Jóna Heiða í Einarsstofu á laugardeginum 26. október

 

 

 „Ljósmyndun er eitt af því sem ég nota í myndlistinni. Ég er að skrá það sem ég er að skoða og rannsaka úti í náttúrunni. Flóruna okkar, dýralífið og svo alla þessa heillandi náttúru sem umlykur okkur hér í Vestmannaeyjum,“ sagði Jóna Heiða Sigurlásdóttir, myndlistarkona og kennari sem sýndi ljósmyndir sínar í Einarsstofu klukkan 13.00 á laugardeginum 26. október.

 

Þetta var sjöunda sýningin í sýningaröðinni, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt. Um síðustu helgi leyfðu Pétur Steingrímsson og Guðmundur Gíslason gestum að kíkja í ljósmyndasafnið sitt í Einarsstofu. Tónninn var sá sami, Vestmannaeyjar og nú tók Jóna Heiða við kyndlinum en hennar nálgun er önnur.

 

 

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á vísindum og náttúrufræði og stefndi á nám í líffræðigreinum en fór svo í allt aðra átt,“ sagði Jóna Heiða. „En það vísindalega er aldrei langt undan og er rauði þráðurinn í því sem ég er að gera. Annað hvort skáldað eða það sem er til í raunveruleikanum. Ég lærði filmuframköllun í Listaháskólanum sem hluta af náminu. Fyrstu myndirnar tók ég þegar ég fékk myndavél frá pabba og mömmu árið 2001. Það eru því 18 ár síðan ég byrjaði á þessu og nú safna ég myndavélum og tek myndir.“

 

 

Bæjarlistamaður 2010

Jóna Heiða var eitt ár í Myndlistarskóla Reykjavíkur í fornámi áður en hún hóf nám við Listaháskólann árið 2002.  Hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist 2005 og stundaði í kjölfarið nám við Universität der Künste í Berlín og tók síðar masterinn í listkennslu. Jóna Heiða var útnefnd Bæjarlistamaður Vestmannaeyja fyrir árið 2010. Sama ár var hún með sína fyrstu einkasýningu á Höfuðborgarsvæðinu þar sem hún sýndi myndverk og KÍMERA creation skartgripi sem hún hannar.

 

 „Auk þess að vinna í myndlistinni hef ég verið að kenna. Mest leikskólabörnum en nú er ég að kenna listgreinar í Framhaldsskólanum.“

 

Jóna Heiða ætlaði að sýna sitt lítið af hverju af því sem hún hefur verið að gera. „Þetta eru myndir af því sem ég hef rambað á og vekur athygli mína. Þetta eru venjulegir hlutir sem maður leikur sér með að sjálfsögðu.“

 

Það var fróðlegt og skemmtilegt að kíkja við í Einarsstofu á laugardeginum klukkan 13.00 og sjá það sem Jóna Heiða og Friðrik Björgvinsson báru á borð fyrir okkur.