Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir - Íslenskur sjávarútvegur í forystu á heimsvísu
Prímus mótor í þekkingariðnaði og sópar að sér verðlaunum
„Mig langar til að byrja á því að óska ykkur kæru Vestmanneyingar til hamingju með 100 ára afmælið og þakka ykkur fyrir að bjóða mér að koma hingað og halda erindi um mikilvægi vísinda og nýsköpunar í sjávarútvegi. Viðfangsefnið er mér mjög kært og mun ég gera mitt besta til að varpa ljósi á mikilvægi vísinda og haftengdrar nýsköpunar og hversu mörg tækifæri felast í því fyrir bæjarfélög eins og Vestmannaeyjar að hlúa að þekkingariðnaði.,“ sagði dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, sem ræddi mikilvægi vísinda og nýsköpunar í sjávarútvegi í erindi sínu. Hólmfríður er með meistaragráðu í næringarfræði og doktorsgráðu í matvælafræði. Hún hefur unnið sem verkefnastjóri hjá Matís og var framkvæmdastjóri Iceproteins frá 2013 til 2019 og leiddi þar rannsókna- og þróunarvinnu sem m.a. leiddi til stofnunar PROTIS sem er sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu og markaðssetningu á PROTIS® Fiskprótín fæðubótarefnunum. Hólmfríður starfaði sem framkvæmdastjóri PROTIS frá stofnun þess 2015 til ársins í ár.
Vísindi eru mikilvæg fyrir þróun í sjávarútvegi
Hólmfríður sagði vísindi mikilvæg fyrir þróun í sjávarútvegi og aukna framleiðni þurfi að byggja á traustum þekkingargrunni. Hún sagði íslenskan sjávarútveg í alþjóðlegri forystu og að Íslendingar hafi tækifæri til að halda forystunni. „Mig langar til að byrja á því að segja að í mínum huga eru vísindi mjög mikilvæg fyrir framþróun í sjávarútvegi þar sem aukin verðmætasköpun og framleiðni verður að byggjast á traustum þekkingargrunni. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að í engri annarri atvinnugrein geti Íslendingar lýst yfir alþjóðlegri forystu nema í sjávarútvegi. Og við höfum allt til að bera til að halda þeirri forystu þar sem við erum nú þegar með sterkan sjávarútveg og öflugan þekkingargrunn í greininni til að byggja ofaná.“
Krefjandi áskoranir
Áskoranir í íslenskum sjávarútvegi sagði Hólmfríður vera, takmarkaðar náttúruauðlindir, loftlagsbreytingar og mengun hafsins, harða samkeppni á alþjóðamörkuðum, kröfuharða og upplýsta neytendur og sjálfvirknivæðingu.
„Þetta eru nokkrar af þeim áskorunum sem íslenskur sjávarútvegur stendur frammi fyrir og ber fyrst að nefna takmarkaðar náttúruauðlindir sem setja vexti greinarinnar skorður en þar höfum við gert vel og er íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið sem ígrundast af upplýsingum sem m.a. eru fengar með vísindalegum aðferðum, talið vera til fyrirmyndar.
Loftlagsbreytingar sem felast m.a. í hlýnun og ekki síst súrnun hafsins eru einnig stórar áskoranir þar sem þær hafa mikil áhrif á aðstæður í sjónum og útbreiðslu fisktegunda. Hér þurfum við með vísindalegum aðferðum að fylgjast vel með til að geta áfram stundað veiðar á fiski og boðið upp á heilnæmt sjávarfang sem aflað er með sjálfbærum hætti.
Og um mengun hafsins eins og t.d. örplastsmengun og þungmálmamengun er sömu sögu að segja.
Greinin sjálf þarf líka að huga að því að menga minna og þar hefur íslenskur sjávarútvegur staðið sig vel þar sem losun er nú helmingi minni en fyrir 20 árum og vegur þróunarvinna sem leitt hefur til minni olíunotkunar þar þyngst.
