Jón Óskar og Hulda Hákon í Einarsstofu

Fjallið eina og líka Ringo og Davíð

 

 

Hulda Hákon og Jón Óskar voru með sýningu í Einarsstofu sem þau kalla Fjallið eina. Það er ekki í fyrsta skipti sem þau listahjón slá saman en verkin eru eins ólík og þau eru mörg. Og þær eru margar persónurnar og náttúrumyndirnar sem birtast í myndum þeirra. Þar koma m.a. við sögu Ringo Starr, David Bowie og Davíð Oddsson og eyjarnar Faxasker og Kolbeinsey lengst í norðri. Ekki stórar en skarta þó mannvirkjum.

 

Margt var við opnunina og var gaman að heyra þau lýsa því sem fyrir augu bar á sýningunni.

 

 

Það má segja að þau hafi fært vinnustofu sína í Einarsstofu því þarna mátti sjá hvernig verkin verða til og var þetta einkum áberandi hjá Jóni. Hvað er fjallið eina? Þeirri spurningu svarar Hulda en Ringo og Bowie eru miklar hetjur í augum Jóns sem leitar líka í gamlar bíómyndir og plötur Bowie eru aldrei langt undan.

 

Jón sýndi hvernig verkin hans verða til og er eitt verkið bein tilvitnun í The Searcher, frægan vestra frá 1956. Annað vísar í plötu Bowies, Free Cloud. Líka í illskeittan Íra frá því fyrr á öldum sem skartaði sjö fingrum á hvorri hendi. Það kallar hann SVN FNGRS. Hulda er á öðrum slóðum og ögn jarðbundnari með sín persónulegu verk sem flestir þekkja.

 

 

Þýski Schäfer hundurinn þeirra, Heiða Berlín skipar stóran sess í listsköpun Huldu og Jóns Óskars. Hulda hefur látið hana fljóta inn í myndir sínar í gegnum tíðina, en Jón Óskar fer aðra leið. Saman áttu þau verk í sýningarskáp. Heiða Berlí III, fór með listamanninum út á Eyju og þau fundu ösku úr Eyjafjallajökli. Saman sköpuðu þau skúlptúra. Heiða Berlín gróf og bjó til mótið. Jón Óskar steypti í gips. Í bakgrunn skúlptúra Heiðu Berlínar/Jóns Óskars eru verk unnin af honum einum, máluð á krossvið.

 

Þessi verk voru í sýningarskáp þar sem líka er Fjallið eina, lítið fjölfeldi sem Hulda hefur gert. Annað fjölfeldi er þarna sem ber titilinn Sofandi draugar ásamt móti af færeyskum fótboltamanni sem fylgist með áhorfendum.

 

Líka afsteypa úr gúmmíi sem Hulda gerði fyrir DV og voru menningarverðlaun blaðsins. Þau voru fjöldaframleidd og þrýstingurinn á mótin við steypuna var 80 tonn. Einnig Bronseldur, umhverfisverðlaun Reykjavíkurborgar þar sem 950 gráða heitt bronsið rann inní mótinu sem eru þarna.

 

Sigurður RE 4 og síðar VE 15 var lengi hugstæður Huldu. Í skápnum eru örsmáar akrílmyndir frá 1986, þar sem þetta happafley er viðfangsefnið ásamt Þorsteini húsverði í Hafnarhúsinu í Reykjavík.

 

Um leið stóð yfir yfirlitssýning Huldu í Listasafni Íslands. Henni lýkur 29. september, Jón Óskar var með stóra sýningu á Listasafni Íslands árið 2015 og nú sýnir hann einnig í Eldheimum.