Bjarnheiður Hallsdóttur, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar:

 

Fleiri ferðamenn með betri samgöngum og hlutur Eyjanna í ferðaþjónustukökunni á eftir að stækka

 

Þið eigið einstakan gimstein og framtíðin er svo sannarlega ykkar í ferðaþjónustu

 

 

Bjarnheiður Hallsdóttur, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar kallaði erindi sitt; Tækifærin liggja í ferðaþjónustunni. Hún hefur starfað við ferðaþjónustu í rúman aldarfjórðung og aðallega við sölu, markaðssetningu og skipulagningu Íslandsferða fyrir Þjóðverja. Hún hefur verið formaður Samtaka ferðaþjónustunnar í tæplega eitt ár, eða síðan í mars 2018.

 

Og hún var ekki að mæta í fyrsta skipti til Eyja. „Það eru um 35 ár síðan ég steig síðast í ræðustól hér í Vestmannaeyjum – en þá tók ég þátt í MORFÍS einvígi á milli Framhaldsskólans hér og Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Man nú ekkert hvernig þeir leikar fóru – enda er það aukaatriði í minningunni. Þetta var einmitt í fyrsta skiptið sem ég kom út í Eyjar, en hef komið hingað margoft síðan. Alltaf gott og algjörlega einstakt að koma hingað,“ sagði Bjarnheiður.

 

Langstærsta atvinnugreinin

Hún sagði að vöxtur og viðgangur ferðaþjónustu á Íslandi síðasta áratug eða svo, hafi vart farið framhjá nokkrum manni. „Hún hefur nú vaxið upp í það að vera langstærsta útflutningsatvinnugrein þjóðarinnar og aflaði árið 2017 41% gjaldeyristekna, eða meira en sjávarútvegur og áliðnaður til samans. Þannig aflaði ferðaþjónusta samtals rúmlega 500 milljarða tekna, meðan að álútflutningur aflaði 217 milljarða og sjávarútvegur 197 milljarða. Hlutfall ferðaþjónustu af vergri landsframleiðslu var 8,6% árið 2017 og hafði þá vaxið úr 3,4% árið 2010.“

 

Um 20.000 manns í ferðaþjónustu

Næst tók hún fyrir fjölgun fyrirtækja í greininni og sagði að í dag starfi um það bil 20 þúsund manns beint við ferðaþjónustu. „Ótalin eru síðan afleidd störf í ýmsum öðrum atvinnugreinum og geirum sem svo sannarlega njóta góðs af umsvifum greinarinnar. Nægir þar að nefna sem dæmi landbúnað og fyrirtæki í byggingastarfsemi.

 

Fyrirtækjum í ferðaþjónustu hefur fjölgað gríðarlega. Ef við tökum bílaleigur sem dæmi þá fjölgaði þeim um 51% á milli áranna 2010 og 2017, en þær eru nú 150 skráðar með starfsleyfi. Ferðaskipuleggjendum fjölgaði um 125% á sama tímabili. Til samanburðar er rétt að nefna að umsvif í viðskiptahagkerfinu í heild jukust um 14% á sama tíma.

 

Það var sem sagt ferðaþjónustan sem reif þjóðina af krafti upp úr efnahagslegum öldudal eftirhrunsáranna og á stóran þátt í því að lífskjör á Íslandi hafa í sögulegu samhengi aldrei verið betri,“ sagði Bjarnheiður.

