Saga Vestmannaeyja í myndum

 

Í tengslum við undirbúning 100 ára afmæli kaupstaðaréttinda Vestmanaeyjabæjar 2019 var ákveðið að útbúa sértakan mynda- og annálahóp sem starfaði í nánu samstarfi við 100 ára afmælisnefnd bæjarins.

 

Hópurinn fundaði að öðru jöfnu í Safnahúsinu og var í upphafi rætt um að hafa myndirnar 100 á 100 ára afmælinu og eina vegna hvers árs frá 1919. Fljótlega kom í ljós að nauðsynlegt var að fara aftar í sögunni því stórir atburðir höfðu gerst í sögu og þróun byggðarlagsins á árunum þar á undan.

 

Niðurstaðan að fara allt aftur til ársins 1600 þegar fyrsta landakort af Íslandi sem sýnir Vestmannaeyjar með afgerandi hætti. Aldirnar þar á eftir voru viðburðaríkar og oftar en ekki myrkar með Tyrkjaránið 1627 og viðvarandi afleiðingum þess, hættulegir ungbarnasjúkdómar herjuðu á samfélginu og tíð og mannskæð sjóslys tóku sinn toll. Þá flutti mikill fjöldi Eyjafólks til Vesturheims eftir miðja 19. öld. 

 

En síðan fór að rofa til með vélbátaöldinni í upphafi 20. aldar og framhaldið þekkum við.

 

Endirinn varð 200 myndir ásamt skýringum með hverri mynd og tekur sýningin með Eyjatónlist um 30 mínútur. Mynda- og annálahópurinn var myndaður af fulltrúum úr afmælisnefnd, áhugafólki um sögu og ljósmyndum úr sögu Eyjanna ásamt starfsfólki Safnahúss Vestmannaeyja. Frumsýning var á 100 ára afmæli Bæjarstjórnar Vm. 14. febrúar 2019 og við það tækifæri gerði Arnar Sigurmundsson fulltrúi í 100 ára afmælisnefnd Vm. bæjar grein fyrir vinnu hópsins.

 

 

Ljósmyndasýninguna er hægt að skoða á heimaslod.is