Ágústa og Kristján fagna opnun Náttúrugripasafnsins:

Eins og að fá barnið sitt aftur

 

 

 

Hjónin Ágústa Friðriksdóttir og Kristján Egilsson hafa sterk tengsl við Fiska- og náttúrugripasafn Vestmannaeyja. Hún sem dóttir Friðriks Jessonar sem ýtti hugmynd Guðlaugs Gíslasonar, sjálfstæðismanni,  bæjarstjóra og alþingismanni úr vör og stýrði safninu í áratugi. Kristján var tengdapabba sínum lengi innanhandar á safninu og tók við af honum í fyllingu tímans.

 

„Það liggur við að maður sé uppalin á safninu frá 1964, þegar það var opnað. Áður fylgdist maður með þegar pabbi var að stoppa upp,“ segir Ágústa. „Guðlaugur Gíslason á hugmyndina . Kemur til pabba og spyr hvort hann sé tilbúinn að koma með sér í þetta ævintýri. Pabbi sló þegar til.“

 

„Friðrik fór erlendis til að kynna sér rekstur sjávardýrasafna, til Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur og kom fróðari til baka,“ segir Kristján. „Svo voru karlarnir í Smið fengnir til að innrétta og það var gert dag frá degi. Engar teikningar en unnið eftir hugmyndum Friðriks eins og hann hafði séð þetta gert úti.  Hann vildi ekki raða fuglunum upp í hillur heldur reyna að gera þetta eins náttúrulegt og hægt var. Þeir voru sýndir á flugi og við sem náttúrulegastar aðstæður. Var þetta að mestu leyti eins og við sjáum safnið í dag.“

 

Sumt úr einkasafni

Þau sögðu að meirihlutinn af þessum náttúrumunum sé kominn frá Friðriki sem lagði safninu til hluti úr sinni einkaeign. „Þegar hann var að byggja upp safnið var hann að stoppa upp í sínum frítíma. Hann kenndi mér að stoppa upp og ég hef haldið því áfram, t.d. þegar kom að því að það þurfti að endurnýja. Hér eru líka fuglar frá Inga Sigurjóns og nokkrir frá Óskari Sigurðs. Mest eru þetta þó munir sem bæjarbúar hafa fært safninu enda hafa þeir í gegnum tíðina litið á það sem sitt safn,“ segir Kristján.

 

„Það var eins og Lind (Elíasar) sagði eitt sinn og lýsir best hug bæjarbúa til safnsins;  -Við áttum safnið sagði hún og Figgi og Kristján áttu að passa það.“

 

Þau segja að bæjarbúar hafi alla tíð verið safninu mjög velviljaðir og fólk duglegt að koma með börnin og auðvelt og gaman hafi verið að segja þeim frá fiskunum og öðru sem hér var,“ segir Ágústa. „Kennarar komu líka með nemendur og létu gera verkefni þar sem þau gátu nýtt það sem safnið bauð upp á,“ segir Kristján.

 

Þau eru mjög sátt að sjá safnið lifna við að nýju og hafa lagt hönd á plóg við undirbúninginn. „Það er eins og maður sé búinn að fá barnið sitt aftur. Þetta er alveg dásamlegt,“ segir Ágústa. „Það skemmir ekki hvað Hörður er áhugasamur. Hann hrífur mann með,“ bætir Kristján við og þau hlakka til sunnudagsins.

 

 

„Það sem kemur nýtt inn er salurinn þar sem fiskabúrin voru. Alveg frábær sýningarsalur sem Hörður kallar Djúpið og býður upp á mikla möguleika. Þar er hægt að setja upp sýningar og fá sýningar annars staðar frá,“ sagði Kristján að endingu.

 

 

Njáll Ragnarsson formaður bæjarráðs opnar sýningu á munum safnsins, fugla- og steinasafni, og Hörður Baldvinsson fjallar um sögu safnsins. Djúpið opnar sýninguna Fast þeir sóttu sjóinn. Slökkvistöðin opin í dag til kl. 16:00.