Ragnar Jónsson - Þjóðhátíðin 1943 – Tréspíramálið

Saga tunnu sem fannst á reki og sorgarviðbragða bæjarbúa eftir að níu létust

 

„Þetta er saga tunnu sem fannst á reki í Þrídrangadýpi, vestan við Eyjar, seint í júlí 1943. Þetta er frásögn af þeim atburðum sem gerast eftir að tunnan er komin í land og innihald hennar, illu heilli dreifist og er drukkið á Þjóðhátíð Vestmanneyinga þetta ár. Þetta er einnig saga sorgarviðbragða og hvernig bæjarbúar brugðust við þeim hörmungum sem skullu á þeim,“ sagði Ragnar Jónsson, frá Látrum í upphafi fyrirlesturs síns um spíramálið á þjóðhátíðini 1943 þegar níu létust eftir að hafa neytt spírans. Hann hefur um nokkurra ára skeið aflað heimilda um þennan atburð og  m.a. tekið viðtöl við á annan tug Vestmanneyinga, sem enn mundu þennan atburð og gátu sagt frá sinni upplifun, þó langt væri um liðið. Mál sem ekki var mikið rætt á sínum tíma.

 

„Pabbi og Stebbi pól1 eru að fá sér kaffi inni á skrifstofu heima á Látrum. Þeir tala í hálfum hljóðum, sem er óvenjulegt, því báðum liggur hátt rómur. Þegar þeir ræða pólitíkina og bæjarstjórnmálin tala þeir stundum í hálfum hljóðum, en nú heyri ég að það er verið að ræða eitthvað allt annað. Það er verið að tala um þjóðhátíð, tréspíra, fólk sem dó  og það er talað um menn, sem ég hef ekki heyrt talað um áður. Þegar Stebbi pól er farinn spyr ég mömmu hvað þeir hafi verið að tala um. Ég fæ stutta skýringu frá henni, en henni finnst greinilega óþægilegt að tala um þetta. Mér skilst að á þjóðhátíðinni 1943 hafi margir dáið eftir að hafa drukkið eitur, þ.e. tréspíra og einn maður hafi orðið blindur.

 

Hafði langvinn áhrif á bæjarbúa

Ég er átta ára gamall þegar þetta samtal átti sér stað árið 1960. Um sautján ár voru liðin frá þessum atburði og enn er talað um þennan atburð í hálfum hljóðum!

 

Þessi viðbrögð voru þó ekkert einsdæmi. Tréspíramálið á  þjóðhátíðinni 1943 hafði mikil langvinn áhrif á bæjarbúa, svo mikil að enn var hvíslað um málið mörgum  árum síðar. Mörgum áratugum síðar var fyrst hægt að tala um tréspíramálið án þess að fara í felur og var loks hægt að spyrja spurninga sem ekki hafði verið hægt að spyrja áður. En þá voru ekki margir eftir til svara.

 

Þjóðhátíð í skugga heimsstyrjaldar

Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum árið 1943 var undirbúin eins og venja var, þrátt fyrir síðari heimstyrjöldina, sem geisaði með stríðsátökum um víða veröld og einnig við Ísland. Landið var hernumið af Bretum 10. maí 1940 og settu Bretar upp herbúðir á nokkrum stöðum, m.a. í Vestmannaeyjum og reistu breskir  hermenn herbúðir, 10 – 12 bragga, út í Stórhöföa og víðar í Eyjum. Síðasti bragginn í Stórhöfða fauk á haf út í fárviðri árið 1991. Enn má greina ummerki hersetunnar í Stórhöfða, en engar sögur fara af mannfalli. En Vestmannaeyingar létu þó ekki stríðsbrölt Breta á þessum tíma koma í veg fyrir að halda þjóðhátíð eins og venjulega2.

