Bæjarstjórn – 100 ára hátíðarfundur

 

Fjölmenni og þingmenn meðal gesta

Þann fjórtánda febrúar sl. voru 100 ár frá því fyrsti fundur var haldinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja. Var þess minnst með sérstökum hátíðarfundi í aðalsal Kviku menningarhúsi að viðstöddu fjölmenni. Var hann númer 1543 í röðinni og er gaman að geta þess að fundargerðir bæjarstjórnar eru til frá upphafi. Fundinn sátu Elís Jónsson, forseti bæjarstjórnar, bæjarfulltrúarnir Njáll Ragnarsson, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Helga Kristín Kolbeins, Trausti Hjaltason, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri.

Elís, forseti bæjarstjórnar og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri fóru yfir sögu bæjarstjórnar og þróun byggðar í Vestmannaeyjum síðustu öldina. Lögð var fram sérstök hátíðarsamþykkt þar sem ákveðið er að halda áfram framkvæmdum við Ráðhús sem ætlað er nýtt hlutverk. Þá var sérstök hátíðarbókun vegna afmælis Kvenfélagsins Líknar sem fagnaði 110 ára afmæli þennan dag.

Meðal gesta á fundinum voru m.a. þingmennirnir Ásmundur Friðriksson, Páll Magnússon, Smári McCarthy, Birgir Þórarinsson, allir úr Suðurkjördæmi og Halldóra Mogensen, þingmaður Reykvíkinga.

 

— ♦ ♦ ♦ —

 

Saga samfélagsins síðustu hundrað árin

 

Ágrip forseta bæjarstjórnar, 14. febrúar 2019

 

 

„Árið 1918 er merkilegt á margan hátt, bæði í Íslandssögunni og sögu Vestmannaeyja. Það var árið sem Ísland fékk fullveldi og konungur Danmerkur og Íslands staðfesti lög frá Alþingi um kaupstaðarréttindi fyrir Vestmannaeyjar. Þau öðluðust gildi 1. janúar 1919 sem telst vera stofndagur Vestmannaeyjabæjar. Árið 1918 er líka ár hörmunga sem byrjaði með frosthörkum í janúar og er veturinn 1918 kallaður Frostaveturinn mikli. Seinni hluta árs herjaði spánska veikin sem lagði 25 Eyjamenn að velli, mest ungt fólk og svo var það Kötlugosið um haustið. Þar varð ekki manntjón en þarna minnti íslensk náttúra á sig svo um munaði með jökulflóðum og öskuregni í einu öflugasta Kötlugosi frá landnámi,“ sagði Elís Jónsson, forseti bæjarstjórnar á hátíðarfundinum þar sem hann fór yfir sögu Vestmannaeyja síðustu 100 árin.

„Þegar litið er lengra aftur í tímann koma í ljós ógnarviðburðir eins og Tyrkjaránið 1627 þar sem 36 Eyjamenn voru drepnir og 242 rænt og fólkið selt í ánauð í Alsír. Mannskæð sjóslys urðu, mikill ungbarnadauði herjaði og um og eftir aldamótin 1900 fluttu um 400 Eyjamenn til Vesturheims í leit að betra lífi,“ bætti Elís við.

 

Bjartsýni þrátt fyrir erfiðleika

Hann sagði að þrátt fyrir þetta var á nýrri öld að hefjast nýtt tímabil í sögu íslensku þjóðarinnar, tímabil bjartsýni, trúar á land og þjóð og uppbygging þjóðfélags sem í dag er meðal þeirra sem fremst standa í heiminum. Í Vestmannaeyjum hófst þetta með vélbátaöldinni í byrjun aldar og í framhaldi af því þróun sjávarútvegs í landinu sem enn er ein af stoðum Íslands.

„Upphaf vélbátaaldar kostaði miklar fórnir í mannskæðum sjóslysum sem varð kveikjan að stofnun Björgunarfélags Vestmannaeyja 1918. Félagið kom að mörgum framfaramálum en helsta verkefni félagsins voru kaup á björgunarskipinu Þór sem kom til landsins 1920. Þjónaði hann vel sem björgunar- og varðskip. Seinna yfirtók ríkið reksturinn og lagði þar með grunn að Landhelgisgæslu Íslands sem þjónar okkur í dag.“

Fólki fjölgaði í Eyjum með vélbátunum og voru um 2000 þegar Vestmannaeyjar fengu kaupstaðarréttindi 1919. Þróunin hélt áfram, en heimskreppan 1930 fram að seinni heimsstyrjöldinni 1939 hægði á vexti hér eins og annars staðar í heiminum en stór stökk fram á við voru tekin eftir 1940 og fjölgaði íbúum á ný og í árslok 1972 var íbúafjöldinn kominn í 5300 manns.

