Drífa Gunnarsdóttir fræðslufulltrúi – Bjartsýn á skólastarf í framtíðinni

Erum alltaf að leita leiða til að efla skólastarfið sem er mikilvægt

 

 

„Grunnskólinn, leikskólarnir, sérfræðiþjónusta skóla, Frístundaverið, dagforeldrakerfið, Gæsluvöllurinn Strönd, Tónlistarskólinn og Sumarfjörið heyra undir fræðslusvið og þá skólaskrifstofu. Jón Pétursson er framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs og minn næsti yfirmaður. Ég stýri daglegum málaflokki fræðslu- og uppeldismála en starfa mjög náið með öðrum málaflokkum sviðsins svo sem félagsþjónustu, barnavernd, málaflokks fatlaðra og tómstundarmálum,“ segir Drífa Gunnarssdóttir, fræðslufulltrúi Vestmannaeyjabæjar aðspurð um starf sitt hjá bænum.

 

Drífa hóf störf sem fræðslufulltrúi 2017 og stýrir Skólaskrifstofu Vestmannaeyja. „Á Skólaskrifstofunni eru auk mín, Ragnheiður Sæmundsdóttir sálfræðingur, tveir sérkennsluráðgjafar Erna Jóhannesdóttir með grunnskólann og Guðrún Benónýsdóttir með leikskólana og Sigurlaug Vilbergsdóttir, ráðgjafarþroskaþjálfi.“

 

Öflugur hópur

Drífa segir að þessi hópur nái  vel utan um starfið. „Mér finnst við ná að sinna skólunum ágætlega. Auðvitað væri kostur að hafa fleira fólk enda sjálfsagt alltaf hægt að gera betur. Þegar forveri minn, Erna Jóhannesdóttir,  var í þessu starfi  var hún kennsluráðgjafi líka og það fór drjúgur tími í þann þátt. Þegar ég tek við er gerð breyting á starfinu og kennsluráðgjöfin tekin út. Það er ráðinn kennsluráðgjafi við skólaskrifstofuna og var Erna ráðin í það starf með aðsetur í skólanum sem er þá aukin þjónusta við skólann.

 

Svo kemur sálfræðingur inn um síðustu áramót og erum við mjög lukkuleg með að vera búin að fá hana Heiðu. Við höfðum ekki verið með sálfræðing í nokkur ár nema í verktöku til að sinna greiningum og ráðgjöf. Það sama má segja um Sigurlaugu sem tók við af Guðbjörgu Guðmundsdóttur. Hún kemur inn með mikla þekkingu og reynslu sem hefur nýst báðum skólastigum afar vel. 

 

Haustið 2017 var Svava Hafsteinsdóttir ráðin á skólaskrifstofuna sem sérkennsluráðgjafi leikskóla en áður hafði hún verið sérkennslustjóri á Kirkjugerði þannig að þar bættist við þjónusta til leikskólanna. Guðrún Benónýsdóttir tók svo við af henni sl. vetur og hún er verulega fagleg og flott í því starfi. Þá erum við með verktakasamning við talmeinafræðing til að sinna greiningum, ráðgjöf og þjálfun.

 

Einnig er öflugt og gott samstarf við  félagsþjónustuna varðandi ráðgjöf o.fl. Sum verkefni Heiðu og Sigurlaugar heyra undir félagsþjónustuna enda skarast þessi svið að einhverju leyti og svo hafa félagsráðgjafarnir verið með viðveru í skólunum. Við erum t.d.  með ráðgjafateymi  sem tekur við tilvísunum frá skólunum vegna nemenda sem þurfa aðstoð og úrlausn sinna mála. Teymið fer yfir málin, metur þau og ákveður næstu skref, hvort sem það er aukinn stuðningur við nemanda, greining, stuðningsviðtöl, ráðgjöf o.s.frv.“

 

