100 ára afmæli Vestmannaeyjakaupstaðar – Málþing:

 

Nútíð, fortíð og framtíð Vestmannaeyja, tækifæri og ógnanir

 

Sunnudaginn, 17. febrúar var haldið opið málþing í Kviku, bíósal í tilefni af 100 ára afmæli Vestmannaeyjakaupstaðar. Var það vel sótt og heppnaðist í alla staði mjög vel. Fyrirlesarar voru fimm og voru öll með athyglisverð og fróðleg erindi þar sem horft var til möguleika Vestmannaeyja í ljósi þess sem er að gerast annars staðar.  Mest var horft til möguleika í ferðamennsku og sjávarútvegi en báðar þessar greinar af þróast mikið á síðustu árum. Ekki síst sjávarútvegur þar sem er verða til mjög öflug þjónusta og nýsköpun og framleiðsla á vélbúnaði sem seldur er um allan heim. Auk þess hefur nýting hráefnis aukist þannig að verðmæti hvers kílós af fiski hefur meira en tvöfaldast síðustu árum.

 

Yfirskrift málþingsins var Nútíð, fortíð og framtíð Vestmannaeyja, tækifæri og ógnanir. Frummælendur voru dr. Ágúst Einarsson, prófessor fyrrverandi rektor Háskólans á Bifröst sem talaði um samspil atvinnulífs og menningar. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar talaði um tækifærin sem liggja í ferðaþjónustunni. Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, frumkvöðull og stofnandi Protis ehf. á Sauðárkróki ræddi mikilvægi vísinda og nýsköpunar í sjávarútvegi. Ásgeir Jónsson, adjunkt við Háskólann í Reykjavík og umsjónarmaður Haftengdrar nýsköpunar sagði frá nýsköpun og menntun í Bláa hagkerfinu.

 

Tryggvi Hjaltason, senior Strategist hjá CCP og formaður Hugverkaráðs spurði: Hvernig átt þú að tryggja að Vestmannaeyjar sigri framtíðina?

 

Málþingsstjóri var Sara Sjöfn Grettisdóttir, ritstjóri Eyjafrétta.

 

Þingið var öllum opið og verður áhugavert að heyra mat fyrirlesara á stöðu Vestmannaeyja í dag og hvaða möguleika þau sjá framundan.

 

 

Áhorfsgestir málþingsins í Kviku, bíósal

 

— ♦ ♦ ♦ 

 

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri á málþingi:

Sýnum kjark og þor, framsýni og frumkvæði 

 

 

Grípum ný tækifæri sem gefast á nýjum sviðum - Horfum til frumkvöðla eins og Gísla J. Johnsen

 

„Upphaf búsetu í Vestmannaeyjum má rekja langt aftur; jafnvel lengra aftur í sögunni en allra annarra staða á Íslandi með komu Papanna frá Írlandi. Hér í Eyjum er einnig talinn hafa verið elsti þéttbýlisstaður landsins,“ sagði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri þegr hún bauð gesti og fyrirlesara velkomna málþing sem bar yfirskriftina: Vestmannaeyjar í nútíð, fortíð, og framtíð. Tækfæri og ógnir.

Tilefnið var að 100 ár eru frá því að Vestmannaeyjar fengu kaupstaðarréttindi. „Við sem hér búum höfum oft þurft að takast á við stór verkefni. Stundum geigvænlega stór eins og það að fá heilt eldgos yfir bæinn. En við tókumst á við það sem samfélag og byggðum aftur upp öflugt og blómstrandi bæjarfélag.“

 

Saga um frumkvöðla

Íris sagði að löng saga Vestmannaeyja, einkum síðustu 100 árin, sé saga um frumkvöðla og frumkvæði; framsýni og áræðni. „Dæmi um framsýni stórhuga manna var þegar Björgunafélag Vestmannaeyja var stofnað 1918 og í framhaldinu keypti félagið fyrsta varðskip okkar Íslendinga, Þór, og þannig varð félagið raunverulega fyrsti vísirinn að Landhelgisgæslunni.“

 

Næst minntist Íris á Gísla J. Johnsen - sem fæddist árið 1881 og var einstaklega framsýnn og hafði mikil áhrif, Vestmannaeyjum til heilla. „Hann lét smíða og flytja til Eyja fyrsta vélknúna fiskibát landsins árið 1904; og árið 1928 lét hann smíða skipið Heimaey sem var fyrst allra vélbáta á Íslandi búið loftskeytatækjum. 