 

Svo byrjaði að gjósa

„Heimaeyjargosið, sem hófst aðfararnótt 23. janúar 1973 er einstakt í Íslandsögunni en þessa nótt urðu til yfir 5000 flóttamenn á Íslandi. Fólksflutningarnir þessa nótt gengu ótrúlega vel en eyðileggingin var gríðarleg og fór um þriðjungur byggðarinnar undir hraun og ösku.

  Gosinu lauk þann 3. júlí 1973 en þá var hreinsun bæjarins langt komin. Undirbúningur á fullu við að koma bæjarfélaginu í gang á ný og taka á móti fólki sem strax um sumarið byrjaði að flytja heim.

  Mikið verk var framundan, endurreisn byggðar, atvinnu- og mannlífs voru risavaxin verkefni sem tókst að framkvæma með víðtækri samstöðu íbúanna, virkri  aðstoð stjórnvalda og góðri aðstoð ýmissa aðila innanlands og utan. Sumt verður aldrei bætt, en bæjarbúar lærðu að aðlaga sig að gjörbreyttu umhverfi. Talið er að liðlega 3600 manns hafi flutt heim á ný að loknu eldgosi, en nýir íbúar bættust í hópinn á næstu árum og áratugum. Má segja að Vestmannaeyjabær hafi á 20 til 25 árum risið úr öskunni í að verða eitt öflugasta sveitarfélag landsins,“ sagði Elís.

 

Vildu hag Eyjanna sem mestan

„Þetta er sagan okkar í stuttu máli en lán okkar Eyjamanna er að eiga fólk sem mælir ekki lífið í vandamálum heldur viðfangsefnum sem þarf að leysa. Það er farið í verkin og þau kláruð sama hvort þau er stór eða smá. Í gosinu höfðum við bæjarstjórn undir forystu Magnúsar H. Magnússonar, bæjarstjóra sem allan tímann hafði trú á endurreisn Eyjanna. Gengu þeir sömu slóð og fyrirrennarnir sem aldrei misstu sjónar á því markmiði að vilja hag Eyjanna sem mestan. Það sama á við um það fólk sem tók við keflinu. Metnaður fyrir hönd Vestmannaeyja er alltaf það sem skiptir máli.

Í atvinnulífinu gildi það sama. Í dag eru Vestmannaeyjar ein stærsta verstöð landsins með sjávarútveg sem byggir á öflugum fyrirtækjum í fremstu röð. Í kringum þau hafa vaxið framsækin fyrirtæki í iðnaði og þjónustu.

Kaupmenn halda úti ótrúlega fjölbreyttri þjónustu miðað við að hér búa 4300 manns og hér eru nokkrir af bestu veitingastöðum landsins,“ sagði Elís.

 

Íþróttabærinn Vestmannaeyjar

Hann sagði ekki þörf á að fjölyrða um árangur okkar í íþróttum, gott dæmi um það sé árangur meistaraflokka ÍBV íþróttafélags í handbolta og fótbolta sem hafa unnið marga titla undanfarin tvö ár. „Má þar nefna bikar-, deildar og Íslandsmeistaratitla í handbolta karla og bikarmeistaratitla í knattspyrnu karla og kvenna. Einnig er árangur yngri flokka eftirtektarverður ásamt öðrum greinum sem stundaðar eru í bænum.  Meistaraflokkar ÍBV íþróttafélags spila í efstu deildum karla og kvenna í handbolta og fótbolta. Þegar litið á íbúafjöldann: Geri aðrir betur.“

 

Menning á háu stigi

„Skólar í Vestmannaeyjum eiga sér langa sögu og í dag eigum við nútímalega leikskóla og grunnskóla, framhaldsskóla sem skapað hefur sér sérstöðu auk Tónlistarskóla. Þá fá þeir sem vilja mála og teikna tækifæri til að bæta sig undir handleiðslu hennar Steinunnar.

