Í gegnum ljósopið mitt – Pétur Steingríms:

Heimaklettur, fólk, rollur og lífið í úteyjum

 

 

Hópur öflugra karla og kvenna hefur gert Heimaklett að föstum punkti í lífinu og telur sig eiga meira tilkall til hans en aðrir. Skýringin er einföld, þetta fólk gengur reglulega á toppinn í leit að bæði andlegri og líkamlegri vellíðan. Og Heimaklettur borgar fyrir sig því af toppnum er að mati hópsins fegursta útsýni í heimi. Vestmannaeyjar allar, Suðurlandið eins og það leggur sig með sínu flatlendi, jöklum og eldfjöllum. Með þeim öflugri er Pétur Steingrímsson, lögregluvarðstjóri sem deilt hefur dýrðinni í ljósmyndum á fésbókarsíðu sinni. Er þar að finna margt gullkornið.

 

Pétur gaf Eyjafólki og gestum tækifæri til að kíkja á sýnishorn af myndum sem hann hefur m.a. tekið á og af Heimakletti og úteyjum. Pétur er frístundabóndi og fá nokkrar rollur að fylgja með. Pétur byrjaði snemma að taka myndir og fyrsta minningin er þegar hann fékk að taka með sér myndavél í Þórsferðalagi upp á Skógarsand.

 

 

Valli Snæ hvatti til dáða

„Við flugum með Douglas Dakota flugvél, Þristi eins og þær voru kallaðar í íþróttaferðalagi með Þór,“ sagði Pétur. Við hlið hans vélinni sat enginn annar en Valli Snæ einn harðasti Þórari allra tíma. Pétur tók myndir í fluginu og svo af félögunum eftir að lent var á Skógarsandi. „Ég spurði Valla hvort ekki væri hægt að taka myndir út um gluggann á vélinni og hann hélt nú að það væri í lagi. Þetta var kassamyndavél frá mömmu og ég tók nokkrar myndir í fluginu og svo eftir að við lentum. Myndirnar sem ég tók úr flugvélinni voru ekkert sérstakar en ágætar myndir tók ég af félögunum í ferðinni,“ sagði Pétur þegar hann var beðinn um að lýsa upphafi ljósmyndaferilsins.

 

„Framan af tók ég ekki mikið af myndum en ég var eitthvað að mynda þegar ég var á Kristbjörgu VE. Það er svo ekki fyrr en fer að fjölga í fjölskyldunni sem þetta tekur kipp hjá mér,“ sagði Pétur sem hefur sótt í sig veðrið með hverju árinu. Fáir hafa tekið fleiri myndir á Heimakletti og af þeim sem þar líta reglulega við.

 

 

Myndaði afkomendurna

„Þegar Arnar, sonur okkar Bubbu fæddist í júlí 1976 byrjaði ég að taka myndir fyrir alvöru. Ég tók svo margar myndir af barnabörnunum, Degi og Kötlu og því sem þau hafa verið að gera í íþróttum og fleiru.“

 

Pétur á myndir af sjónum og fjölskyldunni en Heimaklettur og lífið þar og í úteyjum koma líka við sögu. Ekki síst Bjarnarey þar sem hann á heimilisfesti sem bjargveiðimaður. Eftir að stafræna tæknin kom til sögunnar er hann með myndavél á sér nánast hvert sem hann fer. „Hún er lítil og nett,  Canon Power Shot 12x Zoom  myndavélin mín. Fer vel í vasa og hefur reynst mér vel. Það á ekki síður við um Samsung símann minn sem er með frábærri myndavél. Með þau að vopni er ég alltaf reiðubúinn að mynda þegar eitthvað sem mig langar að fanga ber fyrir augu.“

 

Vestmannaeyjabær í öllum blæbrigðum

Pétur hefur vakið athygli fyrir myndir yfir bæinn sem teknar eru af Heimakletti. Líka fyrir myndir af innsiglingunni og höfninni og til allra átta af þessu stolti Eyjamanna.  „Ég hef tekið mikið af myndum yfir bæinn á mismunandi árstíma og birtu sem oft hefur komið skemmtilega út. Ég verð með nokkrar af þeim. Líka ætla ég að sýna myndir af fólkinu sem maður hittir á Heimakletti, nokkrar af íbúunum, rollunum fallegu og fólkinu og lífinu í kringum þær og svo nokkrar þokumyndir. Það er sérstakt að leggja af stað í þoku og komast í sól og blíðu þegar upp er komið. En það er erfitt að velja 150 til 200 myndir úr öllu safninu, en það verða margar af fólki og ég vona að gestir verði ánægir,“ sagðiPétur.

 

Var gaman að fá að kynnast svipmyndum úr safni Péturs í Einarsstofu kl. 13.00 á laugardeginum 19. október síðastliðnum.