 

Árið 1913 reisti Gísli fyrstu fiskimjölsverksmiðju á Íslandi í Eyjum og fylgdi því svo eftir með lýsisbræðslu. 

 

Árið 1920 byggði fyritæki Gísla síðan fyrstu olíutankana  hér á landi, sem varð til þess að vélvæðing landsins gekk hraðar fyrir sig og olíuverð lækkaði til muna. Hægt er að fullyrða að atvinnusaga okkar í Eyjum, og jafnvel alls landsins, hefði orðið nokkuð önnur ef framsýni og hugrekki Gísla hefði ekki notið við.“

 

Íris sagði að eðlilega tengdust þau viðfangsefni þar sem Eyjamenn hafa verið í fararbroddi síðustu rúmlega 100 árin sjávarútvegi þar sem Vestmannaeyingar eru í fremstu röð enn í dag.

 

„En það dugar ekki að líta bara á glæsta fortíð og sterka stöðu í nútíð. Það felur í sér stöðnun. Við þurfum að horfa til framtíðar og sýna sama kjark og þor; framsýni og frumkvæði eins og ég lýsti hér áðan. Grípa ný tækifæri sem gefast á nýjum sviðum,“ sagði Íris og kvaðst vona að fyrirlesarnir ættu eftir að fræða, upplýsa og vonandi kveikja nýjar hugmyndir.

 

„Enn í dag byggjum við okkar samfélag fyrst og fremst á sjávartúvegi og greinum honum tengdum. Og um fyrisjánlega framtíð verður hann áfram undirstaðan. Önnur stoðin okkar er ferðaþjónustan sem verður síðan stöðugt mikilvægari og á mikla vaxtarmöguleika með bættum samgöngum. En við þurfum að huga að þriðju stoðinni. Það er hugvitið og nýsköpun í öðrum greinum en ég nefndi hér á undan.

 

Bæjarstjórn samþykkti við gerð síðustu fjarhagsáætlunar að verja fé til að styrkja undirbúning að þeirri vinnu.

 

Málþing sem þetta er hluti af því að horfa fram á við; ræða nýjar hugmyndir og kveikja kjark og þor til að framkvæma þær. 

 

Bjóðum framtíðina velkomna,“ sagði Íris og málþingið sett.

 

— ♦ ♦ ♦ 

 

 

Mælendur á málþinginu: Ásgeir Jónsson, dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, dr. Ágúst Einarsson, Bjarnheiður Hallsdóttir og Tryggvi Hjaltason ásamt Söru Sjöfn Grettisdóttur, ritstjóra Eyjafrétta og Írisi Róbertsdóttur,  bæjarstjóra Vestmannaeyja.

 

Málþingserindin

 

1. Dr. Ágúst Einarsson - Samspil atvinnulífs og menningar

► YouTube-myndband af erindi Ágústs

2. Bjarnheiður Hallsdóttir - Tækifærin liggja í ferðaþjónustunni

► YouTube-myndband af erindi Bjarnheiðar

3. Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir - Íslenskur sjávarútvegur í forystu á heimsvísu

► YouTube-myndband af erindi Hólmfríðar

4. Ásgeir Jónsson - Nýsköpun og menntun í bláa hagkerfinu

► YouTube-myndband af erindi Ásgeirs

5. Tryggvi Hjaltason - Kostirnir við að búa í Vestmannaeyjum margir

► YouTube-myndband af erindi Tryggva