Aukin samkeppni
Aukin samkeppni á erlendum mörkuðum og kröfur neytenda um gæði vöru og sjálfbæra framleiðslu eru einnig stórar áskoranir sem íslenskur sjávarútvegur stendur frammi fyrir og þar munu upplýsingar sem aflað er á vísindalegan hátt vera mikilvægar.
Síðast en ekki síst langar mig til að nefna sjálfvirknivæðingu sem mikilvæga áskorun því að mínu mati þá verðum við að leggja allt kapp á að sjálfvirknivæða sjávarútveginn, það er einfaldlega ekki forsvaranlegt til framtíðar að allar þessar hendur þurfi til til að veiða og vinna fisk. Og þessi vinna verður að vinnast í samstarfi við þekkingarsamfélagið.
Mikilvægi rannsókna
Þegar á heildina er litið kemur glöggt í ljós mikilvægi rannsókna og þróunar og ekki síst mikilvægi samstarfs þekkingarsamfélagsins við sjávarútveginn til að takast á við þessar áskoranir á hagkvæman hátt í sátt við náttúruna. Og í raun stöndum við í dag vel að vígi þar sem við erum nú þegar með sterkan sjávarútveg og öflugan þekkingargrunn í greininni til að byggja á. Eitthvað sem margar aðrar þjóðir sem við stöndum í samkeppni við eiga enn eftir að byggja upp.“
Hreinleiki eitt sterkasta markaðsvopnið
Rannsóknir og þróun í gæðum og hreinleika skipta miklu því hreinleiki og gæði eru sterkt markaðsvopn þegar kröfuharðir neytendur er annars vegar. Líka heiðarlegur og vel rökstuddur málflutningur í markaðssetningu eru lykilatriði að mati Hólmfríðar. „En eins og áður segir þá mun samkeppni á alþjóðamökuðum einungis eiga eftir að verða sterkari. Og þar munu gæði og hreinleiki vörunnar sem drifið er áfram af rannsóknum geta orðið eitt sterkasta markaðsvopn Íslendinga í framtíðinni.
Stöndum vel að vígi
Kröfur neytenda verða sífellt meiri og sá hópur neytenda sem leggur áherslu á að borða heilnæm matvæli, sem eru framleidd án neikvæðra áhrifa á umhverfið og samfélagið stækkar stöðugt á heimsvísu. Þetta eru neytendur sem eru mjög meðvitaðir um heilsufarsleg áhrif matvæla, vilja þekkja uppruna þeirra og eru reiðubúnir að greiða meira verð fyrir matvæli sem gera heilsunni gott og á sama tíma er aflað og unnin á sjálfbæran hátt.
Á öllum þessum sviðum stendur fiskurinn okkar mjög vel að vígi en við megum ekki sofna á verðinum, við verðum að halda áfram að efla þekkinguna innan sjávarútvegsins og byggja okkar málflutning úti á mörkuðunum á heiðarleika og vel rökstuddum upplýsingum og ekki bara því sem okkur finnst eða langar til að segja í það og það skiptið.
„Nýsköpun“ Að gera meira úr því sama
Að mati Hólmfríðar hefur islenskur sjávarútvegur gert vel í að búa til meiri verðmæti úr sama magni af hráefni. Hvert útflutt kg af sjávarafurðum skilar núna rúmum tvisvar sinnum meiri verðmætum í dag en árið 2003. Árið 2003 var tekin stefnumótandi ákvörðun um að auka verðmæti sjávarfangs með rannsóknum og þróun, sem hún sagði að hefði skilað árangri.
„Takmarkaðar náttúruauðlindir setja vexti íslensks sjávarútvegs skorður eins og áður hefur verið nefnt. Með rannsóknum og nýsköpun sem felast m.a. í bættri meðhöndlun aflans, sjálfvirkni, nýjungum í vöruframboði og síðast en ekki síst í nýjum kæliaðferðum hefur íslenskum sjávarútvegi tekist að búa til meiri verðmæti úr sama magni af hráefni á síðustu árum.
