Óli Lár í Einarsstofu:

Lífshlaup mitt með myndavélina

 


„Það var árið 1968 sem ég fékk mína fyrstu myndavél. Fékk peninga í fermingargjöf sem ég brúkaði til kaupanna en hún entist ekki lengi, bráðnaði í sól í suðurglugganum í risinu á Brimhólabraut 29 og eyðilagðist. Þetta var kínversk vél sem ég keypti hjá Jöra í Tómstundabúðinni, var 6 x 6 sm myndavél og fór vel í hendi og reyndist vel,“ sagði Ólafur Lárusson, kennari sem sýndi ljósmyndir sínar í Einarsstofu á laugardaginn. Var það áttundi laugardagurinn í sýningarröðinni, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt. Með honum var Helgi Tórzhamar.
„Við vorum tveir sem áttum myndavélar á Brimhólabrautinni í okkar uppvexti . Ég á númer 29 og Kjartan Eggertsson heitinn á númer 34. Við framkölluðum og vorum báðir með myrkraherbergi heima hjá okkur með öllum græjum, þá var allt í svart hvítum filmum, stækkara áttum við báðir og allt tilheyrandi, ég heima hjá mér og Kjartan heima hjá sér.“

 

Myndaði allt í Eyjum
Óli sagði að þeir hafi myndað allt í Eyjum og báðir voru þeir í Skátafélaginu Faxa. „Við vorum að mynda í ferðum sem við fórum í og á skátamótum. Þetta þróaðist hjá mér og það var stór áfangi þegar ég keypti fyrstu 35 mm vél. Þá fór maður að taka litmyndir á pappír og litskyggnur. Þá voru filmur dýrar og þá varð að vanda sig. Vélin sem ég keypti hét Miranda og reyndist vel.“
Í dag á hann eina Nikon og eina Leica sem báðar eru mjög góðar og Leica er eitt virtasta merkið í ljósmyndaheiminum.
Árið 1970 fer hann með Hjálmari Bárðarsyni og fleirum, þáverandi siglingamálastjóra og ljósmyndara út í Geldung. „Hjálmar var frábær ljósmyndari, gaf út ljósmyndabækur og skildi eftir sig mikið og merkilegt ljósmyndasafn. Þessi ferð átti eftir að hafa mikil áhrif á mig. Það var ekki síður dýrmætt að kynnast Páli Steingríms og Myndlistarskólanum hans í Arnardrangi fyrir gos, og því fólki sem þar var. Hjálmar og Palli eru stórir áhrifavaldar í mínu lífu og gerðu mig vonandi að betri ljósmyndara.“
Óli hitti svo Hjálmar í gosinu 1973. „Við lentum á miklu spjalli sem hafði mikil áhrif á mig.“ Hjálmar var að taka myndir inni í botni sem kallað var.

 

 

 

Sólin stærri í Eyjum
Óli sagði að ljósmyndun hafi gefið sér mikið sem eitt aðal áhugamál sitt og að það komi fram á sýningunni. „Ég hef haldið áfram að taka myndir af öllu sem fyrir augu ber en þó síst af fólki. Ég er mikið úti og það sem ég er að sækjast eftir er birtan. Palli Steingríms sagði að sólin væri stærri hér í Eyjum en annarsstaðar á landinu. Annars skipti ég sýningunni niður í tímabil og má segja að hún sé lífshlaup mitt með myndavélina.“


Eins og áður segir var sýningin klukkan 13.00 í Einarsstofu og voru rúllandi myndir á skjávarpa með útskýringum listamannanna í einn til einn og hálfan klukkutíma.