 

Þjóðhátíð, þessi hátíð fengitímans, 3  hafði  verið haldin í Herjólfsdal frá árinu  1874 og var árlegt tilhlökkunarefni Eyjamanna síðsumars. Þetta árið sá íþróttafélagið Þór um hátíðina, sem var með hefðbundnu sniði. Fór hátíðin fram í Herjólfsdal dagana 6. – 8. ágúst 1943. Þessi hátíðahöld fóru þó á annan veg en ætlað var og breyttust að lokum í harmleik með láti 9 manns vegna tréspíraeitrunar. Verður hér nú greint frá þessum atburði og  hvernig tréspíra var dreift og neytt á þjóðhátíðinni 1943. Einnig verður fjallað um hve mikil áhrif þessi hörmulegi atburður hafði á bæjarbúa, þannig að enn, áratugum síðar, var nánast forboðið að ræða það sem hafði gerst.

 

Þaravaxin tunna á reki

Upphaf þessara hörmunga er í Þrídrangadýpi vestur af Vestmannaeyjum, þar sem ryðguð, þaravaxin járntunna flaut um víðan sjá. Enginn veit hvernig þessi eitraða sending barst i Þrídrangadýpið, en mörg skip höfðu á þessum árum farist við Ísland og var því nokkuð um reka, enda stríðstímar.

 

Hinn  24. júli 1943, fór m/b Stakksárfoss VE 245 í róður frá Vestmannaeyjum. 4 Þriggja manna áhöfn var á bátnum. Formaður var Ólafur Davíðsson, en hásetar á bátnum voru  Guðni Hjörtur Guðnason og Halldór E. Halldórsson. Þeir réru vestur fyrir Eyjar. Um l ½ til 2 sjómílur vestur af Þrídröngum fundu þeir tunnu á reki og tóku þeir tunnuna um borð. Þeir opnuðu sponsið og fundu að vínlykt var af innihaldinu. Ekki neyttu þeir þó neins af innihaldinu þá þegar, enda gerðu þeir ráð fyrir, að það gæti værið varhugavert. Ákváðu þeir að fara með tunnuna í land og var henni með leynd komið í geymslu í Geirseyrinni. Var einnig ákveðið að greina innihaldið og hvort það væri drykkjarhæft.

 

Lausleg rannsókn á innihaldi

Þremur dögum síðar komu þeir allir saman, Ólafur, Hjörtur og Halldór. Ákvað þá Ólafur sem formaður bátsins, að þeir skyldu skipta innihaldinu úr tunnunni á milli sín. Var fyllt á brúsa og síðan tappað af þeim á flöskur heima. Fluttu þeir þannig hver um 50 lítra heim úr geymslunni.

 

Halldór einn þeirra þremenninga var á sjó næstu daga fyrir og eftir þjóðhátíð og kemur ekki frekar hér við sögu.

 

Skömmu  síðar tóku þeir sýnishorn af innihaldinu á flösku, og fór einn þeirra með hana til Jóhannesar Sigfússonar, lyfsala og báðu hann að rannsaka vökvann.  Flaskan var skilin eftir hjá lyfsalanum, en þegar að var gætt eftir einn eða tvo daga hafði Jóhannes þá aðeins athugað innihaldið lauslega en kvaðst ekki geta sagt um hvaða vökvi þetta væri.

 

Ekki er ljóst hvernig þessi niðurstaða lyfsalans skilaði sér til þeirra sem höfðu tunnuna undir höndum og er óljóst hvort þeir hafi gert sér grein fyrir því að ekki hafði verið útilokað að innihaldið gæti verið eitrað.

 

Þremur dögum síðar, hinn 26. júli 1943. komu þeir allir saman, Ólafur, Hjörtur og Halldór. Ákvað þá Ólafur sem formaður bátsins, að þeir skyldu skipta innihaldinu úr tunnunni á milli sín. Var fyllt á brúsa og síðan tappað af þeim á flöskur heima. Fluttu þeir þannig hver um 50 lítra heim úr geymslunni.

 

Halldór einn þeirra þremenninga var á sjó næstu daga fyrir og eftir þjóðhátíð og kemur ekki frekar hér við sögu.

