Saga og súpa - Frábær sýning og fyrirlestur:

Strokufólk frá Eyjum, Eyvindur og Halla og Jón Hreggviðsson

 

 

Sumarið í Sagnheimum byrjaði í hádeginu einn sunnudag í maí með miklum hvelli. Fyrst  með Sögu og súpu, sem er orðinn fastur liður í starfsemi Sagnheima. Á eftir var opnuð athyglisverð sýning í Einarsstofu á teikningum nemenda við Myndlistaskólann í Reykjavík af strokufólki og óskilammönnum á Íslandi frá 1570 fram til aldamótanna 1800. Athyglisverð sýning sem var vel þess virði að kíkja á og mannlýsingar sem fylgja hverri mynd eru í meira lagi kostulegar. Þar eiga Eyjamenn verðuga fulltrúa.

 

Daníel G. Daníelsson, sagnfræðinemi sem er upphafsmaður verkefnisins byrjaði með athyglisverðum fyrirlestri þar sem hann sagði frá tilurð þessa áhugaverða samstarfsverkefnis hans og Myndlistarskólans. Dró hann m.a. fram í dagsljósið nokkra eftirlýsta Eyjamenn og –konur frá þessum tíma. Sýningin í Einarsstofu samanstóð af 30 teikningum nemenda við Myndlistaskólann. Myndirnar eru unnar upp úr mannlýsingum í Alþingisbókum Íslands frá 1570 til 1800 sem þjónuðu þeim tilgangi að hægt yrði að bera kennsl á strokufólk og óskilamenn á Íslandi.

 

Samstarf Myndlistaskólans og Daníels spratt upp úr rannsóknum fyrir verkefnið, Fötlun fyrir tíma fötlunar sumarið 2018, Sýningin byrjaði í Háskóla Íslands í lok janúar, var á Minjasafninu á Akureyri í mars og í Eyjum og var opin í Einarsstofu til 6. maí. Héðan fór hún aftur til Reykjavíkur þar sem hún var hluti af útskriftarsýningu myndlistarnema. Eftir það fer hún í Egilsstaði.

 

 

Eyvindur flottur en Halla ógeðsleg

Á heimasíðu Sögufélagsins segir: „Hugmyndin að samstarfinu við Myndlistaskólann kviknaði hjá Daníel þegar hann fékk það verkefni að finna mannlýsingar í Alþingisbókunum. Mannlýsingarnar voru eins og ljósmyndir þess tíma, oft allítarlegar og til þess hugsaðar að hægt væri að bera kennsl á burtstrokið fólk og veita því ærlega ráðningu fyrir uppátækið.“

 

Eyvindi og Höllu, því þjóðþekkta útilegufólki voru gerð rækileg skil. Hann var sagður mikill tóbaksreykingamaður, með stærri mönnum, bólugrafinn, toginleitur, hirtinn og hreinlátur, mjúkmáll og þýður í geði. Hún hinsvegar fékk þá lýsingu að vera svipill og ógeðsleg, dökk á brún og brá, lág- og fattvaxin.

 

Annar þekktur Íslendingur, Jón Hreggviðsson var sagður móeygður, gráfölur í andliti, snarlegur og harðlegur í fasi.. Ekki er komin teikning af honum en það gæti orðið seinna því nemendur drógu 30 lýsingar úr bunka sem taldi í allt um 200 lýsingar á fólki af öllum stigum sem lent hafði upp á kant við stjórnvöld.

 

Varpar ljósi á samfélagið

„Það er því engin lognmolla í lýsingum og orðfæri í Alþingisbókum Íslands – hafi einhver haldið að réttarskjöl væru þurr og þreytandi texti. Í bókunum, sem eru fáanlegar hjá Sögufélagi, má finna margt forvitnilegt sem varpar skýru ljósi á ólíklegustu kima samfélags aldanna 16.-18.

 

Þegar sakamenn voru eftirlýstir buðu innviðir og boðleiðir ekki upp á annað en nákvæmar kjarngóðar lýsingar í orðum á útliti sem svo þurftu að berast manna á milli. Í raun holdi klæddir samfélagsmiðlar.

