Goslokahátíðin 2019

GÓSS snerti strengi í Alþýðuhúsinu

 

 

Hljómsveitin GÓSS, Sigurður Guðmundsson, Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskar héldu tónleika í Alþýðuhúsinu, Vestmannaeyjum, fimmtudaginn 4. júlí.GÓSS hefur hlotið einróma lof fyrir tónleika sína um land allt undanfarin ár og hélt þarna sína fyrstu tónleika í Vestmannaeyjum. Tónleikadagskráin var samansett af ýmsum lögum frá ferli meðlima sveitarinnar en einnig mikið af þeirra uppáhaldslögum, með hljómsveitum og tónlistarfólki á borð við Neil Young, Abba og NýDönsk svo fátt eitt sé nefnt.

Um var að ræða hugljúfa og einlæga kvöldstund með okkar fremsta tónlistarfólki og það voru margir sem svöruðu kallinu og skemmtu sér vel við ljúfa tóna.

Um hljómsveitina:

Hljómsveitin Góss er tríó, skipuð þeim Sigríði Thorlacius, Sigurði Guðmundssyni og Guðmundi Óskari Guðmundssyni. Er nafn sveitarinnar einmitt sett saman úr fyrstu stöfunum í nöfnum meðlima.

Þau Sigríði Thorlacius og Sigurð Guðmundsson þarf vart að kynna en þau hafa lengi verið á meðal þekktustu og dáðustu söngvurum landsins. Guðmundur Óskar er einn fremsti og fjölhæfasti bassaleikari landsins en hann hefur leikið með ótrúlegum fjölda hljómsveita, auk þess að vinna sem upptökustjóri fyrir fjölmörg verkefni.

Sveitin tengist sterkum fjölskyldu- og vináttuböndum en Guðmundur Óskar og Sigurður eru bræður, Sigríður og Guðmundur eru svo saman í Hjaltalín og öll þrjú hafa þau unnið saman í fjölmörgum mismunandi verkefnum. Það má því segja að það hafi beinslínis verið fyrirsjáanlegt þegar hljómsveitin GÓSS varð til sumarið 2017. Þá lét sveitin draum verða að veruleika og hélt tónleikaferð um landið. Sveitin endurtók förina árið eftir og hefur jafnframt spilað við alls kyns tilefni um allt land.

Hvar sem sveitin hefur stigið á stokk hafa móttökurnar verið gríðarlega jákvæðar, og því fannst meðlimum sveitarinnar ekki annað hægt en að drífa sig í upptökuverið og reyna að fanga þann jákvæða ogg bjarta anda sem skapast hefur á tónleikum sveitarinnar.

Upptökur fór fram í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ og var ákveðið að taka fyrir nokkrar af þeirra uppáhalds íslensku dægurlagaperlum, eða Allt frá Ó, blessuð vertu sumarsól og Sólkinsnætur til Stjórnarinnar, NýDanskrar, Spilverk þjóðanna og alls konar þar á milli. Reyndar fær eitt lag með Leonard Cohen að fylgja með.

 

 

Mugison sló hvergi af

 

 

Segja má að Mugison hafi slegið lokatóninn á glæsilegri afmælis- og goslokahátíð í Alþýðuhúsinu þann 7. júlí. Hann var einn á ferðinni með kassagítarinn og líka eiginkonuna, Rúnu svo því sé haldið til haga. Og hún tók undir með honum í nokkrum laganna. Kom og bætti um betur.

 

 

„Ég búinn að semja slatta af nýjum lögum á íslensku sem ég þarf að fá að spila fyrir ykkur, en ekki of mikið í einu, tvö til þrjú lög í mesta lagi á tónleikunum. Annars verður maður bara ringlaður,“ sagði Mugison þegar hann kynnti komu sína til Eyja.

Fékk hann ömurlega flensu síðast og komst ekki í vor en nú var hann mættur. Til í slaginn og gott betur. Alþýðuhúsið var nánast fullsetið sem verður að teljast gott á sunnudagskvöldi. Það kunni kappinn að meta, sló hvergi af í flutningi og kryddaði með mergjuðum sögum milli laga. Góður endir á einstakri helgi.