Vígsla varmadælustöðvar í Vestmannaeyjum

 

 

Ein af stóru afmælisgjöfunum

Í dag ylja Vestmannaeyingar sér við sólarhitann í Mexíkófla sem hitar upp sjóinn sem berst til okkar með Golfstraumnum. Sjóinn fær stöðin úr þremur borholum og er orkan úr honum nýtt til að hita upp vatnið sem berst um bæinn og nýtt af bæjarbúum til kyndingar.

 

Varmadælustöðin, sem stendur við Hlíðarveg  var formlega vígð 29. maí. Iðnaðarráðherra, Þórdís kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Ívar Atlason, svæðisstjóri vatnssviðs í Vestmannaeyjum opnuðu stöðina með formlegum hætti.

 

 

Annar 80% af þörfinni

Varmadælustöðin er 10,4 MW og er gert ráð fyrir að hún anni um 80% af orkuþörf hitaveitunnar en 20%, sem samsvarar hámarksálagi mánuðina nóvember til febrúar, komi frá kyndistöðinni. Orkunotkun kyndistöðvarinnar hefur verið 80 til 85 GWst síðustu árin en gert ráð fyrir að heildar orkunotkun verði innan við 30 GWst þegar öllum framkvæmdum verður lokið.

 

Mismunurinn er sóttur í Atlantshafið með varmadælum. Það er þessi rösklega 50 GWst orkusparnaður sem á að gera verkefnið hagkvæmt því notkun hitaveituvatns og þá tekjur aukast ekki. Þessar 50 GWSt koma þá inn á almennan markað raforku og er varmadælustöðin þannig séð að okkar mati ódýrasti virkjunarkostur raforku um þessar mundir.

 

 

Flókið og margþætt

Þetta hefur verið mjög flókið og margþætt verkefni. Bora þurfti sjóholur til að sækja 550 l/sek eða um 2.000 m3 á klukkustund af 5 - 12°C heitum sjó þar sem meðalhitinn er 8°C. Byggja þurfti tæplega 900 m2 hús, kaupa allan búnað, setja hann upp og tengja. Tengja þurfti kyndistöðina við varmadælustöðina því hlutverk varmadælustöðvarinnar er að taka á móti um 35°C heitu bakrásarvatni frá kyndistöðinni og hita í u.þ.b. 77°C.

 

 

Loks þurfti að leggja lögn frá varmadælustöðinni út fyrir Eiði til að losna við þetta mikla magn af sjó sem nýttur er í varmadælustöðinni.

 

Kostnaður við verkefnið er um 1800 milljónir króna en af því voru 300 milljónir fjármagnaðar með styrk úr ríkissjóði.

 

Fyrirtækið þakkar öllum sem komið hafa að verkinu kærlega fyrir samstarfið.

 

Af hsveitur.is