Nýr Herjólfur er stærsta afmælisgjöfin okkar

 

 

Langþráður draumur Eyjafólks um nýja ferju varð að veruleika þegar nýr Herjólfur, sá fjórði í röðinni lagðist að bryggju í Friðarhöfn um miðjan júní. Fjöldi manns var mættur til að fagna komu skipsins sem á eftir að stórbæta samgöngur milli lands og Eyja. Skipið virkar minna en sá gamli en það er miklu stærra að innan en utan og munar litlu á lengd og breidd. En það sem skiptir mestu er að það hentar betur í Landeyjahöfn, ristir minna og lætur mun betur að stjórn en núverandi ferja.

 

 

Efst í huga þakklæti

„Þetta er stórt skref í sögu okkar Eyjafólks, að taka á móti nýju skipi í dag,“ sagði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri þegar hún ásamt þúsundum bæjarbúa og gestum tók á móti Herjólfi á laugardaginn 16. júní.

 

„Ætli þetta sé ekki stærsta afmælisgjöfin, nú þegar við fögnum 100 ára afmæli Vestmannaeyjakaupstaðar. Mér er efst í huga þakklæti til allra sem hafa komið að þessu stóra og veigamikla verkefni fyrir okkur. Bæjarstjórn, núverandi og fyrrverandi og forvera mínum, Elliða Vignissyni sem öll unnu að heilindum að því fá nýtt skip. Líka ráðherrum, þingmönnunum okkar, Vegagerðinni, hönnuðum, tæknifólki, starfsfólki sem kom að smíðinni og stjórn Herjólfs ohf. sem hefur frá upphafi unnið mikið og óeigingjarnt starf. Það sama má segja um áhöfnina, þá sem voru við eftirlitsstörf úti og þau öll sem eiga nú fyrir höndum að sigla skipinu. Megi Guð og gæfan fylgja skipinu og áhöfn þess.“

 

Forsætisráðherra gaf því nafn

Íris tók sem dæmi um hvað stórt skref þetta er að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, voru við móttökuathöfnina. Einnig Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. Öll fögnuðu þau í ræðum sínum nýjum áfanga í samgöngum til Vestmannaeyja sem eigi eftir að nýtast jafnt Eyjafólki og landsmönnum öllum.

 

Sigurður Ingi afhenti Eyjamönnum skipið og Katrín gaf því nafnið Herjólfur. Séra Guðmundur Örn Jónsson, sóknarprestur Landakirkju blessaði skipið og afhenti áhöfninni skjöld með sjóferðabæn séra Odds V. Gíslasonar.

 

 

Gleðidagur

„Í dag er sannanlega gleðidagur fyrir íbúa í Vestmannaeyjum en í dag er okkur afhentur nýr og glæsilegur Herjólfur hér í heimahöfn. Eftir þessum degi höfum við beðið í þó nokkurn tíma – en biðin er nú loks á enda!“ sagði Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs m.a. í ræðu sinni. „Það er ánægjulegt og viðeigandi að ný ferja skuli afhent á 100. afmælisári Vestmannaeyjakaupstaðar.“

 

Arnar Pétursson, fomaður stjórnar Herjólfs ohf. fór með vísu eftir afa sinn, Sigurgeir Kristjánsson, fyrrum bæjarfulltrúi orti við komu fyrsta Herjólfs fyrir 60 árum. Skemmtileg tenging.

 

Skipið var til sýnis bæði laugardag og sunnudag og var stanslaus straumur fólks um borð allan tímann. Öll hönnun um borð er til fyrirmyndar, skemmtilegir litir á húsgögnum á veggjum. Hægindastólar eru af bestu gerð og kojur góðar þannig að fólk sem ferðast með nýjum Herjólfur getur látið fara vel um sig.

 

 

Frábær tími

Í lok athafnarinnar var klippt á borða þar sem bæjastjóri, forsætisráðherra, samgönguráðherra munduðu skærin.

 

En leyfum Írisi að eiga lokaorðin: „Þetta er frábær tími fyrir okkur. Núna er það nýr Herjólfur og á miðvikudaginn mjaldrarnir, krakkamótin í fótbolta, afmælis- og goslokahátíð á næsta leiti, þjóðhátíð í ágúst og sumarveður dag eftir dag,“ sagði Íris bæjarstjóri að endingu.

 

 

Flutti þúsundir þjóðhátíðargesta

Herjólfur hóf siglingar síðdegis fimmtudaginn 25. júlí. Aðstaða í Vestmannaeyjahöfn hafði verið bætt og hafa siglingar gengið mjög vel.

 

Nýr Herjólfur sigldi frá Vestmannaeyjum fullur af farþegum um kvöldið. Lagt var af stað klukkan 19:30 og um borð voru um 500 farþegar og 55 bílar. Blíðskapar veður var í Vestmannaeyjum í dag þannig þetta var allt eins og best verður á kosið.

 

Skipstjórara hafa lýst ánægju sinni með skipið. Sérstaklega reyndist það vel yfir þjóðhátíðina og má áætla að skipið hafi flutt ekki færri en 20.000 manns fram og til baka yfir þjóðhátíðina.