heldur Jóhann áfram að daðra við listina og nær að þróa sinn eigin stíl í vatnslitamyndum. Vekur athygli og nær þeim stalli í bæjarfélaginu að vera kallaður Listó. Skapaði sér  ákveðna sérstöðu  og Listó nafnið festist við Jóa og er hans listamannsnafn í dag, Jói Listó. Hann var þó ekki einn því mikil gróska var í kringum Myndlistarskóla sem Páll Steingrímsson rak á þessum árum.

 

Marglaga listamaður

En aftur að sýningunni sem er klárlega sú fjölbreyttasta hjá einum listamanni í Einarsstofu frá upphafi. Vatnslitamyndirnar fá sinn sess en Jói sýnir á sér hliðar sem margir vissu af en ekki hvað voru umfangsmikilar. Áberandi eru myndir  sem hann hefur unnið og lúta að öryggismálum sjómanna, bæði á leiðbeiningaspjöldum fyrir sjómenn og myndskreytingar í kennslubókum. Þar koma fram kostir Jóa sem myndlistarmanns, nákvæmni og næmt auga fyrir viðfangsefninu. Hefur starfið fyrir Siglingastofnun verið hans aðalvettvangur síðustu 20 árin. Af því er hann mjög stoltur og þakklátur fyrir að hafa fengið þetta tækifæri, að vera hlekkur í þeirri keðju sem unnið hefur að öryggismálum sjómanna á síðustu árum og það með miklum árangri.

 

Á sýningunni er líka að finna frummyndir af frímerkjum sem hann hefur hannað ásamt skreytingum fyrir Póstinn. Bókakápur og margt fleira. Þá komu á óvart skúlptúrar sem hann hefur unnið úr rekadrumbum sem orðið hafa vegi hans á göngu um Heimaey.

 

Þannig má áfram telja, fjölbreytnin er ótrúleg og eitt gjaldfellir ekki annað sem Jói hefur gert, því hann er sannur listamaður í öllu sem hann hefur tekið sér fyrir hendur á þessu sviði.

 

Einstök sýning og skemmtilega sett upp sem má ekki síst þakka Gunnari Júlíussyni, myndlistarmanni og Eyjamanni sem líka átti hugmyndina að sýningunni. Fékk Kára Bjarnason í lið með sér og tókst þeim að fá Jóa til að slá til. Saman náðu þeir að skapa einstaka sýningu.

 

Mikilvægir bakhjarlar

Mikill fjöldi var við opnuna og í ávarpi sagði Kári það mikilvægt að eiga sér bakhjarla í því starfi sem fram fer í Safnahúsinu sem miðar ekki síst að því að varðveita menningararf Vestmannaeyja. „Einn af þessum mönnum er Gunnar Júlíusson sem á hugmyndina að þessari sýningu og fylgdi henni eftir alla leið. Hann er í hópi vildarvina Safnahúss og sem slíkur er hann ómetanlegur,“ sagði Kári.

 

„Og á með því þátt í að leiða fram og gera aðgengilegan ákveðinn hluta af menningararfi Vestmannaeyja. Það er eins og þetta fólk geti ekki sofið eða unnt sér hvíldar fyrr en hluti þessa arfs er orðinn aðgengilegur. Þetta er auðvitað ákveðin tegund af veiki sem auðvelt er að hagnýta sér.  Það höfum við gert hér í Safnahúsinu.

 

Einn slíkur vildarvinur er Gunnar Júlísson. Það eru ekki mörg ár síðan hann leiddi hóp manna sem við Jói vorum meðal annars í og fann allt til sem til var um þjóðhátíðarmerkin. Setti þau saman og vorum við með frábæra sýningu á þeim.  Fram að því höfðu þau ekki verið aðgengileg, ekki hægt að fá upplýsingar um þau nema einhvers staðar á stangli.

 

Þegar Gunnar hafði samband við mig fyrir nokkru síðan og sagðist hafa löngun til þess að bjóða upp á heildarsýningu á verkum Jóa. Þá hugsaði ég með mér; það þýðir ekkert að segja við Gunnar að það sé vonlítið, hann hlustar ekki á það. Því þó að verkefnið sé mikilvægt hefur Jói þann veikleika að vera of hógvær. Ég vissi þó að ef einhver gæti dregið fram svona sýningu var það Gunnar Júlíusson sem fór af stað. Lét það ekki nægja heldur kom með hana til Eyja og ætlar að vera hér á meðan á sýningunni stendur. Það er viss vídd í því að kynnast fólki eins og Gunnari.,“ sagði Kári og þakkaði þeim félögum að bjóða upp á þetta samfellda sýningu á verkum Jóa.

 

Lengi dáðst að Jóa

„Ég hef lengi verið aðdáandi listamannsins, Jóa Listó og lengi skoðað verkin hans, þó einkum vatnslitaverkin sem eru þau verk sem helst hafa verið á heimilum í Eyjum. Ég hef komið inn á þau nokkur og finnst alltaf jafn gaman að vera boðið í kaffi og smá listaspjall. Við eigum marga góða listamenn í Eyjum og ég man þegar ég stóð agndofa undir stóru Herjólfsmyndinni hans Jóa á gaflinum á Básum. Þá hugsaði ég með mér, hvernig í fjáranum fer hann að þessu, að halda öllum hlutföllum réttum? Hundrað prósent, að mér fannst. Allt. Litirnir á haffletinum, landslagið og hvernig skipið klýfur öldurnar. Mér fannst þetta algjörlega fullkomið,“ sagði sýningarstjórinn, Gunnar Júlíusson, þegar hann ávarpaði listamanninn og gesti við opnun sýningarinnar.

