Málþing – Dr, Ágúst Einarsson, prófessor:

 

Samspil atvinnulífs og menningar – Eyjamenn eiga sína Monu Lísu

 

 

Hin lífvænlega umgjörð, menning og menntun þarf að vera í lagi

„Markmiðið um að Vestmannaeyjar séu hálaunasamfélag með mjög góð lífskjör og séu eftirsóttar til búsetu er gott og gilt og allir geta tekið undir það. En er það svo árið 2019? Nei, er svarið. Vestmannaeyjar eru meðalsamfélag með þokkalega góð lífskjör en er ekki sérstaklega eftirsótt til búsetu. Hér þarf því breytingar. Í Eyjum geta auðveldlega búið 8000 manns eða tvöfalt fleiri en nú er,“ sagði Ágúst Einarsson í upphafi erindis síns og sýndi íbúaþróun í Vestmannaeyjum sem fór hæst 1972 þegar íbúar voru 5300 en eru í dag 4284.

 

Lækkandi hlutfall af heildaríbúafjölda

Ágúst rakti íbúaþróun frá 1880 þegar hér bjuggu aðeins 280 manns. „Fólksfjölgunin mikla var í byrjun 20. aldar í vélbátavæðingunni. Þá var afi minn hér, gerði út og var hreppstjóri og pabbi ólst hér upp og starfaði ásamt fjölda annarra. Flestir íbúar voru árið 1972, árið fyrir gosið, 5303. Núna eru þeir 4284 og hafa verið svipaðir síðustu ár. Smáfjölgun íbúa er upp úr aldamótunum 2000,“ sagði Ágúst en það segir ekki alla söguna því þegar litið er á Vestmannaeyinga sem hlutfall af Íslendingum öllum hefur verulega hallað undan fæti.

 

Þegar best lét 1972 var hlutfall Vestmannaeyja af landsmönnum 3,3% en eru í dag aðeins 1,2%. „Hlutfall íbúa í Eyjum af landsmönnum, segir mikið og meira en íbúafjöldinn. Það bjuggu 0,4% af landsmönnum í Eyjum árið 1880, fyrir 140 árum  en fólksfjöldinn óx hratt og náði hámarki 3,3% af íbúafjölda landsins árið 1927. Síðan hefur hlutfall landsmanna í Vestmannaeyjum lækkað stöðugt og er nú 1,2%. Um 99% landsmanna búa ekki í Vestmannaeyjum,“ sagði Ágúst og hélt áfram.

 

4% til 5% af heildarhagkerfinu

„Þó hér sé mikið framleitt þá vigta Vestmannaeyjar ekki nema í mesta lagi um 4% til 5% í hagkerfi Íslendinga. Það er þó mikið og þrefalt til fjórfalt miðað við íbúafjölda. Þessi tala er ekki út í loftið en ég skoðaði þetta sérstaklega, reiknaði þetta út, og munar það mestu um hina miklu hlutdeild sjávarútvegs hér.“

 

Vantar fleira fólk

Ágúst sagði fámennið alvarlegan vanda Íslendinga og líka Vestmannaeyja. „Við erum ekki smáþjóð, heldur örþjóð. Við erum aðeins 1% af íbúum Norðurlanda. Í Evrópu eru 43 þjóðir og 5 eru fleiri en 50 milljónir. Önnur Norðurlönd eru með íbúa frá 5 til 10 milljónum en við erum hópi þeirra þjóða sem eru með milli 100.000 og eina milljón eða með 350.000 íbúa. Við eru með fámennustu þjóðum. Við erum líka það langt frá öðrum þjóðum að við sækjum ekki styrk til nágrannaþjóða, t.d. í þjónustu og á vinnumarkaði.

Okkur vantar fleira fólk til Íslands og til Vestmannaeyja. Það búa yfir 40.000 íslenskir ríkisborgarar erlendis og fæstir af þeim eru námsmenn. Þetta er hátt hlutfall þjóðar sem býr erlendis í samanburði við aðrar þjóðir. Þessari staðreynd er ekki gefinn gaumur í umræðu hérlendis og er hugsanlega áhyggjuefni. Það búa yfir 40.0000 erlendir ríkisborgarar hérlendis, langflestir ófaglærðir. Það er sama talan og Íslendingarnir sem búa erlendis. Við eigum að sækjast eftir vel menntuðu fólki erlendis frá, ekki aðeins í ófaglærð störf,“ sagði Ágúst.