 

Jákvæð áhrif á byggðaþróun

Það besta  sagði hún vera að ferðaþjónustan hefur virkað sem jákvætt afl í byggðaþróun. „Hún hefur hleypt nýju lífi í dreifðar byggðir landsins. Fólk hefur séð tækifærin sem hún býður uppá, nýtt sér þau og þannig skapað nýjan grundvöll fyrir búsetu víða um land og jafnvel á svæðum, sem flokkast sem brothættar byggðir. Nýsköpun, áræðni og dugnaður hefur því hleypt nýju lífi í sveitir og bæi og heimamenn njóta allir góðs af. Það er mín persónulega skoðun að ferðaþjónusta sé mesta og besta byggðaaðgerð Íslandssögunnar – sem þó er í raun ekki aðgerð, heldur meira og minna sjálfsprottin.“

 

Bjarnheiður sagði að auðvitað hefði þetta ekki allt gengið snuðrulaust fyrir sig. Hinn mikli vöxtur ferðaþjónustu á stuttum tíma hafi að sjálfsögðu valdið vaxtarverkjum á ýmsum sviðum - sérstaklega með tilliti til uppbyggingar á nauðsynlegum innviðum og aðlögun að laga- og regluumhverfi. „Við sem þjóðfélag þurfum einfaldlega að laga okkur að breyttum veruleika og nýjum áherslum í atvinnulífinu. Það getur engin atvinnugrein þrifist án þess að setja mark á umhverfi sitt og menningu lands með einhverju móti og auðvitað ónsanngjarnt að fara fram á það.

 

Það bíða mörg stór verkefni og mikilvægar ákvarðanir í tengslum við ferðaþjónustu á Íslandi. Nú eru öll merki þess að ofurvextinum, sem einkennt hefur undanfarin ár, sé lokið og því gefst bæði fyrirtækjum og stjórnvöldum ráðrúm til að ná áttum og undirbúa vonandi mátulegan meðalvöxt greinarinnar í framtíðinni.“

 

Blikur á lofti

En það eru blikur á lofti að mati Bjarnheiðar sem taldi rétt að nefna að horfur í greininni til skamms tíma hafa sjaldan verið eins óvissar og nú. „Það eru óvenju margar ógnanir á sjóndeildarhringnum akkúrat núna: Óvissa í flugrekstri, hatrömm átök á vinnumarkaði með yfirvofandi verkfallsaðgerðum sem geta skaðað ferðaþjónustu gríðarlega og síðast en ekki síst óstöðugt gengi íslensku krónunnar, sem hefur verið of sterkt fyrir ferðaþjónustuna síðustu tvö til þrjú árin.

 

Til langs tíma met ég það þó svo að það sé ekkert nema bjart framundan. Við eigum hér á Íslandi einstakan áfangastað með nánast óþrjótandi náttúrulegum auðlindum, sem við þurfum ekki að ganga á, ef við búum rétt um hnúta. Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein í heiminum sem er í hvað örustum vexti og það er fátt sem mun stöðva það nema einhver risastór alheimsáföll.“

 

Eflum ferðaþjónustu úti á landi

Bjarnheiður sagði eitt af stærri verkefnum sem okkar Íslendinga bíða er að efla ferðaþjónustu úti á landsbyggðinni. „Það er sameiginlegt hagsmunamál allra í mjög stóru samhengi. Þetta verkefni hefur verið á dagskrá í áratugi, án þess að gripið hafi verið til nógu afgerandi aðgerða. Við hjá SAF höfum tekið þetta mál á dagskrá hjá okkur og komum til með að láta í okkur heyra hvað það varðar mjög fljótlega,“ sagði Bjarnheiður og spurði: „En hvernig er staða Vestmannaeyja í þessu samhengi? Eru tækifæri í ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum? Svarið við því er auðvitað bara eitt stórt JÁ.“

 

Aðeins brot af heildinni

Gistinætur í Vestmannaeyjum árið 2017 voru 33.600 meðan þær voru tæpar 8,4 milljónir á landsvísu. Það þýðir að hlutfall gistinátta í Vestmannaeyjum voru tæplega 1,4% af heildarfjölda gistinátta á Íslandi. Íslendingar voru langstærsti gestahópurinn í Eyjum, með 7% gistinátta. Meðaldvalarlengd gesta var 4,5 nótt sem telst mjög gott, sagði Bjarnheiður en ekki er Airbnb og gisting í bílum utan tjaldsvæða inni í þessum tölum.