 

Gerir allt 100 prósent

Og hann hélt áfram og talaði næst um Bylgjumyndina sem prýddi Magnahúsið við Strandveg. „Sem mér fannst ótrúleg. Síðustu ár fór Jói að setja fleiri verk og ljósmyndir inn á Netið . Ég hélt að ég þekkti verkin hans en þarna sá ég að það var ekki nema helmingur af því sem hann hafði verið að gera. Sá fullt af nýjum hlutum sem ég vissi ekki að hann hafði gert en hann er alveg ótrúlega fjölhæfur.

 

Ekki nóg með það, hann gerir allt hundrað prósent. Finnst mér, sama hvað hann tekur sér fyrir hendur. Hvort sem það eru vatnslitaverkin, blýantsteikningar, blek- og pennateikningar, eintóna, margtóna myndskreytingar. Unnar í tölvu fyrir Siglingamálastofnun og Lýðheilsustofnun, tæknimyndir, skýringamyndir. Allt er þetta ótrúlega vel unnið. Sama má segja um kápur á bækur. Fannst mér vera kominn tími á að sjá fleiri verk. Einhverskonar viðhafnar- eða afmælissýningu þegar hann varð sjötugur í febrúar á síðasta ári.“

 

Kári til en Jói var tregari

Gunnar sagði að Kári hefði strax tekið vel í það en Jói hafi verið tregari í taumi en þetta hafi hafst. „Þetta er hellingsvinna að setja upp svona sýningu. Hefur Jói unnið baki brotnu í undirbúningi. Við að finna ákveðnar myndir, finna til efni í möppur og er ég mjög ánægður að hann var til í slaginn. Þegar ég fór heim til hans sá ég þessa skúlptúra sem þið sjáið hér og mér finnst alveg ótrúlega flottir. Þetta er rekaviður sem hefur fundist hér í Eyjum og svo eitthvað sem er skeytt ofan á. Þetta er eitthvað sem aðrir voru búnir að afskrifa en með því er hægt að skapa svo margt.  Þetta er endurvinnsla sem á svo vel við í dag,“ sagði Gunnar og lagði enn og aftur áherslu að hvað Jói er fjölhæfur og vandvirkur.  „Er von mín að síðar meir verði önnur og meiri sýning á verkum Jóa List,“ bætti Gunnar við og óskaði Jóa til hamingju með vel unnið verk.

 

Byrjaði ungur

Jói Listó sagðist alveg gáttaður yfir góðri aðsókn sem hann var mjög þakklátur fyrir. Byrjaði hann á að þakka Kára og ekki síst Gunnari fyrir þeirra framlag við sýninguna. Næst tók hann að rifja upp ævina og byrjaði þegar hann var fimm ára, norður í Kelduhverfi við Skjálfanda Þar sem hann ólst upp. „Ætli það hafi ekki verið um það leyti sem ég uppgötva það sem kallast sjálfið í dag. Það var þessi tilfinning að það væri eitthvað að mér. Alveg sama þó ég væri þægur og rólegur. Ég verð sex ára og þá bara ágerist þetta og voru einhverjir í sveitinni farnir að vorkenna foreldrum mínum,“ segir Jói og heldur áfram.

 

„Allt í einu rennur upp fyrir mér ljós, hvað er að, kom þó ýmislegt til greina, en ég var alltaf að teikna. Alla daga. Þetta var kannski ekki það sem foreldrarnir höfðu vonast eftir. Stundum komu frændur og frænkur norður á drossíum. Var látið mikið með mig af því að ég var eiginlega einbirni. Systkini mín voru öll farin að heiman þegar þarna var komið sögu. Þá kom alltaf þessi spurning; hvað ætlarðu að verða þegar þú ert orðinn stór. Þið kannist við þetta en í mínu tilfelli fannst mér alltaf koma önnur spurning áður en mér gafst færi á að svara. Ætlarðu ekki að verða bóndi? Þá setti ég í brýrnar og sagði; - ég ætla að vera listmálari. Ég man enn þann dag í dag hvernig brosin stirðnuðu og andlitin breyttust í einhverskonar ógeðssvip. Þetta var sem sagt vandamál.“

 

Þakklátur og stoltur

Þegar Jói var orðinn ellefu tólf ára var slegið upp símafundi, en sveitsíminn var þannig að það var ein lína fyrir allan hreppinn og átti hver bær sitt merki, t.d. tvær langar hringingar og ein stutt og allir gátu hlustað.  „Það var verið að ræða um smölun, til rúnings minnir mig og þá kemur upp mitt nafn. Hvað ég gæti gert. Þá segir einhver; - það er ekkert að treysta á hann Jóhann.  Hann hangir alltaf inni og teiknar.  Þetta barst mér til eyrna og fannst mér óskaplega ósanngjarnt. Og ekki satt því ég var stundum úti að teikna,“ sagði Jói og kvaðst nú standa á ákveðum tímamótum.

 

Áréttaði, að hann væri þakklátur og stoltur að hafa fengið að taka þátt í því vel lukkaða átaki sem unnið hefur verið í öryggismálum sjómanna. „Mér hefur verið trúað fyrir mjög erfiðum verkefnum sem tengjast því sem varðar líf eða dauða, Gríðarlega erfitt á stundum en í dag er gríðarlega þakklátur og stoltur,“ sagði Jói Listó að endingu.