Ragnar Óskarsson - Sigríðarslysið 1928 og sjóskaðar árin 1920 til 1930

 

 

 „Ég mun fjalla um Sigríðarslysið svokallaða í febrúar 1928 þegar vélbátinn Sigríði rak að landi við Ofanleitishamar í stórviðri sem þá geisaði og afrek Jóns Vigfússonar í Holti, vélstjóra bátsins er hann kleif Ofanleitishamarinn við afar erfiðar aðstæður, gekk til byggða eftir hjálp til bjargar fjórum skipsfélögum sínum. Þá verður einnig fjallað um mannskaða á sjó við Eyjar á árunum 1920  til 1930,“ sagði Ragnar Óskarsson um erindi sem hann flutti í Einarsstofu í Safnahúsi á laugardeginum 16. nóvember klukkan kl. 13:00.

 

Ofanleitishamar

 

 

„Mig langaði allavega ekki að reyna aftur við þetta bjarg“

— Rætt við Jón Vigfússon í Holti  um afrek hans í Ofanleitishamri og Sigríðarslysið

 

„Eitt af þekktustu björgunarafrekum á þessari öld er afrek Jóns Vigfússonar frá Holti í Vestmannaeyjum þegar hann kleif Ofanleitishamar eftir að bátur hans, Sigríður, brotnaði í spón undir þverhníptum hömrum Heimaeyjar. Löngum hefur afrekið verið kennt við Sigríðarslysið, en Ofanleitishamar var talinn ókleifur, enda mjög laust berg og þverhnípi. Afrek Jóns varð honum og fjórum skipsfélögum hans til bjargar. Liðin er nær öld frá því að þessi atburður átti sér stað, en Jón í Holti hefur aldrei fyrr viljað segja frá þessum atburði sjálfur. Ég ræddi við hann á heimili hans í Eyjum,“ segir í Morgunblaðinu um þetta einstaka afrek.

 

 

Það var róið á svokölluðum tíma kl. 3 um nóttina í mjög ljótu útliti," sagði Jón. „Það reru 8 bátar og línan var lögð eftir 5 mínútna keyrslu suður af Einidrangi. Svo var byrjað að draga í birtingu en veðrið versnaði stöðugt á meðan við vorum að draga. Við drógum þar til við áttum 3 bjóð eftir af 39, þá var hætt og farið að keyra heim.


Eftir þriggja tíma keyrslu vorum við á sama stað, ennþá á fullri ferð. Það var austanrok og slagveður, slæmt skyggni, en í lagi með það samt. Þá ákváðum við Eiður skipstjóri að halda sjó, slá fritt af Einidrangi til að losna við grynningarnar og við fórum að útbúa okkur drifankeri. Á meðan við vorum að því sléttlygndi hann allt í einu. Þegar við höfðum keyrt í hálftíma gerði svartabyl, en það var keyrt áfram. Um klukkan 9 um kvöldið komum við upp undir hamarinn á Heimaey vestanverðri. Við vissum ekki nákvæmlega hvar við vorum, en þar lá togari fyrir ankeri. Það var meiningin að bíða þar til birti því skipstjórinn treysti sér ekki til að halda áfram þar sem hann vissi ekki nákvæmlega hvar við vorum staddir.


Það var ákveðið að halda sig við ljósið á togaranum, hafa það í augsýn, en Eiður skipstjóri Jónsson fór fram í, allir fóru fram í nema sá sem tók vaktina og ég var niðri í mótorhúsi. Við vorum 5 á. Eftir stutta stund hrekk ég upp við það að bátinn tekur hastarlega niðri. Ég þaut upp og bakkaði. Þá slóst skrúfan i grjót og stoppaði. Þarna veltumst við á skerinu og þá hugsaði maður með sjálfum sér, man ég Á maður að deyja svona ungur? Ég man það að ég bað Guð að styrkja mig og taka þessu með ró og svo losnaði báturinn i því af skerinu og velktist þarna um og við sáum ekkert út fyrir myrkrið. Við höfðum ekkert rafljós en ljóskastari var um borð, slíkir voru þá komnir i nokkra báta. Mér datt í hug að ná í hann og setja hann upp. Það gerðum við og lýstum. Þá sáum við einungis þverhnípt bjargið framundan og ekkert annað. Það var ekki hægt að ímynda ser nokkra möguleika aðra en að þetta væri búið.