 

Ef rýnt er nánar í þessar tölur sést að gistinætur Íslendinga í Vestmannaeyjum eru nokkuð stöðugar meðan að gistinætur útlendinga taka kipp upp á viðá milli áranna 2013 og 2015 en taka svo dýfu árið 2016. Árið 2013 verða gistinætur útlendinga í fyrsta skipti fleiri en gistinætur Íslendinga og hafa verið það síðan. Það er hins vegar spurning hvað olli dýfunni árið 2016?

 

Heimaey er ein stór sérstaða

Á Vestfjörðum voru gistnætur árið 2017, 212.000 og vægi útlendinga í gistinóttum um 76%. Á Snæfellsnesi voru gistinætur 226.000 á árinu 2017 og þar var vægi útlendinga í gistinóttum 82%. „Ég tek Vestfirði og Snæfellsnes sem dæmi til samanburðar, vegna þess að það eru svæði sem hafa átt í vök að verjast, og þá sérstaklega Vestfirðir. Það er af þessum tölum alveg ljóst að Vestmannaeyjar eiga mikið inni.“

 

Hún sagði að það sem dregur ferðamenn að ákveðnum stöðum sé oft einvers konar sérstaða, auðvitað samfara markaðssetningu, kynningu og orðspori, sem berst manna á milli. Mest á samfélagsmiðlum í seinni tíð. „Orðið „instagramable“ er lykilorðið í dag. Ég nefni flugvélaflak nokkurt á Sólheimasandi í því samhengi. Ekki vantar sérstöðuna þegar litið er til Vestmannaeyja – það má í raun segja að Heimaey sé ein stór sérstaða – sem heimamenn hafa svo sannarlega nýtt sér með framboði á alls konar þjónustu fyrir ferðamenn. Hér er óhemju margt að sjá, skoða og gera – og allt aðgengilegt á tiltölulega litlu svæði. Held að ekki sé á neinn hallað, þó ég nefni sérstaklega Eldheima, sem gerir stærsta viðburði í sögu Heimaeyjar frábær skil.“

 

Allt til staðar, en hvað?

En Bjarnheiður spyr: „En hvernig stendur þá á því að ferðaþjónusta er ekki umfangsmeiri í Vestmannaeyjum, en raun ber vitni? Hér er allt til alls. Sérstaða á hverju horni, óviðjafnanleg náttúra, áhugaverð menning, lundinn, gönguleiðir, útsýni, næg og góð þjónusta, metnaðarfull söfn og síðast en ekki síst vilji til að taka á móti ferðamönnum. Og allt heila klabbið fram úr hófi „instagramable“.

 

Við þekkjum öll svarið við því. Það eru samgöngurnar. Tryggar, öruggar og tiltölulega ódýrar samgöngur eru lífæð ferðaþjónustu landa og svæða og þær hefur einfaldlega vantað hingað. Það er vesen að komast til Vestmannaeyja. Erfitt til dæmis að setja þær inn í skipulagðar hópferðir. Trúið mér, ég þekki það. Í fimm til sex mánuði á ári er Landeyjahöfn lokuð, flug hlutfallslega dýrt og það langar fáa að sigla í þrjá tíma hvora leið til og frá Þorlákshöfn, eða hafa hreinlega tíma til þess.“

 

Hún sagði að vissulega megi líka færa rök fyrir því að þetta takmarkaða aðgengi hafi einnig haft sína kosti – þar sem sennilega hafa ekki skapast vandræði hér vegna of mikillar ásóknar eins og sums staðar á Íslandi, þar sem ekki hefur verið höfð hugsun á eða gefist tími til að undirbúa viðkvæm svæði fyrir mikla umferð.