 

Tveim dögum fyrir þjóðhátíð kom Hjörtur við  í Söluturninn og átti tal við Þorlák Sverrisson kaupmann 5 en hann þótti vínhneigður. Spurði Hjörtur, Þorlák, hvort hann þekkti Ólaf Lárusson héraðslækni, og kvaðst Þorlákur vera kunnugur honum. Kveðst Hjörtur þá hafa sagt Þorláki, að þeir á Stakksárfossi hefðu fundið tunnu með vínanda, sem þeir vissu ekki hvers kyns væri.

 

Spurði hann Þorlák jafnframt að því, hvort hann mundi þekkja vínandann. Taldi Þorlákur það ekki óhugsandi. Fór Hjörtur þá heim til sín og sótti eina þriggja pela flösku af vínandanum óblönduðum.

 

Þorlákur smakkaði á og lét orð falla í þá átt, að þetta væri venjulegur spíri. Tók hann þá fram þriggja pela flösku, sem hann sagði, að tréspíritus væri á og væri hann allt öðruvísi en vínandinn, sem Hjörtur væri með. Dreypti Hjörtur á flösku Þorláks til að staðreyna þetta, og fannst honum bragð og lykt annað en af sínum vínanda. Samt kveðst Hjörtur hafa varað Þorlák við að drekka vínandann og bað hann að fara með flöskuna til Ólafs Lárussonar héraðslæknis og láta hann athuga innihaldið. 

 

Hjörtur fór aftur til Þorláks um kvöldið, og kvaðst Þorlákur hafa drukkið um pela úr flöskunni og fullyrti, að þetta væri ekta „spíritus“, enda hafði honum ekki orðið meint af. Hann hafði ekki náð í Ólaf Láruson lækni til að bera þetta undir hann.

 

Þjóðhátíð gengur í garð

Þegar þjóðhátíð er að ganga í garð, hittast þeir Þorlákur og Hjörtur, aftur í  Turninum. Þorlákur var þá undir áhrifum víns.. Þorlákur hafði drukkið upp úr flöskunni og virtist honum ekki hafa orðið meint af. Lík Þorláks fannst hins vegar eftir þjóðhátíð mánudaginn 9. ágúst og hafði hann líklega látist aðfararnótt mánudagsins.

 

Taldi Hjörtur því að spírinn væri neysluhæfur og grandalaus og blandaði fyrir þjóðhátíðina úr tveimur þriggja pela flöskum af rekavíninu á sex eða sjö þriggja pela flöskur. Þetta ætlaði hann til neyslu á þjóðhátíðinni og til sölu. Kláraðist þetta og blandaði hann þá að nýju í þrjár flöskur til viðbótar  af því óblönduðu.

 

Þjóðhátíðin rann nú upp föstudaginn 6. ágúst 1943 og flykktust Eyjamenn í Dalinn til hátíðarhalda. Fór Hjörtur inn í Herjólfsdal, þar sem hátíðarhöldin fóru fram. Hjörtur hafði meðferðis pela af óblönduðu rekavininu. Í tjaldi Jóns Gestssonar, slippstjóra veitti hann af innihaldinu. Skildi Hjörtur pelann eftir í tjaldinu, þegar hann fór.

 

Spírinn fór víða

Þessi peli og annar til  munu svo hafa verið tæmdir síðar um kvöldið og  neytti Hjörtur þess sjálfur og gaf ýmsum með sér. Um kvöldið tók að hvessa af ASA og A og var mjög hvasst fram eftir laugardeginum eða 8 – 9 vindstig og rigning og fóru tjöld að fjúka. Féllu því frekari hátíðahöld í Dalnum  niður þann dag.  

 

Á leiðinni heim hitti Hjörtur, Odd Sigurðsson frá Skuld. Áttu þeir tal saman, og varð úr að Oddur fékk eina þriggja pela flösku og var drukkið úr henni að nokkru á sunnudagskvöldið. Á mánudag eftir þjóðhátíð var flaskan um það bil hálf, og hellti hann því niður, sem  eftir var. Ekki varð Oddi meint af þessu.

 

Jónas bróðir Odds drakk einnig af tréspíranum. Hann veiktist hastarlega og var lagður inn á Sjúkrahúsið mjög kvalinn og með sjóntruflanir. Hann náði  þó síðar fullum bata, Sveinjón Ingvarsson sem var gestkomandi hjá Jónasi lést hins vegar úr tréspíraeitrun 10. ágúst.

