Afmælisritið Vestmannaeyjabær í 100 ár
 

Samstarfsverkefni Eyjafrétta og Vestmannaeyjabæjar

 

Þegar afmælisnefnd í tilefni af 100 ára kaupstaðarafmæli Vestmannaeyjabæjar hóf formlega störf biðu hennar fjölmörg verkefni.  Áður höfðu verið teknar ákvarðanir á vettvangi bæjarstjórnar um nokkur atriði sem tengjast afmælinu. Meðal fyrstu verkefna var að taka ákvörðun um með hvaða hætti þessara merku tímamóta væri minnst á prenti.

 

Niðurstaðan var að gefa út  100 ára afmælisrit þar sem farið er í gegnum  söguna  með  greinarskrifum, viðtölum og ekki síst með annál þar sem stiklað er á stóru í sögu bæjarfélagsins síðustu 100 árin.   Ákveðið var að fara í samstarf við Eyjafréttir við gerð blaðsins og var Sara Sjöfn Grettisdóttir ritstjóri blaðsins. Með henni í ritnefnd voru Kári Bjarnason, Ómar Garðarsson og Arnar Sigurmundsson.  Afmælisritinu var dreift í öll hús í Eyjum 2.-3. júlí 2019.

 

Að minnast síðustu 100 ára  í um 1200 ára sögu byggðar í Vestmannaeyjum er ekki einfalt mál. En þessi merku  tímamót í sögu Vestmannaeyja marka í senn  mikið framfaraskeið, en einnig eitt mesta áfall sem nokkurt byggðarlag hefur mátt þola í sögu Íslandsbyggðar. Ef við horfum mun lengra aftur í tímann á þessum merku tímamótum blasir sagan við og var stiklað á stóru ívið gerð ritsins en jafnframt reynt að koma inná þau atriði sem marka söguna.

 

Skipst á skin og skúrir

Það hafa sannarlega skipst á skin og skúrir í langri sögu byggðar í Vestmannaeyjum. Gríðarleg áföll af völdum Tyrkjaránsins 1627, mannskæðra sjóslysa, mikils ungbarnadauða, brottflutnings til vesturheims  og loks eldgossins á Heimaey 1973 höfðu hvert um sig afgerandi áhrif á þróun byggðar og mannlífs.  Íbúafjöldinn frá 1600-1900 var yfirleitt 300 til 500 manns.  Saga Vestmannaeyja og þróun fiskveiða og fiskverkunar verður ekki sundurskilin.

 

Vélbátaöldin sem hófst í Eyjum 1906 olli atvinnubyltingu og íbúafjöldinn þrefaldaðist á á 15 til 20 árum og var um 2000 manns þegar Vestmanna-eyjar fengu kaupstaðarréttindi 1919.  Þróunin hélt áfram, en heimskreppan  sem hófst 1930 hafði mikil áhrif á samfélagið í Eyjum í heilan áratug.  Eftir það fjölgaði íbúum á ný. Í árslok 1972 var íbúafjöldinn kominn í 5300 manns.

 

Eldgosið á Heimaey 1973 og afleiðingar þess höfðu gríðarleg og viðvarandi áhrif á þróun byggðar. Strax að gosi loknu um sumarið hófst mikið uppbyggingarstarf í Eyjum, enda hafði  þriðjungur af byggðinni, íbúðarhús og atvinnufyrirtæki farið undir hraun og gjall.

 

Endurreisn byggðar, atvinnu- og mannlífs voru risavaxin verkefni sem tókst að framkvæma að miklu leyti á nokkrum árum  með viðtækri samstöðu íbúanna, virkri  aðstoð stjórnvalda og góðri aðstoð ýmissa aðila innanlands og utan. Sumt verður aldrei bætt, en bæjarbúar lærðu að aðlaga sig að gjörbreyttu umhverfi. Talið er að liðlega 3600 manns hafi flutt heim á ný að loknu eldgosi, en einnig bættust nýir íbúar í hópinn á næstu árum og áratugum.   Íbúafjöldi í Eyjum er nú  um 4300 manns , en atvinnuhættir hafa breyst mikið, sjávarútvegur er áfram burðarásinn í atvinnulífinu, ásamt þjónustu við greinina, en samhliða bættum samgöngum á sjó við Eyjar með tilkomu Landeyjahafnar hefur ferðaþjónusta vaxið stórum skrefum í Eyjum á síðustu árum, en betur má ef duga skal.               

 

Mynd: Sara Sjöfn Grettisdóttir ritstjóri afmælisritsins afhendir Írisi Róbertsdóttur bæjarstjóra fyrsta eintakið af afmælisritinu