Mormónarnir í Vestmannaeyjum
Trúboð mormóna á Íslandi hófst fyrir alvöru vorið 1851 í Vestmannaeyjum. Mormónatrúin barst til Íslands frá Danmörku, og voru fyrstu trúboðarnir
þeir Þórarinn Hafliðason, trésmiður (1825-1852) og Guðmundur Guðmundsson, gullsmiður og úrsmiður (1825-1883), sem ættaðir voru úr Rangárvallasýslu. Þeir höfðu báðir kynnst mormónatrúboðinu og tekið trú er þeir voru við nám í Kaupmannahöfn. Þórarinn var vígður
til prestsembættis í kirkju mormóna þann 10. mars 1851 og þann 18. apríl 1851 var Guðmundur vígður sem kennari eða fræðari í mormónakirkjunni. Hann hafði því aðeins leyfi til þess að kenna og uppfræða en ekki að skíra eða vinna önnur prestsverk.

 

Fljótlega eftir að trúboðið hófst setti sóknarpresturinn sr. Jón Austmann sig á móti mormónunum og trúboði þeirra. Hann skrifaði biskupi bréf og kærði þá félaga fyrir sýslumanni. Mótstaðan gegn
trúboðinu varð til þess að mormónarnir einangruðust og urðu móttækilegri fyrir þeirri hugmynd að flytja vestur um haf.
Fyrstu skírnarathöfnina framkvæmdi Þórarinn aðfaranótt 5. maí 1851, er hann skírði hjónin Benedikt Hannesson og Ragnhildi Stefánsdóttur frá Kastala, en þau urðu sumarið 1852 fyrstu útflytjendurnir, mormónskrar trúar. Fyrst fóru þau hjónin til Danmerkur og áttu eftir að dvelja þar um nokkra ára skeið. Sjálfsagt voru þau að safna fyrir fargjaldinu. Ragnhildur er talin komin til Utah árið 1859, en
Benedikt lést í Nebraska á leiðinni. Þórarinn drukknaði í Vestmannaeyjum veturinn 1852 og hélt Guðmundur þá einn áfram trúboðinu.
Fjórir létu skírast á árinu 1852. Sumarið 1853 kom síðan til Vestmannaeyja frá Kaupmannahöfn danski járnsmiðurinn og trúboðinn J.P. Lorentzen. Um sumarið skírði hann Samúel Bjarnason og gaf síðar út köllunarbréf fyrir hann til þess að vera prestur mormóna í Eyjum.
Bréfið hljóðar svo:
?Herved bevidner vi: Samúel Bjarnason er blevet Indviet til Præst í den Mormonske Gren Jesu Kristi Kirke af sidste Dages hellige paa Vestmannö. Den
19. Juní, overensstemmende med
Kirkens regler Ved Haandspaalæggelse af J.P. Lorentzen, G. Guðmundsson, Loftur Jónsson og Magnús
Bjarnason.?
Guðmundur Guðmundsson Grensens Præsident Johan P. Lorentzen
Lorentzen skírði einnig þá Loft Jónsson meðhjálpara og bónda frá Þorlaugargerði og Magnús
Bjarnason beyki frá Helgahjalli.
Fyrst Vestmannaeyinga til þess að setjast að í Utah voru hjónin Samúel Bjarnason og Margrét Gísladóttir frá Kirkjubæ, en það var árið 1855. Þau höfðu lagt upp í langferðina frá Vestmannaeyjum 1854 til Kaupmannahafnar, þaðan til Englands og þaðan til New York, og loks landveginn til Utah.
Árið 1857 fer svo fyrsti hópurinn frá Íslandi vestur um haf, þegar 12 manns lögðu upp í langferðina frá Vestmannaeyjum undir forystu Lofts Jónssonar frá Þorlaugargerði.
Eftir það varð nokkurt hlé á Utahferðum. En þær hófust á ný árið 1873. Þá komu Loftur Jónsson og Magnús Bjarnason í trúboðsferð til Íslands, og höfðu vetursetu í Vestmannaeyjum.
Talið er að á árunum 1874-1895 hafi um 200 manns flutt frá Eyjum vestur um haf.