Óli á Stapa í myndum og máli

 

 

Ólafur R. Sigurðsson - Óli á Stapa, fyrrverandi lögregluvarðstjóri, vörubílsstjóri og trillukarl hefur löngum fitlað við listagyðjuna í litum og töluðu máli bæði í ljóðum og sögum.

 

 

Allt fékk þetta að njóta sín í Einarsstofu á uppstigningadag þegar Óli opnaði yfirlitssýningu á verkum sínum sem hann helgaði sjómönnum. Sjórinn var meginviðfangsefnið en hann á sér ýmsar hliðar eins og mátti sjá í verkum Óla.

 

 

Öllum myndunum fylgdi ýmist skýringartexti sem sagði frá afrekum og slysum til sjós eða vísa sem hæfði myndinni. Gaf þetta skemmtilegri sýningu meiri dýpt og skilning gesta á því sem Óli vildi koma á framfæri.