Goslokahátíðin 2019

Veituhúsið á Skansinum - Listasýning og gjörningur við opnun

 

 

 „Ég er svo heppin að hafa „farið í sveit“ á sumrin til Þóru og Júlla frænda á Heiðaveginum og síðar Þóru systir og Óla til Vestmannaeyja sem krakki og unglingur,“ sagði Ásta Vilhelmína Guðmundsdóttir sem ásamt Sung Beag var með listasýninguna Náttúru hamfarir /náttúrulegar hamfarir í Veituhúsinu á Skansinum. Við opnunin var Sung Beag með gjörning.

 

„Ég á svo dýrmætar og yndislegar minningar frá þessum tíma sem ég er svo þakklát fyrir. Ég fékk tækifæri til að kynnast náttúrunni, rótunum mínum og fólkinu mínu sem ég dái og dýrka.

 

Í Vestmannaeyjum eru náttúruöflin stöðugt að verki. Eldfjöllin tvö sem vaka yfir og móta landið og fólkið. Krafturinn í hafinu sem heldur utan um okkur öll, vaggar okkur, hristir upp í okkur, sefar, fæðir og elur. Og svo vindurinn. Allt þetta hefur mótað mig og minn hluta þessarar sýningar,“ sagði Ásta um áhrifavaldana í lífi sínu.

 

Sung Baeg

Sung Baeg er listamaður fæddur og uppalin í hafnarborginni Busan í Suður Kóreu 1975. Í listsköpun sinni vinnur hann í ýmsa miðla fer ótroðnar slóðir sem byggjast oft á innsetningum eða skúlptúr. Hann hefur ferðast víða og hlotið viðurkenningar fyrir listsköpun sína.

 

Hann hefur einning staðið fyrir og stýrt listahátíðum „Art in Nature“ í heimaborg sinni Busan. Þar hefur fjöldi listamanna jafnt frá Suður Kóreu og víðsvegar að úr heiminum dvalið, unnið og sýnt afrakstur verka sinna til fjölda ára.

 

„Ég hef í gegnum Sung Baeg verið svo lánsöm að fá að kynnast Suður Kóreu, þessu framandi landi og þá sérstaklega Busan sem byggðist á nálæginni við hafið eins og Vestmannaeyjar. Það sem heillaði mig mest við Busan fyrir utan það að kynnast fólkinu og öðrum menningarheimi var fiskmarkaðurinn og lífið í kringum hann. Ég hlakka til samsýningar okkar og að kynna Sung Baeg fyrir Vestmannaeyjum og Goslokahátíð,“ sagði Ásta að endingu.