Menningarlíf hefur lengi verið hér í miklum blóma og er þetta hús talandi dæmi um það. Hér er í dag bíó og leikhús og leikvöllur fyrir eldri borgara á efstu hæðinni.

Á fyrri hluta síðustu aldar var hér öflugt tónlistarlíf þar sem Oddgeir Kristjánsson, tónskáld var fremstur meðal jafningja. Myndlistarfólk eigum við og ber þar að nefna Júlíönu Sveinsdóttur.

Í dag eigum við nokkra glæsilega fulltrúa í menningunni og allir þekkja Unnar Gísla,  son Simma og Unnar sem betur er þekktur sem tónlistarmaðurinn Júníus Meyvant og er að skapa sér nafn á heimsvísu.

Þetta samfélag hefur getið af sér fólk sem er í fremstu röð á sínu sviði, í íþróttum, í opinberum störfum og einkarekstri og stjórnmálamenn sem allir landsmenn vita hverjir eru. Allt getum við talið þetta okkur til tekna og eigum að vera ófeimin að láta vita að þarna er okkar fólk á ferðinni.

Safnahúsið hefur staðið undir nafni sem menningartorg bæjarins þangað sem fólk sækir í hópum ráðstefnur, viðburði og sýningar sem vekja mikla athygli. Meðal þeirra er Eyjahjartað, þar sem Eyjafólk rifjar upp æskuárin í Eyjum og hrærir hjörtu allra viðstaddra.

Á síðasta ári voru 100 ár frá upphafi prentunar í Vestmannaeyjum og mestan þann tíma hefur verið öflug blaðaútgáfa hér. Fréttir og síðar Eyjafréttir eiga sér lengsta sögu í reglulegri útgáfu og hafa flutt fregnir af mannlífi Eyjanna í sinni fjölbreytni frá 1974.“

 

Framsýni þeirra sem stjórna

Elís sagði þetta allt byggjast á framsýni þeirra sem stjórna. Þeir varði leiðina sem alltaf er tekin í áföngum. „Það er himinn og haf á milli þess að í fyrstu fundargerð bæjarstjórnar fyrir nákvæmlega 100 árum er eitt málið dagleg dreifing á kolum til bæjarbúa. Í dag fáum við hitann frá sjóvarmadælustöð sem sækir orkuna í Golfstrauminn sem berst til okkar úr Mexíkóflóa.

Fyrsti rafstrengurinn var lagður hingað árið 1962 og fyrsta vatnsleiðslan 1968 og hafa fleiri bæst við síðan. Vatnslögnin er ein stærsta framkvæmd sem eitt bæjarfélag á Íslandi hefur ráðist í en um leið var tekið eitt stærsta ef ekki stærsta skref fram á við í sögu Vestmannaeyja. Í staðinn fyrir vatn sem safnað var af þökum bæjarins í brunna fáum við úr krönunum  besta vatn í heimi. Engu logið þar og skipti vatnið sköpum fyrir atvinnulífið og alla bæjarbúa.

Næsti áfangi er svo lagning ljósleiðara í hvert hús í Vestmannaeyjum. Þannig getum við best tekið þátt í fjórðu iðnbyltingunni og nýtt það sem hún hefur upp á að bjóða okkur til hagsbóta.“

 

Spennandi tímar í samgöngum

Það var ekki ofsögum sagt hjá Elís að samgöngur skipta okkur meira máli en nokkru sinni og nú horfum við fram á nýja tíma með nýjum Herjólfi í vor. „Þar eigum við mikið undir að skipið standist væntingar og má segja að þróun Vestmannaeyja fram á við velti að nokkru leyti á hvernig til tekst. Það er engin ástæða til annars en bjartsýni og að nýtt skip og fyrirhugaðar endurbætur á Landeyjahöfn muni efla ferðamannaiðnað og aðrar atvinnugreinar og bæta mannlíf í Vestmannaeyjum í framtíðinni.

Sérstaða okkar er að búa á eyju sem gefur okkar tækifæri í heimi sem gerir miklar kröfur í framleiðslu matvæla og umhverfisverndar. Þar þarf að taka til hendinni en munum að hrein Eyja og umhverfisvæn eru verðmæti. Rafdrifin ferja og orkan úr sjónum gætu verið áfangar á allsherjar umhverfisvottun Vestmannaeyja. Verkefni sem við öllum getum komið að.

