Ómetanleg sýning um íþróttaafrek Eyjafólks

 

 

Í Sagnheimum var sýning um íþróttasögu Vestmannaeyja sem Helga Hallbergsdóttir, fráfarandi forstöðukona Sagnheima hannaði og setti upp. Þar koma allar íþróttagreinar við sögu og er sýningin gott yfirlit yfir kraftmikið íþróttastarf í Vestmannaeyjum í gegnum árin.

 

 

„Nú er komið að leiðarlokum eftir átta ára starf í Sagnheimum. Tíminn hefur verið bæði krefjandi og skemmtilegur en aldrei leiðinlegur.  Ég vil þakka öllum sem komið hafa til okkar á safnið og einnig þeim sem hafa starfað með mér í gegnum tíðina bæði með vinnu og  framlagi í dagskrár safnsins sem hefur gert safnið okkar svo miklu ríkara, líflegra og skemmtilegra! Nú taka við nýir tímar með nýjum safnstjóra og nýjum tækifærum og því eru spennandi tímar framundan. Bestu þakkir öll! Sjáumst í Sagnheimum!“

 

 

Þannig kvaddi Helga Hallbergsdóttir sem lét af störfum sem forstöðumaður Sagnheima þann fyrsta júní í ár. En Helga gerði gott betur því hún endaði með glæsilegri sýningu þar sem farið var yfir íþróttasögu Vestmannaeyja alla síðustu öld og fram á daginn í dag. Gott framtak og minnir okkur á afrek sem Eyjafólk hefur unnið á flestum sviðum íþrótta, í einstaklings- og hópíþróttum. Sýningunni var skemmtilega stillt upp í Sagnheimum og hér er að finna allt það sem var á sýningunni. Ómetanlega upplýsingar sem verður að varðveita.