Tryggvi Hjaltason hjá CCP – Kostirnir við að búa í Vestmannaeyjum margir:

 

Erum í þeim sporum að við verðum að fara gera eitthvað

 

Þarf að skapa  aðstöðu fyrir eitthvað nýtt – Getur skipt sköpum um framtíðina

 

 

Fimmti í röð fyrirlesara á málþinginu var Tryggvi Hjaltason sem er titlaður senior Strategist hjá CCP og formaður Hugverkaráðs.  Hann er uppalinn Eyjamaður, nýfluttur heim með fjölskylduna og fyrirlesturinn kallaði hann: Hvernig átt þú að tryggja að Vestmananeyjar sigri framtíðina?

 

Tryggvi flutti heim í heiðardalinn með fjölskylduna á síðasta ári og sagði að þeim hefði aldrei liðið betur. Þau eru með þrjú ung börn og sagði hann Vestmannaeyjar henta vel fyrir fjölskyldur eins og þeirra. Tryggvi stýrir greiningardeild CCP sem nú er í eigu fyrirtækis í Suður Kóreu. Hann segir að stjórnendur fyrirtækisins hafi stutt hann í þeirri vegferð að flytja til Eyja og það hafi gengið að óskum þá sex mánuði síðan hann flutti.

 

Tryggvi er giftur Guðnýju Sigurmundsdóttur og bæði er þau fædd og uppalin í Eyjum. Vissu því að hverju þau gengu þegar ákveðið var að snúa aftur heim. Þau komu úr Reykjavík en bjuggu áður í Bandaríkjum þar sem Tryggvi stundaði nám við Embry Riddle háskólann í Arizonaríki í Bandaríkjunum í öryggismálum og vinnslu upplýsinga. Hann lagði einnig stund á liðsforingjaþjálfun fyrir Bandaríkjaher. 

 

Breytti miklu að verða faðir

Tryggvi sagði að eftir nám hafi þau staðið frammi fyrir þeirri spurningu hvort þau ættu að flytja heim til Íslands eða skapa starfsvettvang í Bandaríkjunum. Og spurningin hafi verið; er gott að búa á Íslandi? „Svarið var já og nei. Á Íslandi er einhæft auðlindahagkerfi en það breytti miklu hjá mér að verða faðir. Þegar Bjartur fæddist 2011 fór maður að hugsa um velferð barnanna og þá varð niðurstaðan, að það er gott að ala upp börn á Íslandi,“ sagði Tryggvi sem vann m.a. hjá hinu opinbera áður en hann réð sig til CCP sem framleiðandi.

 

Vissi að Vestmannaeyjar eru dásamlegur staður

Tryggvi sagði að það hefði verið gaman að koma að sölunni á CCP til Suður Kóreu sem væri stærsta sala á hátæknifyrirtæki til erlendra aðila á Íslandi.

 

Í framhaldi af því fór hann að velta fyrir sér hvað væri hægt að gera í Vestmannaeyjum sem alltaf lokkuðu. „Ég vissi að Vestmannaeyjar eru dásamlegu staður. Hef upplifað það þegar ég hef stundum tekið að mér leiðsögn ferðamanna um Eyjuna, að fólk sem hingað kemur hefur grátið yfir fegurð Eyjanna. Já, Vestmannaeyjar eru einstök Perla á heimsvísu,“ sagði Tryggvi.

 

Ódýrara húsnæði

Einn af kostunum við að flytja til Eyja var ódýrara húsnæði, þar sem hann fékk stórt hús sem hentaði fjölskyldunni fyrir einn þriðja af því sem sambærilegt hús kostar í Reykavík. „Svo fékk ég auka tvo tíma í dag sem fóru í að komast á milli staða í Reykjavík. Hér er ekkert stress og ég komst að því að hér vinna um 30 sérfræðingar fyrir fyrirtæki uppi á landi og um allan heim þannig að maður er ekki einn í þessu,“ sagði Tryggvi sem sjálfur stýrir   deild hjá CCP sem nær til alls heimsins.