 

Teikningum myndlistarnemanna er ætlað að vekja þessa Íslendinga af jaðri samfélagsins til lífsins. Með nákvæmum lýsingum Alþingisbókanna á andlitsdráttum, líkamsbyggingu og klæðaburði ásamt hæfileikum listamannanna, tekst það mætavel.“

 

Ljósmyndir þess tíma

Á öðrum stað segir: „Eftirlýstir Íslendingar á 17. og 18. öld Í Alþingisbókum Íslands (Acta comitiorum generalium Islandiæ) er að finna um tvöhundruð mannlýsingar af burtstroknum Íslendingum og öðru óskilafólki frá 17. og 18. öld. Mannlýsingar voru ljósmyndir þess tíma og voru allar lesnar upp á Alþingi við Öxará fyrir framan embættismenn Danakonungs og annað áhrifafólk á Íslandi. Tilgangurinn? Að bera kennsl á burtstrokið fólk í von um að handsama það og veita því makleg málagjöld. Eins og sést eru mannlýsingarnar misítarlegar en jafnan er aldur tilgreindur, líkams- og hárvöxtur og litaraft húðar og hárs og áferð þess. Andlitsdrættir eru dregnir fram og lagt huglægt mat á ásýnd fólks og fas þess.

 

Margt tínt til

Gerð er grein fyrir viðmóti, hegðun og málrómi í samskiptum, ásamt kækjum og sérstökum talanda. Klæðnaði og öðrum aðbúnaði er gjarnan lýst sem og meðferð fjármuna. Tóbaks- og áfengisneysla er sérstaklega tilgreind ásamt sérhæfni og getu til hvers kyns vinnu. Að lokum er greint frá menntun, þá hvort viðkomandi sé skrifandi eða læs.“

 

 

Eyjakonan Steinunn

Á myndunum eru Eyvindur og Halla og á einni Steinunn Steinmóðsdóttir, Eyjakona sem 1695 var eftirlýst fyrir morð. Henni var lýst þannig: Flestum sýndist sem kreppt og karaómagi og svo í yfirlit sem afkræmisleg og sóttlera. Nokkuð toginleit og gráföl, nokkuð rauðbirkin, með litla hönd og hnífskurð þvert um innan til á hægri handlegg. Hver nú héðan leynilega burt strauk á næstliðnum laugardagsmorgni úr tjaldi lögsagnarans í Rangárþingi, Magnúsar Kortssonar.

 

Saga hennar er merkileg og efni í heila sögu fyrir áhugasama. Myndirnar varpa sýn á það hvernig Íslendingar litu út á þessum hörmungartímum og ekki er lýsingarnar, sem eru með hverri mynd síðri.

 

Mikil ölög á dapurlegu skeiði í Íslandssögunni

Það var skemmtileg en um leið dapurleg lýsing sem Daníel dró upp af ástandinu á Íslandi á 17. og 18. öld  sem er kannski aumasta tímabil Íslandssögunnar. En mannlýsingar á Íslandi verða ekki til á þessum tíma. Þær er að finna í Íslendingasögunum og nefndi Daníel nokkrar og lá beinast við að skella sér í sjálfa Eglu þar sem Agli Skallagrímssyni er lýst þannig:

 

„Egill var mikilleitur, ennibreiður, brúnamikill, nefið ekki langt, en ákaflega digurt, granstæðið vítt og langt, hakan breið furðulega, og svo allt um kjálkana, hálsdigur og herðamikill, svo að það bar frá því, sem aðrir menn voru.

 

Harðleitur og grimmilegur, þá er hann var reiður; hann var vel í vexti og hverjum manni hærri, úlfgrátt hárið og þykkt og varð snemma sköllóttur.“

 

Mannlýsingar úr Brennu-Njálssögu eru ekki síður myndrænar:

 

Gunnar Hámundarson á Hlíðarenda

Hann var mikill maður vexti og sterkur. Hann var vænn að yfirliti og ljóslitaður, réttnefjaður og hafið upp í framanvert, bláeygur og snareygur og roði í kinnunum; hárið mikið, gult, og fór vel. Manna kurteisastur var hann, harðgerr í öllu, fémildur og stilltur vel, vinfastur og vinavandur; hann var vel auðugur að fé.

 

Skarphéðinn Njálsson:

Hann var mikill maður vexti og styrkur, vígur vel, syndur sem selur, manna fóthvatastur, skjótráður og öruggur, gagnorður og skjótorður, en þó löngum vel stilltur.

 

Hann var jarpur á hár og sveipur í hárinu, eygður vel, fölleitur og skarpleitur, liður á nefi og lá hátt tanngarðurinn, munnljótur nokkuð og þó manna hermannlegastur.

