Sterkt atskákmót til minningar um Bedda á Glófaxa

 

 

Fjölmennt og sterkt atskákmót til minningar um Bergvin Oddsson - Bedda á Glófaxa fór fram í húsnæði Þekkingarseturs Vestmannaeyja laugardaginn 11. maí .  Keppendur voru 42 og þar af fimm stórmeistrar og nokkrir alþjóðlegir skákmeistarar. 

 

Atskákmótið var haldið af Taflfélagi Vestmannaeyja í samstarfi við fjölskyldu Bergvins, en Beddi tefldi mikið á yngri árum og var í hópi öflugustu bakhjarla TV.  Umhugsunartími  15 mín. á skákina og 5 sek. á hvern leik. Alls voru tefldar átta umferðir, en hver umferð tók um 45 mínútur.  Arnar Sigurmundsson formaður TV og Lúðvík Bergvinsson  fjölluðu um aðdraganda mótsins og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri  tók til máls og lýsti ánægju sinni með  mótið og framtakið.  María - Dúlla - Friðriksdóttir ekkja Bedda lék fyrsta leikinn í skák Lúðvíks við Jóhann Hjartarson stórmeistara.

 

 

Arnar byrjaði á að rifja upp sín fyrstu kynni af Bedda frá árinu 1965. Við hittumst fyrst í íbúð þeirra Dúllu neðar á Illugagötunni  . Ég man ekki hvort eitt Sjeneversglas var klárað en við tefldum þrjár skákir og eftir það minntist ég ekki einu orði á að ég var þáverandi skákmeistari Vestmannaeyja. Hvað með það, Beddi tók virkan þátt í starfi Taflfélagsins. Tefldi á nokkrum mótum en eðlilega dró úr þátttöku hans þegar hann hóf útgerð. Í árlegri skákkeppni leiddi hann lið sjómanna sem kepptu við landmenn. Stóð sú keppni í ein 30 ár,“ sagði Arnar sem var ánægður með þátttökuna á þessu glæsilega móti.

 

Söguleg skák

Taflfélagið  var stofnað 1926 og hefur starfað síðan þó með mismiklum krafti. Arnar rifjaði upp eina sögulegustu skák í sögu félagsins  á Skákþingi Vm. 1973. „Var næst síðasta umferð tefld 22 janúar. Þá var ein umferð eftir og ein biðskák  hjá Andra Hrólfssyni og Helga Ólafssyni. Tuttugu árum seinna, upp á dag  kláruðum við mótið. Helgi þurfti hálfan vinning til að verða Vestmannaeyjameistari en vann skákina og þá sem eftir var  og stóð uppi sem Skákmeistari Vestmannaeyja 1973 , 20 árum síðar þann 23. Janúar 1993!

 

Hann rifjaði upp góð ár hjá   Taflfélaginu um 1990 þegar hér fóru fram tvö alþjóðleg skákmót og Íslandsmót í ágúst- september  1994.. Það þakkaði hann m.a. Karli Gauta fyrrum sýslumanni og Sverri Unnarssyni hjá Samskip fyirr þeirra þátt í uppgangi TV á þeirra vakt.  Það vildi svo til að þrír sem tóku þátt í Íslandsmótinu í Eyjum voru mætti á Beddamótið, Helgi Ólafsson, Jóhann Hjartarson og Hannes Hlífar Stefánsson.

 

 

Ánægð með góða þátttöku

Lúðvík Bergvinsson  sagði að góð þátttaka hefði komið skemmtilega á óvart. „Þetta er mikil þátttaka og gaman að geta komið að því að halda þetta mót. Það á rætur sínar að rekja til þess að Arnar og Andri Hrólfsson töluðu við mig ekki fyrir svo löngu síðan hvort ekki væri möguleiki að halda minningarmót um pabba. Hann var ágætur skákmaður en kannski gafst ekki mikill tími til að æfa sig. Það fór honum ekkert síður að vera bakhjarl fyrir Taflfélagið og studdi það alveg fram á síðasta dag. Það var einmitt það sem Arnar og Andri vildu, að halda nafni hans á lofti. Okkur þótti vænt um að finnst gaman að leggja mótinu lið. Það er alveg stórkostlegt að sjá hvað margir sáu sért fært að koma og margir haft gaman af því að sigla hingað í þessu stórkostlega veðri,“ sagði Lúðvík.

 

Með þessu sagði hann fjölskylduna vilja leggja eitthvað til samfélagsins og efla unglingastarf Skákfélagsins. Þeir fengu fleiri í lið með sér og þau eru m.a. Vinnslustöðin, Dala Rafn, Herjólfur, Bonafite lögmenn, Huginn, Íslandsbanki, Skipalyftan, Vélsmiðjan Þór, Geisli, Faxasker, Frár, Bergur Huginn, Tryggingamiðstöðin, Skeljungur, Grandi og N1.

 „Þessi fyrirtæki ætla að leggja Taflfélaginu lið auk þess sem við fjölskyldan ætlum að styrkja félagið um 500 þúsund krónur,“ sagði Lúðvík.

 

Öflugt félag

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri kom svo upp og óskaði fjölskyldu Bedda og Taflfélagi Vestmannaeyja til hamingju með glæsilegt mót. „Það er frábært að sjá félagið eflast og hvað barna- og unglingastarfið var öflugt í vetur. Mér þótti og þykir líka óendanlega vænt um Bedda og gleðst yfir því að nafni hans er haldið á loft,“ sagði Íris.

 

Keppendur allt frá 10 ára upp í 77 ára

Keppendur á mótinu allt frá 10 ára upp í 77 ára, þar af þrjár konur. Beddamótið er meðal sterkustu atskákmóta sem fram hafa farið hérlendis. Úrslit réðust í síðustu umferðinni, Jóhann Hjartarson og Hannes Hlífar Stefánsson urðu jafnir í 1.-2. sæti með 6,5 vinninga í átta skákum. Jóhann var úrskurðaður sigurvegari. Í  3-5 sæti urðu  Helgi Ólafsson, Hjörvar Steinn Grétarsson og Þröstur Þórhallsson allir með 6 vinninga. Helgi var úrskurðaður í 3. sæti. Þeir sem skipuðu fimm efstu sætin eru allt stórmeistarar.

 

Sama niðurstaða og var fyrir 25 árum

Þeir Jóhann, Hannes Hlífar og Helgi skipuðu einnig efstu þrjú sætin á Skákþingi Íslands sem fram fór í Eyjum 1994 og ótrúlegt að sama niðurstaða skyldi nú verða í jafnsterku móti 25 árum síðar!  Af 42 keppendum voru átta búsettir í Eyjum, en einnig nokkrir Eyjamenn búsettir uppi á landi sem hafa teflt með TV í Íslandsmótum skákfélaga.

 

 

 

Mótið öllum til sóma

Skákstjóri var Kristján Örn Elíasson, en hann var yfirskákdómari á Reykjavíkurmótinu sem fór fram í apríl sl. Arnar Sigurmundsson sem skipulagði mótið var honum til aðstoðar við framkvæmd mótsins.Fjölmargir aðilar komu að undirbúningi mótsins. Fjölskylda Bergvins  gaf öll verðlaun sem  voru mjög vegleg , auk þess styrktu fyrirtæki innannbæjar og utan mótshaldið og framhaldið.  Arnar Sigurmundsson formaður TV segir að mótið hafi verið öllum til sóma- og ánægjulegt að minnast  þessa mæta manns og félaga  Bedda á Glófaxa með jafn afgerandi hætti.