Vestmannaeyjabær 100 ára – Stórmerk frímerkjasýning – Sérstakt afmælisfrímerki afhjúpað

 

Sýnir bæinn á hógværan en samt fallegan hátt – Segir höfundurinn, Eyjamaðurinn Hlynur Ólafsson – Vestmannaeyingar komið víða við í frímerkjasögunni

 

 

 

Umfjöllun í Frímerkjafréttum 1/2019: Tengill (opnast í nýjum glugga)

 

 „Eitt af því sem er hvað ánæjulegast við að starfa í þessu húsi er að fá tækifæri til að uppgötva ný verðmæti í þeim fjölbreytta safnkosti sem hér er varðveittur. Við þekkjum öll hluti eins og ljósmyndasafn Sigurgeirs sem þenur sig með allt að því ógnvænlegri nákvæmni yfir 70 ár af 100 ára sögu Vestmannaeyjabæjar eða hinar heimsfrægu Kötlumyndir Kjartans Guðmundssonar eða fágætisbókasafnið sem Ágúst Einarsson gaf Vestmannaeyjabæ fyrir tveimur árum raunar nákvæmlega upp á dag og starfmenn Árnastofnunar sem heimsóttu safnið í fyrra sögðu mér að væri merkasta fágætisbókasafn landsins utan Reykjavíkur svo maður nefni aðeins fáein dæmi,“ sagði Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahúss við opnun frímerkjasýningar í Einarsstofu fimmtudaginn sjöunda febrúar í tilefni að 100 ára afmæli Vestmannaeyja. Sjöundi febrúar er einnig útgáfudagur Íslandspósts á frímerki sem helgað er afmælinu.

 

Ómetanlegt framlag Guðna Friðriks

Fjölbreytt safn kallar í víðtæka þekkingu og hana er ekki alltaf að finna innan safnsins og þá er gott að eiga hauka í horni að því er kom fram hjá Kára. „Svo eru önnur verðmæti sem maður hefur enga þekkingu á og eru því luktur heimur innan safnsins þar til við eignumst hollvin sem hefur jafn viðamikla þekkingu og Guðni Friðrik Gunnarsson og þegar við bættist að hann heimtar að koma og vinna í sjálboðavinnu frá klukkan 6 morgunn eftir morgunn til að klára verkið áður en hann mætir í vinnuna þá verður það einfaldlega ekki boxað út,“ bætti Kári við og þakkaði Guðna um leið hans framlags til sýningarinnar.

Viðstaddir voru einnig Hlynur Ólafsson, Eyjamaður sem hannaði afmælisfrímerkið sem sýnir Vestmannaeyjabæ í sinni fallegustu mynd og þeirri einstöku umgjörð sem fjöllin í kring skapa bænum. Hlynur hefur hannað frímerki í 25 ár og á sýningunni eru frímerki sem hann hefur hannað. Fjölbreytnin er mikil og á skjá sýnir hann hvernig merkin urðu til. M.a. sýndi hann hvernig ryðguð bíldrusla varð að glæsikerru komin á frímerki  svo eitthvað sé nefnt.

Jóhann Jónsson, á sér líka sinn sess á sýningunni en hann hefur hannað frímerki í gegnum árin og lagt Hlyn lið við nokkur frímerki. Var gaman að sjá framlag þeirra til frímerkjasögu landsins.

 

Ómetanleg frímerkjagjöf

Uppistaða sýningar eru þó frímerkjasafn sem hjónin Guðmundar Ingimundarsonar og Jóhanna M. Guðjónsdóttir frá Hlíðardal,  færðu bænum að gjöf í júlí 1991. Jafnframt eru sýnd ljósrit úr safni Indriða Pálssonar, þar á meðal elstu þekktu stimplun á frímerki í Vestmannaeyjum. Um er að ræða skildingamerki frá 1873 til 1876.  

 „Með sýningu þessari viljum við minna á að Póstsagan er hluti af 100 ára afmælissögu Vestmannaeyjabæjar,“ sagði Guðni Friðrik þegar hann ávarpaði gesti.

Hann kallaði frímerkjasafn Guðmundar á sýningunni, átthagasafn sem er réttnefni því frímerki, umslög og pósttilkynningar sem þar er að sjá tengjast flestar Vestmannaeyjum á einhvern hátt. „Guðmundur og Jóhanna færðu bænum safnið að gjöf sumarið 1991 að lokinni Norrænni frímerkjasýningu í Reykjavík. Og kom ég að því máli. Í nokkur ár var hægt að skoða safnið í flettirömmum hér í húsinu. Vonandi getum við leyft afkomendum okkar að skoða þessa forngripi í framtíðinni. Næsta stig verður kanski að safna snappchöppum, hver veit?“ sagði Guðni og kvaðst hann með dyggri hjálp Hlyns bætt í safnið, ýmsu sem tengist Goslokahátíðum.

„Einnig eru hér merki sem bera myndir frá Eyjum. s.s þjóðhátíð ofl. Líka ljóstrit úr safni Indriða Pálssonar sem selt var fyrir nokkru í Svíþjóð en safn hans var besta safn íslenskra frímerkja og sárgrætilegt að það skuli hafa verið selt úr landi,“ sagði Guðni að endingu.