 

Um kvöldið á laugardag og fyrr um daginn drakk Hjörtur nokkuð af spíranum og veitti öðrum. Ljóst er af frásögn Hjartar að hann var með einkenni tréspíraeitrunar daginn eftir eða á sunnudeginum Er hann vaknaði og frameftir degi var hann ringlaður og utan við sig og sjón hans óskýr. Eftir að veðrið hafði gengið yfir hélt þjóðhátíðin áfram á sunnudeginum og neytti og veitti Hjörtur áfram af spíranum.

 

Fyrstu dauðsföllin

Jón Gestsson, slippsstjóri fór inn í Dal um kvöldið svo og Andrés bróðir hans. Jón hafði pela af spíra meðferðis.  Andrés mun hafa þáð snaps hjá bróður sinum einu sinni eða tvisvar um nóttina. Árný Guðjónsdóttir á Sandfelli neytti og spírans en veiktist fljótlega með einkenni tréspíraeitrunar og lést hún á mánudeginum  9. ágúst.

 

Þeir Jón Gestsson og Andrés bróðir hans fóru úr Dalnum um 4 leytið aðfaranótt mánudagsins. Á mánudagsmorgni veikist Jón og varð mjög þjáður, er á daginn leið. Hann andaðist á sjúkrahúsinu  aðfararnótt þriðjudagsins 10. ágúst.

 

Er Andrés vaknaði á mánudagsmorgni, var hann með uppköstum og leið illa. Þá hafði hann fulla sjón. Er á daginn leið, dapraðist sjónin, og um kvöldið sá hann allt í þoku. Á þriðjudagsmorgni var hann fluttur á sjúkrahús. Andrés fékk aldrei sjónina aftur og var ætíð kallaður Andrés blindi í Eyjum eftir þetta, enda uppnefnum við Eyjamenn alla ef færi gefst.

 

Tveir aðkomumenn frá Eyrarbakka neyttu nokkurs af spíranum og einnig samtímis af víni úr „ríkinu“ aðallega á sunnudeginum 8. ágúst. Annar þeirra veikist daginn eftir og var með einkenni tréspíraeitrunar. Var máttfarinn og með sjóntruflanir. Hann jafnaði sig síðan á nokkrum dögum en félagi hans veiktist ekki.

 

Sunnudaginn 8. ágúst var fótboltaleikur inní Botni.  Þar fengu allnokkrir snaps af spíra flestir án eftirkasta.

 

Það er ekki auðvelt að rekja dreifingu tréspírans um Vestmannaeyjar þegar rýnt er í þær heimildir sem til eru um atburðinn. Teknir voru um 150 lítrar úr tunnunni í upphafi. Til lögreglu var eftir þjóðhátíð skilað 101,5 lítrum. Virðist því það magn sem neytt var hafa verið um 50 lítrar, sagði Ragnar og sýndi töflu þar sem reynt var að fá mynd af dreifingu og neyslu tréspírans og afleiðingum og áhrifum neyslunnar. Sagði hann þó ljóst er að margir fleiri drukku tréspíra án þess að bíða varanleg mein.

 

Og Ragnar hélt áfram: „Svo virðist sem minnsta magn sem neytt var og leiddi til dauða hafa verið 200 til 300 ml. Mánudaginn 9. ágúst létust  4.  Þann 10. ágúst 4 og einn miðvikudaginn 11. ágúst.   

 

Stórhættulegt efni

Tréspíri (metanól) er efnafræðilega mjög líkur vínanda (etanól) og er lykt, litur og bragð nánast hið sama.  Efnafræðileg formúla metanóls er  CH3OH og etanól C2H5OH.

