Sýning Guðnýjar Helgu - Inni að lita - leikur með liti

 

 

Guðný Helga Guðmundsdóttir, Eyjakona hélt sýningu á verkum sínum í Einarsstofu í maí. Guðný Helga er fædd og uppalin á Blómsturvöllum að Faxastíg 27.  Foreldrar hennar voru Sigríður Kristjánsdóttir og Guðmundur Kristjánsson, oft kenndur við Hvanneyri. Guðný er í áhöfn VE1953.
 

„Ég hef tekið námskeið í myndlist og lengi verið að mála en það var fyrir þremur árum sem ég komst í kynni við það sem ég er að gera í dag,“ segir Guðný Helga. „Það kallast flæðilist, float art á ensku. Ég vinn með akrílliti sem ég set í allskonar efni til að láta það bindast og flæða. Ég endurvinn gamlar vínilplötur og bý úr þeim meðal annars veggklukkur og er aðeins að byrja hylja þau verk með resin til að gera þær sterkari og fá meiri gljáa. Líka koma litirnir sterkar út.“

 

Margir mættu við opnunina og var Guðný Helga ánægð með aðsóknina.  „Mér hafði aldrei dottið í hug að halda sýningu en var hvött til þess af Heiðari frænda Egilssyni og Beggó vinkonu, Ingibjörgu Bergrós Jóhannesdóttur og manni hennar, Sigurði Waage,“ segir Guðný Helga að lokum.

 

Sýningin gekk vel og var Guðný Helga ánægð með hvernig til tókst.