Þá berst báturinn upp að landinu. Ég var aftur á, fer fram á og sé að þar framundan er lítil stallur í berginu. Og ég segi við strákana: Hvað, ætlið þið ekki að reyna að komast í land? Þeir sögðu að það væri ekki hægt. Við verðum að reyna það, sagði ég. Ég var í leðurstígvélum. Það var venja hjá mótoristum þá, snara mér úr þeim og stekk í land. Ég reiknaði með að það væri hált eins og reyndist. Sjórinn gekk yfir þennan stall, en ég komst svolítið ofar og bjóst við að þeir hefðu komið á eftir mér. En þegar ég lit við er báturinn kominn frá berginu og enginn kominn upp í bergið nema ég.


Já, þarna velktist báturinn í brimlöðrinu og það voru þung augnablik að horfa á það og vera þarna í bjarginu. Svo skeði það ótrúlega, báturinn kemur aftur að berginu á nákvæmlega sama stað og stoppar. Ég fikra mig niður á stallinn og held mér þar þannig að um leið og strákarnir stökkva í bergið geta þeir gripið í mig og þarna komust þeir allir upp á örskoti. Á sama laginu allir. Kannske var það hálf mínúta, kannske ein mínúta. En um leið og sá síðasti er stokkinn í bergið, þá rennur báturinn frá berginu og kom aldrei nálægt landi aftur. Síðar reyndist þetta eini staðurinn sem möguleiki var að komast upp í bergið á stóru svæði.


Enginn mannlegur máttur réð ferð bátsins að nibbunni sem við komumst upp á. Svo fikruðum við okkur þarna í berginu. Líklega hefur klukkan verið um 10 að kvöldi dags þann 14. febrúar 1928. Við fundum skúta. Það skvettist upp á okkur sórinn, en svo fjaraði út og varð heldur kyrrara í skútanum. En þarna höfðum við Iítið svigrúm til þess að hreyfa okkur. Við vorum í skútanum alla nóttina og fram í birtingu. Það var vissulega dálítið kalsamt. Í birtingu sáum við að það komst hreyfing á togarann og hann létti ankerum. Hann lá mjög nálægt landi, líklega um 200 metra, en skipverjar virtust ekki taka eftir okkur hvernig sem við reyndum að vekja á okkur athygli.


Í birtingu sáum við loks hvar við vorum staddir og þá fór Eiður að tala við mig og spyrja mig hvort ég treysti mér til þess að fara þarna upp bergið. Ég féllst á að reyna það og áöur en ég lagði í bergið reyndi ég að berja mér til hita, því mér var ansi kalt og var á sokkaleistunum.


Áður en ég lagði af stað fékk ég lánaðan sjóvettling hjá einum hásetanum og hafði hann á annarri hendi til þess að róta snjó úr berginu og reyna að finna handfestu, en það var mikill snjór í berginu á örðunum. Svo hélt ég sjóvettlingnum á milli tannanna, á meðan ég fikraði mig upp. Þetta gekk allvel þangað til ég var kominn upp i mitt bergið, þá ætlaði mér að ganga illa að finna handfestu. En ég hafði samt að vega mig upp og síðan gekk ágætlega upp undir brún. Þá blasir það við að brúnin slútir fram yfir sig. Það leit illa út í þessari stöðu og það var líka innbyggt, að við vorum hræddir peyjarnir í Eyjum við hamarinn, hann var svo laus í sér. En einhvern veginn hafði ég að teygja fingurgómana í festu á brúninni og hún hélt, en ég varð hreinlega að vega mig upp á fingurgómunum.


Mér ætlaði að ganga illa að komast síðasta spölinn, en það hafðist. Ég varð ógurlega kátur þegar ég var kominn upp, en líklega hef ég verið um 15 mínútur á leiðinni. Ég leit aldrei við. Það var engin von til þess að komast aftur niður þá leið sem ég fór upp. Þegar ég var kominn á brún ákvað ég að ganga að Norðurgarði, sá að það var styst og ég var kunnugur þarna. Ég fór allhratt fyrst. Það var kafaldssnjór, en ég sá fljótt að ég mátti ekki fara svona hratt því að ég þreyttist svo og hægði þess vegna ferðina.