 

Meiri möguleikar með nýjum Herjólfi

„Nú er hins vegar líklegt að Vestmannaeyingar þurfi að fara að undirbúa sig undir meiri umferð, nýjar fjárfestingar og fleiri störf í ferðaþjónustu, nú þegar fyrirséð er að nýr Herjólfur hefur siglingar sem verða mögulegar allt árið frá Landeyjahöfn. Vestmannaeyjar eru aðdráttarafl fyrir bæði Íslendinga og útlendinga.

 

Ekki gleyma því að þið fáið hingað á Orkumótið lungann af öllum níu til tíu ára börnum landsins sem þið eigið auðvitað að líta á sem framtíðarviðskiptavini. Íslendingar eru og verða stærsti einstaki markhópur íslenskrar ferðaþjónustu. Það vill oft gleymast. Eftirspurn meðal erlendra gesta, get ég lofað ykkur að á eftir að aukast með betri samgöngum og hlutur Eyjanna í ferðaþjónustukökunni á eftir að stækka.“

 

Lærið af mistökum annarra

Bjarnheiður sagði ekki mörg svæði í heiminum sambærileg við Vestmannaeyjar og eftirspurn ferðamanna eftir einhverju einstöku, einhverju alvöru, eru sífellt að verða meira áberandi. „Vestmannaeyingar hafa tækifæri til að læra af mistökum eða aðgerðaleysi uppi á landi og ég vil bara ráðleggja ykkur að gera það. Sem dæmi má nefna stýringu á straumi ferðamanna – sem er að verða sífellt meira aðkallandi á stærstu stöðunum t.d. á Suðurlandi.

 

Ég get ekki látið hjá líða að nefna umferð skemmtiferðaskipa, sem er vissulega jákvæð – en getur fljótt snúist upp í andhverfu sína ef menn ætla sér þar um of. Það sýna dæmi víðsvegar að úr heiminum, þó ekki hafi sú umræða verið áberandi á Íslandi enn sem komið er. Auk þessa er vert að nefna rekstarumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja og stuðning samfélagsins við þau.“

 

Tökum vel á móti gestum

Hún sagði mikilvægt að umhverfið sé vinveitt og að þannig sé búið um hnúta að allir sitji við sama borð og farið sé eftir lögum og reglum. „Að lokum er það síðan lykilatriði að heimamenn séu jákvæðir gagnvart ferðaþjónustu. Séu gestrisnir, hjálpsamir og vingjarnlegir. Viðmót og framkoma heimamanna er nefninlega miklu stærri og mikilvægari þáttur í heildarupplifun gesta en margir halda.

 

Ég ætla að leyfa þýskum ferðamönnum sem hafa heimsótt Vestmannaeyjar að eiga lokaorðin hér í dag, en ég gerði litla könnun í facebookhópi þýskra áhugamanna um Ísland, þar sem ég bað um skoðun fólks á Vestmannaeyjum og hvað það er sem gerir svæðið sérstakt. Það er oft þannig að heimamenn átta sig ekki á því hvað aðkomufólki og sérstaklega útlendingum finnst áhugavert og merkilegt. Ég til dæmis frétti fyrst af því að Norðurljós væru áhugavert fyrirbæri þegar ég flutti til Þýskalands.

 

Kæru Vestmannaeyingar. Þið eigið einstakan gimstein og framtíðin er svo sannarlega ykkar – í ferðaþjónustu,“ sagði Bjarnheiður að lokum og brá upp á tjald umsögnum þýskra ferðamanna eftir heimsókn til Vestmannaeyja:

 

Í Vestmannaeyjum er allt á einum stað, paradís fyrir jarðfræðinga og dýravini.

Dásamlegt útsýni,  áhrifarík ummerki eldgosa allt um kring.

Lundann.

Eldheimar – frábærlega gert. Eitthvert áhrifamesta safn sem ég hef komið á.

Sérstakur heimur, undirliggjandi kraftur þar sem ég hleð sálarrafhlöðuna.

Gatan með götuskiltunum, þar sem húsin eru grafin undir.

Gönguferðin upp bröttu brekkuna ofan við tjaldstæðið.