Bæjarstjórnarfundur unga fólksins – Stóðu sig mjög vel

 

Samgöngur, móttaka flóttamanna, afþreying og betri húsgögn í skólann

 

 

Það var fullt út úr dyrum í Kviku á bæjarstjórnarfundi unga fólks föstudaginn 15. febrúar. Tilefnið var 100 ára afmæli kaupstaðarréttinda Vestmannaeyja um leið og unga fólkinu gafst kostur á að koma framfæri málum sem þau telja mikilvæg. Og allt fór fram eins og um reglulegan bæjarstjórnafund væri að ræða. Tillögur lagðar fram, þær ræddar áður en gengið var til atkvæðagreiðslu. Góð stemning var á fundinum og fylgdust gestir með af aðhygli.

 

Fundurinn var haldinn í samstarfi við Grunnskóla Vestmannaeyja og voru það nemendur elstu bekkja skólans sem höfðu veg og vanda af fundinum. Krakkarnir fengu áður leiðsögn um fundarsköp og hvernig bæjarstjórnarfundir fara fram. Voru því klár í slaginn.

Fundinn sátu Ægir Freyr Valsson forseti, Guðbjörg Sól Sindradóttir bæjarstjóri og bæjarfulltrúarnir Eva Sigurðardóttir, Svala Guðný Hauksdóttir, Lísa Guðbjörnsdóttir og Alexander Júlíusson. Fundargerð ritaði Hinrik Ingi Ásgrímsson.

 

Komu víða við

Fyrsta mál á dagskrá voru samgöngumál, gjaldskrá fyrir ungt fólk með flugi og gjaldskrá fyrir Vestmanneyinga með Herjólf. Eftirfarandi tillaga var lögð fram: Að allir Vestmannaeyingar fái forgang í Herjólf innan ákveðins ramma ef pantað er með ákveðið mörgum dögum á undan. Fimm voru sammála tillögunni og einn sat hjá.

Í annarri tillögunni var Flugfélagið Erni hvatt til þess að bjóða ungu fólki í Vestmannaeyjum skólaafslátt í flug t.d. með klippikortum. Þar voru fimm samþykkir og einn sat hjá.

Þriðja tillagan fjallaði um móttöku flóttamanna í Vestmannaeyjum. Hvatti fundurinn bæjarstjórn Vestmannaeyja til þess að skoða þann möguleika að taka á móti flóttamannafjölskyldum til Eyja. „Mikilvægt er að huga að öllum þáttum í þeirri vinnu. Takmarka hversu mörgum er boðið, finna húsnæði fyrir fjölskyldurnar og aðstoða þær við að aðlagast samfélaginu,“ segir í tillögunni sem fékk talsverða umræðu á fundinum.

Hún var svo borin undir atkvæði og var samþykkt af þremur bæjarfulltrúum og þrír sátu hjá sem endurspeglaði umræðuna á undan.

 

Vilja meiri fjölbreytni

Þá var komið að tillögu um afþreyingu fyrir ungt fólk í Vestmannaeyjum. Nefndar voru hugmyndir um  mini golf, lazer-tag, paint ball og keilu. Í umræðum var einhugur meðal bæjarfulltrúa um að þarna væri verk að vinna. Var eftirfarandi tillaga lögð fram:

„Bæjarstjórn unga fólksins hvetur bæjarfulltrúa í bæjarstjórn Vestmannaeyja að skoða að bjóða upp á meiri afþreyingu í Vestmannaeyjum. Við hvetjum til þess að fundið verði húsnæði fyrir slíka afþreyingu og m.a. fengið fyrirtæki eins og pizzastað í samstarf sem gæti verið að störfum í sama húsnæði. Einnig væri hægt að nýta húsnæðið undir starfið sem er í félagsmiðstöð.“

Tillagan var samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.

Eftir umræður um framboð á íþróttum fyrir ungt fólk í Vestmannaeyjum samþykkti bæjarstjórn unga fólksins að hvetja til frekara framboðs í íþróttum í Vestmannaeyjum.

 

Betri borð og stólar fyrir nemendur í Grunnskóla Vestmannaeyja var greinilega hitamál. Tóku flest til máls og sögðu þetta brýnt því núverandi húsgögn séu henti ekki.

 

Í tillögu hvatti bæjarstjórn unga fólksins til þess að húsbúnaður eins og borð og stólar verði endurnýjað í GRV. „Mikilvægt er að hafa í huga þægindi húsbúnaðarins t.d. þannig að stólar og borð séu hækkanleg eða lækkanleg. Bæjarstjórn unga fólksins hvetur bæjarstjórn Vestmannaeyja til þess að skoða þessi mál til hlítar og setja pening í skólann fyrir þetta.

 

Var tillagan sem með sex samhljóða atkvæðum

 

Fleira ekki gert, fundinum, sem hófst klukkan 12.00 slitið kl. 12.22. Það var greinilegt að krakkarnir, bæði gestir í sal og bæjarfulltrúarnir, kunnu að meta þessa nýbreytni og sagði Íris bæjarstjóri að tillögurnar yrðu teknar til skoðunar í bæjarstjórn Vestmannaeyja.

Á eftir var boðið upp á pizzur sem runnu ljúflega í mannskapinn.

 

Hægt er að horfa á fundinn með því að smella á neðaverðan tengil.

Youtube-myndband af fundinum