Samhæfð úrræði

„Þá er þetta annar veturinn sem Fjölskylduteymið er starfrækt en það er samstarfsverkefni fjölskyldu-og fræðslusviðs, heilsugæslunnar og BUGL. Í teyminu sitja fræðslufulltrúi, yfirfélagsráðgjafi, skólahjúkrunarfræðingar, ráðgjafarþroskaþjálfi, hjúkrunarfræðingur heilsugæslu, heimilislæknir, sálfræðingur Vestmannaeyjarbæjar, sálfræðingur HSU og læknir og hjúkrunarfræðingur BUGL.  Markmiðið er m.a að samhæfa úrræði fyrir einstaklinga, börn með hegðunar- og geðraskanir og fjölskyldur þeirra. Þetta samstarf hefur gengið vonum framar. Það hefur auðveldað aðgengið að sérfræðingum BUGL og flýtt fyrir málum þar inn. Þannig að heilt yfir tel ég að stoðkerfið sé orðið sterkt og komið í góðan farveg.“

 

Finna út hvar vandinn liggur

Drífu finnst spurningin; hvenær verður fyrirferðamikill krakki eða unglingur að vandamáli ekki mjög gáfuleg. „Ég myndi ekki segja að hann verði vandamál en erfið hegðun getur komið til af svo mörgu og það fer eftir því hver vandi barns er hvernig brugðist er við. Það er því alltaf fyrsta skrefið að komast til botns í því, hvar vandinn liggur. Því næst er unnið að lausnum til að hjálpa barninu.

 

Ferlið byrjar hjá skólanum sem fer eftir sínum verkferlum þegar kemur að málefnum nemenda með hegðunarvanda en takist ekki að finna lausnir innan skólans er máli barns vísað til nemendaverndarráðs og málum mögulega vísað þaðan til sérfræðiþjónustunnar. Fyrsta skrefið er alltaf að skólinn vinni að lausnum og ef það gengur ekki er leitað til sérfræðiþjónustunnar.

 

Drífa segir að gera megi ráð fyrir að um tuttugu pósent nemenda eigi við einhver vandamál að stríða og þar af fimm prósent sem eigi við veruleg hegðunarvandamál að etja. „Það eru helst þessi tuttugu prósent sem koma  inn á borð hjá nemendarverndarráði. Þar sit ég, skólastjórnendur, skólahjúkrunarfræðingur, kennsluráðgjafi, félagsráðgjafi og námsráðgjafi,“ segir Drífa en hlutverk nemendaverndarráðs er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi heilsugæslu, námsráðgjöf og sérfræðiþjónustu. Vera skólastjórnendum til aðstoðar við gerð áætlana og um sérstaka aðstoð við nemendur. Ráðið starfar í samvinnu við félagsþjónustu bæjarins. Kennarar vísa málum til nemendaverndarráðs er varða velferð nemenda.

 

Margþætt hlutverk skólaskrifstofu

 

Hlutverk skólaskrifstofu er ekki bara að sinna stoðþjónustu heldur líka að styðja  við almennt skólastarf. „Við þjónustum skólana í þeirra starfi, foreldra og líka nemendur varðandi ýmsilegt. Við sinnum mati og eftirliti  með gæðum skólastarfsins og með starfsemi Frístundavers, sumarúrræða, gæsluvallar og daggæsluúrra og fylgjum matinu eftir þannig að það leiði til umbóta. Þá höfum við umsjón með rekstri og áætlanagerð fyrir stofnanir sem heyra undir fræðslusvið. Starf okkar er stjórnsýsla, rekstur, eftirlit og þjónusta varðandi uppeldis og menntamál bæjarins.“

 

Stefnt að betri árangri

Grunnskóli Vestmannaeyja hefur á undaförnum árum komið heldur illa út samræmdum prófum. Er það að breytast? „Hann var því miður undir landsmeðaltali á síðasta skólaári fyrir utan stærðfræðina í 4. bekk.  Árangurinn hefur verið misjafn undanfarin ár í öllum árgögnunum sem taka samræmd próf nema stærðfræðin í 4. bekk hefur komið vel út og verið yfir landsmeðaltali síðustu fimm ár.

