Sigurgeir Jónsson gefur út bókina Munaðarlausa stúlkan

 

 

Þar er ekkert ofsagt hvorki í texta né myndum sem saman skapa skemmtilega heild. Já, bókin er falleg og lýsir virðingu höfunda fyrir verkefninu en að bókin varð að veruleika má einhverju leyti þakka afadætrum Sigurgeirs sem hafa miklar mætur á sögunni og annarri sem hann skráði eftir minni eftir að hafa heyrt þær lesnar í Ríkisútvarpinu fyrir nokkrum áratugum. Guðjóni Inga Eiríkssyni hjá Hólaútgáfunni leist vel á söguna og vildi gefa út. „Það stendur jafnvel til að hin sagan komi út fyrir næstu jól,“ segir Sigurgeir þar sem við sitjum á heimili Sunnu að Bröttugötu 7 þar sem amma hennar, Margrét Íris Grétarsdóttir ólst upp að stórum hluta.

 

 

„Ég var ekkert að hugsa um útgáfu en þegar Guðjón leitaði til mín eftir efni sýndi ég honum handritið og leist honum vel á. Ég sagði afadætrunum þessa sögu, alltaf þegar ég var að svæfa þær á kvöldin. Þar féllu öll önnur ævintýri í skuggann, sama hvort það var sagan af Rauðhettu og úlfinum, Mjallhvíti eða Búkollu. Þetta var saga númer eitt og hin sagan reyndar líka. Það dugði yfirleitt ein og hálf saga þar til þær voru sofnaðar.“

 

 

Datt Sunna strax í hug

Guðjón stakk upp á að fá einhvern í Vestmannaeyjum til að myndskreyta söguna. „Þó afadæturnar séu drátthagar mjög fannst mér þær einum of ungar og datt Sunna strax í hug. Þannig er tilurðin að þessu. Þetta er sígilt íslenskt ævintýri og minnir á söguna af Ásu, Signýju og Helgu þar sem Ása og Signý eru þær vondu en Helga sú góða eins og aðalsöguhetjan í Munaðarlausu stúlkunni. Á það við um nær allar góðar stúlkur í þjóðsögunum okkar, þær heita Helga,“ segir Sigurgeir.

 

„Mér finnst æðislegt að hafa fengið þetta tækifæri,“ segir Sunna sem er upp með sér að Sigurgeir skyldi leita til hennar um að myndskreyta bókina. „Þetta var erfitt því ég er ekki vön að teikna svona myndir en var mjög gaman,“ bætir Sunna við sem ung varð þekkt fyrir athyglisverðar pennateikningar þar sem hugmyndafluginu er gefinn laus taumurinn.

 

Sigurgeir er mjög ánægður með útkomuna hjá Sunnu sem fékk frjálsar hendur við myndsköpunina. „Við vorum mjög ánægðir með það að hún fer ekki inn í þennan hefðbundna torfbæjarstíl sem hefur einkennt margar bækur sem byggja á þjóðsögunum. Hún færir þetta nær nútímanum og gerir það svona ljómandi vel. Það eina sem við vildum var að tengja myndirnar við einstaka þætti í sögunni en þær eru að öllu leyti hennar.“

 

„Það var pínuerfitt að ákveða útlit persónanna en það tókst,“ segir Sunna sem kom flestum vinkonunum á óvart þegar bókin kom út. Þær samgleðjast Sunnu og afinn og amman, Einar Hallgrímsson og Margrét eru að springa úr monti.

 

 

Ofanbyggjarar og skyldleiki

Sigurgeir telst í hópi Ofanbyggjara í Vestmannaeyjum, fólk sem bjó sunnarlega á Heimaey, fyrir ofan hraun eins og kallað var. Hann er kenndur við Þorlaugargerði og fyrir tæpum 20 árum byggði hann Gvendarhús sem er rétt hjá bæjunum í Þorlaugargerði. Einar og Margrét búa í Draumbæ ekki fjarri og hafa búið þar í um 20 ár. Hefur Draumbær verið annað heimili Sunnu og vel það. En tengingarnar eru fleiri.

 

„Við langamma hennar, Tóta í Þingholti, erum þremenningar. Eigum sömu langömmuna. Hún var síðasta konan sem dæmd var til dauða á Íslandi en dóminum aldrei fullnægt. Hennar dauðasynd var að eignast barn með stjúpföður sínum eftir að móðir hennar lést. Hvorugt þeirra hafði hugmynd um að þetta væri óleyfilegt. En miðað við aldursmun okkar Sunnu gæti ég verið langafi hennar,“ segir Sigurgeir til að setja þetta í samhengi.

 

Sunna var ekki gömul þegar hún vakti athygli fyrir pennateikningar sínar og hélt sína fyrstu sýningu fyrir einu og hálfu ári á veitingastaðnum Einsa kalda sem fjölskyldan á og rekur og Hótel Vestmannaeyjum. Og sýningin stendur enn og hún selur grimmt.

 

„Það var 2016 sem ég byrjaði að teikna og ætla halda áfram á þessari braut. Ég hef ekki mikið teiknað á þessu ári en ég er ekki mjög lengi með hverja mynd þegar ég byrja. Þessa teiknaði ég á Þorláksmessu í fyrra,“ segir Sunna og bendir á mynd af ljónshöfði. „Hún heitir Amma ljón og er tileinkuð ömmu Margréti sem veiktist mikið rétt fyrir jólin í fyrra. Hún hefur síðan barist eins og ljón og náð ótrúlegum árangri,“ segir Sunna að endingu.