Árabáturinn Farsæll á friðarbóli í anddyri Þekkingarseturs

 

 

Í anddyri Þekkingarsetursins við Ægisgötu tvö hefur árabátnum Farsæli verið komið fyrir, einum elsta bát landsins og líklega merkasta safngrip Sagnheima.

Öll vertíðaskip Eyjamanna frá árabátaöldinni sem tók yfir 1000 ár eru nú löngu úr sögunni en segja má að Farsæll komist næst þeim. Farsæll er aldursfriðaður, smíðaður 1872, en Ívar Gunnarsson bátasmiður hefur sinnt honum eftir leiðbeiningum sérfræðinga á sviði fornminja.

Sæþór Vídó og Bragi Magnússon sáu um hönnun sýningar en fjölmargir aðrir hafa einnig lagt hönd á plóginn. Verkefnið var styrkt af Vestmannaeyjabæ og Safnaráði og er liður í 100 ára afmælishátíð Vestmannaeyjabæjar.

 

Merk saga

Hann á sér merka sögu árabáturinn Farsæll sem hefur fengið virðulegan sess og fullkomlega við hæfi í Þekkingarsetrinu á annarri hæð Fiskiðjunnar. Hann er eini árábáturinn sinnar tegundar sem enn er til og ótrúlegt til þess að hugsa að í aldir átti íslenska þjóðin allt undir þessum litlu kænum. Þeir báru björg í bú en fórnirnar voru miklar ekki síst hér við hafnlausa Suðurströndina þar sem landtaka gat verið erfið og hættuleg.

Helga Hallbergsdóttir, sem lét af störfum sem forstöðumaður Sagnheima 1. júní sl. hafði forgöngu um málið og segir hún Farsæl einstakan. „Helgi Máni Sigurðsson frá Sambandi íslenskra sjómannasafna (SÍS) kom hingað í ágústmánuði 2018 og var gráti nær. Sagði hann að Farsæll væri líklega síðasti fulltrúi áraskipaútgerðar sem enn væri til og hann lægi gjörsamlega undir skemmdum – hvort við gerðum okkur ekki grein fyrir þeim verðmætum sem að við værum að missa út úr höndum?,“ sagði Helga sem fékk styrk frá Vestmannaeyjabæ,  Safnaráði og 50 ára vatnshópurinn 2018 setti líka afganginn af sínu verkefni í pottinn og rann  það til hönnunar á bakmynd bátsins sem Sæþór Vídó sá um. Er það mynd frá höfninni í Vestmannaeyjum frá því 1907 og vel við hæfi.

 

Ívar hugsaði um bátinn eins og unglamb

Ívar Gunnarsson bátasmiður hefur séð um að gera bátnum til góða eftir leiðbeiningum og í samráði við Hafliða Aðalsteinsson bátasmið en Helgi Máni sá um milligönguna enda er Farsæll friðaður vegna aldurs og vanda þarf því mjög allt sem gert er. „Ívar hefur síðan í desember hugsað um bátinn eins og ungabarn, má ekki þorna of hratt og einnig þarf hann að fá á sig sérstakar olíur til að ganga inn í viðinn í stað vatnsins sem gufar upp,“ sagði Helga. Farsæll Farsæll var upphaflega fjórróinn, síðar sexæringur smíðaður 1872 fyrir Hvolhreppinga og gerður út á handfæri. Smiður var Tómas bóndi Jónsson, Arnarhóli í Landeyjum þar sem hann var smíðaður. Hann er 6 metra langur, 1,93 m breiður dýptin er 1,0. Skrokklag var svokallað Landeyjarlag, smíðalag er skarsúð og var hann með eitt mastur og segl. Báturinn var gerður út frá Landeyjasandi til ársins 1930. Landeyjalag var vel þekkt í Vestmannaeyjum á 19. öld því að nokkur nafnkunn skip Eyjamanna, svo sem Gideon, Trú og Ísak, voru smíðuð á Ljótarstöðum í Landeyjum.

 

Farsæll bátur

Tómas Jónsson, sem smíðaði bátinn, smíðaði einnig naglana í byrðinginn og allt annað, sem bátsins er. Báturinn var upphaflega smíðaður fyrir Hvolshreppinga. Þess vegna var hann um árabil kallaður Hvolshreppsbáturinn. Hvolshreppingar stunduðu sjó á honum frá Landeyjasandi, og lágu þeir þá oftast við í Miðkoti eða á Arnarhóli. Um 1920 hlaut báturinn fast nafn, nafnið Farsæll, sökum þess hversu farsæll hann hafði alltaf reynst. Aldrei höfðu slys eða meiðsli átt sér stað á honum við útgerð hans. Fengsæll hafði hann jafnan reynst og var það alltaf.

