Styttur bæjarins – Helga og Sigurgeir saman í Einarsstofu

 

Hluti af sýningu Sigurgeirs Jónassonar í Einarsstofu föstudaginn 8. nóvember voru myndir af listaverkum í bænum sem hann tók sérstaklega fyrir Helgu Hallbergsdóttur, fyrrum safnstjóra Sagnheima.

 

Tengjast myndirnar lokaverkefni hennar í námi og nafnið, Hraun og menn vísar til þess að árið 1999 komu hingað 24 norrænir listamenn og dvöldu hér hluta úr sumri og unnu að verkum sínum. Má ennþá sjá nokkur þeirra verka sem þeir skildu eftir. Sigugeir sýnir myndirnar og Helga segir frá þeim. Verður fróðlegt og gaman að kynnast sögu listaverkanna og fá að vita eitthvað um höfunda.

 

Um Hraun menn segir í Menningarblaði Morgunblaðsins:

Hraun og menn var samstarfsverkefni Þróunarfélags Vestmannaeyja, Vestmannaeyjabæjar, einkaaðila og myndlistarmanna á Norðurlöndunum. Sem styrktaraðilar að verkefninu koma einnig Nordisk kulturfond, Nordens Institut i Grønland og menntamálaráðuneytið. Fyrir tveimur árum var hliðstætt verkefni sett á laggirnar á Grænlandi, undir yfirskriftinni Steinar og menn, og er fyrirmyndin að hluta sótt þangað.

 

"Hugmyndin er að listamennirnir vinni verk sín í nánum tengslum við náttúru og umhverfi Eyjanna. Er og von aðstandenda verkefnisins að það geti orðið listamönnunum efni og hvati til nýrrar hugsunar og til eflingar nýrra hugmynda, ekki síður en að opna hugi jafnt listamannanna og almennings gagnvart myndlist og myndsköpun. Með það í huga munu listamennirnir vinna verk sín fyrir opnum tjöldum og mun almenningi gefast kostur á að fylgjast með þróun og hugmyndum listamannanna um leið og verkin verða til," segir í fréttatilkynningu.



Þegar á líður verkefnið verður svo efnt til ráðstefnu, þar sem reynt verður að svara áleitnum spurningum varðandi myndlist, svo sem: Hvernig vaknar áhugi ungs fólks á myndlist? Hver er staða myndlistar og menningar í upplýsingasamfélagi nútímans?
 


Listamennirnir sem tóku þátt í verkefninu voru: Páll Guðmundsson, Örn Þorsteinsson, Halldór Ásgeirsson og Hulda Hákon frá Íslandi, Niels Christian Frandsen, Olav Manske, Poul Bækhøj, Lise Ring, Liné Ringtved Thordarson, Sys Svinding og Claus Ørntoft frá Danmörku, Buuti Pedersen, Marianne Jessen og Nuka Lyberth frá Grænlandi, Kicki Stenström og Lone Larsen frá Svíþjóð, Helge Røed og Marit Benthe Norheim frá Noregi, Ellika Sjöstrand frá Álandseyjum og Minna Tervo, Barbara Tieaho og Bobi Richford Ekholm frá Finnlandi.