Aukin verðmæti
Í dag erum við að fá rúmlega tvisvar sinnum meira fyrir hvert útflutt kg af sjávarafurðum en árið 2003, en það ár var tekin stefnumótandi ákvörðun um að auka verðmæti sjávarfangs með rannsóknum og þróun. Þá var ákveðið að huga fremur að verðmætum afurða en magni hráefnis. M.a. var settur á laggirnar AVS rannsóknasjóðurinn sem hefur það að markmiði að veita styrki til rannsókna- og þróunarverkefna, sem auka verðmæti sjávarfangs. Þó svo að AVS sjóðurinn megi muna fífill sinn fegurri þá hefur það engu að síður sýnt sig að tilkoma hans á sínum tíma og þau skilaboð ríkisins um að veita fé í rannsóknaverkefni sem höfðu það markmið að auka verðmæti sjávarfangs var mikilvægt fyrir nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi.
Með skýrri stefnu þá komu ólíkir aðilar saman í fjölmörgum verkefnum sem höfðu það að markmiði að auka verðmæti sjávarfangs, beittu þar sköpunarkrafti sínum og sýndu frumkvæði að metnaðarfullri þróun.“
Nýsköpun í kæli- og vinnslutækni
Meðal nýunga í meðferð á vinnslu á fiski nefndi Hólmfríður, ofurkælingu um borð í skipum sem skilar sér í aukinni kælingu og ferskara hráefni. Kælingu í flutningum, skipaflutningum í stað flugflutninga, vatnsskurð sem hámarkar verðmæti. „Sú þróun sem átt hefur sér stað á sviði kælingar er gott dæmi um metnaðarfullt þróunarstarf þar sem þekkingarsamfélagið, tæknifyrirtæki og iðnaðurinn hafa sameinast og beitt sköpunarkrafti sínum í þágu aukinna gæða og verðmætasköpunar.
Bæði ofurkælingartækni um borð í fiskiskipum og kæling afurða í flutningum hafa skilað hagræðingu, auknum gæðum, verðmætari afurðum og umhverfisvænni flutningsmáta.
Sem dæmi að í dag er um helmingur af ferskum flökum sem íslensk fyrirtæki flytja út til Evrópu fluttur með skipum í stað þess að fyrir um 15 árum síðan voru öll fersk flök flutt út með flugi. Og þetta er fyrir tilstuðlan þróunarvinnu sem leiddi til bættrar kælitækni sem gerði það mögulegt að lengja geymsluþol vörunnar og bæta meðhöndlun fisksins frá veiðum og í gegnum virðiskeðjuna, alla leið til neytandans..
Vatnsskurður eykur verðmæti
Vatnsskurðstæknin hefur líka lagt sitt á vogarskálarnar til að auka verðmætasköpun þar sem möguleiki gefst á að hámarka verðmæti flaksins með mismunandi skurði og með aukinni kælitækni í flutningum getum við tryggt að koma verðmætustu bitunum í sem bestum gæðum til körfuharðra kaupenda á hagkvæman og umhverfisvænan hátt.
En með aukinni vitund um gæði og nýtingu á hráefni hefur einnig skapast betra hráefni fyrir hvers kyns vinnslu hliðarafurða eins og t.d. vinnslu verðmætra lífefna sem nýtast í lyfja og snyrtivöruiðnaði,“ sagði Hólmfríður.
Í forystu í þekkingariðnaði
Hólmfríður sagði engan vafa á að íslenskur sjávarútvegur er prímus mótor í þekkingariðnaði. Það sanni verðlaun sem fyrirtæki í sjávarútvegi og fyrirtæki sem tengjast greininni hafa fengið á síðustu árum. Kerecis hlaut Íslensku nýsköpunarverðlaunin 2018, Skaginn3X fékk þau 2017, Zymetech 2015, Valka 2013 og Primex 2012. Vísir fékk Íslensku þekkingarverðlaunin 2018.