Hann var keyptur til Vestmannaeyja af Byggðasafninu 1956. „Farsæll er með elstu bátum á landinu og líklega merkasti safngripur Sagnheima. Öll vertíðaskip Eyjamanna frá árabátaöldinni, sem tók yfir 1000 ár, eru löngu úr sögunni. Segja má að Farsæll komist næst þeim. Hann hefur aldurinn til þess, 1872, og er sömu gerðar og svokallaðir sumarbátar sem einnig var róið á vetrar- og vorvertíðum. Farsæll var alltaf gerður út frá meginlandinu en bátar voru oft keyptir þaðan til Vestmannaeyja,“ segir Helga um þennan dýrgrip sem nú fær.

 

Farsæll er rammaður inn í mynd af uppsátri áraskipanna sem Thorvald Krabbe verkfræðingur tók í apríl 1907 þegar hann dvaldi í Eyjum við undirbúning  bryggjugerðar á Stokkhellu sem síðar varð Bæjarbryggjan og  tekin í notkun 1908.

 

Farsæll

1. Safnnúmer:

 

2. Tegund: Árabátur; upphaflega fjórróinn, síðar sexæringur

 

3. Hlutverk: Fiskibátur (handfæraveiðar)

 

4. Eigandi: Byggðasafn Vestmannaeyja, síðan 1956

 

5. Fyrri nöfn og eigendur:-  Upphaflegt nafn: Hvolshreppsbáturinn- Ísak bóndi Sigurðsson í Miðkoti eignaðist bátinn þegar Hvolhreppingar hættu að nota hann- Síðasti eigandi bátsins var Jón bóndi Tómasson í Hvítanesi, tengdasonur Ísaks Sigurðssonar.

 

6. Varðveislustaður: Undir plasti úti á Skipasandi

 

7. Smíðaár: 1872

 

8. Smiður: Tómas bóndi Jónsson, Arnarhóli í Landeyjum

 

9. Smíðastaður: Arnarhóll í Landeyjum

 

10. Brúttórúmlestir: 

 

11. Lengd, breidd og dýpt í m: 6,0 x 1,93 x 1,0 

 

12. Smíðaefni og samsetning skrokks: Viður; skarsúð

 

13. Skrokklag: Landeyjalag

 

14. Þilför:

 

15. Yfirbygging:

 

16. Lokuð rými:

 

17. Möstur og seglabúnaður: Eitt mastur og segl

 

18. Vél:19. Siglingatæki og annar búnaður:

 

20. Notkunarsaga:

 

Báturinn var gerður út frá Landeyjasandi til ársins 1930. Landeyjalag var vel þekkt í Vestmannaeyjum á 19. öld því að nokkur nafnkunn skip Eyjamanna, svo sem Gideon, Trú og Ísak, voru smíðuð á Ljótarstöðum í Landeyjum.

Upprunalega var báturinn fjórróinn, en síðar sett á hann þriðja ræðisparið. Þessi stærð báta er talin hafa verið algeng í Landeyjum og í Vestmannaeyjum á sumarbátum svokölluðum og voru þeir kallaðir jul í Eyjum, a.m.k. meðan þeir voru aðeins fjórrónir.

Tómas Jónsson, sem smíðaði bátinn, smíðaði einnig naglana í byrðinginn og allt annað, sem bátsins er. Báturinn var upphaflega smíðaður fyrir Hvolshreppinga. Þess vegna var hann um árabil kallaður Hvolshreppsbáturinn. Hvolshreppingar stunduðu sjó á honum frá Landeyjasandi, og lágu þeir þá oftast við í Miðkoti eða á Arnarhóli.

Um 1920 hlaut báturinn fast nafn,  nafnið Farsæll, sökum þess hversu farsæll hann hafði alltaf reynst. Aldrei höfðu slys eða meiðsli átt sér stað á honum við útgerð hans. Fengsæll hafði hann jafnan reynst og var það alltaf.

Þessir menn voru formenn á Farsæli: 1) Einar bóndi í Garðsaukahjáleigu í Hvolshreppi.

