Njáll Ragnarsson í Sagnheimum:

Danski Pétur og vélvæðing fiskiskipaflotans

 

Njáll Ragnarsson

Mynd: Eyjar.net

 

Í Sagnheimum þann 30. mars sl. varð ég þess heiðurs aðnjótandi að fá að flytja erindi um langafa minn, Hans Pétur Andersen – Danska Pétur. Án þess að hafa nokkurn tíma rannsakað uppruna eða arfleið hans og áhrif á samfélagið hér í Eyjum eftir síðustu aldamót ákvað ég að tengja sögu hans við sögu vélvæðingar fiskiskipaflotans í Vestmannaeyjum.

 

Það sem hér fer á eftir er úrdráttur kynningar minnar í Sagnheimum.

 

 

Vélvæðingin

Upp úr aldamótunum 1900 var íbúafjöldi í Vestmannaeyjum um 600 manns og segja má að sá fjöldi hafi verið í Eyjum í gegnum aldirnar. Líkt og í dag byggðist Vestmannaeyjabær fyrst og fremst á sjávarútvegi, sjósókn, landvinnslu og útflutningi sjávarafla. Árabátar voru fjölmargir og var aðallega veitt á handfæri en þegar líða fór að aldamótunum voru línuveiðar farnar að ryðja sér til rúms þótt handfærin hafi verið notað samhliða línunni, að minnsta kosti fyrst um sinn.

 

En eftir aldamótin varð bylting í útgerðarháttum á Íslandi. Árið 1905 voru tveir vélbátar í fyrsta skipti gerður út á vetrarvertíð í Vestmannaeyjum en þetta voru Knörr VE-73 og Unnur VE-80. Með tilkomu fyrstu vélbátanna varð gerbreyting á öllum útgerðarháttum fyrir ýmsar sakir. Hægt var að sækja á fjarlægari mið, hraðar var farið yfir sem þýddi meiri tíma á veiðum en ella hefði verið og auk þess var mannskapurinn hvíldari á miðunum þar sem menn þurftu ekki að keyra sig út við róður til þess eins að hefja enn meira strit við það að draga afla úr sjó, áður en róið var til lands á ný.

 

Í kjölfarið margfaldaðist aflamagnið og aukinn afli kallaði á stærri skip. Þróunin varð því sú að smátt og smátt stækkuðu fiskiskipin og þeim fjölgaði sömuleiðis.

 

Ekki verður um það deilt að vélvæðingin gekk ákaflega hratt fyrir sig. Á fyrsta ári vélbátaútgerðarinnar, sem almennt er talið hafa verið árið 1906, voru þrír vélbátar gerðir út frá Vestmannaeyjum. Aðeins tveimur árum síðar voru þeir orðnir 39. Árið 1930 voru vélbátarnir síðan orðnir 97 sem er mesti fjöldi báta sem hefur átt heimahöfn í Vestmannaeyjum fyrr og síðar.

 

Líkt og áður segir hafði vélvæðingin í för með sér gríðarlega aukningu aflamagns. Vélarnar spöruðu mikla vinnu sjómanna við að komast á miðin og auðvelduðu störf þeirra og auk þess margfaldaðist aflinn.  Aukið aflamagn krafðist aukins vinnuafls í landi og því varð mikil eftirspurn eftir landverkafólki. Því urðu til mörg störf við alls konar þjónustu við sjávarútveginn, til að mynda veiðafæraþjónusta og vélþjónusta. Þannig voru árið 1912 stofnuð tvö vélaverkstæði í Vestmannaeyjum, annars vegar Smiðjufélag Vestmannaeyja og vélaverkstæði Matthíasar Finnbogasonar hins vegar.

 

Öll sú vinna og þau störf sem urðu til þegar vélbátarnir voru að ryðja sér til rúms eftir aldamótin urðu til þess að íbúafjöldi í Vestmannaeyjum margfaldaðist á tiltölulega stuttum tíma. íbúafjöldinn sem hafði verið um 600 manns við aldamótin þrefaldaðist á tíu til fimmtán árum en árið 1913 bjuggu um 1700 manns í Vestmannaeyjum. Bæjarbragurinn gerbreytist og samfélagið tók stökk framávið, fór úr því að vera vanþróað samfélag í það að verða blómstrandi bær þar sem næga atvinnu var að fá.

