Goslokahátíðin 2019

Laufey kynnir bókina sína í Sagnheimum

 

Laufey Jörgensdóttir

 

Undurfagra ævintýr er mikill kostagripur

Á laugardeginum kynnti Laufey Jörgensdóttir bók sína, Undurfagra ævintýr, þjóðhátíðarlög Vestmannaeyja 1933 til 2019 í þjóðhátíðartjaldinu í  Sagnheimum. Það er Sögur útgáfa sem gefur bókina út og var fulltrúi frá þeim með Laufeyju á staðnum og buðu þau upp á þjóðhátíðarstemningu og léttar veitingar.

 

Bókin er komin út og hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir vönduð vinnubrögð og fallegt útlit. Er þetta frumraun Laufeyjar í útgáfustarfsemi og væri gaman að sjá meira frá henni í framtíðinni. Það var fjölmennt í þjóðhátíðartjaldinu og mikil stemning. Fólk lofaði bókina sem hlýtur að vera skyldueign á hverju Eyjaheimili, hvar sem það er í heiminum.

 

Kápa bókarinnar

 

„Tæp níutíu ár eru frá útgáfu fyrsta þjóðhátíðarlags Vestmannaeyja og síðan hafa fjölmargar tónlistarperlurnar verið þræddar á festi langrar sögu Þjóðhátíðar. Alls eru þjóðhátíðarlögin orðin sjötíu og sjö talsins og liggja þar dýrmæt menningarverðmæti sem mikilvægt er að skrá og varðveita á einum stað,“ segir í frétt frá útgáfunni.

 

Það var að frumkvæði Laufeyjar að ákveðið var á síðasta ári að ráðast í útgáfu bókar um þennan þjóðararf og var útkoman tengd hundrað fjörutíu og fimm ára afmæli Þjóðhátíðar og hundrað ára kaupstaðarafmælis Vestmannaeyjabæjar.

 

Eins og áður segir er Undurfagra ævintýr kostagripur þar sem má finna öll lög og texta laganna 77 ásamt skemmtilegum myndum og viðtölum og frásögnum sem tengjast lögunum. Líka er hægt að hlusta á lögin í gegum Spotify og það oftar en ekki í fleiri en einni útgáfu. Kostur fyrir þá sem kunna að nýta þá tækni.

 

Undurfagra ævintýr geymir nafnaskrá hollvina bókarinnar og gefst öllum Vestmannaeyingum og öðrum unnendum Þjóðhátíðar og tónlistar hennar að gerast hollvinir og eignast bókina í leiðinni.