Þessir áfangar í sögu Vestmannaeyja sem ég hef hér nefnt sýna þann mikla kraft sem býr í samfélaginu í Eyjum sem hefur skilað okkur miklu. Auðvitað eru mörg verkefni framundan en á meðan við erum að fá til okkar ungt og öflugt fólk er ástæða til bjartsýni. Er það verkefni þessarar bæjarstjórnar og okkar allra að sjá til þess að svo verði áfram. Í þessu fólki er framtíðin.  Vestmannaeyjabær, til hamingju með 100 ár og og munum eitt í lokin: Skömmumst okkar aldrei fyrir að vera Vestmannaeyingar,“ sagði Elís Jónsson, forseti bæjarstjórnar að lokum.

 

 

— ♦ ♦ ♦ 

 

Hátíðarræða Írisar bæjarstjóra á hátíðarfundinum

 

 

Horfum björtum augum fram á veginn

„Á þessum degi fyrir réttum 100 árum, hinn 14. febrúar 1919, var haldinn fundur í  húsinu Borg, sem stóð neðst við Heimagötu og fór undir hraun í gosinu. Sá fundur var fyrsti fundur fyrstu bæjarstjórnar Vestmannaeyja,“ sagði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í ræðu á hátíðarfundi bæjarstjórnar í bíósal Kviku fimmtudaginn 14. febrúar þar sem tímamótunum var fagnað. Fundarsalurinn var þétt setinn en á undan var ljósmyndasýning þar sem stiklað var á stóru í sögu Vestmannaeyja með áherslu á tímann frá því bærinn hlaut kaupstaðarréttindi þann fyrsta janúar 1919.

Sjálf rakti Íris sögu Vestmannaeyja og hafði til hliðsjónar hina vönduðu samantekt Haraldar Guðnasonar, bókavarðar, Við Ægisdyr, saga Vestmannaeyja frá 1918 til um 1978 þar sem ítarlega er farið yfir sögu bæjarstjórnar þar. „Í umfjöllun Haraldar kemur fram að níu einstaklingar hafi átt sæti í fyrstu bæjarstjórninni. Meðal þeirra var Halldór Gunnlaugsson læknir. Það er áhugavert að hugsa til þess að Halldór var aðalhvatamaðurinn að stofnun kvenfélagsins Líknar, sem átti 10 ára afmæli sama daginn og bæjarstjórn kom saman í fyrsta sinn. Var dagurinn ef til vill valinn til heiðurs kvenfélaginu?“ spurði Íris.

 

Ólafía Óladóttir fyrst kvenna til að sitja bæjarstjórnarfund

„Í fyrstu bæjarstjórn Vestmannaeyja átti engin kona sæti - og kemur sú staðreynd líklega fáum á óvart miðað við jafnréttið, eða öllu heldur misréttið, í þá daga,“ sagði Íris. „Fyrsta konan sem sat fundi í bæjarstjórn Vestmannaeyja var Ólafía Óladóttir, verkakona í Stíghúsi, en það var árið 1934.  Hún var á lista Kommúnistaflokksins og var varabæjarfulltrúi.  Ólafía - Lóa í Stíghúsi - var amma Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, fyrrverandi alþingismanns, sem nú er hagfræðingur Alþýðusambandsins.“

 

Dadda fyrsta kjörna konan í bæjarstjórn

En langt var í næstu konu. „Hitt er ótrúlegt að fyrsta kjörna konan í bæjarstjórn Vestmannaeyja var hún Sigurbjörg okkar Axelsdóttir, Dadda skó og var hún á lista Sjálfstæðisflokksins. Það var árið ekki fyrr en 1974 eða heilum 55 árum eftir að bæjarstjórn Vestmannaeyja kom fyrst saman. Með öðrum orðum:

Í meirihluta þess tíma sem liðinn er frá upphafi bæjarstjórnar Vestmannaeyja var ekki ein einasta kona kjörin í bæjarstjórn. Horfið hérna á borðið við hliðina á mér, konur eru nú í meirihluta í bæjarstjórn.