„Á þessu sjáum við að síðastliðin ár hefur heldur betur verið mikil gróska í vinnslu lífefna úr sjávarfangi og aukinni tæknivæðingu innan sjávarútvegsins. En við sjáum það líka að íslenskur sjávarútvegur er prímus mótor í íslenskum þekkingariðnaði.
Á sl. sjö árum hafa fimm íslensk nýsköpunarfyrirtæki með skýr tengsl við sjávarútveginn hlotið Nýsköpunarverðlaun Íslands. En Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og vísindastarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna, sem voru fyrst veitt árið 1994, er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu.
Mikilvægur fyrir þekkingariðnaðinn
í þessu samhengi langar mig líka til að vekja athygli á handhafa íslensku þekkingarverðlaunanna en sjávarútvegsfyrirtækið Vísir hlaut þau árið 2018. Í því vali er horft til þeirra fyrirtækja sem hafa með aukinni sjálfvirkni bætt þjónustu, afköst, nýtingu og framleiðni. Einnig er talið mikilvægt að fyrirtækin starfi í sátt við samfélagið og séu með ríka umhverfisvitund. Ásamt Vísi, voru Arion banki, HB Grandi og Skaginn 3x tilnefnd til íslensku þekkingarverðlaunanna árið 2018 sem Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga veitir.
Í upphafi fullyrti ég að vísindi væru mikilvæg fyrir íslenskan sjávarútveg en það fer heldur ekki á milli mála hér hversu mikilvægur íslenskur sjávarútvegur er fyrir þekkingariðnaðinn,“ sagði Hólmfríður.
Verðmætasköpun til framtíðar…Nýsköpun!
Hólmfríður sagði að áhersla á nýsköpun og rannsóknir sé að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og sé von á skýrslu um nýsköpunarstefnu ríkisins núna í vor. Reynslan sýni að fjárfesting í nýsköpun í sjávarútvegi auki verðmætasköpun. Mikilvægt sé að styðja við nýsköpun í sjávarútvegi sem líka gefi tækifæri til að efla landsbyggðirnar.
„Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er lögð áhersla á nýsköpun og rannsóknir þar sem segir að „nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits sé mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkari samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóðar. Ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga.
Og ekki vantar okkur dæmin sem sýna að fjárfestingar í nýsköpun í sjávarútvegi og haftengdum greinum geta aukið verðmætasköpun sé horft til framtíðar.
Styrkir landsbyggðina
Það er því að mínu mati mjög mikilvægt að styðja við nýsköpun í sjávarútvegi og að stjórnvöld geri sér grein fyrir því hversu mikilvægur sjávarútvegurinn er fyrir nýsköpun á Íslandi. Í þessu sambandi langar mig líka til að benda á hversu mikil tækifæri felast í því fyrir landsbyggðina að nýsköpun í sjávarútvegi sé stunduð.
Stærstu sjávarútvegsfyrirtækin eru staðsett eða með starfssemi á landsbyggðinni og þar eru tækifærin til verðmætasköpunar. Það er því í mínum huga mikilvægt að stjórnvöld skapi framtíðarsýn fyrir landsbyggðirnar í þeim málaflokkum eins og menntamálum, samgöngumálum og orkumálum sem lúta að nýsköpun í sjávarútvegi þannig að landsbyggðin verði álitlegur kostur fyrir einstaklinga og fyrirtæki.“
Matvælahéraðið Skagafjörður
Næst tók Hólmfríður fyrir matvælahéraðið Skagafjörð sem er bæði landbúnaðarhérað og með öflugan sjávarútveg þar sem miðpunkturinn er Sauðaárkrókur. Í Skagafirði búa um 1,5 prósent þjóðarinnar, þar eru um 5 prósent af þorskkvóta í landinu, þrjú prósent af bleikjuframleiðslunni, 17 prósent lambakjötsframleiðslunnar, 20 prósent af allri mjólkurvinnslu og 33 prósent rækjuframleiðslunnar.
