Saga um einstakt framtak og mikla vinnu

Gott framtak hjá Siggu Ingu

 

 

Eitt merkasta frumkvæði Eyjamanna í íþróttum er Tommamótið í Vestmannaeyjum, fótboltamót fyrir sjötta flokk drengja, níu og tíu ára sem fyrst var haldið 1984. Týrarar héldu mótið sem átti eftir að stækka og dafna en þarna var grunnurinn lagður sem haldist hefur lítið breyttur síðan. Hugmyndin var eins manns, Lárusar heitins Jakobssonar sem var laginn að fá fólk á sitt band. Þar með fór boltinn að rúlla og í ár var stærsta peyjamótið frá upphafi en Tommanafnið heyrir sögunni til og nú er það Orkumótið.

 

 

Seinna fóru Þórarar af stað með Pæjumót sem byggt var á sömu hugmyndinni. Það hefur gengið í gegnum nokkrar breytingar en eftir að því var breytt í mót fyrir fimmta flokk kvenna hefur leiðin legið upp á við. Fyrir þetta unga fólk er mót í Vestmannaeyjum, eitthvað sem það aldrei gleymir og þau verða ekki stærri mótin á ferlinum þó þau heiti EM eða HM.  Það er ekki margt landsliðsfólkið sem ekki hefur keppt frá mótunum í Eyjum. Það sést á stóru mótunum sem íslensk landslið karla og kvenna taka þátt í.

 

 

Þróun mótanna

Sigríður Inga Kristmannsdóttir, sem stóð að sýningunni sem var í Einarsstofu á miðju sumri á afmælisárinu, hafði greinilega lagt mikla vinnu í sýninguna. Þar er saga mótanna rakin í máli og myndum. Nýtti margt Eyjafólk og gestir tækifærið til að rifja upp glæsta sögu mótanna sem eru fyrirmynd móta sem haldin eru fyrir yngra knattspyrnufólk um land allt. Og Orkumótið og TM mótið eins og pæjumótið heitir í dag halda velli og vel það.

 

 

Tommamótið fékk nafn af Tommahamborgurum sem Tómas Tómasson á Hamborgarbúllunni átti og rak árið 1984 þegar blásið var til fyrsta mótsins í Eyjum. Árið 1991 varð það Shellmótið og er Orkumótið í dag. „Núna héldum við að halda stærsta Orkumótið frá upphafi. Það mættu 120 lið frá 39 félögum og ef við margföldum með tíu verða keppendur um 1200 auk fararstjóra, þjálfara, foreldra og annarra sem fylgja liðunum. Þetta er því ansi stór hópur sem mætir,“ segir Sigga Inga sem vikuna á eftir tók á móti fimmta flokks stelpum á TM mótið.

 

Mjór er mikils vísir á við um peyjamótið því á fyrsta Tommamótið mættu 300 drengir frá 17 félögum og var mikið fjör. Þórarar gerðu sér lítið fyrir og urðu fyrst Tommamótsmeistararnir í flokki A-liða.

 

 

Þórara fara af stað

Þarna var samkeppni á milli félaganna og Þórarar vildu ekki láta sitt eftir liggja. Fóru af stað með fyrsta stúlknamótið árið 1999. „Það var fyrir annan, þriðja og fjórða flokk og fór ágætlega af stað. Það fór þó fljótlega að halla undan fæti því krökkunum fannst ekki spennandi að koma oft til Vestmannaeyja. Það var því orðið mjög lítið mót þegar ákveðið var að breyta þessu í mót fyrir fimmta flokk árið 2005. Þá voru þátttakendur um 300 en strax árið eftir voru liðin orðin 28 og fleiri þátttakendur. Í ár voru þær á milli 900 og 1000 frá 29 félögum,“ sagði Sigga Inga.

 

 

Fyrst hét mótið, Pæjumót Þórs, árið eftir var það Pæjumót Þórs og RC, 1993 var það Pepsímót Þórs og eftir sameiningu Þórs og Týs undir merkju ÍBV-íþróttafélags 1997 var það Pepsímót ÍBV, 1999 KÁ pæjumótið, 2000 Vöruvalsmótið, 2008 Pæjumót TM og frá 2015 hefur það verið nefnt TM mótið.

 

Sýningin byggði upp á tímalínu þar sem sagan er rakin. „Frá henni komu kassar þar sem dregnir voru út ýmsir þættir sem greint er frá í máli og myndum. Listi yfir alla sigurvegara mótanna og fleira athyglisvert kom fram. Líka verðlaunahafar sem komist hafa áfram og keppt með landsliðunum okkar og er listinn lengri en flesta grunar,“ segir Sigga Inga sem ætlar að halda áfram að kafa í sögu mótanna. „Í haust verða teknir upp tveir hlaðvarpsþættir með viðtölum og fleiri upplýsingum um mótin. Þeir verða settir inn á síðurnar okkar og veit ég þar á margt athyglisvert eftir að koma í ljós.“