Svabbi með gosmyndirnar í Einarsstofu á laugardaginn

 

 

Svavar Steingrímsson, Svabbi Steingríms er einn þriggja sem sýndi myndir í Einarsstofu  laugardaginn 30. nóvember sem var tólfta sýningin í röðinni, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt.  Eru þetta myndir sem hann tók í gosinu 1973. Áhrifamiklar myndir en hluta þeirra sýndi hann í Svölukoti á goslokum í sumar.

 

 

„Þetta er myndir sem ég tók á hlaupum,“ segir Svabbi sem byrjaði snemma að taka myndir en það átti ekki fyrir honum að liggja að leggja fyrir sig ljósmyndun og kvikmyndagerð eins og Páll bróðir hans. „Það var til kassavél heima sem mamma og pabbi áttu og fengum við strákarnir að nota hana eins og við vildum. Það varð þó ekkert framhald af þessu hjá mér. Það var ekki fyrr en í fyrstu utanlandsferðinni að ég keypti myndavél, Olympus sem var mjög góð vél og seinna eignaðist ég Minoltavél sem reyndist vel í gosinu.“

 

 

Fyrstu myndirnar í gosinu tók Svavar gosnóttina þegar hann aðstoðaði við að bjarga búslóðinni á Oddsstöðum sem var eitt af húsunum sem stóð næst gossprungunni. Næstu dagar fóru í búslóðaflutninga og vinnu uppi á landi. Þegar í ljós kom að það vantaði pípara til Eyja dreif hann sig út með Þorleifi Sigurlássyni, samstarfsmanni í pípulögnunum og stóð svo vaktina allt gosið. Hann segist ekki hafa viljað fyrir nokkurn peninga missa af gosinu þó rótið væri mikið og fjölskyldan  búið við þröngan kost í Ölfusborgum.

 

 

Myndavélin entist gosið

„Ég átti tvær vélar en lagði annarri eftir fyrstu nóttina og notaði hina, Minoltavél sem reyndist mér vel en endtist gosið og svo ekki söguna meir. Allt eru þetta „slightsmyndir“ og teknar á öllum stigum gossins. Sindri er búinn að hreinsa þær og laga og er það mjög vel gert. Er allt annað sjá myndirnar. Þarna eru líka nokkrar loftmyndir sem ég tók þegar ég fékk að fljóta með Lofti Harðarsyni, flugmanni sem átti flugvél á þessum tíma,“ sagði Svavar.

 

Þrátt fyrir að vera kominn á níræðisaldurinn fer Svabbi ennþá á Heimaklett  þó eitthvað hafi ferðunum fækkað. „Þær eru orðna 87 ferðirnar það sem af er þessu ári. Ég er að taka myndir á Heimakletti. Er með litla Canonvél með einhverjum stöfum sem hefur reynst mér vel. Þær verða ekki á sýningunni en þeir sem séð hafa gosmyndirnar mínar eru ánægðir. Vona að það sama verði hjá þeim sem mæta í Einarsstofu kl. 13.00 á laugardaginn,“ sagði Svabbi að endingu.

 

Sýning Svavars var áhrifamikil og rifjaði upp þann ógnaratburð sem Heimaeyjargosið var þegar tveggja kílómetra gossprunga myndaðist rétt við bæjardyrnar og færði á kaf allan austur hluta Vestmannaeyjabæjar.  Stóð Svavar í fremstu víglínu í baráttu við náttúruölfin sem skilaði árangri með kælingu á hrauninu.