Mér reiknast svo til að frá 1919 til 1974, eða þangað til fyrsta konan er kosin í bæjarstjórn, hafi verið kosið um 120 sæti bæjarfulltrúa. Vitaskuld hafa ekki 120 bæjarfulltrúar fyllt þessi 120 sæti, sumir sátu tvö kjörtímabil, aðrir jafnvel miklu lengur. En sem sagt alltaf karlar.

Af samtals 16 bæjarstjórum Vestmannaeyja á þessum 100 árum komu svo auðvitað fyrst 15 karlar í röð, en svo breyttist það víst líka,“ sagði Íris.

 

Er hér vegna Magnúsar H.

Hún sagði alla þessa bæjarstjóra hafa lagt sitt af mörkum við uppbygginu bæjarins á þessum 100 árum. „Verkefni þessara bæjarstjóra voru mörg og mismunandi eins og gefur að skilja. Sumir fengu stærri og erfiðari verkefni en aðrir en ætli þau hafi gerst  miklu  stærri en að fá heilt eldgos yfir bæinn. Það fékk Magnús H. Magnússon að reyna en hann var bæjarstjóri 1966 til 1975. Ég minnist á hann hér því að hann er líklega ástæðan fyrir því að ég er hér.

Viðtal sem var við Magnús í útvarpinu á sínum tíma, þar sem hann hvatti fólk til að snúa heim og byggja aftur upp Eyjuna okkar eftir gos, sannfærði mömmu um að koma aftur heim. Pabbi var tilbúinn að flytja til Noregs með fjölskylduna en mamma réði ferðinni að þessu sinni og hún hlýddi kalli Magnúsar bæjarstjóra.

Það skiptir auðvitað sköpum í sögu Vestmannaeyja að svo margir svöruðu kallinu; komu aftur heim og glæddu eyjuna okkar lífi á ný.“

 

Karlarnir níu og Valentínusardagurinn

Íris sagði það svolítið skemmtilegt að hugsa til þess að karlarnir níu sem sátu fyrsta bæjarstjórnarfundinn hefðu valið daginn til heiðurs kvenfélaginu Líkn, eins og hún minntist á fyrr í ræðu sinni. „En þá hefur sjálfsagt ekki órað fyrir því að 100 árum síðar yrði haldið upp á þann fund á Valentínusardaginn, 14. febrúar, degi elskenda.  En kannski voru þessir karlar í fyrstu bæjarstjórninni eintómir rómantíkerar.

 

Fyrstu bæjarstjórnarkosningarnar

Skoðum aðeins nánar fyrstu bæjarstjórnarkosningarnar. Þær fóru fram þann 16. janúar 1919. Þá voru 7 listar í framboði og hafa aldrei verið fleiri síðan. En hið furðulega er að sömu einstaklingar gátu verið á fleiri en einum lista og eru jafnvel dæmi um að sömu einstaklingar hafi verið á allt að 4 listum. Í fyrstu bæjarstjórnarkosningunum 1919 voru 3 á fjórum listum, þeir Páll Bjarnason, Högni Sigurðsson í Vatnsdal og Jón Hinriksson.

Til að fá að bjóða fram í kosningunum 1919 þurfti framkominn listi einungis 5 meðmælendur á móti 40 til 80 í dag. Alls greiddu 556 atkvæði í fyrstu bæjarstjórnarkosningunum af ríflega 2000 íbúum.

Listabókstafirnir voru einnig með allt öðrum hætti en nú tíðkast, þar sem kjörstjórn merkti listana einfaldlega með bókstöfum í stafrófsröð í þeirri tímaröð sem framboðunum var skilað inn. Þannig var t.d. B-listinn, borinn í fyrsta sinn fram af flokki 1930 og þá af Sjálfstæðisflokki, 4 árum síðar af Alþýðuflokknum og loksins 1938 af Framsóknarflokknum. En þá lauk þessari hringekju og flokkarnir fengu fasta listabókstafi.“

 

Margt hefur breyst

Íris sagði margt orðið með ólíkum hætti og ekki hefði hún tök  á  hér að rekja alla sögu bæjarstjórnar og bæjarstjórnarkosninga. „Mig langar til að staldra andartak í lokin við kosningarnar 1930 vegna þess að annars vegar verða þá ákveðnar breytingar sem enn halda og einnig vegna áhugaverðs samanburðar við nútímann.