2) Kristján bóndi á Árgilsstöðum í Hvolshreppi. 3) Ísak bóndi Sigurðsson í Miðkoti.

Ísak eignaðist bátinn þegar Hvolshreppingar hættu að nota hann.

Síðasti eigandi bátsins var Jón bóndi Tómasson í Hvítanesi, fæddur um 1877. Hann var tengdasonur Ísaks Sigurðssonar. Jón fékk sér formann fyrir bátinn, Einar bónda Gíslason í Vestur-Fíflholtshjáleigu. Aldrei voru notuð önnur veiðarfæri á bátnum en handfæri. Árið 1930 var síðast stundaður sjór á bátnum, og var Jón Tómasson formaður á honum síðustu fimm árin.

Bátnum var jafnan vel við haldið, tjargaður og að honum dyttað á hverju hausti. Hann var notaður á bæði vetrar- og vorvertíðum. Stundum var sóttur sjór á honum suður undir Þrídranga. Bátnum var oftast lent vestan við Afallsósa.

Byggðarsafnið keypti bátinn, þar sem honum hafði hvolft í Hvítanesi í Landeyjum, lét flytja hann á bifreið til Reykjavíkur og svo þaðan með vb Skaftfellingi til Vestmannaeyja. Þangað kominn kostaði báturinn kr. 900,00. Það var árið 1956. Síðan lét Byggðarsafnið gera mikið við bátinn, m.a. setja í hann ný bönd. Smíði þessi átti sér stað á efsta gangi Gagnfræðaskólans sumarið 1956. Eggert Ólafsson skipasmíðameistari vann það verk. Síðan var báturinn geymdur á efsta gangi Gagnfræðaskólans í 13 ár, þiljaður þar af innst í ganginum. Einar J. Gíslason verkstjóri frá Arnarhóli í Eyjum greiddi fyrir kaupum á bátnum handa Byggðasafninu. Helgi Benediktsson útgerðarmaður lét flytja hann til Eyja Byggðasafninu að kostnaðarlausu með vb Skaftfellingi.

 

21. Sögulegir atburðir, persónur og staðir tengd bátnum:

Miðkot er um 15 km frá Hvolsvelli, í Vestur-Landeyjum, Rangárvallasýslu. Jörðin liggur að sjó með gott útsýni til Vestmannaeyja.

 

22. Ástand báts: Sæmilegt

 

23. Upprunaleiki – breytingasaga:

Hann er sennilega óbreyttur. Afturstefni hans gæti þó hafa verið bogið en er beint núna. Bátnum fylgir stýri fyrir bát með bogið afturstefni; það gæti verið af öðrum bát.

 

24. Viðhald og viðgerðir:

Bátnum var jafnan vel við haldið, tjargaður og að honum dyttað á hverju hausti.

 

25. Heimildir:

- Helga Hallbergsdóttir: Tölvupóstur til HMS dags. 6.2. 2018

- „Árabátur með Landeyjalagi.” Minjaskrá Byggðasafns Vestmannaeyja dags. 31.12. 1971 Skrásetjari: Þorsteinn Þ. Víglundsson. (heimaslod.is). Tölvupóstur frá Helgu Hallbergsdóttur til HMS 6.2. 2018

- midkot.is

- Þórður Tómasson: Viðtal við Jón Tómasson, Hvítanesi í Vestur-Landeyjum, 19.10. 1965. Ismus.is

- Jón Allansson: Skýrsla. Bátar í eigu minjasafna á Íslandi og annarra en minjasafna. Rvk. haust 1995.

 

26. Varðveislustaða: Safngripur; aldursfriðaður

 

27. Almenn umsögn:

Farsæll er með elstu bátum á landinu og líklega merkasti safngripur Sagnheima. Öll vertíðaskip Eyjamanna frá árabátaöldinni, sem tók yfir 1000 ár, eru löngu úr sögunni. Segja má að Farsæll komist næst þeim. Hann hefur aldurinn til þess, 1872, og er sömu gerðar og svokallaðir sumarbátar sem einnig var róið á vetrar- og vorvertíðum. Farsæll var alltaf gerður út frá meginlandinu en bátar voru oft keyptir þaðan til Vestmannaeyja.

 

Þörf á skjótum aðgerðum

Farsæll er í mjög viðkvæmu ástandi. Þess vegna er mjög brýnt að koma honum undir þak og í upphitað húsnæði.