Þegar ég var nýlagður af stað gerði svartaél, en þegar stytti upp var ég kominn heim undir Brimhóla um það bil einum kílómetra norðan við Norðurgarð. Ég vissi að það var enginn sími þar og ákvað því að fara alla leið heim til mín heim í bæ og fór það, sagði hvernig komið væri, hvar mennirnir væru. Síðan var farið í leiðangur og skipsfélögum mfnum náð, en Sigurður heitinn Hróbjartsson á Litlalandi seig niður, góður fjallamaður og nágranni minn, og það gekk mjög vel. En einn skipsfélaga minna var orðinn allþjakaður.


Þegar ég lagði í bjargið var það ekki alveg árennilegt, eins og ég sagði, og ég bjóst við því að það yrði erfitt, sérstaklega ef maður þyrfti að snúa við eins og þú þekkir. Ég vissi líka að Hamarinn er mjög laus. Maður er vanur príli eins og strákar á þessum árum en ég stundaði aldrei fjallamennsku. En það var ekki frost og það hefði verið enn erfiðara við slíkar aðstæður. En ég átti í raun enga moguleika á að snúa aftur niður þegar ég hafði lagt í bergið, upp undir 20 metra hátt þverhnípt bjarg.


Jú, mér er sagt að þarna hafi verið ókleift en ég hélt nú alveg ró minni og einbeitti mér að þessu og þakkaði Guði fyrir þegar ég var kominn á brún. Áður en ég lagði af stað upp bergið tók ég það loforð af skipsfélögum mínum að þeir reyndu ekki að koma á eftir mér. Yfirnáttúrulegt, jú, víst er það og það er fleira, sem hér kemur til, eins og það, að báturinn kemur tvisvar á sama stað að berginu í brimgarðinum, skerjagarðinum. Það er eins og það séu einhver æðri völd að verki þegar svona gerist. Þetta var eina nibban á mörg hundruð metra löngu svæði sem hægt var að komast á. Um morguninn var báturinn allur kominn í smáspæni, allur brotinn i spón eins og tilbúinn i uppkveikju. Hann var talinn 17 tonn, hafði verið lengdur upphaflega úr 12 tonna stærð. Ég fór stuttu seinna að skoða aðstæður á hamrinum, þá voru Ofanbyggjarar að hirða brak úr bátnum i eldinn. En ég veit ekki hvað segja skal um það þegar ég skoðaði svæðið. Mig langaði allavega ekki að reyna aftur við þetta berg.“

 

Sigríðarslysið 1928 - Afrek í Ofanleitishamri:

Jón í Holti kleif bjargið án búnaðar og við mjög erfiðar aðstæður

 

Þann 11. febrúar 1928 réru flestir Eyjabátar í góðu veðri en um miðjan dag skall á foráttu suðaustan veður með hríðarbyl. Með harðfylgi náðu allir bátar landi en nokkrir biðu af sér versta veðrið um nóttina undir Eiðinu og Heimakletti. Sigríður VE og nokkrir aðrir bátar héldu sjó á meðan verst lét og voru að tínast inn fram eftir kvöldi.  Björgunarskipið Þór bjargaði vélarvana bát þannig að allir komust til hafnar og enginn mannskaði varð. Þann 12. febrúar var ekki róið, sjórinn engan veginn genginn niður og margir bátanna ókomnir frá deginum áður. Óhugur var í mönnum og áhyggjur eftir svefnlausa nótt hjá mörgum. „Óhætt er að segja að fæstir hafi átt von á að svo giftulega færi, að allir næðu heilir í höfn að lokum. Nú gátu menn með þakklæti í huga gengið til hvíldar og safnað kröftum fyrir komandi dag.“

 

Þannig lýsir Guðmundur Vigfússon, skipstjóri á Sísí VE aðstæðum þessa febrúardaga árið 1928 í grein sem birtist í Sjómannadagsblaðinu 1977 og er að finna á Heimaslóð.is. Guðmundur var þá 21 árs og Sísi ekki nema 14 tonn. Þarna var tíð risjótt og þóttu menn hafa sloppið vel úr veðrinu þann 11. febrúar. Þar með var ekki öllu lokið því því þann 13. brotnar Sigríður VE í spón undir Hamrinum en áhöfnin komst á sillu í bjarginu og björguðust allir. Það má þakka Jóni Vigfússyni, vélstjóra og bróður Guðmundar sem vann einstakt afrek er hann kleif Hamarinn og náði í hjálp. Náðust allir heilir upp og er þetta eitt stærsta afrek í björgunarsögu Íslands því að öllu jöfnu er bjargið ókleift án búnaðar á þessum stað og miðað við aðstæður verður að teljast kraftaverk að Jón skyldi komast upp.