Eitt er að frá 1930 var loks tekið að kjósa til bæjarstjórna á Íslandi á 4 ára fresti en fram að því hafði verið kosið til bæjarstjórna árlega. Í öðru lagi var frá og með 1930 í fyrsta skipti kosið um alla bæjarstjórnina í einu, en 9 bæjarfulltrúar sátu á þessum tíma í bæjarstjórn, eins og áður var minnst á. Fram að 1930 var sá háttur hafður á að 3 fóru úr bæjarstjórn á hverju ári og 3 nýir bættust við. 

Hlutkesti var látið ráða hverjir 3 þurftu að yfirgefa bæjarstjórn hverju sinni. Áhugavert en ég veit ekki hvernig stemminginn væri fyrir því núna ef unnt væri að endurvekja þann sið.“

 

Rýmri kosningaréttur

„Þá brýtur árið 1930 að öðru leyti í blað í sögu bæjarstjórnarkosninga. Í fyrsta lagi voru lögin um kosningarétt rýmkuð verulega það ár og kosningaaldur bæði fyrir karla og konur færður niður í 21 ár ásamt fleiri rýmkunum. Meðal þeirra var að það að þiggja sveitarstyrk varðaði ekki lengur missi kosningarréttar nema menn væru í skuld við bæjarsjóð vegna leti eða ómennsku eins og það var orðað í samþykktinni. Í framhaldinu varð einum ónefndum bæjarfulltrúanum að orði að Vestmannaeyjar væru kyndugur staður því hér mættu letingjar aðeins kjósa ef þeir væru ríkir.“

 

Guðlaugur Gíslason setið flesta fundi

Til er skrá hjá Vestmannaeyjabæ um alla þá sem setið hafa bæjarstjórnarfundi öll þessi 100 ár. „Það er gaman að glugga í þetta,“ sagði Íris. „Hér í Eyjum eru enn búsettir 3 af þeim 6 sem setið hafa flesta bæjarstjórnarfundi eru tveir þeirra með okkur hér í salnum í dag.

Sá sem flesta fundi hefur setið er Guðlaugur Gíslason 343; næstur er Ragnar Óskarsson 311; Sigurður Jónsson 281; Ársæll Sveinsson 277; Arnar Sigurmundsson 270 og Guðmundur Þ.B Ólafsson 269. Börn tveggja þeirra núlifandi manna sem hér voru taldir eru sem kunnugt er bæði í bæjarstjórn og bæjarráði í dag,“ sagði Íris. Þau eru Jóna Sigríður Guðmundsdóttir og Njáll Ragnarsson.

 

Stór dagur

„En í dag fögnum við, við fögnum 100 ára afmæli bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Þetta er stór dagur, sem skipar stóran sess í okkar tímatali og afmælisári.

Fyrir hönd sitjandi bæjarfulltrúa þakka ég öllum þeim sem á undan okkar komu, lífs og liðnum, fyrir þeirra framlag í að gera bæinn okkar að því sem hann er. Við horfum björtum augum fram á veginn fyrir hönd okkar einstaka bæjarfélags.

Til næstu 100 ára að minnsta kosti,“ sagði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri að endingu.

 

— ♦ ♦ ♦ 

 

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir

Kvenfélagið Líkn 110 ára

 

 

Þess var sérstaklega minnst á hátíðarfundi bæjarstjórnar sl. fimmtudag, 14. febrúar að sama dag fagnaði Kvenfélagið Líkn merku afmæli, varð 110 ára. Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi minntist þessa með nokkrum orðum á fundinum. Sagði það mikinn heiður fyrir sig að að vera þátttakandi sem bæjarfulltrúi á þessum merku tímamótum.

 

,,Það er mér mikill heiður að standa hér og vera þátttakandi á þessum merku tímamótum,'' sagði Jóna Sigríður. ,,Tilefni þessa hátíðarfundar bæjarstjórnar eins og öllum er kunnugt um og hefur komið fram í fyrri ræðum, þá var á þessum degi, 14. febrúar, fyrir 100 árum, fyrsti bæjarstjórnarfundur Vestmannaeyjabæjar haldinn. En á þessum sama degi 10 árum fyrr, árið 1909, var Kvenfélagið Líkn stofnað og því 110 ára í dag. Það er því tilefni til að segja nokkur orð um Kvenfélagið Líkn.''