„Í framhaldi af þessu langar mig til að segja ykkur frá því þekkingarsamfélagi sem byggst hefur í kringum sjávarútveginn í Skagafirði en FISK Seafood innréttaði 2600 fm. húsnæði undir Vísindagarða sem kallast Verið og eru fimm fyrirtæki fyrir utan FISK með starfssemi í húsinu í dag. En fyrir utan FISK er nýsköpunarfyrirtækið PROTIS, rannsókna og þróunarfyrirtækið Iceprotein, fiskeldis og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum og Nýsköpunarmiðstöð Ísland og MATÍS staðsett í Verinu Vísindagörðum. Samtals eru 52 starfsmenn og nemendur sem mæta til vinnu og náms í Verið á hverjum degi, þ.a. 35 konur og 19 karlar.
Stendur traustum fótum
Hólmfríður nefndi nokkrar ástæður fyrir öflugri matvælaframleiðslu í Skagafirði. Þar eru góðar aðstæður til að framleiða hágæða heilnæmt hráefni. Frekar stutt á fiskimiðin. Stöðug framleiðsla og gæði, mikil þekking og reynsla innan matvælaframleiðslunnar, sterk fyrirtæki og því mikil tækifæri fyrir nýsköpun tengdri matvælaframleiðslu.
„FISK Seafood sem var stofnað árið 1955 og er með höfuðstöðvar á Sauðárkróki. Það er í hópi fimm stærstu sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi og rekur eigin togara og vinnslur. FISK rekur einnig tvö fiskeldisfyrirtæki, Hólalax og Náttúru Fiskirækt.
FISK er móðurfyrirtæki nýsköpunarfyrirtækisins Protis og rannsókna og þróunarfyrirtækisins Iceproteins,“ sagði Hólmfríður.
„Árið 2012 ákveður FISK Seafood að auka landvinnslu á fiski á kostnað sjófrystingar og í framhaldinu er ákveðið að fækka frystitogurum og fjölga ferskfiskskipum. Þessar breytingar höfðu í för með sér aukið magn af hráefni til vinnslu í landi sem krafðist töluverðra þróunarvinnu. Þessi vinna fólst m.a. í að byggja upp tæknivætt inniþurrkhús fyrir hausa og hryggi, breytingu á frystitogaranum Málmey yfir í ferskfiskskip fyrir utan allar breytingar í landvinnslu.
Til að styðja við alla þessa þróunarvinnu var ákveðið að kaupa Iceprotein sem var sprotafyrirtæki sem stofnað var af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (RF, forvera MATÍS) árið 2005. Starfssemi fyrirtækisins fólst í að auka nýtingu á íslensku sjávarfangi með vinnslu á prótíni úr afskurði sem féll til við flakavinnslu.
Starfssemin hafði legið niðri um tíma og ákvað FISK að kaupa fyrirtækið og breyta því í rannsókna- og þróunarfyrirtæki sem myndi styðja við þróunarvinnuna sem var framundan vegna aukinna áherslu hjá FISK að vinna aflann í landi. Rannsókna og þróunarvinna Iceproteins hafði þrjú markmið; auka nýtingu á hráefni, styðja við vöruþróun og síðast en ekki síst styðja við gæði endaafurða.
Öflugt vísindasamfélag
Iceprotein er staðsett í Verinu Vísindagörðum á Sauðárkróki. Þar eru þrjár rannsóknastofur, efna- og örverurannsóknastofa og frumurannsóknastofa og þar eru fimm starfsmenn. Allt konur með háskólamenntun.
„Iceprotein hefur í dag yfir þremur rannsóknastofum að ráða og einni tilraunaverksmiðju og vinna fimm starfsmenn hjá fyrirtækinu í dag. Allt konur með bakgrunn á sviði raunvísinda. Fyrir utan starfsmenn hafa fjölmargir nemendur unnið sín lokaverkefni hjá Iceprotein í samstarfi við rannsóknastofnanir og fyrirtæki og árið 2018 unnu þrír nemendur að verkefnum sínum hjá fyrirtækinu.
