Afhending Eyjasundsbikars

 

 

Þann fyrsta desember var Eyjabikarinn afhentur í fyrsta skipti fyrir svokallað Eyjasund sem synt er frá Eyjum til lands. Það afrek vann Sigrún Þuríður Geirsdóttir í júlí fyrst kvenna. Var við hæfi að Íris Róbertsdóttir, fyrsta konan í stól bæjarstjóra í Vestmannaeyjum afhenti Sigrúnu Bikarinn.

Þann 13. júlí 1959 synti Eyjólfur Jónsson  fyrstur manna Eyjasundið. Það er um 10 km sund milli Vestmannaeyja og Landeyjasands þar sem styst er. Iðulega hefst sundið frá Eiðinu í Heimaey sem staðsett er á milli Klifsins og Heimakletts. Eyjólfur synti bringusund og var hitinn á sjónum rétt í kringum 11°C og tók sundið hann 5 klst.  og 26 mín.

Aðrir sem þreytt hafa sundið eru Axel Kvaran sem synti 21. júlí 1961 og var  4 klst. og 25 mín. Kristinn Magnússon synti 30. ágúst 2003  og var  4 klst. og 5 mín. Jón Kristinn Þórsson synti 4. ágúst 2016 og var 7 klst. og 21 mín. á leiðinni. Og í sumar,  23. júlí synti Sigríður og tók það  hana  4 klst. og 31 mín. að þeytast þetta á milli.

Það skal tekið fram að öll hafa þau starfað í lögreglunni, það staðfesti Kristinn Magnússon sem var viðstaddur afhendinguna.