 

Má segja að þegar skólinn hefur verið yfir landsmeðaltali í þrjú til fjögur ár sé kominn ákveðinn stöðugleiki sem gefur til kynna að það sem verið er að gera skilar árangri á þessum tiltekna mælikvarða. Ég tel að við séum komin þangað með 4. bekkinn þegar kemur að stærðfræðinni. Skólinn fór í greiningarvinnu eftir að niðurstöður bárust og gerði aðgerðaráætlun sem vonandi skilar árangri. Lykilatriðið er að vinna með niðurstöðurnar. Skólinn er alltaf að leita leiða til að efla skólastarfið og það er mikilvægt.

 

Í vetur verður t.d. farið í þróunarverkefni í stærðfræði og þarf að fara að huga að því að endurnýja framtíðarsýn í læsi og stærðfræði sem rennur út í lok þessa skólaárs en það koma fleiri að þeirri vinnu en grunnskólinn. Það er ofboðslega gott starf í skólanum og samræmd próf eru bara einn mælikvarði af mörgum en auðvitað viljum við sjá betri árangur.  Það er alltaf markmiðið,“ segir Drífa sem kemur úr Reykjanesbæ þar sem tekist á var við svipað vandamál fyrir nokkrum árum.

 

Kennarinn skiptir mestu máli

„Margir halda því fram að í Reykjanesbæ séu bestu skólar á landinu. Það var ekki þannig þegar ég byrjaði sem kennari í Njarðvíkurskóla 1997 en ég var þarna á meðan var verið að rífa upp skólastarfið. Kem með þá reynslu hingað og hef aðeins verið að miðla henni til skólans.

 

Þar var mikil áhersla lögð á það að  kennarinn er lykilatriðið, það  er hann sem skiptir mestu máli þegar kemur að námi barna. Þetta er ótrúlega mikilvægt starf.  Auðvitað skiptir máli að hafa samvinnu við foreldra. Það var mikil áhersla á hana í Reykjanesbæ en það er alltaf kennarinn sem skiptir sköpum. Það voru skilaboðin frá því farið var í þessa vegferð í Reykjanesbæ. Þá var töluvert um  próf og skimanir, sérstaklega til að mæla árangur í stærðfræði, lesfimi og lesskilningi og lögð áhersla á það að rýna vel í niðurstöður, meta árangur m.t.t. kennsluhátta o.fl., gera einstaklingsáætlun fyrir nemendur sem náðu ekki viðmiðum til að bæta árangur þeirra.

 

Það þjónar takmörkuðum tilgangi að leggja fyrir próf og kannanir ef þú ætlar eingöngu að meta stöðu nemandans. Það þarf að vinna með niðurstöðurnar til að bæta skólastarfið og kennsluna. Bakari bakar ekki köku aftur og aftur eftir sömu uppskrift ef hún mistekst alltaf, þá þarf að fara yfir uppskriftina og breyta einhverju og það sama er með kennsluna, ef hún skilar ekki tilætluðum árangri þarf kennari að  endurskoða kennsluhætti.  Við getum alveg náð sama árangri og skólarnir í Reykjanesbæ enda með flott starfsfólk og hátt hlutfall réttindakennara síðustu árin og í ár er skólinn fullmannaður réttindakennurum.“

 

Getum verið stolt af leikskólunum

Næst var Drífa spurð um starfið í leikskólunum, Víkinni, Sóla og Kirkjugerði.  „ Þar er málræktin í fyrirrúmi og lagður grunnur fyrir lestrar- og stærðfræðinám. Svo er mannræktin líka auðvitað stór þáttur. Áhersla hefur verið á snemmtæka íhlutun og það var þannig áður en ég kom. Það miðast við að fyrirbyggja erfiðleika sem barn mun hugsanlega eiga í þegar í grunnskóla er komið.