 

 

Danski-Pétur Andersen

Á þeim tíma þegar vélvæðingin var að hefjast á Íslandi var ungur maður sendur frá Danmörku austur á firði á vegum Dan – vélaverksmiðjunnar til þess að setja vél í bát á Mjóafirði. Í Danmörku höfðu menn náð góðum tökum á vélum og hagnýtingu þeirra og voru Danir því eftirsóttir á Íslandi til þess að miðla þekkingu sinni við upphaf vélbátaútgerðarinnar.

 

Maðurinn sem kom á Mjóafjörð 1906 hét Hans Peder Andersen, var fæddur í Friðrikssund í Danmörku þann 30. mars 1887. Faðir hans hét Carl Willum og var fæddur 28. febrúar 1866. Sá var sjómaður en gerðist síðar bátasmiður. Hann var giftur Annette Andersen, áður Cristjansdatter. Saman eignuðust þau 11 börn. Carl lést við Kristjanssand í Noregi ásamt syni sínum Jörgen þann 15. janúar 1934, en þá voru þeir að sigla báti sem þeir höfðu smíðað til Íslands.

 

Jóhanna Guðjónsdóttir fæddist í Sigluvík í Landeyjum þann 27. febrúar árið 1889. Hún hafði komið til Vestmannaeyja eftir aldamótin en var síðar send í vinnumennsku austur á land árið 1906, nánar tiltekið á Mjóafjörð. Örlögin höguðu því þannig að þar kynntist hún ungum dönskum manni sem vann við að setja niður vél í bát. Þau felldu hugi saman sem varð til þess að Pétur sneri ekki aftur til Danmerkur. Á Mjóafirði fæðist þeirra fyrsta barn, Eva.

 

Eftir að Eva fæðist fluttust þau til Vestmannaeyja og bjuggu fyrst hjá Margréti og Guðlaugi í Gerði. Í Vestmannaeyjum stækkaði fjölskyldan en þau eignuðust saman sex börn; Evu (1908), Willum (1910), Knud (1913), Njál (1914), Emil (1917) og Guðrúnu (1921).

 

Jóhanna lést árið 1934, sama ár og faðir og bróðir Hans Péturs drukknuðu við strendur Noregs. Pétur giftist síðar árið 1938 Magneu Jónsdóttur. Magnea var fædd 1911 í Búðarhólshjálegu í Rangárvallasýslu. Saman eignuðust þau þrjú börn, Jóhann (1938) og Valgerði (1944) en árið 1931 höfðu þau eignast dreng sem lést aðeins þremur mánuðum eftir fæðingu.

 

Í Vestmannaeyjum gekk Hans Pétur alla tíð undir nafninu Danski-Pétur og segir í annálum ársins 1955 þegar hann lést að nafnið hafi verið „með fullri virðingu“.

 

Formannsferillinn

Sjómannsferil  sinn hóf Pétur á Friðþjófi VE-98 þar sem hann var vélamaður. Skipið var 7,53 tonna kútter með 8 hestafla vél en formaður var Friðrik Svipmundsson frá Löndum. Pétur varð fljótlega eftirsóttur vélamaður í Vestmannaeyjum þar sem hann hafði þekkingu frá Danmörku á slíkum hlutum þegar Íslendingar voru að hefja sína vélbátavæðingu. Síðar var hann í plássi á Lunda VE-141 þar sem hann byrjaði sem vélamaður en varð síðar formaður og meðeigandi.

 

Á Lunda reri Pétur í 12 vertíðir áður en hann festi kaup á Skógafossi VE-236 árið 1920. Skógafoss var fyrsti báturinn sem smíðaður var erlendis og siglt yfir hafið til Íslands ásamt Lagarfossi VE-234 og Ara VE-235 sem komu í samfloti til Vestmannaeyja árið 1920.

