Ljósopið – Kíkt í einstakt safn Figga á Hól

 

 

Gísli Friðrik Jesson, Figgi á Hól í Vestmannaeyjum sem fæddist  14. maí 1906 og lést 3. september 1992 kom víða við á lífsleiðinni. Er einn af hornsteinum Vestmannaeyja eins og þær eru í dag. Þrátt fyrir annir á svo mörgum sviðum gaf hann sér tíma til að taka ljósmyndir. Eftir hann liggja myndir af bæjarlífinu, náttúrunni, þjóðhátíð, bátum og fleiru.

 

Safn hans er ómetanlegt og fékk fólk tækifæri til að kíkja á það á laugardeginum 14. desember þegar síðasta og þrettánda sýningin í sýningarröðinni Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt var haldin í Einarsstofu. Þar mætti tengdasonur hans, Ingi Tómas Björnsson og sýndi eigin myndir og myndir tengdapabba.

 

„Ég er að hamast við tína til myndir frá Figga, annars slags myndir, af því sem ekki er að finna svo víða. Samt skemmtilegar myndir og sumar þeirra ekki verið sýndar áður,“ segir Ingi Tómas fyrir sýninguna en myndirnar ná yfir langt tímabil.

 

„Ég er með filmur frá því hann var peyi en þær elstu sem ég sýni núna eru frá 1923 þegar sund var kennt í köldum sjónum í höfninni. Þarna eru nokkrar myndir af honum en oftast var Figgi á bak við myndavélina. Þessar myndir af honum eru okkur dýrmætar í dag og kannski áminning til stafrænu kynslóðarinnar; hvar verða myndir sem teknar eru í dag eftir 100 ár?“ sagði Ingi Tómas.

 

Það verður gaman að sjá þá leiða saman hesta sína, Inga Tómas og Figga á Hól í Einarsstofu kl. 13.00 á laugardaginn þó í óeiginlegri merkingu sé.

 

Ótúrlegur ferill

Friðrik var forstöðumaður Náttúrugripasafnsins í fjöldamörg ár, íþróttakennari, kennari og ljósmyndari. Er hann lést tók tengdasonur hans, Kristján Egilsson, við forstöðu safnsins. Hann tók fjölda mynda í Eyjum. Afreksmaður í íþróttum og margfaldur Íslandsmeistari.  Einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Týs 1921 og lengi í stjórn þess og varð síðar heiðursfélagi þess. Hann starfaði einnig með sameiningarfélaginu KV og íþróttaráði því sem stjórn ÍSÍ setti á laggirnar 1928. Fyrir þessi störf hlaut Friðrik þjónustumerki og síðar heiðursorðu ÍSÍ. Stjórn FRÍ sæmdi hann garpsmerki fyrir afrek í frjálsum íþróttum.

Sýningin var vel sótt og þó þeir tengdafeðgar rói ekki alveg á sömu mið í ljósmyndun er samhljómur með þeim þar sem natni, vandvirkni, gott auga fyrir myndefni og virðing og væntumþykja fyrir viðfangsefninu skín í gegn hjá þeim báðum.