 

 Fyrstu áhrif af neyslu tréspíra eru sljóleiki, skert samhæfing hreyfinga, uppköst og kviðverkir. Eituráhrif geta komið fram eftir neyslu á litlu magni af tréspíra og jafnvel leitt til dauða. Langvinnar afleiðingar, þeirra sem lifa af eitrunina, geta orðið blinda og nýrnabilun,

 

Við tréspíraeitrun verða bæði bein eituráhrif  og svo eituráhrif af niðurbrotsefnum. Efnahvatar eða ensím eru efni í líkamanum sem vinna að efnabreytingum í líkamanum, Tréspíri (metanól) og etanól eru lík efnafræðilega og sami hvatinn í líkamanum (alcohol dehydrogenasi)  brýtur þessi efni niður.

 

Við niðurbrot etanóls myndast vatn og koltvísýringur en við niðurbrot tréspíra myndast maurasýra, formalín og format sem eru öll eitruð. Maurasýran sýrir blóðið og leiðir til þess að sýru-basajafnvægi líkamans raskast og sýrustig lækkar hættulega mikið sem veldur vefjaskemmdum. Meðferðin beinist að því að leiðrétta sýrustig líkamans og reyna að draga úr styrk þeirra eiturefna sem myndast við niðurbrot tréspírans. Hvatinn sem brýtur niður tréspíra og etnól en etanól hefur meiri sækni í þennan hvata en tréspíri. Sé etanól í blóði á sama tíma og tréspíri brotnar því etanólið niður en ekki tréspíri og kemur það í veg fyrir að eitruð niðurbrotsefni myndist. Við þær aðstæður kemst tréspírinn ekki að hvatanum og brotnar því ekki niður en skilst út um nýrun.  Ef þéttni tréspíra er há, mikið af tréspíra í blóði, geta komið fram bein eituráhrif af honum t.d. á taugakerfi og nýru.

 

Tréspíri hefur verið notaður sem leysiefni til hreinsunar og á kompása í bátum og skipum. Hann var einnig notaður í framleiðslu á cellulosa til skotfæragerðar, sem skýrir líklega fund tunnunnar í Þrídrangadýpi. Hefur tunnan því líklega komið úr hergagnaflutningaskipi, sem hefur siglt um íslensk hafsvæði á leið til átakasvæða í Evrópu.

 

Böndin berast að tréspíranum

Mánudaginn 9. ágúst fór að kvisast um bæinn að eitthvað hefði gerst á þjóðhátíðinni sem hefði leitt til veikinda og jafnvel dauða fólks. Bárust böndin fljótt að rekaspíranaum. Ólafur Ó. Lárusson læknir í Vestmannaeyjum lýsir í grein í Læknablaðinu árið 1943 að uppúr hádegi sunnudags hafi tilfellum fjölgað og voru á næstu dögum um 20 lagðir inn og létust nokkrir á sjúkrahúsinu og einnig úti í bæ. Alls dóu 9 manns og nokkrir tugir veiktust. Hann telur einsýnt að mun fleiri hefðu drukkið spírann en þeir sem lagðir voru inn og tekur fram:

 

 „Vildu þeir sem minnst vekja hræðslu og kvíða aðstandenda og engum var að  þessu upphefð, svo þeir reyndu að bera sig karlmannlega.“

 

Mannskæðasta eitrun í sögu landsins

Miðað við fjölda íbúa í Vestmannaeyjum árið 1943 má reikna út að 125 hefðu látist við sambærilega eitrun á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er því mannskæðasta eitrun sem sögur fara af hérlendis.

 

Ólafur Davíðsson, skipstjóri á Stakksárfossi, sem hafði fundið og flutt tunnuna í land, andaðist síðastur, en hann lést miðvikudaginn 11. ágúst. Sagan segir að eftir að hann hafði gert sér grein fyrir afleiðingum tunnufundarins og dreifingu innihaldsins, hafi hann tekið þá ákvörðun að taka forlögin í eigin hendur og nýtti hann sér tréspírann til þess.

 

Þegar ljóst var orðið hvað hafði gerst  var fólk slegið óhug og hræðslu. Stóðu hópar fólks næstu daga á götum og undir húsvegg og ræddu í hálfum hljóðum hvað hafði gerst og afleiðingarnar, þó í fyrstu hafi ekki verið hægt að gera sér grein að fullu hvað hefði eiginlega gerst.