 

Pétur var formaður í nærri 20 ár og varð aflakóngur 1924 á Skógafossi. Á þeim árum var verið að byggja sjúkrahúsið sem síðar varð ráðhús og stendur við Ráðhúströð. Í sögu Vestmannaeyja, „Við Ægisdyr“ sem Haraldur Guðnason skráði kemur fram að farið hafi verið þess á leit við alla formenn vertíðina 1924, að þeir gæfu einn fisk úr hverjum róðri þá vertíð alla til styrktar smíði sjúkrahússins. Færri tóku þátt í þessu en ætlað var eða aðeins um helmingur formanna. Gáfu þó sumir meira en aðeins einn fisk úr hverjum róðri að vertíðarlokum en flesta fiska gaf Peter Andersen, formaður á Skógafossi eða 165 fiska.

 

Allan þann tíma sem Pétur var útgerðarmaður verkaði hann sinn fisk sjálfur og vann til útflutnings. Þetta kallaði á fjölda verkafólks við vinnsluna og var þar af leiðandi mannmargt á heimili Péturs og Jóhönnu að Sólbakka þar sem verkafólkið bjó á heimili þeirra hjóna. Á formannsárum sínum sigldi Pétur oft inn fyrir Eiði að sækja vörur í fraktskip. Slíkt var ekki talið hættulaust og reyndi það mikið á útsjónarsemi og þolinmæði skipstjórnandans.

 

Pétur var einn af þeim fyrstu sem sóttu sér skipstjórnarmenntun árið 1918. Síðar kom hann að stofnun Útvegsbændafélags Vestmannaeyja sem enn er starfrækt. Sömuleiðis tók hann þátt í stofnun Bátaábyrgðarfélagsins sem var hugsað sem tryggingafélag skipaflotans. Þá kom hann að stofnun Lifrarsamlagsins þar sem hann starfaði frá 1940 og þar til hann lést árið 1955.

 

Víða er að finna heimildir um að Danski Pétur hafi verið alveg sérstakt snyrtimenni og umhirðusemi hans á bátum svo mikil að ekki er ólíklegt að Eyjamenn hafi tileinkað sér þennan sið Péturs enda var talið að hér áður fyrr hafi Eyjabátar borið af hvað snyrtimennsku varðar. Til marks um þetta orti Hafsteinn Stefánsson ljóð við andlát Péturs sem bar nafnið kjörsonur Íslands. Um snyrtimennsku Péturs segir þar:

 

Úr minningabókinni margt er glatað og týnt

merkileg kynni voru þar færð til leturs

komi ég þar sem allt er fágað og fínt 

þá finn ég til nærveru gamla danska Péturs.

 

 

Synir Péturs

Synir Péturs lögðu allir sjómennsku undir sig og voru allir um tíma skipstjórar á Skógafossi, nema Njáll sem varð vélsmíðameistari og lagði aldrei sjómennskuna fyrir sig. Willum hóf formannsferil sinn á Geir Goða VE-10 árið 1934 og Emil byrjaði á Metu en seinna keypti hann skip sem hann nefndi í höfuðið á pabba sínum, Danska Pétur, skipi sem flestir ættu að muna eftir.

 

Árið 1939 fluttist Pétur með síðari konu sinni, Magneu, til Danmerkur og bjó í Friðrikssund. Það ár var Pétur nokkurs konar milliliður um kaup á bátum og vélahlutum til Íslands. Bréfaskrif hans til sona sinna í Vestmannaeyjum bera það sömuleiðis með sér að Pétur, fjölskyldufaðirinn, hafi stjórnað fjölskyldunni frá Danmörku. Til að mynda segir Pétur í bréfi til Willum að nauðsynlegt sé að einn af eigendum útgerðarinnar sé í landi og þá sé upplagt að Njáll sé í smiðjunni en ekki á sjó!

 

Afi minn og nafni, Njáll, hóf vélsmíðanám hjá Guðjóni Jónssyni þann 18. júní 1931. Árið 1933 stofnuðu Guðjón ásamt fleirum vélsmiðjuna Magna þar sem afi starfaði stærstan hluta síns starfsferils. Pétur sendi Njáli bréf í mars 1939 og þar er blekinu ekki eytt í óþarfa:

 

„Kære Njáll,

De tandjul og spilkopper du bad om bliver sendt með Dettifoss. Jeg haaber saa at det er de rigtige kopper, jeg var ikke rigtig klar over om det skulde være togkopperne eller de smaa men vist det er forkert maa du lade mig vida saa jeg kan sende andre“.