 

35 hljómsveitir

Hann sagði Vestmannaeyjar alltaf hafa verið háðar auðlindum hafsins en hafi líka notið góðs af framsæknum fyrirtækjum. Kvótastaðan væri góð en það væri ekki sjálfgefið. „Við höfum notið góðs af framtakssemi manna eins og Gísla J. Johnsen á fyrri hluta síðustu aldar og Einars ríka um miðja öldina.

 

Núna erum við í þeim sporum að við verðum að fara gera eitthvað. Það þarf að skapa hér aðstöðu fyrir eitthvað nýtt. Þegar ég var ungur var opnuð aðstaða í Fiskiðjunni gömlu þar sem krakkar gátu mætt með hljóðfæri og spilað af vild. Upp úr þessu umhverfi spruttu 35 hljómsveitir,“ sagði Tryggvi sem stofnaði hljómsveitina Stillbirth með félögum sínum.

 

Heimsfrægir í Færeyjum

„Við náðum að verða heimsfrægir í Færeyjum þegar við komum fram á G-Festival í Götu. Foreign Monkeys, sem spruttu upp úr þessu umhverfi sigraði í Músíktilraunum árið ????.  En því miður endaði þetta ævintýri þannig að ekki var á endanum nógu vel haldið utan um aðstöðuna og að lokum var kveikt í aðstöðunni og eftir það fækkaði á fjórum árum hljómsveitum úr 35 í tvær,“ sagði Tryggvi. „Þetta sýnir aðstaðan skiptir lykil máli.“

 

Ný tækifæri með bættum samgöngum

Hann sagði að þessu þyrfti að huga að hér í Vestmannaeyjum. Nefndi hann sem dæmi klasastarfsemi, eins og Sjávarklasann í Reykjavík sem Eyjamaðurinn Þór Sigfússon hafði forgöngu um og hefur blómstrað. Sama má segja um Fjártækniklasan í Reykjavík eða Verið á Sauðakróki, þegar aðstaða er sett upp þá laðast að henni hæfileikar og verkefni.

 

Spurði Tryggvi, af hverju mætti ekki huga að stofnun klasa í Vestmannaeyjum sem væri reyndar til staðar í Þekkingarsetrinu þar sem eftirspurnin hefði verið þrefallt meiri en framboðið.

 

Tryggvi sagði ungt fólk vilja flytja til Eyja en eins og staðan er í samgöngum sé það ekki spennandi, siglt í Þorlákshöfn meiri hluta ársins og flug alltof dýrt. „En við stöndum frammi fyrir byltingu með nýrri ferju. Það verður algjör bylting ef hægt er að sigla í Landeyjahöfn tíu til ellefu mánuði á ári og niðurgreiðsla á flugi um 50% sem við stöndum frammi fyrir mun líka skipta máli.“

 

Styðjum frumkvöðla á öllum aldri

„Þetta gefur okkur ný tækifæri og við þurfum að styðja við frumkvöðla, alla frumkvöðla á öllum aldri.  Við þurfum að hugsa þetta allt frá grunnskóla og upp úr. Við þurfum að markaðssetja Vestmannaeyja betur. Við erum með pálmann í höndunum. Okkur vantar tæknifólk og við verðum að halda áfram. Með nýju fólki eflist samfélagið,“ sagði Tryggvi sem er ákveðinn í að búa í Vestmannaeyjum á meðan það sé best fyrir fjölskylduna. Hvort þau eigir eftir að fylgja krökkunum í námi eigi eftir að koma í ljós.

 

Algjör bylting á lífsgæðum við að flytja til Vestmannaeyja

Í skemmtilegri grein á FB segir Tryggvi frá reynslu fjölskyldunnar af því að flytja af höfðuðborgarsvæðinu til Vestmannaeyja. Látum við hana fylgja með.

