Grunnskóli Vestmannaeyja settur:

Byrjar klukkan 8:20 á morgnana í vetur

 

 

Bæjarbragurin breytist þegar skólarnir hefjast í lok sumars. Umferðin verður meiri þegar krökkunum er skutlað í skólann á morgnana. Önnur bara labba og enn önnur skutlast þetta á hjóli. Það er því vissara að fara varlega í umferðinni. Annað sem gleður eru ærsl og læti í frímínútum sem lífga upp á lífið og tilveruna. Þarna eru um leið að taka til starfa stærstu vinnustaðir bæjarins þar sem Grunnskóli Vestmannaeyja er fjölmennastur með sína 518 nemendur og 115 starfsmenn. Skólinn er í rekinn í tvennu lagi, í Barnaskólanum þar sem fimmtu til tíundu bekkir eru og í Hamarsskóla þar sem eru fyrstu til fjórðu bekkir.

 

Grunnskólinn var settur föstudaginn 23. ágúst og þar sagði Anna Rós Hallgrímsdóttir, skólastjóri að á hverju skólaári verði einhverjar breytingar. Tók hún sem dæmi að á síðasta skólaári var fyrsta árið sem 5. bekkur er í Barnaskólanum. „Þessi breyting gekk mjög vel og mjög gott að vera komin með miðstigið í sama skóla. Margir nemendur eru að fara í nýja bekki og fá nýja kennara sem getur gert skólaárið enn meira spennandi, en það getur auðvitað líka verið stressandi. Eins og ég sagði í vor þá er gott að líta á þetta sem tækifæri, tækifæri til að kynnast til dæmis nýjum bekkjarfélögum og nýjum vinum,“ sagði Anna Rós.

 

Teymiskennsla

Hún sagði líka ýmislegt spennandi að gerast í skólastarfinu. „Við erum að fara af stað með svokallaða teymiskennslu. Byrjum á fullum krafti í 5. bekk, en á annan hátt í öðrum árgöngum. Teymiskennsla einkennist fyrst og fremst af samvinnu um nám og kennslu nemenda. Kennarar telja að þegar unnið er í teymum komi fram fleiri hugmyndir, skoðanir og möguleikar á lausnum. Kostir teymiskennslunnar liggi í samstarfinu þar sem styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín. Teymiskennslan býður upp á tækifæri til að hafa smærri hópa og mæta ólíkum þörfum nemenda, meiri sveigjanleika og fjölbreytni í verkefnum. Fleiri kennarar eru til að aðstoða nemendur og nemendur tengjast þá fleiri kennurum og hafa fleiri til að leita til. Við erum spennt að prufa þetta.“

 

20 mínútur

Anna Rós sagði stærstu breytinguna þetta skólaárið vera, að kennsla byrjar klukkan  8.20 á morgnana í stað klukkan 8.00. „Eins og áður hefur komið fram opna skólarnir klukkan 7.45, skólaliðar og starfsfólk skólans mun fylgjast með nemendum þar til kennsla hefst. Grautur verður í boði frá klukkan 7.50 til 8.10 og vonumst við til að fleiri nemendur komi til með að nýta sér það og komi þá vel nærðir í fyrstu kennslustund. Við starfsfólk GRV erum spennt fyrir þessari breytingu, teljum að hún geti stuðlað að betri byrjun á skóladeginum. Vonandi verður þetta til þess að fleiri koma gangandi í skólann. Jafnvel gæti þetta skapað mýkri byrjun á morgninum,  líka inni á heimilum þegar  ekki fara allir út úr húsi á sama tíma.“

 

Áhersla á stærðfræði og tækni

Anna Rós ítrekaði að margt spennandi er að gerast í skólanum. „Við ætlum að efla okkur í stærðfræði og svo erum við alltaf að reyna að verða betri í tækninni. Við fengum styrk til að efla forritunarkennslu, til að þið verði betri og öðlist meiri færni í þessum þáttum. Við höfum lagt mikla áherslu á lestur síðustu ár og gerum það auðvitað áfram. Þið sem hafið verið dugleg að lesa heima, haldið því áfram og þið sem hafið kannski ekki verið alveg eins dugleg, bætið bara í á þessu skólaári.“

 

Uppeldi til ábyrgðar

Í GRV er unnið eftir, Uppeldi til ábyrgðar, uppbyggingarstefnu sem miðar að því  að ná samstöðu um lífsgildi til að hafa að leiðarljósi og fylgja þeim síðan eftir með fáum skýrum reglum. Kenna sjálfsaga, læra af mistökum í samskiptum og einbeita sér að lausnum en ekki vandamálum. Hún byggir einnig á því að allir hafa sínar þarfir og það þarf að nálgast hvern og einn í takt við það.