 

Hallgerður langbrók Höskuldsdóttir:

„Hún var fríð sýnum og mikil vexti og hárið svo fagurt sem silki og svo mikið að það tók ofan á belti.“

Höskuldur til Hrúts bróður síns: „Hversu líst þér á mey þessa, þykir þér eigi fögur vera?“

Hrútur svaraði: „Ærið fögur er mær sjá og munu margir þess gjalda. En hitt veit ég eigi hvaðan þjófsaugu eru komin í ættir vorar.“

 

Böl var mikið

Sögusvið 17. og 18. aldar á Íslandi var heldur dapurlegt, einokunarverslun danskra kaupmanna hefst 1602, Spánverjavígin á Vestfjörðum 1615, Tyrkjaránið 1627, galdrafárið 1625 til 1683, hallæri og hafísar 1685 til 1702, stórabóla 1707 til 1709, Skaftáreldar 1783 til 1784. Allt viðburðir sem settu Ísland öfugu megin það byggilega. Ljósi punkturinn var að einokunarverslun lauk 1787.

 

Mannlýsingar í Alþingisbókum Íslands eru í eðli og gerð margt ólíkar mannlýsingum Íslendingasagna. Fyrst og fremst eru þær samtímaheimildir, greina betur frá smáatriðum og eru að mestu laus við hetjuljóma Íslendingasagna enda tilgangurinn annar. Að bera kennsl á burtstrokna einstaklinga og var valdatæki íslenskra yfirvalda í samfélagi upplausnar.

 

Elsta mannlýsingin er frá árinu 1643 og sú yngsta frá 1786 og það gat ekki hver sem er skrifað mannlýsingar. Þeir útvöldu urðu að skrifa undir sérstakan eið. Hér er skrifaraeiður Páls Gíslasonar landsskrifara á Öxarárþingi 1631:

 

„Ég lofa og játa, að í þeim málum, sem hér verða dæmd, hvort heldur þau áhræra líf, góss eða æru, þá vil ég skrifa rétt sem hér verður dæmt, og ekki í nokkurn máta álíta vild, makt, skyldugleika, gunst eða gjafir, hatur, öfund eða óvild, heldur alleinasta hafa guð og réttdæmið mér fyrir augum og skrifa réttilega eftir því, sem hér verður dæmt, eða allt, hvað mér ber að skrifa, svo vel fyrir þann fátæka sem þann ríka, þann tiginborna sem þann ótigna, svo vel fyrir þann útlenska sem þann íslenska.

 

Ég vil ekki fyrr eða síðan skrifað er heimuglega eða opinberlega taka eða upp bera, hvorki fyrir mig sjálfan né nokkurn annan, skeinkinga, gull, silfur, peninga eða peninga virði, svo að þess vegna megi nokkur maður missa síns réttar vegna minna skrifa.

Svo sannarlega sé mér guð hollur og hans heilaga orð.“

 

Tilefnin voru mörg þegar lýst var eftir Íslendingum á þessum árum. Nefndi Daníel m.a. morð, blóðskömm og dulsmál, hórdómsbrot, galdra og kukl, fólk sem hafði týnst og sinnisveiku fólki, fyrir endurtekin smábrot og fólk gat verið mikilvægt vitni í málum. Þjófnaði var skipt í tvennt, smáþjófnaður þegar mat, smáhlutum og smáhlutum var stolið. Stórþjófnaður voru innbrot, sauðaþjófnaður, hestaþjófnaður og bátaþjófnaður.

 

Og engin stétt var undanskilin. Eftirlýstir Íslendingar voru prestar, sýslumenn, stórbændur, lögmenn, leigubændur, vinnukonur- og menn, hinsegin fólk, stjúpforeldrar, aldrað fólk, barnsmorðingjar, fátæk hjón, flakkarar, lausamenn, smáþjófar, stórþjófar, strokufangar, útlagar og fatlað fólk. Fyrst og fremst  allt fólk sem var til á Íslandi á þessum tíma.

 

Það sama má segja um þá sem lýstu eftir fólki. Það voru sýslumenn eða lögmenn, prestar, eiginkonur, foreldrar og brotaþolar.

 

Það sem kom fram í mannlýsingum kemur nútímafólki spánskt fyrir sjónir en þær þurftu að staðfestast af vottum. Oft koma fyrir parrúk sem var hárkolla úr dýraskinni og mannhárum. Sá sem var jarpur á hár var rauðbrúnn eða brún/dökkhærður, sá sem var bjartur á hár var ljóshærður, mumpur var skegg, spengilmenni var  hár og spengilegur, ógeðslegur var skítugur eða óhreinn, luralegur maður, gat verið klunnalegur í vexti, þyngslalegur í hreyfingum,  illa klæddur, ræfilslegur og durgslegur. Blóðdökkur var rjóður eða rauðleitur á hörund.