 

Hannað frímerki í 25 ár

Hlynur tók líka næst til máls og sagði það mikinn heiður að fá að koma hér og fagna með Eyjamönnum á þessum tímamótum. „Í dag fögnum við útgáfu míns nýjasta frímerkis sem fjallar um eitt hundrað ára afmæli bæjarins,“ sagði Hlynur og rakti í stuttu máli aðkomu sína að hönnun frímerkja í 25 ár.

„Þegar ég flutti frá Eyjum til þess að hefja nám í grafískri hönnun við Myndlista- og handíðaskóla Íslands hvarlaði ekki að mér að það ætti eftir að verða mitt verk næstu 25 árin ásamt öðru að fá að vinna við hönnun frímerkja með öllum þeim ólíku þemum og myndefnum sem þar eru. Þetta starf hefur í gegnum árin orðið til þess að ég hef náð að kynnast alls konar áhugaverðu fólki sem hefur lagt mikið til af þekkingu og upplýsingum til að gera öll þessi fjölbreyttu frímerki möguleg því í frímerkjahönnun þarf allt að vera rétt og satt til að standast tímans tönn,“ sagði Hlynur sem er þakklátur Guðna Friðriki og hvatningu hans.

 

Hannað hátt í 200 frímerki

„Það var hann, Guðni Friðrik Gunnarsson frá Gilsbakka sem fékk mig til að hanna fyrsta frímerkið mitt þegar hann vann sem markaðsstjóri frímerkjaútgáfu póstsins. Síðan hef ég hannað yfir 190 frímerki fyrir Póstinn sem sýnd eru á hér dökku flekunum. Allt þetta verk er aðeins mögulegt með góðri hjálp vísindamanna, sagnfræðinga og ýmissra listamanna sem stundum hafa lagt til myndefni og annað,“ sagði Guðni og nefndi Jón Baldur Hlíðberg, Ólaf Pétursson og Jóa okkar Listó.

„Ég hef ákveðið að gefa safninu ykkar þessa fleka til minningar um þetta tilefni og vil þakka Kára Bjarnasyni sérstaklega fyrir jákvæðni og hjálp við að gera þetta mögulegt.“

Hlynur sagði að þegar ákveðið var að fá hann til að hanna frímerki fyrir 100 ára afmæli bæjarins hafi farið í gang vinna sem kostaði margar prufur. „Meðal annars þrjár ferðir hingað til að ljósmynda til að ná réttu myndinni sem mér finnst að sýni bæinn á hógværan en samt fallegan hátt þar sem bærin kúrir í sínu stæði,“ sagði Hlynur og bað Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra að hjálpa sér við að afhjúpa merkið.

 

Með því besta

Það hefur margt verið vel gert í Einarsstofu og Safnahúsi undir stjórn Kára og Helgu Hallbergsdóttur, forstöðukonu Sagnheima en Frímerkjasýningin er með því athyglisverðasta og skemmtilegasta sem þar hefur verið boðið upp. Það er gaman að sjá þann þátt sem Eyjamennirnir Friðrik Guðni, Hlynur og Jói listó eiga í sögu frímerkja á Íslandi á undanförnum áratugum. Merkin eru ekki stór en segja oft svo ótrúlega mikið og var ekki síst fróðlegt að kynnast allri þeirri vinnu sem liggur að baki einu frímerki þar sem engu má skeika.

Eins og áður segir var vel mætt og kunnu gestir vel að meta það sem þar er boðið upp á.

 

(Viðbótarfrétt 16. ágúst Ómar Garðarsson)

Frímerkja- og póstsaga Vestmannaeyja í 100 ár

 

Hinn 7. febrúar gaf Íslandspóstur út sérstakt frímerki til minningar um 100 ára afmæli Vestmannaeyjabæjar. Af því tilefni var þann dag opnuð sýning þar sem hönnuður frímerkisins, Hlynur Ólafsson, afhjúpaði og kynnti frímerkið. Einnig var sýnt úrval þeirra frímerkja sem eru í eigu bæjarins sem og kynntir þeir Vestmannaeyingar sem hafa hannað frímerki til útgáfu.

 

Grunnur sýningarinnar var frímerkjasafn Guðmundar Ingimundarsonar, sem hann og kona hans, Jóhanna M. Guðjónsdóttir frá Hlíðardal,  færðu bænum að gjöf í júlí 1991.

 

Jafnframt voru sýnd ljósrit úr safni Indriða Pálssonar, þar á meðal elstu þekktu stimplun á frímerki í Vestmannaeyjum. Um er að ræða skildingamerki frá 1873-1876.        

 

Fimmtudaginn 14. febrúar, þegar rétt 100 ár voru liðin frá því fyrsti bæjarstjórnarfundur var haldinn í Vestmannaeyjum, var hægt að fá umslög stimpluð með dagsstimpli Íslandspósts og hliðarstimpli, til að minnast þessara merku tímamóta í sögu bæjarins okkar.

 

Hliðarstimpillinn var aðeins notaður þennan eina dag, en eyðilagður í dagslok.