Goslokahátíðin 2019

Frábærir afmælistónleikar í Íþróttamiðstöðinni:

Glæsileg afmælisgjöf Vestmannaeyjabæjar

 

 

Það var ekkert til sparað á stórtónleikunum í Íþróttamiðstöðinni klukkan 18.00 og 21.00  föstudagskvöldið 5. júní. Þeir voru haldnir í tilefni af 100 ára afmæli Vestmannabæjar og voru hinir glæsilegustu. Þar komu fram strengjasveit skipuð félögum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands, Björgvin Halldórsson, Ragnhildur Gísladóttir, Júníus Meyvant, Sverrir Bergman, Halldór Gunnar Pálsson, Silja Elsabet Brynjarsdóttir, Lúðrasveit Vestmannaeyja og Karlakór Vestmannaeyja. Úrvals hljóðfæraleikarar undir stjórn Jóns Ólafssonar slógu ekki feilnótu. Fjölbreyttur lagalisti þar sem Goslokalagið var m.a. frumflutt af drengjunum í Hálft í hvoru sem tíðum skemmti Eyjamönnum á síðustu öld.

 

 

Fyrri tónleikarnir voru einkum ætlaðir ungu kynslóðinni og ungu barnafólki, en seinni tónleikarnir fólki eldra en 18 ára. Um var að ræða sömu dagskrá.

 

Mjög var vandað til alls og notast við stórt svið og fullkomið hljóðflutningskerfi. Sæti voru á pöllum og stólum á gólfi, alls um 1300 sæti þannig að gera má ráð fyrir að vel á þriðja þúsund manns hafi sótt tónleikana. Þeir þóttu mjög vel heppnaðir og skemmtu bæði gestir og tónlistarfólk sér hið besta. Það má því segja að þessi afmælisgjöf Vestmannaeyjabæjar til Eyjafólks og gesta hafi staðist væntingar og vel það.

 

Kynnar á fyrri tónleikunum voru Daníel Franz Davíðsson og Ísey Heiðarsdóttir, ungir krakkar sem stóðu sig frábærlega.

 

Á þeim seinni var Geir Reynisson kynnir og gerði það með glans.

 

Ber að þakka öllum sem komu að uppsetningu og flutningi tónlistar hjartanlega fyrir frábæra kvöldstund.