Eitt stærsta verkefnið sem Iceprotein hefur tekið þátt í er breytingin á millidekkinu á Málmey þar sem ofurkælingarbúnaður var þróaður og settur í skipið í stað frystibúnaðar.
Þróun á PROTIS fæðubótarefnunum var leidd af Iceprotein undir forystu Hólmfríðar og í framhaldinu var nýsköpunarfyrirtækið Protis stofnað sem er einnig í eigu FISK Seafood.“
Íslenskt líftæknifyrirtæki
PROTIS sem er líftæknifyrirtæki var stofnað í október 2015 og framleiðir fiskprótín fæðubótarefni. Einstakar vörur sem innihalda þorskprótín.
„PROTIS sér um framleiðslu og markaðssetningu á PROTIS® fæðubótarefnunum sem eru á sinn hátt einstakar vörur þar sem þær innihalda allar íslenskt þorskprótín sem unnið er úr afskurði skv. vatnsrofstækni.
Starfssemi þessarra tveggja fyrirtækja og í raun sú starfssemi sem fram fer í Verinu á Sauðárkróki sýnir hversu mikilvægt er að hlúa að nýsköpun, auka fjölbreytni og styrkja í atvinnulífið, skapa sérhæfð störf og þekkingu og bæta ímynd svæðisins. Starfssemi Iceproteins og PROTIS stendur og fellur með vilja bakhjarlanna. Hingað til hafa þessi fyrirtæki svo sannarlega auðgað atvinnulífið í Skagafirðir þar sem fjölbreytt störf hafa skapast innan þessa fyrirtækja sem krefjast sérhæfingar og menntunar sem bæði karlar og konur geta stundað. Ungt fólk horfir til svona fyrirtækja og finnst spennandi að fá að taka þátt í svona uppbyggingu.
PROTIS var fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að framleiða kollagen úr íslensku fiskroði og er í dag eina fyrirtækið sem framleiðir og selur íslensks kollagen.
Protis hefur unnið að þróun með fjölda samstarfsaðila og er með þrjá fasta starfsmenn og fær stuðning með bókhald og sölumál hjá FISK og móðurfélagi þess KS,“ sagði Hólmfríður.
Ekki staðið ein
„Iceprotein og PROTIS hafa að sjálfsögðu ekki staðið ein að þróunarverkefnum og eru fyrirtækin búin að starfa með mikið af fyrirtækjum og rannsóknastofnunum og fengið til þess styrki úr opinberum sjóðum. Því eins og ég hef komið inná áður er samstarf vænlegt til árangurs í rannsókna- og þróunarverkefnum.
Að lokum þá langar mig til að segja að tækifærin til að stunda nýsköpun eru að mínu svo sannarlega fyrir hendi hér í Vestmannaeyjum því hér er nóg af hágæða hráefni, sterk sjávarútgsfyrirtæki með fjölþættan resktur og alþjóðlegt markaðsstarf, framleiðslufyrirtæki sem framleiða vörur beint inn á neytendamarkað, hér er þekkingarsetur rannsóknafyrritæki, hér eru frumkvöðlar og síðast en ekki síst, hér er hefð og gríðarlega mikil reynsla á veiðum og vinnsu á sjávarfangi. Því hvet ég ykkur til að taka höndum saman og skapa enn meiri verðmæti úr því hráefni sem þið hafið yfir að ráða og nýta þekkingariðnaðinn til að styrkja grunninn, með því að auka enn frekar sjálfvirknivæðingu, halda áfram að bæta veiðartækni og meðhöndlun afla, þróa fleiri vörur, tryggja sjálfbæra umgegni við náttúruna og sýna fram á heilnæmi vörunnar og síðast en ekki síst að tryggja rekjanleika. Því þannig náum við að bæta enn frekar ímyndina og vörumerkið Ísland.,“ sagði Hólmfríður að endingu.