 

Það er t.d. gert í formi skimana, þjálfunar í kjölfar þeirra og mögulega frekari skoðun á málum barns sem er þá vísað til sérfræðiteymis.  Samfélagið getur verið stolt af leikskólunum okkar þar sem faglegt starf er til fyrirmyndar.  Við myndum vilja fá fleiri leikskólakennara til starfa því við uppfyllum ekki lágmarksfjölda leikskólakennara skv. lögum um menntun og ráðningu kennara. Við bindum auðvitað vonir við að starfsnám kennaranema skili okkur fleiri leikskólakennurum en mögulega þarf síðan að skoða fleiri leiðir til að fjölga þeim,“ segir Drífa en er hún ánægð í starfi?

 

„Í dag er ég mjög ánægð. Fyrst hugsaði ég, hvað er ég búin að koma mér út í? Það tók náttúrulega tíma að komast inn í starfið og ég er mjög ánægð í dag. Þetta er  fjölbreytt og skemmtilegt. Ég hef aðeins verið að koma með mínar áherslur og ætla að halda því áfram. Ég hef lagt mikla áherslu á samstarf,teymisvinnu og jákvæð samskipti milli okkar sem vinnum á fræðslusviði, þ.e. skólaskrifstofu og stofnananna sem heyra undir hana,“ sagði Drífa að endingu.

 

Fjölbreyttur náms- og starfsferill

Drífa er stúdent frá Framhaldsskólanum í  Vestmannaeyjum af viðskipta- og hagfræðibraut. Lauk kennaranámi 1997 frá Kennaraháskólanum með íslensku og ensku sem sérsvið. Lauk námi af menntavísindasviði HÍ í náms- og kennslufræði með áherslu á íslensku og íslenskukennslu.   Lokaritgerð fjallaði um kennsluhætti í stafsetningu í grunnskóla og var rannsóknarverkefni. Auk þess hefur Drífa sótt fjölda námskeiða sem tengjast starfinu og er núna að hefja nám við Endurmenntun HÍ sem kallast forysta til framþróunar-leið stjórnenda til aukins árangurs.

 

 Drífa Gunnarsdóttir hefur víða komið við sem kennari og stjórnandi. Unnið að mótun menntastefnu í grunnskólum og haldið fyrirlestra og erindi um skólastarf. Hún var ráðin fræðslufulltrúi Vestmannaeyjabæjar árið 2017 og stýrir Skólaskrifstofu Vestmannaeyja og er næsti yfirmaður starfsmanna sem heyra undir hana, s.s. ráðgjafa, sálfræðings, stjórnenda leik- og grunnskóla, frístundavers og tónlistarskóla.

 

 Sem deildarstjóri við Njarðvíkurskóla tók Drífa á agamálum nemenda, sat í eineltisteymi skólans og hafði umsjón með innleiðingu á nýjum verkferlum sem teymið  vann eftir.  Var annar tveggja höfunda að lestrarstefnu skólans og sá um að innleiða nýtt vinnufyrirkomulag meðal íslenskukennara á unglingastigi. Það tókst vel og hefur skólinn verið yfir landsmeðaltali á samræmdum prófum síðustu ár. Hlaut Drífa tilnefningu til hvatningarverðlauna fræðsluráðs Reykjanesbæjar fyrir þessa vinnu.

 

Drífa hefur haldið fyrirlestra og erindi um kennslu stafsetningar, ritunar og lesturs. Kynnti lestrarstefnu skólans í grunnskólum í Reykjanesbæ og öðrum bæjarfélögum.

 

 Fyrir utan þetta hefur Drífa fjölbreyttan bakgrunn úr atvinnulífinu.  Vann í fiski í  Vinnslustöðini, hjá Pósti og síma,  á veitingastað, hjá Bæjarfógetanum í Vestmannaeyjum, á lögmannsstofu og leikskóla. Verið aðstoðarkennari við  Háskóla Íslands í aðferðafræði og stundakennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja í íslensku.

 

 

Fjölskylda: Er gift Bergsteini Jónassyni raffræðingi og rafverktaka. Þau eiga þrjú börn: Jónas 25 ára tölvunarfræðing, Huldu Ósk 20 ára lyfjafræðinema við HÍ og Sveu Maríu 12 ára grunnskólanema. Tengdabörnin eru tvö, Sara Rós Einarsdóttir og Þorgeir Örn Tryggvason.