 

Þannig er Jóni Þorvalssyni lýst árið 1679 fyrir morð
í Vestmannaeyjum:

 

„Meðalmaður að vexti, á hæð og þykkt, með sívalan vöxt, dökkjarpur á hár og skegg, hárið sítt, en skegg niðurmjótt, kámleitt yfirbragð, sem honum búi annað í sinni en hann í frammi lætur, málhvatur, þó lágtalaður, með snarlegt viðbragð, vel hraustur maður, meinast valdur að kvenmanns morði í Vestmannaeyjum.“

 

Steinunn dæmd til dauða

Steinunn Steinmóðsdóttir fékk dauðadóm vegna morðs í Vestmannaeyjum og lýst er eftir henni árið 1695 en hún var ekki öll þar sem hún var séð. Sprækari en margur hélt en henni er lýst þannig: „Flestum sýndist sem kreppt og kararómagi og svo í yfirlit sem afskræmisleg og sóttlera:
Nokkuð toginleit og gráföl, nokkuð rauðbirkin, með litla hönd og hnífskurð þvert um innan til á hægra handlegg hver nú héðan leynilega burt strauk á næðstliðnum laugardags morgni úr tjaldi lögsagnarans í Rangárþingi, Magnúsar Kortssonar.“

 

 

Morðið við Gíslakletta

Steinunn tengdist morði við Gíslakletta í Vestmannaeyjum sem eru Hásteinssvæðinu. Steinunn var vinnukona hjá hjónunum Gísla Péturssyni og Ingibjörgu Oddsdóttur. Gísli var af prestaættum. Á undan átti Ingibjörg barn með Pétri Vibe, dönskum kaupmanni og umboðsmanni konungs í Vestmannaeyjum. Sumarið örlgaríka, 1692 er Steinunn beðin um af Ingibjörgu að sækja systur sína Ingveldi.

 

„Gengu þau síðan öll að annari kró þar nærri, og fóru þau hjónin og Ingveldur inn í hana, en Ingibjörg skipaði Steinunni einslega að staldra við úti og hafa gát á mannaferðum.

 

Er inn í króna var komið, dró Ingveldur upp brennivínsflösku, og drukku þau öll þrjú úr henni. Gjörðist Gísli nú ákaflega drukkinn og seig á hann höfgi. Hallaði hann höfðinu upp að konu sinni, en hún stóð þá upp og fór út úr krónni, en bað Gísla að bíða meðan hún svipaðist um eftir lambi sínu.

 

Í þeim svifum greip Ingveldur upp stein, sem lá í króardyrunum og færði hann í höfuð Gísla. Þaut hún síðan út, og hrundu þær systur í sameiningu krónni ofan á Gísla. Hjálpuðust þær systur og Steinunn síðan að við það, að dysja hann frekar. Krær þessar voru topphlaðin grjótbyrgi, einhlaðin.

 

Að kvöldi sunnudagsins voru menn farnir að undrast um fjarveru Gísla. Daginn eftir fannst lík Gísla eftir tilvísan ellefu ára gamals pilts, sem hafði séð tvo kvenmenn vera eins og að einhverju flýtisverki við klettinn, þar sem líkaminn fannst. Þar heita síðan Gíslaklettar sem hann var myrtur.“

 

Líkið af Gísla var illa farið. Tólf áverkar voru á höfði og annað eyrað nokkuð frá höfðinu aftanverðu rifið, höfuðskelin brotin, og mikið af heilanum útfallið, sem og aðrir fleiri smááverkar á höfðinu.

 

Í fyrstu trúði Eyjafólk að álfkona hafi myrt Gísla en séra Arngrímur, bróðir Gísla, lætur rannsaka málið og eftir mikla dramatík er niðurstaðan að Eyjasystur voru húðstrýktar og dæmdar útlægar og Steinunn eða „Vestmannaeyja Steinka“ fékk dauðadóm.

 

Ítarleg frásögn er af morðinu á Heimaslóð.is, Morðið við Gíslakletta og þar er því haldið fram að Pétur Vibe hafi ekki verið alsaklaus í málinu.

 

Málalyktir Steinunnar Steinmóðsdóttur

Fyrir dauðadóminn var Steinunn mjög veik og dvaldi á heimili sýslumanns („fangelsi“). Var flutt á Alþingi „kreppt í kláf“ eða svo „hneppt“ að „á Alþing var á kviktrjám flutt“. Þar var hún „í engum járnum var, sökum sinnar veiki“ tók hún „hesta sér til reiðar vestur á Vestfjörðu, og náðist ekki.“

 

„Með hræðslu reið honum í Lundarreykjardal, og þaðan komst hún norður á Hornstrandir, og er hún enn þar umflakkandi“. Síðar segir sagan að hún hafi dáið háöldruð vestur undir Jökli undir dulnefni.

 

Eyjarsystur flýja fyrst til Vestfjarða 1695 og þaðan til Englands 1698 með frönskum hvalveiðimönnum.

Mikil saga og dramtísk.