Goslokahátíðin 2019

Finnur sýndi 75 myndir á 75 ára afmælinu:

 

Sjaldan eða aldrei verið fleiri við opnun sýningar í Akóges

Sigurfinnur Sigurfinnsson, myndlistarmaður og kennari var með sýningu á verkum sínum í Akóges um Goslokahelgina. Hann fagnaði nýlega 75 ára afmæli og ákvað með góðum fyrirvara að fagna tímamótunum með 75 verka sýningu. Það gekk eftir en ekki leit vel út um tíma, hann fékk alvarlegt hjartaáfall en það frekar hvatti hann en latti til átaka og upp fór sýning með tilætluðum fjölda verka.

 

 

Heiðurshjónin Þorbjörg og Finnur gátu ekki kvartað yfir móttökunum. Sjaldan hafa jafn margir verið samankomnir við opnun myndlistarsýningar í AKÓGES. Þorbjörg og Finnur tóku vel á móti fólki og skemmtu sér hið besta. Myndirnar bera helstu höfundareinkenni Finns sem sækir myndefnið mikið í næsta nágrenni þar sem Eyjarnar og eitthvað þeim tengt er oftast í aðalhlutverki. Náttúran undir yfirborði og yfir, fuglarnir, sagan eða bara snjór í vetrarlok var það sem fyrir augu bar.

 

 

„Já. Ég átti afmæli 18. júní og datt í hug að halda upp á 75 árin með sýningu á jafnmörgum verkum sem ég skipti í sex eða sjö flokka. Þann fyrsta kalla ég, Úr iðrum jarðar sem eru fantasíur sem vísar til þess sem undir okkur kraumar,“ segir Finnur sem í allt hefur tekið þátt í um 30 sýningum, einn og í samstarfi við aðra.

 

 

Næst kemur myndaröðin, Allir í bátana. „Hún minnir á gosnóttina 1973 þegar allir þurftu að flýja eyjuna okkar. Nokkuð grófar myndir en segja sína sögu. Svo eru það myndir sem ég vinn með spöðum, aðferð sem ég hef verið að þróa.“

 

 

Þá er það syrpa sem varð til í snjónum í vetur. „Þetta eru myndir frá Vestmannaeyjum þegar snjórinn kom seinni part vetrar. Birtan var svo skemmtileg að ég stóðst ekki mátið og er bara nokkuð ánægður með útkomuna. Mínar hefðbundnu Eyjamyndir voru á sínum stað auk þess sem ég sýndi 18 vatnslitamyndir þar sem víða er leitað fanga. Loks eru það svo Eyjafuglarnir eins og fýllinn, hrafninn og lundinn sem áttu sinn sess á sýningunni. Það má því segja að fjölbreytnin sé í fyrirrúmi hjá kalli,“ segir Finnur og brosir.

 

 

Lét ekki hjartaáfall stoppa sig

Það brosti þó ekki við honum lífið þegar hann fékk alvarlegt hjartáfall í vetur.  „Ég var í miðju kafi að vinna verk á sýninguna, var með 45. myndina þegar ég fæ hjartaáfall. Leit ekki illa út í fyrstu en það endaði með því að ég var högginn og skipt um æðar við hjartað og ósæðina. Ég var þokkalega fljótur að ná mér. Er ég viss um að löngunin og viljinn til að klára sýninguna hafi skipt miklu og hjálpað til að ég náði bata,“ segir Finnur sem geislaði af heilbrigði eftir hálfan mánuð með fjölskyldunni á Spáni.

 

 

Sýningin var opnuð fimmtudaginn 4. Júlí kl. 17.00. „Þar mætti Bjössi Greifi, sem á eitt af þjóðhátíðarlögunum og tryllti lýðinn með félögum sínum í Greifunum á þjóðhátíðum hér áður, að taka nokkur lög,“ sagði Finnur og voru allir velkomnir á sýninguna sem var opin alla helgina.