Forseti Íslands ánægður á Orkumótinu

 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var einn af þeim fjölmörgu foreldrum sem ferðuðust til Eyja til að fylgjast með sonum sínum á Orkumótinu sem fram fór um helgina. Guðni, sem er harður Stjörnumaður, var einmitt að horfa á leik liðsins gegn Fylki þegar blaðamaður hitti á hann en sonur hans, Duncan Tindur, leikur með liðinu.

 

Hvernig hefur þín upplifun á mótinu verið? „Þetta hefur verið einstaklega gaman, hér er allt í föstum skorðum og einvala lið sem stýrir mótinu. Það er vel hugsað um strákana og þeir hafa skemmt sér vel. Mesta fjörið er inni á vellinum en utan vallar er einnig margt í boði, þeir eru t.d. búnir að spranga, fara í Eldheima og fara í sund, svo er bara svo gott að vera hérna úti í Eyjum og höfum við notið okkar mjög vel hérna sem og liðið allt,“ sagði Guðni endurnærður og hélt áfram á svipuðum nótum. „Þetta er mjög notalegt, losna úr ys og þys hinna daglegu anna og vera í skemmtilegum félagsskap. Ég sé ekki betur en að allir njóti lífsins hérna og það er bara frábært fyrir okkur Íslendinga að eiga svona viðburði eins og þessi íþróttamót eru, þar sem strákar og stelpur alls staðar að af landinu, og foreldrar með, hittast. Hér eru allir jafnir og allir vinir.“

 

Mótið var skammt á veg komið þegar blaðamaður hitti á Guðna en lið hans, Stjarnan, var þegar búið að sigra sinn fyrsta leik á mótinu og í vænlegri stöðu gegn Fylki meðan á viðtalinu stóð. „Þeir eru enn taplausir en þegar á móti blæs þá er það hlutverk okkar foreldranna og þjálfaranna að segja þeim að hengja ekki haus og það gangi bara betur næst, spila heiðarlega, þakka mótherjanum fyrir leikinn og horfa síðan fram til næsta leiks. Þeir eru líka að læra þetta, það þarf að læra að tapa rétt eins og menn þurfa að læra að taka ósigri utanvallar,“ sagði Guðni.

 

Hér get ég gengið um eins og hver annar pabbi

Eru strákarnir eitthvað að kippa sér upp við það að forsetinn sé alltaf á hliðarlínunni, eru þeir kannski bara búnir að venjast þessu? „Já já, þeir eru kurteisir og hressir, koma kannski og vilja fá fimmu, sjálfu eða eitthvað slíkt. Það er bara gaman að verða við því og eitt af því sem ég vil segja að sé gott við Ísland er að hér get ég gengið um eins og hver annar pabbi og ekkert sem kallar á öryggisgæslu eða neitt af því taginu,“ sagði Guðni í þann mund sem Stjarnan skoraði mark.

 

Þú ert fyrst og fremst bara pabbi þessa dagana? „Já, já, ég er bara pabbi hérna og nýt þess. Ég veit það frá þeim sem skipuleggja þetta mót að hingað hafa komið atvinnumenn í fótbolta, ráðamenn og frægt fólk af ýmsu tagi en hér fá allir að vera í sínu foreldrahlutverki og það er mjög dýrmætt,“ sagði Guðni sem var þakklátur fyrir sína upplifun í Vestmannaeyjum. „Ég vil þakka mótshöldurum fyrir hversu vel þeir hafa staðið að þessu og Eyjamönnum öllum, þetta mót er íbúum bæjarfélagsins til mikils sóma.“

 

Af eyjarfrettir.is