Goslokahátíðin 2019

Laufey kynnir bókina sína í Sagnheimum

 

 

Milli klukkan 15:00 og 16:00 í dag, laugardag kynnir Laufey Jörgensdóttir bók sína, Undurfagra ævintýr, þjóðhátíðarlög Vestmannaeyja 1933-2019 í þjóðhátíðartjaldinu í  Sagnheimum. Það eru Sögur útgáfa sem gefa bókina út og mun fulltrúi frá þeim vera með Laufeyju á staðnum og bjóða þau upp á þjóðhátíðarstemningu og léttar veitingar.

 

Kápa bókarinnar


Bókin kemur út fyrir næstu Þjóðhátíð.


„Tæp níutíu ár eru liðin frá útgáfu fyrsta þjóðhátíðarlags Vestmannaeyja og síðan þá hafa fjölmargar tónlistarperlurnar verið þræddar á festi langrar sögu Þjóðhátíðar. Alls eru þjóðhátíðarlögin orðin sjötíu og sjö talsins og liggja þar dýrmæt menningarverðmæti sem mikilvægt er að skrá og varðveita á einum stað,“ segir í frétt frá útgáfunni.

 

Á síðasta ári var ákveðið að ráðast í útgáfu bókar um þennan þjóðararf og mun hún koma út í sumar í tilefni hundrað fjörutíu og fimm ára afmælis Þjóðhátíðar og hundrað ára kaupstaðarafmælis Vestmannaeyjabæjar.

 

Undurfagra ævintýr mun geyma nafnaskrá hollvina bókarinnar og gefst öllum Vestmannaeyingum og öðrum unnendum Þjóðhátíðar og tónlistar hennar að gerast hollvinir og eignast bókina í leiðinni.