Goslokahátíðin 2019

Oddgeir og óperur  - Eyjakonurnar Silja Elsabet og Helga Bryndís í Hvítasunnukirkjunni:

Náðu að hræra hjörtu Eyjamanna svo um munaði

 

 

Silja Elsabet

 

Helga Bryndís

 

Á fimmtudagskvöldinu voru Eyjakonurnar, Silja Elsabet Brynjarsdóttir óperusöngkona og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanónleikari með tónleika í stóra salnum í Hvítasunnukirkjunni sem þær kölluðu, Oddgeir og óperur.

 

Tónleikarnir voru vel sóttir og eru meðal atriða sem stóðu upp úr hátíðarhelgina. Silja Elsabet er ein okkar efnilegasta söngkona það sýndi hún þegar vatt sér í hverja aríuna af annari og rúllaði Wagner upp eins og að drekka vatn. Helga Bryndís er einstök sem konsertpíanisti en þarna kom hún fram sem snilldar undirleikari. Og saman náðu þær að heilla gesti. Aríurnar í þyngri kantinum en reyndu á og þar fengu listakonurnar að sýna hvað í þeim býr.

 

Það var svo eftir hlé að þær náðu að hræra hjörtu Eyjamanna svo um munaði þegar þær tóku fyrir lögin hans Oddgeirs í útsetningum hans sjálfs. Með forspili og fleiru sem ekki hefur hlotið náð listamanna sem fluttu lögin eftir daga Oddgeirs. Þær stigu eitt skref aftur, til upprunans og gerðu það af þvílíkri næmni og væntumþykju fyrir lögunum að jafnvel veggirnir í Gömlu Höllinni, sem hafa frá svo mörgu að segja táruðust.

 

Ekki skemmdu bráskemmtilegar kynningar þeirra á milli laga sem lyfti þessari stund á enn hærra plan.  Þá verður að minnast á kynnirinn, Pál Magnússon, alþingismann og bróður Bryndísar sem skemmti gestum með afrekum sínum í tónlist sem aldrei náðu flugi.

 

Vestmannaeyingar geta stoltir litið til þessara tónleika þar sem flest lögin urðu til hér í Eyjum og listakonurnar ólust hér upp og tóku sín fyrstu skref í tónlistinni í Vestmannaeyjum.

 

Beint í óperudeildina

Silja Elsabet, mezzosópran hlaut sína grunntónlistarmenntun í Tónlistarskóla Vestmannaeyja. Eftir stúdentspróf hóf Silja nám við Söngskólann í Reykjavík og lauk áttunda stigi árið 2015. Síðastliðin fjögur ár hefur Silja stundað nám við Royal Academy of Music London og hlaut bachelor gráðu í tónlist  10. júlí ásamt kennararéttindum.

 

„Ég er svo heppin að fá að hoppa yfir meistaragráðuna og fer beint í óperudeild skólans. Fæ ég að syngja á tónleikum og í óperum og má líta á þetta sem einskonar starfsnám. Það hefur ekki gerst áður að nemandi hafi fengið að hoppa yfir masterinn og er þetta mikill heiður fyrir mig,“ segir Silja Elsabet sem ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í sínu fyrsta verkefni.

 

„Það er sjálf Töfraflautan eftir Mozart þar sem ég syng Þriðju dömu. Ég hlakka mikið til og það sama átti við um tónleikana á fimmtudaginn. Ég var svo heppin að fá Helgu Bryndísi í lið með mér. Hún er ekki bara frábær undirleikari, heldur líka frábær manneskja.“

 

„Óperuaríurnar eru allt lög sem ég heillaðist af við fyrstu hlustun. Langaði mig til að leyfa Vestmannaeyingum að heyra þau. En engin lög hafa haft eins mikil áhrif á mig og Oddgeirslögin og það hefur lengi verið draumurinn að halda tónleika með lögunum hans. Nú fékk Eyjafólk og gestir tækifæri til að fá smjörþefinn af því. Helga Bryndís er dásamlegur undirleikari og Eyjakona eins og ég og Oddgeirslögin snerta okkur báðar. Því ætlum við að koma til skila og ég veit að það tekst,“ sagði Silja Elsabet sem líka kemur fram á stóru tónleikunum á föstudagskvöldið.

 

 

Hefur víða látið til sín taka

Með námi sínu í Reykjavík söng Silja sem einsöngvari með kór Langholtskirkju og Óperukór Reykjavíkur, tók þátt í óperuuppfærslum og tónleikum á vegum skólans.

 

Tónleikar utan skóla eru m.a. Eyjatónleikar í Hörpu, Frostrósartónleikar og einsöngstónleikar.

 

Síðastliðið haust fór fram keppni á vegum Sinfóníuhljómsveitar- og Listaháskóla Íslands. Þar var Silja ásamt þremur öðrum ungum einleikurum valin til að flytja verk með hljómsveitinni. Fékk hún góðar viðtökur og frábæra dóma. Silja hefur fengið mörg tækifæri í London má þar helst nefna óperusenur, ljóðahringi, skandinavíska tónleika og íslenska tónleika.

 

Glæsilegur ferill

Helga Bryndís Magnúsdóttir hóf tónlistarnám sitt í Vestmannaeyjum hjá Guðmundi H. Guðjónssyni því næst fór hún í Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hún lauk einleikara- og kennaraprófi árið 1987.  Hún  stundaði síðan framhaldsnám við Konservatoríið í Vínarborg og Sibeliusarakademíuna í Helsinki. 

 

Hún hefur leikið fjölmörg einleiksprógrömm, m.a. í Salnum í Kópavogi, á Listahátíð í Reykjavík og um allt land. Hún hefur auk þess leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit  áhugamanna, píanókonserta eftir Ravel, Poulenc, Brahms, Gershwin og Bach. Hún hefur leikið mikinn fjölda tónleika með fremstu söngvurum og hljóðfæraleikurum landsins og hljóðritað marga geisladiska í samstarfi við aðra. Fyrir tveimur árum síðan lék hún einleiksverk eftir Robert Schumann inná geisladisk.

 

Hún starfar sem píanóleikari við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólana í Kópavogi og Reykjanesbæ.

 

 

Videó: Halldór B. Halldórsson

► YouTube