 

„Núna eru um sex mánuðir síðan við Guðný Sigurmundsdóttir fluttum með börnin okkar þrjú af höfuðborgarsvæðinu til Vestmannaeyja. Ef þér finnst vanta tíma, ert að kljást við stress, í veseni á húsnæðismarkaði eða strögglar við að koma barni á leikskóla eða til dagmömmu eða tónlistarnám þá er eftirfarandi kannski áhugavert fyrir þig.

 

Það eru sérstaklega fimm þættir sem hafa verið algjör bylting á lífsgæðum við að flytja til Vestmannaeyja:

 

Leyni tímavopn

1. Það er eins og ég hafi fundið eitthvað leyni tímavopn. Það hafa bæst einn til tveir klukkutímar í daginn minn af aukafrítíma sem fer ekki í umferð eða vesen í borginni. Ég er eina mínútu að henda krökkunum í leikskóla, og get klárað þrjú erindi niðri í bæ, eins og Pósthús, búðina og sýslumann á 15 til 20 mínútum.

 

Ódýrara húsnæði

2. Það er fáránlega mikill lúxus að hafa loksins komist af leigumarkaðinum i Reykjavík. Við vorum farin að borga 300 þúsund á mánuði í leigu. Í Vestmannaeyjum keyptum við risa einbýlishús á sama pening og um  85 fm íbúð kostar í höfuðborginni og afborganir með öllum kostnaði eru bara svipaðar og við að vera á leigumarkaði í að minnsta kosti tvöfalt minna húsnæði.

 

Er partur af samfélaginu

3. Ég er partur af samfélagi hérna í Vestmannaeyjum. Þú finnur það bara við það að fara út í búð sem í Reykjavík er almennt iðja sem flestir eru að reyna að drífa af. Eru ekki mikið að horfa í augun á fólkinu í kringum sig en hér hefur fólk tíma sem er algjörlega ný lífsreynsla.

 

Í Vestmannaeyjum hittist fólk og spjallar í búðinni, það eru allir afslappaðir og spyrja mann hvernig gangi að aðlagast Eyjum og hafa raunverulegan áhuga á velferð barna minna og vinnu, áhuga sem er tilkominn út frá samfélagslegum gildum: „Hér erum við í sama liði og þú skiptir mig máli“. Það hefur verið ótrúlega skrýtin tilfinning að upplifa þetta sem nýja uppsprettu af styrk í sjálfsmyndina.

 

Leikskóli í hæsta gæðaflokki

4. Tvö börn á leikskóla sem er í langhæsta gæðaflokki samanborið við þá þrjá leikskóla sem við höfðum prófað í borginni. Hér er allt mannað í topp af yndislegu eðal fólki, maturinn eldaður á staðnum úr góðu hráefni, aðstaðan til fyrirmyndar og Hjallastefnan algjör snilld.

 

Engir veikindadagar starfsfólks, skert þjónustu eða annað sambærilegt sem var daglegt brauð í Reykjavík. Árni Stormur fékk pláss 12 mánaða sem við ákváðum að nýta ekki fyrr en hann var orðinn 18 mánaða.

 

Allt annað tempó

5. STRESS!!!! Ég var farinn að kljást við of mikið stress í allri fundageðveikinni og umferðinni og almenna viðhorfinu sem er í gangi í borginni. Það er bara allt annað tempó í Vestmannaeyjum og ég er farinn að finna hvernig þetta er að breyta algerlega getu minni til að geta notið stundarinnar.

 

Allt saman hefur þetta leitt til þess að ég á fleiri og betri stundir með börnunum mínum og Guðnýju og mér líður í alvörunni eins og ég hafi fundið eitthvað svindl í lífinu með þessum flutningum.

 

Það hefur síðan gengið miklu betur en ég þorði að vona að sinna allri vinnu og verkefnum í borginni og að einhverju leyti hafa afköst mín aukist því ég fæ meira næði hér til að fara í dýpri greiningarvinnu.

 

Vestmannaeyjar og Eyjamenn: Takk fyrir að gera líf mitt betra!