 

Miklir mannskaðar á sjó

Þessu lýsti Ragnar Óskarsson, fyrrum framhaldsskólakennari og bæjarfulltrúi í athyglisverðum fyrirlestri þann 16. nóvember 2019 í Einarsstofu.

 

Á þessum árum voru mannskaðar tíðir enda bátarnir ekki stórir, flestir átta til tuttugu tonn og í áhöfn þrír til átta. Ragnar hafði tekið saman mannskaða á sjó við Vestmannaeyjar á árunum 1920 til 1930 þegar alls fórust 25 menn.

 

Þann 12. febrúar 1920 fórst mb. Már VE, 12 tonna bátur með fjórum mönnum við Geirfuglasker.

 

Þann 2. mars 1920 fórst vb. Ceres VE með þremur mönnum SV af Bjarnarey.

 

Þann 16. febrúar 1923 fórst mb. Njáll VE, 13 tonna bátur með mönnum við Hringskersgarðinn.

 

Þann 16. febrúar 1926 fórst mb. Goðafoss VE með fimm mönnum NV af Geirfuglaskeri.

 

Þann 9. janúar 1927 fórst mb. Minerva VE, 19 tonna bátur með fimm mönnum nálægt Þrídröngum.

 

Þann 30. mars 1927 fórst mb. Freyja VE við Landeyjasand. Tveir fórust og sex björguðust.

 

Þann 11. mars 1930 var mb. Nonni VE sigldur í kaf rétt austan við Eyjar. Einn fórst en fjórir björguðust.

 

Björgunarfélag Vestmannaeyja var stofnað 1918 og hafði forgöngu um kaup á björgunarskipinu Þór sem kom til Eyja 26. mars 1920. Þór hafði eftirlit með fiskibátum við Eyjar og sannaði strax ágæti sitt sem björgunar- og landhelgisskip. Var þetta fyrsti vísir að Landhelgisgæslunni en ríkið keypti skipið 1924.

 

Sigríður VE 240

Sigríður VE 240 var smíðuð í Hafnarfirði 1920 úr eik og furu, fyrst tólf brúttólestir en síðar stækkuð í sautján brúttólestir og vélin var 22 hestafla  Alpha vél. 

 

Eigendur voru Vigfús Jónsson í Holti, Sigurður Sigurðsson á Lögbergi og  Kristmann Þorkelsson í Steinholti.

 

Áhöfnin á Sigríði voru Eiður Jónsson formaður,  26 ára frá Höfðahúsi við Vesturveg 8, Jón Vigfússon vélstjóri, 20 ára frá Holti, Frímann Sigurðsson, Ágúst Pétursson og Sigurður Vigfússon, 63 ára frá Pétursborg  við Vestmannabraut 56B.

 

Eftir hrakninga þann ellefta og tólfta febrúar fer Sigríður á sjó þann þrettánda um nóttina kl. 3 og var veðurútlit slæmt. Þeir lögu línuna suður af Einidrangi, alls 39 bjóð og drógu 36. Þá er komið austanrok, slagviðri og slæmt skyggni. Var haldið heim á leið og um klukkan 21.00 var komið undir Ofanleitishamar vestur af Blákróksurð.

 

Komust á sillu í bjarginu

Þeir ákveða að bíða bitingar en breskur togari var á svipuðum slóðum við ankeri. Allt í einu tekur Sigríði hastarlega niðri og er reynt að bakka en skúfan rekst í berg og stöðvast. Báturinn hefur steytt á skeri. Hann losnar af skerinu og berst að landi við þverhníptan, ókleifan hamarinn. Jóni tekst að komast á stall í berginu, einu nibbuna á nokkur hundruð metra svæði. Bátinn rekur frá landi og velkist um í briminu en berst aftur að bjarginu á sama stað og fyrr og aðrir úr áhöfninni komast á sylluna til Jóns á sama laginu.