 

Ægirfréttir á mánudegi

Eftirfarandi frásögn konu sem upplifði þetta lýsir andrúmsloftinu. 6 1943- Mánudagur 10. ágúst 7 rann upp með glaða sólskini og blíðasta veðri. Allt virtist leika í lyndi. Þjóðhátíðin afstaðin með skaplegheitum, nema hvað stormur á föstudagskvöldið, eyðilagði tjald-bústaðina í Dalnum.

 

Kl. 3 mánudag fréttist að Daníel Loftsson væri dáinn, og það snögglega. – Litlu síðar kvisaðist að ekki mundi allt vera með felldu um dauða hans, en fór þó ekki hátt. – Kl. 4 fréttist lát Þorláks Sverrissonar, hafði hann fundist örendur í búð sinni Söluturninum. – Fóru menn þá að bera sér í munn að um áfengiseitrun væri að ræða, en þó voru um það getgátur einar. – Seinna um daginn fréttist að tveir menn höfðu verið fluttir á spítalann, veikir af áfengiseitrun. Það voru þeir Jón Gestsson og Guðmundur Guðmundsson.- 

 

 Á þriðjudagsmorguninn fréttist lát þeirra beggja Jóns og Guðmundar, höfðu báðir dáið þá um nóttina. – Þá fóru að berast út ægifregnir um marga sem sjúkir væru orðnir og að menn væru fluttir hvaðanæfa úr bænum á Sjúkrahúsið. – Um kl. 11 fréttist lát Inga Sveinbjörnssonar, - kl. 1 lát Sveinjóns Ingvarssonar, - kl. 2 lát Þórarins Bernótussonar, - kl. 3 lát Árnýjar Guðjónsdóttur.

 

- Þá voru komnir á sjúkrahúsið veikir Jónas Sigurðsson, Andrés Gestsson, Ólafur Davíðsson, og var þeim tveim síðastnefndu vart hugað líf. – Fleiri voru fluttir á sjúkrahúsið þann sama dag, en þeir voru ekki mjög veikir.  Fleiri dauðsföll fréttust ekki á þriðjudag, en á miðvikudagsnótt andaðist Ólafur Davíðsson, og var hann sá síðasti sem dó af eitruninni.  Út um bæinn lágu menn víðsvegar, sem ýmist ekki vildu láta leggja sig á sjúkrahúsið, enda ekki mjög hættulega veikir.“

 

Margir viðmælanda minna hafa nefnt að mikil kvalaóp hafi borist frá sjúkrahúsinu. Vakti þetta ótta og óhug, en í fyrstu var fólki ekki ljóst hvað var á ferðinni. Svo rammt kvað að þessum hljóðum að málarar sem voru að vinna á sjúkrahúsinu mánudaginn 9. ágúst, voru sendir heim vegna þessa hljóðagangs.

 

Blaðaskrif

Nokkur blaðaskrif urðu eftir þennan atburð og var að mestu fjallað um þennan atburð sem slys. Nokkrir sáu sér leik á borði og vildu tíma Bannáranna endurreistan.

 

Þannig segir Skutull á Ísafirði 23.8..1943 eftirfarandi: „Ástandið er því miður orðið þannig hjá þjóðinni í öllum landsfjórðungum, að allt sem áfengisþefur er af, er svolgrað aðgæzlulaust, eins og sárþyrstur maður að dauða kominn mundi grípa við svaladrykknum. — Þjóðin er orðin drykkjusjúk.“

 

Á forsíðu Morgunblaðsins miðvikudaginn 11. ágúst 1943 er fjallað um áfengiseitrun á þjóðhátíðinni. „ÞAU HÖRMULEGU TÍÐINDI hafa borist úr Vestmannaeyjum, að átta manns hafi dáið þar úr áfengis- eitrun, þar af er ein kona. Nokkrir liggja á sjúkrahúsi, er fengið hafa áfengiseitrun, og sumir þungt haldnir.“

 

