100 ára afmæli Vestmannaeyjakaupstaðar – Kvikmyndahátíð:

Stendur frá miðvikudegi til sunnudags – Fjölbreytt efni

 

 

Það var víða leitað fanga á Kvikmyndahátíð sem Vestmannaeyjabær stóð fyrir dagana 8. til 12. maí. Hátíðin var vel sótt fyrstu dagana en heldur slaknaði aðsóknin þegar fram í sótti.  Hátíðin var sett í Kviku fyrsta daginn með ávarpi Arnars Sigurmundssonar, formanns afmælisnefndar. Þar voru sýndar stuttmyndir af Vestmannaeyjum frá upphafi síðustu aldar þegar Vestmannaeyjabær sem við þekkjum í dag er að verða til. Og mynd sem tekin var á vertíðinni 1952.

 

Fyrsti dagur:

Vestmannaeyjabær að fæðast, lifandi myndir frá fyrri hluta 20. aldar.  Arnar Sigurmundsson og Kristján Egilsson skýrðu það sem fyrir augu bar.

Sýndar voru stuttmyndir úr fórum Kvikmyndasafns Íslands og Safnahúss Vestmannaeyja.  Elstu lifandi myndir sem vitað er um af Vestmannaeyjum og eru hinar elstu frá 1916. Eru þetta bæjarlífsmyndir, myndir af atvinnuháttum til sjávar og sveita og myndir af einstaklingum sem möguleiki er að bera kennsl á.

Þá var sýnd stuttmynd Lofts Guðmundssonar rithöfundar sem var kennari í Vestmannaeyjum og önnur stuttmynd sem kennd er við Kjartan Guðmundsson ljósmyndara en báðar eru frá 1924.

 

Annar dagur:

Tyrkjaránið, heimildamynd frá árinu 2002

Nú var leitað enn aftar í tímann, til ársins 1627, sýnd heimildarmynd um Tyrkjaránið. Myndin er um einn átakamesta og sérstæðasta atburð Vestmannaeyja og landsins alls. Að baki myndinni liggur margra ára heimildavinna og undirbúningur. Myndin er tekin á söguslóðum í Vestmannaeyjum og í tíu öðrum löndum til að lýsa atburðunum og eftirmálum þeirra frá sem flestum hliðum. Myndefni samtímans er notað í ríkulegum mæli til að segja söguna, einnig frásagnir, viðtöl og tölvugrafík.

Sýndir voru tveir þættir af þremur

 

1. Náðarkjör, rekur atburðarásina á Íslandi sumarið 1627, í Grindavík, á Bessastöðum, á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum. Heimamenn taka þátt í að segja söguna – Guðbergur Bergsson í Grindavík, austfirskir sagnamenn sem segja þjóðsögur, skólabörn í Vestmannaeyjum o.fl.

 

2. Morðengill, beinir athyglinni að ránsmönnunum og bakgrunni þeirra, einkum foringjanum sem var hollenskur að uppruna. Slóð hans er rakin í ýmsum löndum og spurt spurninga um sekt og sakleysi, trú og tíðaranda. 

 

Höfundur og stjórnandi myndarinnar er Þorsteinn Helgason, sagnfræðingur.

Kvikmyndatöku og klippingu annaðist Guðmundur Bjartmarsson. Framleiðandi Hjálmtýr Heiðdal og tónlistarumsjón Sverrir Guðjónsson.

 

Þriðji dagur:

Á föstudeginum bauð Vestmannaeyjabær upp á frumsýningu á nýrri íslenskri kvikmynd, Eden sem kynnt er sem villt blanda af spennu og kómík. Hún segir frá parinu Lóu og Óliver sem framfleytir sér með fíkniefnasölu en þráir ekkert heitar en að elta drauma sína. Þegar þau lenda upp á kant við undirheimaöflin ákveða þau að taka málin í sínar hendur og hefst þá barátta upp á líf og dauða.