 

Þarna mátti ekki miklu muna því báturinn berst aftur brá bjarginu og kom aldrei nálægt landi aftur og brotnaði í spón. Tekur við erfið nótt þar sem áhöfnin  hefst við í skúta við afar slæmar aðstæður. Í birtingu fer enski togarinn án þess að verða skipbrotsmanna var.

 

Vóg sig upp á fingurgómunum

Það eru því ekki margir möguleikar í stöðunni og Eiður skipstjóri spyr Jón hvort hann treysti sér til að freista þess að klifra upp hamarinn sem ekki var árennilegur. Jón leggur í hann en bergið er þarna  mjög laust í sér, um 20 metrar og þverhnípt. Mikill snjór í berginu og verður Jón að róta honum burt  með einum sjóvettlingi og nær að  fikra sig upp og gekk þokkalega upp í mitt berg. Erfitt er þó að ná handfestu og undir brún slútir bergið fram yfir en á einhvern undraverðan hátt tekst Jóni að komast upp. „En ég varð hreinlega að vega mig upp á fingurgómunum,“ sagði Jón á eftir.

 

Á var kafaldsnjór og bylur og færð þung. Jón ætlaði að ganga að Norðugarði en sér að hann er við Brimhóla og ákveður að ganga heim í Holt, sem ekki var styst að fara eftir hjálp, rúmir þrír kílómetrar í miklum snjó og með vindinn í fangið. Sagði Ragnar að ástæðan hefði verið sú að í Holti var sími og auðveldast að hóa saman mönnum til björgunar.

 

Leiðangur var sendur af stað og Sigurður Hróbjartsson á Litlalandi seig í bergið og skipverjar náðust upp heilir.

 

Afrek Jóns barst út fyrir landssteinana og fékk hann hina dönsku Carnegie orðu fyrir hetjulega björgun og heilar 800 krónur sem hafa verið mikilir peningar á þessum árum.

 

Ragnar sýndi mjög athyglisverðar teikningar þar sem Jói Listó sýnir atburðarrásina frá því Sigríður rekur vélarvana að hamrinum, áhöfnin kemst upp á silluna og Jón klífur „ókleifan“ hamarinn.

 

Á brún Ofanleitishamars þar sem Jón kom upp er myndarlegur minnisvarði um þetta einstæða afrek.

 

Lýsing Guðmundar á Sigríðarslysinu

„Um Sigríðarslysið og bjarggöngu Jóns var á sínum tíma mikið skrifað að vonum, og sú saga því vel kunn. Er því ekki meining mín að rifja upp þann atburð að neinu marki. En ýmsar minningar frá þessum dögum eru mér í fersku minni. Faðir minn, Vigfús Jónsson í Holti, var einn af þremur eigendum bátsins. Hinir voru: Sigurður Sigurðsson, Lögbergi og Kristmann Þorkelsson í Steinholti.

 

Tvær síðustu vertíðir föður míns, 1921 og 1922, var hann formaður með Sigríði, það voru jafnframt mínar fyrstu vertíðir. Vertíðina áður en Sigríður strandaði var ég þar vélamaður hjá Eiði,“ segir Guðmundur í fyrrnefndri grein í Sjómannadagsblaðinu.

 

Allir náðu landi nema Sigríður

„Þrátt fyrir suðaustan hvassviðri og mikla snjókomu, sem skall á um hádegið þennan dag, náðu allir þeir bátar landi er á sjó voru, nema Sigríður. Um morguninn 14. febrúar, þegar ekkert hafði enn frést af Sigríði, fór faðir minn að undirbúa leiðangur til leitar af landi. Leiðangurinn var ekki lagður á stað upp úr kl. 10.00, þegar Jón bróðir birtist allt í einu inni í eldhúsi, á sokkaleistunum en alklæddur að öðru leyti, þó ekki í sjógalla. Fengum við nú, heimilisfólkið í Holti, að heyra hvað komið hafði fyrir.


Eftir að báturinn strandaði höfðu allir 5 mennirnir komist upp í sylluskúta í berginu, en hann einn komst upp á brún í birtingu morguninn eftir. Alla nóttina höfðu þeir haldið sig þarna á syllunni í að öðru leyti þverhníptu berginu öllu klakasíluðu.