Síðan rakti Jóna Sigríður sögu félagsins en aðalhvatamaðurinn að stofnun Líknar var læknirinn Halldór Gunnlaugsson. ,,Hann fann að sterk þörf var fyrir samhug fólks og því fannst honum kjörið að stofna kvenfélag. Stofnendur félagsins voru 23 konur.

Halldór gaf félaginu nafn sem hann taldi að væri viðeigandi samkvæmt tilgangi þess sem var að líkna og hlynna að bágstöddum sjúklingum í Vestmannaeyjum svo og til þess að veita aðra þá aðstoð sem félagið sæi sér fært um að veita hverju sinni.

Talið er að þetta hjálparstarf sé fyrsti vísirinn að heimahjúkrun í Vestmannaeyjum. ,,Í dag eru félagskonur 119 skráðar. Þær hafa í öll þessi ár unnið mikið og óeigingjarnt sjálfboðastarf. Þær hafa veitt mörgum líknandi hönd og komið að hinum ýmsu verkefnum til mikilla heilla fyrir samfélagið okkar. Því er vert að þakka Líknarkonum fyrir óeigingjarnt starf þeirra,'' sagði Jóna Sigríður og las næst erindi upp úr ljóði eftir Magnús Jónsson frá Sólvangi sem var samið í tilefni af 25 ára afmæli Líknar og lýsir atorku þessara kvenna mjög vel. 

 

Þú „Líkn“ ei gleymist, margir muna

Hið mikla starf sem vinnur þú.

Þú hlustar, ef að heyrist stuna

Er hjálpin eðli sínu trú:

Að verma kaldan, veikan styðja

Og varnarfáum létta stríð.

Þér konur, lífi ykkar iðja,

Að unna, mýkja og græða langa tíð.

 

,,Fyrir hönd bæjarstjórnar Vestmannaeyja óska ég félögum Kvenfélagsins Líknar innilega til hamingju með afmælið,'' sagði Jóna Sigríður að lokum.

Við þetta tækifæri afhenti Trausti Hjaltason, bæjarfulltrúi, Kvenfélaginu Líkn stóran blómvönd frá bæjarstjórn sem Guðbjörg Jónsdóttir, fyrrum formaður félagsins tók á móti.

 

 

— ♦ ♦ ♦ 

 

Hátíðarsamþykkt bæjastjórnar

 

 

Ráðhúsið hljóti aftur fyrri virðingarsess

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti á sérstökum hátíðarfundi í tilefni af 100 ára afmælis Vestmannaeyjakaupstaðar að halda áfram endurbótum á Ráðhúsi Vestmannaeyja við Stakkagerðistún með það að markmiði að húsið hljóti þann virðingarsess sem því sæmir og að innan veggja þess rúmist m.a. viðhafnarsalur og hluti safna Vestmannaeyjabæjar. 

Undirbúningur, áætlanagerð og nánari tillögur um framtíðarhlutverk hússins verði kynnt bæjarbúum haustið 2019. Áætlað er að endurbótunum ljúki á þremur árum.

Hildur Sólveg Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi fygldi samþykktinni úr hlaði og fór yfir sögu og hlutverk Ráðhússins frá byggingu þess til dagsins í dag. 

,,Húsið var byggt sem Sjúkrahús Vestmannaeyja og var tekið í notkun 1928. Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni þáverandi húsameistara ríkisins og var bygging þess mikið átak á sínum tíma. Húsið var gert að Ráðhúsi Vestmannaeyjabæjar 1977 að loknum miklum endurbótum, en þá hafði engin starfsemi verið í húsinu frá upphafi Heimaeyjargossins 23. janúar 1973 og starfsemi Sjúkrahússins flutti í nýtt húsnæði haustið 1974. Húsið gegndi hlutverki ráðhúss til haustsins 2016.

Hildur Sólveig bar síðan upp hátíðarsamþykkt bæjarstjórnar sem var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

 

 

Hægt er að horfa á fundinn með því að smella á neðanverðan tengil:

YouTube-myndband af hátíðarfundinum

 

— ♦ ♦ ♦ 

 

Aðrar myndir frá fundinum