 

„Markmið er að gera nemendur ábyrga fyrir eigin  hegðun og leiðbeina þeim í að finna lausnirnar sjálfir. Í þessari stefnu er mikið talað um hlutverk og í upphafi hvers árs er farið yfir hlutverk allra í skólanum. Það er mikilvægt að hafa það í huga að við erum öll með okkar hlutverk í skólanum, hvort sem það eru nemendur, kennarar, stuðningsfulltrúar, skólaliðar, húsverðir eða ritarar og öll þessi hlutverk eru jafn mikilvæg. Og það er mikilvægt að við berum virðingu fyrir hvert öðru og komum fram af kurteisi.“ 

 

Heilsueflandi skóli

GRV heldur áfram að vera heilsueflandi grunnskóli og lögð er áhersla á holla fæðu og aukna hreyfingu. „Þess vegna vil ég hvetja ykkur nemendur að ganga eða hjóla í skólann eins oft og þið getið og koma með hollt og gott nesti með ykkur, helst ávexti og grænmeti,“ sagði Anna Rós.

 

Hún segir árangursríkt skólastarf felast í því að kennarar, foreldrar og nemendur vinni saman. „Þetta er samstarfsverkefni  þessara þriggja aðila og góður árangur næst ekki nema allir séu með. Munið foreldrar, að ykkar hvatning og áhugi á námi barna ykkar skiptir gríðarlega miklu máli. Í skólanum starfar metnaðarfullt starfsfólk sem leggur sig fram við að búa ykkur nemendur undir lífið. Við viljum sjá góðan árangur í námi og við viljum líka að þið öðlist sjálfstraust til að standa ykkur vel. Við höfum metnaðinn til þess og þá er spurningin hvort þið hafið hann ekki líka,“ sagði Anna Rós og bauð alla velkomna til leiks á nýju skólaári. „Ég hlakka til að starfa með ykkur í vetur og segi Grunnskóla Vestmannaeyja settan haustið 2019.“

 

 

Umsjónarkennarar

Í 2. bekk eru sömu kennarar og á síðasta skólaári: Kolbrún Matt., Sigga Ása og Dísa Jóels.

Í 3. bekk eru líka sömu kennarar, Íris Páls, Guðrún Snæ og Magga Beta.

Í 4 bekk er einn nýr umsjónarkennari, en það er hún Unnur Líf sem tekur við einum 4. bekk, Anna Lilja og Snjólaug halda áfram með sína bekki.

Í 5. bekk eru nýir bekkir og tveir umsjónarkennarar með hvorn bekk. Sara og Helga Jóhanna eru með 5. HS og Adda og Jóhanna Alfreðs eru með 5. AJ.

Í 6. bekk eru nýir bekkir og tveir nýir umsjónarkennarar,  Í 6. EB er Esther Bergsdóttir hún er ný hjá okkur í GRV, en margir þekkja hana eflaust af Víkinni.

Kristinn Guðmundsson, sem var umsjónarkennari í 5. bekk í fyrra verður með 6. KG. 

Og svo er Þórey Friðbjarnardóttir umsjónarkennari í 6. ÞF.

Í 7. bekk halda sömu umsjónarkennarar áfram þau: Daníel Geir Moritz, Ester S. Helgadóttir og Sæfinna Ásbjörnsdóttir.

Í 8. bekk eru nýir bekkir og nýir umsjónarkennarar. Birgit Ósk er með 8. BÓB, Guðríður Jóns (Gugga) er með 8. GJ og Evelyn Bryner er með 8. ECB.

Í 9. bekk eru einni sömu umsjónarkennarar þær Elísa og Dóra Guðrún.

Í 10. bekk halda Berglind Þórðard., Jónatan og Lóa Sigurðard. áfram með sína bekki.