Í gegnum ljósopið – Bræður mætast í Einarsstofu

Heiðar Egilsson

 

 

Það var létt yfir fólki sem mætti í Einarsstofu á föstudaginn 22. nóvember þar sem Jói Myndó, Bói Pálma og Halldór Sveins sýndu myndir sínar. Ólíkar sýningar en allar athyglisverðar og skemmtilegar. Í fótspor þeirra feta engir aukvisar þar sem eru bræðurnir Heiðar og Egill Egilssynir sem hafa myndað frá barnæsku og eru enn að. Þetta var 11. sýningin í röðinni, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt og var hún á gamla tímanum, klukkan 13.00 á laugardeginum 23. nóvember.

 

Heiðar leit þennan heim í fyrsta skipti þann 1. janúar 1955. „Þá fæddumst við, ég og Hrönn systir heima á Heiðarvegi 42. Það var ekkert verið að fara upp á spítala til að fæða þó börnin væru fleiri en eitt,“ sagði Heiðar. „Það var mikið líf og fjör á þessum árum og krakkar í öllum húsum. Já, virkilega gaman að alast upp í Vestmannaeyjum.“

 

Hann byrjaði snemma að taka myndir og áhugann þakkar hann Kristjáni bróður sínum. „Kiddi gaf mér mína fyrstu myndavél 1964. Það var árið sem ég var níu ára og á ég nokkrar myndir frá þeim tíma. Þá voru þetta filmuvélar og það var ekki verið að láta framkalla strax enda dýrt. Ég á til dæmis vetrarmynd sem merkt er júlí 1965.“

 

Heiðar minnist þess að hafa verið í ljósmyndaklúbbi sem þá var starfandi. „Ég var í klúbbnum með Hlyn Ólafssyni, Ragga Sjonna og fleirum. Þetta var öflugur hópur. Við vorum með aðstöðu í Arnardrangi þar sem var myrkraherbergi með öllum græjum, stækkara og öðru sem þurfti.“

 

Myndavélakosturinn var fyrst Nikon, svo komu Kodak Instamatic vélarnar með flasskubbunum sem Stuðmenn gerðu ódauðlegar í myndinni með Allt á hreinu. „Ég myndaði mest landslag og hef gert í gegnum tíðina. Það hafa verið hæðir og lægðir í þessu hjá mér. Tek mikið í þrjá mánuði og svo ekkert næstu tvo. Kaflaskipt og hefur alltaf verið svoleiðis. Ég keypti svo stafræna vél árið 2000 og er núna með Canon 5D. Nota mikið breiðlinsu fyrir landslagið.“

 

Heiðar fetaði í fótspor bræðra sinna, Kristjáns og Egils þegar hann lagðist í siglingar. „Ég var á norsku leiguskipi þannig að við vorum aldrei í fastri áætlun. Maður vissi aldrei hvert yrði farið næst en við komum til landa eins Suður Afríku, Japans, Nýja Sjálands og Venúsela í Suður Ameríku og víðar. Þetta var á árunum 1977 til 1978.“

 

 

Heiðar tók eitthvað af myndum þegar hann var í siglingum en segir að þær hafi mátt vera fleiri. „Ég ætla að sýna myndir alveg frá því ég byrjaði að taka myndir og fram á þennan dag. Þetta eru orðnar margar myndir hjá mér eftir öll þessi ár en ég hef valið það sem mér finnst skemmtilegast og ég vona að fólk sem mætir í Einarsstofu klukkan 13.00 á laugardaginn eigi eftir að njóta,“ sagði Heiðar að lokum.