 Þjóðviljinn er einnig með forsíðufrétt fimmtudaginn 12. ágúst 1943: „Aldrei mun nein hátíð á íslandi hafa endað með eins skelfilegum afleiðingum og þjóðhátíð Vestmannaeyinga gerði að þessu sinni.“

 

Alþýðublaðið 11. ágúst 1943 „Það má segja með sanni, að gleðihátíð Vestmannaeyinga hafi endað að þessu sinni með ægilegri skelfingu.“

 

Lítið rætt en mikil sorg

Eins og fram kemur í upphafi var tréspíramálið almennt ekki til umræðu hjá Vestmannaeyingum eftir að óróann lægði og virðist sem þeir hafi síðan leitt hjá sér þennan atburð og afleiðingar hans.

 

Sem dæmi má nefna að mörgum árum síðar þegar tréspíramálið bar á góma og spurningar vöknuðu var sussað á unglinga á sumum heimilum afkomenda þeirra  sem höfðu látist.

 

Nokkrir af viðmælendum mínum hafa orðað þetta á eftirfarandi hátt: „Maður var að hlusta á fullorðna fólkið, það var tunna sem hafði rekið með einhverjum óþverra eða spíra og það var tekið á land og byrjað að selja þetta... 

 

Það var mikil sorg í loftinu. Maður fann það sem krakki... Það fór mjög hljótt. Það lá í loftinu einhvers konar skömm og sorg og þetta blandaðist saman og kom út í þagnargildi...

 

Hluttekningin lá í þessu þetta var svona þegjandi aðstoð... það voru eiginlega engin orð til yfir þetta. Það var ekki hægt að koma svona hörmungum í orð“ 8

 

„ Ég  leiddi  þetta voða mikið hjá mér.... Þetta er ekki hlutur sem ég hef áhuga á og skipta mér af því sem mér kemur ekki við.“ 9

 

Skömm og samviskubit

Ekki verður fullyrt hvað veldur því að þögnin réð ríkjum og öll umræða var talin óþörf, tilgangslaus eða til óþurftar. Vera má að einhverjir hafi fundið til sekttarkenndar að slíkt hafi gerst hjá þeim. Á þeirra heimaslóð, heimili eða í þjóðhátíðartjaldi þeirra. Ef til vill hefur samviskubit eða nokkurs konar skömm eða samviskubit þaggað niður alla umræðu?

 

Það er þekkt í sjávarbyggðum hérlendis og erlendis að sjómenn sem hafa lent í sjávarháska og mannstapa voru hvattir til að gefa hugsanlegum eftirköstum sem minnstan gaum og drífa sig sem fyrst á sjóinn aftur. Er ekki að sjá að sú meðferð sem nú tíðkast og talin er gagnleg við t.d. áfallastreituröskun hafi þá átt uppá pallborðið. Virðist frekar hafa verið farin sú leið að forðast sem mest alla umræðu: 

 

Þessi nálgun virðist hafa verið almenn og er hún staðfest hjá viðmælendum mínum sem hafa greint frá þessum viðbrögðum. Ósagt skal látið hvort gagnist betur til að létta líðan þeirra sem eftir lifðu og næst stóðu sú aðferð sem hér hefur verið beitt eða aðrar sem nú eru taldar betri. En ekki fer miklum sögum um varanlegan andlegan heilsubrest Eyjamanna, þrátt fyrir veruleg viðbrögð upphaflega. 

 

Ákærur og dóma

Eftir opinbera rannsókn á tréspíramálinu voru þrír einstaklingar ákærðir fyrir brot á 215. og 219. gr.  almennra hegningarlaga og 6. gr. sbr. 30. gr. áfengislaga nr. 33/1935. Einn var sýknaður og voru hinir tveir dæmdir, annar í 12 mánaða fangelsi og hinn í 6 mánuði.

 

Eftir að þeir sem hlutu dóm höfðu tekið út refsingu síns fer fáum sögum af frekari viðbrögðum Vestmanneyinga og ber heimildum saman að þá var þessu máli lokið.

