Jói Listó sýndi á sér nýja hlið í Einarsstofu 

 

 

Jóhann Jónsson, Jói Listó hefur ekki verið mikið að flagga ljósmyndum sínum þó hann hafi tekið myndir í áratugi. Hann er þekktur fyrir frábærar vatnslitamyndir, hefur myndskreytt leiðbeiningabækur fyrir sjómenn, teiknað frímerki og gert skúlptúra svo eitthvað sé nefnt. Þetta sáum við á frábærri yfirlitssýningu á verkum hans í Einarsstofu fyrr á afmælisárinu en laugardaginn 30. nóvember mætti hann á tófltu sýninguna, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt með dágóðan skammt af ljósmyndum sem var gaman að sjá.

 

 

„Það hefur verið mjög breytilegt hvað ég er duglegur að taka myndir en þetta byrjaði ekki af alvöru hjá mér fyrr en 1974. Ég lét þó lítið fara fyrir mér með myndavélina, var hálf feiminn að taka myndir,“ sagði Jói. „Ég sé þegar ég fer í gegnum safnið að ég var mynda uppbygginguna hér sem hófst fyrir alvöru vorið 1974 eftir gosið árið áður. Það var yfirgengilegur kraftur í þessu og var þetta ástæðan fyrir því að ég keypti mér mjög góða myndavél. Þetta er ótrúleg saga sem ég vildi skrásetja í ljósmyndum.“

 

Digitalart

Hann var þó byrjaður aðeins áður að taka myndir og á nokkrar sem hann tók á Kodak Instamatic vél 1971 sem hann sagði að hafi verið ótrúlega góð. „Lengi tók ég eingöngu myndir af mótívum sem ég notaði í vatnslitamyndirnar mínar. Var ekki með í huga að taka tilraunamyndir eða yfirleitt góðar myndir. Það gerist ekki fyrr en með stafrænu byltingunni 2002 að til verður digitalart sem viðurkennd listgrein. Ég er ekki mikið í þessum effektum og fillterum en ég vinn myndir og tel mig góðan í því.“

 

 

Jói vann við myndvinnslu í Bókabúðinni hjá Palla Guðmunds og Rut Haralds á sínum tíma og segir það hafa verið góðan skóla. „Ég lærði mikið á stuttum tíma en það var verið að skjóta á mig, karl orðinn fimmtugur að leika sér í tölvu,“ sagði Jói sem lét það ekki stoppa sig.

 

 

Myndavélasafnið er orðið myndarlegt en í dag tekur hann á Panasonic Lumix vél sem hann er ánægður með og ekki síður með Canon EOS 5D vélina sem hann segir mjög öfluga, ekki síst við erfið skilyrði. „Ég ætla að sýna sitt lítið af hverju af því sem ég hef verið að gera í gegnum árin. Það var gott að fá þetta tækifæri til að fara í gegnum safnið. Vona ég svo að fólk sem mætir verði ánægt.“

Jói Listó brást ekki vonum fólks og sýndi enn og sannaði að þar fer skrásetjari með næmt auga fyrir því listræna.