 

Björgun undirbúin

Fljótlega komst björgunarleiðangurinn á stað undir forustu föður minns og Sigurðar Hróbjartssonar á Litlalandi, sem var fjallaköttur mikill og átti að síga niður bergið til mannanna fjögurra. Þeir höfðu öll nauðsynleg áhöld með sér, sigvað og aðrar tilfæringar — og svo heitt kaffi. Áður hafði lent í töluverðu þrasi við Jón, því honum þótti sjálfsagt að hann færi með, til að vísa á stystu leiðina. Honum fannst hver mínúta dýrmæt svo komist yrði sem fyrst til bjargar félögum sínum. En upplýsingar hans þóttu nógu glöggar, enda fannst öllum hann vera búinn að skila sínu.
Kvenfólkinu á heimilinu var falið að annast Jón og koma honum til hvíldar, einnig að undirbúa komu þeirra sem verið var að sækja í bergið.

 

Með koníak í rassvasanum

Mér var falið að ná í Pál Kolka lækni, og brá hann skjótt við. Hann kom við í apótekinu og fékk þar hálfflösku af koníaki og bað mig geyma í rassvasanum. Síðan þrömmuðum við á stað vestur Vestmannabraut, því snjór var svo mikill að ekki var bílfært. Þegar við komum innundir Fiskhella, tókum við stefnuna nyrst á Hamarinn. Ég tróð brautina á undan lækninum í mjög þungri færð, því jafnfallinn snjór náði vel upp fyrir hné og víða voru húsháir skaflar eftir undangengin óveður. Ég man ekki eftir öðrum eins snjó fyrr né síðar í Eyjum.

 

Þegar við komum vestur á Hamarinn, sáum við ekkert, sem benti til strandsins. Héldum við því suður með brúninni og eftir drjúgan spöl sáum við mikið fuglager undir berginu nokkuð álengdar, sem benti til að eitthvað væri að gerast. Þarna var þá saman kominn mikill fuglaskari að gæða sér á lokadagsafla Sigríðar, og á bjargbrúninni uppyfir komum við fljótt auga á björgunarmennina. Þegar við svo komum til þeirra, var verið að leysa fyrsta skipbrotsmanninn úr uppdráttarvaðnum.
Sigurður Hróbjartsson var kominn á sigbandi til mannanna í berginu og batt hann þá hvern af öðrum í vaðinn. Nú blandaði læknirinn koníakinu í heitt kaffið og gaf skipbrotsmönnum hverjum um sig, um leið og þeir voru komnir upp.

 

Allt gekk fljótt og vel

Allt björgunarstarfið á bjargbrúninni gekk bæði fljótt og vel, enda var til staðar yfirdrifið af mannskap. Á heimleiðinni tróðu margir björgunarmannanna brautina í snjónum til að létta undir fæti fyrir skipbrotsmennina, en aðrir voru þeim til stuðnings. Eftir um klukkutíma gang var svo komið heim að Holti.


Eftir að læknirinn hafði gengið úr skugga um að allir skipbrotsmenn væru óbrotnir og sæmilega á sig komnir, varð þeim hvíldin kær. Og morguninn eftir voru þeir furðu hressir og líkamlega vel á sig komnir. En hvaða áhrif svona reynsla kann að hafa á þá, sem fyrir henni verða, skal hér ekki fullyrt um. Sjálfsagt eru þau á ýmsan hátt sálarlegs eðlis.

 

Eftir að læknirinn hafði gengið úr skugga um að allir skipbrotsmenn væru óbrotnir og sæmilega á sig komnir, varð þeim hvíldin kær. Og morguninn eftir voru þeir furðu hressir og líkamlega vel á sig komnir. En hvaða áhrif svona reynsla kann að hafa á þá, sem fyrir henni verða, skal hér ekki fullyrt um.


Sjálfsagt eru þau á ýmsan hátt sálarlegs eðlis,“ segir Guðmundur í þessari merku grein sem segir frá sjómennsku þegar siglt var eftir kompás og klukku og hent út línu til að mæla dýpið. Að öðru leyti var það reynsla og þekking sjómannanna sem réði úrslitum þegar mikið lá við.