 

Í bréfinu er síðan rætt um ýmis konar vélar og vélahluti, spurt hvernig gangi með báta sem Árni Böðvarsson sé með og að því loknu talað um að gott sé að afi sé að fást við viðhald véla þar sem hann hafi ekki mikinn áhuga á því að hefja útgerð, en það sé eitthvað annað með hann Willum; hann plumi sig ágætlega í því sem hann geri!

 

Bréfið endar á því að hann segir (á dönsku): „Ég bið að heilsa systkinum þínum, ég nenni ekki að skrifa meira í dag. Er að vinna við húsið og er í þessum töluðu að koma fyrir miðstöðvar-kumfur“.

 

Ljóst er að í vélsmiðjunni kunnu menn sitt fag. Njáll hafði farið til Danmerkur og lært þar vélfræði í bænum Hundested. Afi lýsti sjálfur störfum sínum í vélsmiðjunni í ræðu sem hann hélt hjá Rotarý félagi Vestmannaeyja en þar sagði hann: „Starf vélsmiðjunnar var nær eingöngu viðhald á fiskiflota Eyjamanna. Vélsmiðjan nýtti vor og sumur í að byggja upp lager, smíða t.a.m. skrúfublöð og var málmsteypa í Magna“.

 

Á stríðsárunum var enginn bátur úr leik vegna vélarbilana. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi veiða og siglinga með afla á þeim árum.

 

Arfleifð Danska Péturs

Í Sjómannadagsblaðinu árið 1971 er fjallað um tvö ný skip í fiskiskipaflota Vestmannaeyja en það voru Þórunn Sveinsdóttir annars vegar og Danska-Pétur hins vegar. Emil sonur Péturs keypti skipið. Emil og síðar Jóel sonur hans voru skipstjórar á skipinu. Í anddyri Sagnheima má sjá leifar flöskunnar sem notuð var við nafngift skipsins.

 

Synir Péturs létu allir að sér kveða í útgerð í Vestmannaeyjum. Segja má að fjölskylda Danska-Péturs sé samofin útgerðarsögu Vestmannaeyja. Allir tóku drengir hans þátt í útgerð Skógafoss á sínum tíma og voru þeir þar allir skipstjórar um tíma nema Njál. Síðar fóru drengirnir í eigin útgerð og sömuleiðis sum þeirra börn og barnabörn.

 

Ljóst er að þekking sú sem Danski- Pétur flutti inn til landsins frá Danmörku var kærkomin fyrir þjóð sem nýlega hafði tekið upp á því að setja vélar í fiskibáta sína. Viðhald þeirra og sá aukni afli sem fylgdi vélvæðingunni átti vafalaust stóran þátt í uppgangi þjóðarinnar á 20. öld. Það að enginn bátur hafi þurft að stoppa lengi á stríðsárunum skipti miklu máli í þeim efnum.

 

Að sama skapi má nefna að stór hluti þeirra báta sem fluttir voru til landsins á fyrri hluta 20. aldar voru smíðaðir af Carli Willum, faðir Danska Péturs og bræðrum hans í Danmörku. Þannig voru fjölmargir bátar sem reru frá Vestmannaeyjum fluttir inn frá Friðrikssund.

 

Pétur sem fluttist til Danmerkur á árunum fyrir síðari heimsstyrjöld,  missti ekki sambandið við syni sína á Íslandi,  heldur tók hann virkan þátt í skipulagi fjölskyldunnar í gegnum bréf. Bæði til þess að leggja línurnar um það hvernig best væri að standa að útgerðinni og segja drengjunum fyrir verkum, en sömuleiðis að senda þá hluti sem vantaði, t.a.m. vélahluti og önnur tæki og tól fyrir útgerðina.

 

Sjómannadagsblaðið 1971 tekur heils hugar undir með dönsku ættfræðisíðunni sem ég notaði mér til heimildaöflunar þegar ég vann kynningu mína um langafa, en þar segir: „Pétur rak útgerð alla ævi og var sérstakur hirðumaður um báta og veiðarfæri. Hafa synir hans sannarlega erft þann eiginleika hans“.

 

Með hreinlegum háttum setti á umhverfið svip

syni hvatti til dáða og þörfustu verka 

og feðgarnir áttu saman hin fríðustu skip

flotans prýði með örugga drengi og sterka. 

(Hafsteinn Stefánsson, Kjörsonur Íslands).