 

Þakkir fyrir aðstoð

Carl Ólafur Gränz

Sigurjón Andrésson

Halldór Ingi Guðmundsson

 

1  Faðir minn er Jón Ísak Sigurðsson hafnsögumaður 1911-2000.     Stefán Árnason f1892-1977 var yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum 1932 til 1962. 

2 Það var þó ekki fyrrr en árið 1973 sem hljómaði í þjóðhátiðarlagi „þrátt fyrir böl og alheimsstríð verður haldin þjóðhátíð“.

3 Úr ljóði Kormáks Bragsonar, Þjóðhátíðarljóð (Þjóðhátíð Vestmannaeyja)

hátíð fengitímans

hófst í dag með því að nokkrir

prúðbúnir

fótboltamenn

drógu þúsund fána

til himins

4 Lýsing á tunnufundinum og atburðarrásinni eftir það byggir að verulegu leyti á atvikalýsingu í dómi Hæstaréttar nr.79/1944, sem var  kveðinn upp 9. febrúar 1945.

5 Söluturninn var við Strandveg og var þar verslunarþjónusta fyrir sjómenn.

6 Þessi frásögn er skrifuð af Kristjönu Óladóttur, Skólavegi 22, Vestmannaeyjum. Frumritið sem er handskrifað var afhent Skjalasafni Vestmannaeyja í september 2004. Dagsetningar virðast hér hafa eitthvað hafa skolast til . 

7 Mánudagur er 9. ágúst en ekki 10.

8 Ólafur Sigurðsson. Viðtal 18. febrúar 2019. 

9 Perla Björnsdóttir. Viðtal 18.febrúar 2019. 

10 215. gr.  Ef mannsbani hlýst af gáleysi annars manns, þá varðar það sektum … 1) eða fangelsi allt að 6 árum.

11 218. gr.  [Hafi maður með vísvitandi líkamsárás valdið öðrum manni tjóni á líkama eða heilbrigði, og þessar afleiðingar árásarinnar verða taldar honum til sakar vegna ásetnings eða gáleysis, þá varðar það … 1) fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef sérstakar málsbætur eru. 

Nú hlýst stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ. á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.] 219. gr.

[Ef tjón á líkama eða heilbrigði, slíkt sem í 218. gr. eða 218. gr. a getur, hlýst af gáleysi annars manns, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 4 árum.] 1

 

 

Mikil heimildarvinna

„Ég hef um nokkurra ára skeið aflað heimilda um þennan atburð og  m.a. tekið viðtöl við á annan tug Vestmannaeyinga, sem enn mundu þennan atburð og gátu sagt frá sinni upplifun, þó langt væri um liðið. Í fyrirlestrinum fer ég yfir atburðarrásina og hvernig fólk brást við þessum hörmulega atburði,“ segir Ragnar Jónsson læknir, Jóns og Klöru á Látrum um fyrirlesturinn.

 

Í fyrirlestrinum fjallar Ragnar um spíramálið í Vestmannaeyjum á Þjóðhátíð 1943 þegar níu manns létust eftir að hafa drukkið tréspíritus. „Pabbi og Stebbi pól eru að fá sér kaffi inni á skrifstofu heima á Látrum. Þeir tala í hálfum hljóðum, sem er óvenjulegt, því báðum liggur hátt rómur. Þegar þeir ræða pólitíkina og bæjarstjórnmálin tala þeir stundum í hálfum hljóðum, en nú heyri ég að það er verið að ræða eitthvað allt annað.

 

Það er verið að tala um Þjóðhátíð, tréspíra, fólk sem dó og það er talað um menn, sem ég hef ekki heyrt talað um áður. Þegar Stebbi pól er farinn spyr ég mömmu hvað þeir hafi verið að tala um. Ég fæ stutta skýringu frá henni, en henni finnst greinilega óþægilegt að tala um þetta. Mér skilst að á Þjóðhátíðinni 1943 hafi margir dáið eftir að hafa drukkið eitur, þ.e. tréspíra og einn maður hafi orðið blindur,“ segir hann í upphafi fyrirlestursins sem er upplýsandi, ekki síst fyrir yngra fólk sem veit lítið eða ekkert um þennan hörmungaratburð.