Feðgarnir Hörður og Friðrik í Einarsstofu:

Ljósmyndir sem spanna 70 ár í Vestmannaeyjum

 

 

Nýi og gamli tíminn mættust í myndum þeirra feðga, Harðar Sigurgeirssonar ljósmyndara og Friðriks sonar hans í Einarsstofu á laugardeginum 12. október kl. 13.00. Hörður starfaði hér sem ljósmyndari um og eftir miðja síðustu öld. Friðrik varð að byrja upp á nýtt eftir að safnið hans varð gosinu að bráð 1973. Hörður skildi eftir sig merkilegt safn bæði mannamynda og mynda úr daglega lífinu. Friðrik hefur haldið utan um safnið og fengum við að sjá sýnishorn af því á laugardeginum. Sjálfur byrjaði Friðrik ungur að taka myndir og grunnurinn er það sem hann lærði af föður sínum.

 

 

Hörður Sigurgeirsson ljósmyndari og píanókennari fæddist á Akureyri 6. maí 1914 og lést í Reykjavík 2. júní 1978. Hann fluttist til Vestmannaeyja 1949 og rak hér ljósmyndastofu frá 1950 til 1965 auk þess að kenna á píanó.

 

Myndirnar sem Friðrik mætti með náðu því yfir nærri 70 ára tímabil, frá 1950 til dagsins í dag. „Í allt liggja eftir pabba um 170 þúsund myndir sem hann tók í Vestmannaeyjum og aðeins ein mynd af hverju,“ sagði Friðrik.

 

„Þetta eru mest myndir af einstaklingum en líka myndir af hópum. Þegar kom að því að klára filmuna fór hann út og tók myndir af því sem fyrir augu bar. Myndir af atvinnu- og mannlífi í Vestmannaeyjum. Allar mannamyndirnar eru merktar og ég veit hverjir hóparnir eru,“ sagði Friðrik sem nokkrum sinnum hefur haldið sýningar á myndum föður síns.

 

Þetta var í annað skipti sem Friðrik teflir fram eigin myndum. Hann var átta ára þegar pabbi hans gaf honum fyrstu myndavélina og byrjaði strax að taka myndir. Allt safnið hans glataðist í gosinu 1973 en Friðrik hélt áfram og fengum við að sjá sýnishorn af því á laugardeginum. „Við áttum heima í Hlaðbæ sem fór undir strax á fyrstu dögum gossins. Það var litlu bjargað og myndirnar mínar voru meðal þess sem glataðist.“

 

Sannkallað galdratæki

Fram að gosi framkallaði Friðrik allar sínar myndir sjálfur og stækkaði en lét það öðrum eftir þegar hann byrjaði að taka myndir eftir gos. „En ég hef alltaf farið eftir því sem pabbi kenndi mér, að taka aðeins eina mynd af því sem ég ætla að mynda. Það kostar tíma og aga og gerir meiri kröfur til ljósmyndarans sem verður að vanda sig. En er líka skemmtilegt. Árið 1999 eignaðist ég Mamia, japanska myndavél í hæsta gæðaflokki. Hver rammi er 4,5 sinnum 6 sm og ljósopið 1,9 sem venjulega er 2,2 og þykir mjög gott. Mikið galdratæki sem skilaði ótrúlega flottum myndum við oft erfið skilyrði.

 

Það var svo 2012 sem ég fór yfir í það stafræna, byrjaði á Olympusvélum en skipti svo yfir í Canon. Þrátt fyrir að vera laus við framköllunarkostnað held ég mig við sömu regluna, aðeins ein mynd.“

 

„Þetta verður sitt lítið af hverju frá okkur pabba en sjálfur heillast ég af náttúrunni. Ekki síst briminu sem lemur eyjuna okkar og það tók mig þrjú ár að taka myndir af sólarlagi allan hringinn.

 

Ég var með sýningu á myndum pabba á goslokum 2013 og svo aftur 2014 en þá hefði hann orðið 100 ára en hann var 64 ára þegar hann lést.“

 

Enn og aftur mátti því búast við skemmtlegri sýningu í Einarsstofu sem hófst eins og venjulega klukkan 13.00. Myndir Harðar eru ómetanleg heimild um fólk og lífshætti um miðja síðustu öld. Friðrik er meira í nútímanum og fangar það sem við hin sjáum ekki.