Um fimmtán manns mættu á myndina og sátu fjórir í salnum eftir hlé.

 

Fjórði dagur - Lokadagurinn

Það þótti við hæfi að sýna Verstöðina Ísland á Kvikmyndahátíð, á sjálfan lokadaginn, 11. maí. Þetta er heimildamynd um íslenskan sjávarútveg  - Fjórði og síðasti hlutinn sem tekinn var í Vestmannaeyjum. Líka var Pysjuævintýrið sýnt, stuttmynd sem tekin var í Eyjum árið 2000.

 

Pysjuævintýrið

Í fjölskyldumyndinni Pysjuævintýrið er dregin upp skemmtileg mynd af því þegar börn í Vestmannaeyjum flykkjast út á haustkvöldum til að bjarga pysjum sem fljúga á ljósin í bænum þegar þær yfirgefa holur sínar í fjöllunum í kringum bæinn. Þeim er safnað í kassa og sleppt í sjóinn daginn eftir.

Í þessari pysjusögu stendur bærinn fyrir keppni um hver getur bjargað flestum pysjum á þremur dögum og hefur bæjarstjórnin lofað veglegum verðlaunum. Systkinin Anna og Bragi taka þátt í keppninni en einnig fylgjast áhorfendur með Axel sem beitir nokkuð óviðeigandi aðferðum til að ná sem flestum pysjum eftir að hann kemst að því hver hinn veglegi vinningur er.

Aðalleikendur eru Hjálmar Viðarsson, Írena Dís Jóhannesdóttir og Ingvar Örn Bergsson.

 

Verstöðin Ísland - Vestmannaeyjar

Heimildamyndabálkurinn Verstöðin Ísland, kom upphaflega út í fjórum hlutum 1992, hefur verið endurunninn og er kominn í stafrænt form. Myndaflokkur sem gerður var af Erlendi Sveinssyni, Sigurði Sverri Pálssyni og Þórarni Guðnasyni.

Verstöðin Ísland var á sínum tíma langviðamesta og dýrasta heimildarmynd sem ráðist hafði verið í á Íslandi og hefur haldið þeirri stöðu allt til dagsins í dag.

Fjórði hlutinn, sem sýndur var er um útgerðarhætti á framleiðslutíma myndarinnar og nefnist: Ár í útgerð og er að miklu leyti tekin upp í Vestmannaeyjum þar sem togarinn Breki VE og áhöfn hans eru í veigamiklum hlutverkum. Meðal annarra sem koma við sögu eru Hjörtur Hermannsson, þá útgerðarstjóri Samtogs og Sigurður heitinn Einarsson, forstjóri Ísfélagsins.

 

Gestir hefðu að ósekju mátt vera fleiri.

 

Fimmti dagur:

Síðasti bærinn í dalnum var lokamyndin, fyrsta íslenska leikna kvikmyndin frá 1950. Myndin er byggð á samnefndri sögu Lofts Guðmundssonar rithöfundar og kennara í Vestmannaeyjum. Sýnd verður endurbætt útgáfa í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands.

Efniviður myndarinnar er í anda gömlu þjóðsagnanna, sígilt ævintýri um baráttu góðs og ills. Í sveit einni hafa allir bændur flutst á brott vegna ofsókna trölls og tröllskessu.

Bóndi einn situr þó sem fastast með fjölskyldu sinni þar sem amman á bænum á töfrahring sem verndar íbúana frá öllu illu. Tröllin reyna að stela hringnum af henni og þá fer af stað atburðarás þar sem ýmsar vættir koma við sögu, meðal annars álfadrottning og dvergur sem getur gert sig ósýnilegan.

Þarna voru gestir grátlega fáir.

 

Vestmannaeyjabær bauð á allar þessar sýningar í tilefni aldarafmælis kaupstaðarins. Afmælisnefndin þakkar Svavari Vignissyni fyrir gott samstarf.