 

Fjölgað á höfuðborgarsvæðinu úr 18% í 64%

Hann nefndi þá staðreynd að fólk sækir í borgir og er Ísland þar engin undantekning. Frá 1911 hefur íbúum höfðuborgarsvæðisins fjölgað sem hlutfall af landsmönnum úr 18% í 64%. „Í borgunum er framtíðin. Sú þróun er um allan heim. Það var líka hér fyrir 100 árum. Árið 1911 var hlutfall á höfuðborgarsvæðinu 18%, árið 1960 var það 50% eða helmingur landsmanna, og nú er það 64% eða tveir af hverjum þremur.

 

„Atvinnulífinu er oft skipt í ófaglærð störf, í iðnað, þjónustustörf og í skapandi atvinnugreinar. Í skapandi atvinnugreinum starfa um fjórðungur til þriðjungur af vinnumarkaði, en það fer eftir þjóðum. Hæsta hlutfall skapandi starfa er í Bandaríkjunum. Það er langmest í borgunum. Þetta er ekki að breytast, þvert á móti. Borgir eru aflvélar nútímans en það eru ekki allar borgir sem falla undir það.“

 

Hvergi minni sveitarfélög

Ágúst sagði að í samanburði milli Norðurlanda sjáist að meðalstærð sveitafélaga er lang minnst á Íslandi. „Í Danmörku búa tæplega 6 milljónir, sveitarfélögin eru 98 talsins og meðalfjöldinn tæp 59 þúsund íbúar. Meðaltalið hér á landi er 4900 íbúar eða rétt yfir íbúafjölda Vestmannaeyja. Sveitarfélögin hérlendis eru alltof litlar einingar. Lágmarksfjöldi í hverju sveitarfélagi á Grænlandi er 8000. Hér er lágmarkið 50 einstaklingar. Þetta er út í hött,“ sagði Ágúst.

 

Á Íslandi er aðeins eitt sveitarfélag, Reykjavík með fleiri en 100.000 íbúa. Vestmannaeyjar eru um miðjan hóp þar sem eru 13 sveitarfélög með íbúa frá 2000 upp í 4999. Fjöldi sveitarfélaga með færri íbúa er 50. „Þessi mikli fjöldi sveitarfélaga hérlendis er hlægilegur, sérstaklega í ljósi þess hversu dýrt þetta er. Vestmannaeyjar eru í meðaltalinu en samt búa hér of fáir og einingin er of lítil,“ að mati Ágústs.

 

Flottur listi en segir ekki allt

Hvað þarf til að efla Vestmannaeyjar að mati Ágústs. Hann nefnir sjö atriði í stafrófsröð, betri samgöngur, fleiri ferðamenn, fleiri íbúa, meiri atvinnu, meiri kvóta, meiri menningarstarfsemi og meiri og betri menntun. „Hér eru sjö atriði sem horfa til betri vega fyrir Vestmannaeyjar. Flottur listi og hljómar vel en ekki er allt sem sýnist. Atriðin eru einfaldlega í stafrófsröð. Það segir ekkert til um mikilvægi þeirra,“ segir Ágúst sem næst raðaði þessum sjö atriðum eftir mikilvægi. Þar er meiri menningarstarfsemi efst á blaði. Næst kemur meiri menntun, fleiri íbúa, betri samgöngur, meiri atvinnu, meiri kvóta og fleiri ferðamenn.

 

Menning og menntun það sem skiptir mestu máli

„Hér er þessum sjö atriðum raðað í röð eftir mikilvægi eins og ég sé þau. Þetta kemur á óvart. Meiri menningarstarfsemi er efst og meiri og betri menntun næst efst. Ef þessir tveir þættir eru í lagi þá koma hin atriðin í kjölfarið. Ef þetta tvennt efsta vantar er tómt mál að tala um að efla Vestmannaeyjar. Forgangsröðin verður að vera ljós ef menn ætla að ná árangri.“

Ágúst sagði lykillinn að öflugri búsetu nútíma samfélaga vera öfluga menningarstarfsemi. Góð undirstaða sé fjölbreytt menningarstarfsemi, lífvænlegt, spennandi og áhugavert umhverfi. Ef það er í lagi vilji fólk búa hér.

 

„Eru nemendur héðan að standa sig vel í skólum annars staðar, t.d. í framhaldsskólum og háskólum? Ég veit ekki svarið en þið verðið að spyrja þessarar spurningar og kanna svarið, ekki segja, Jú, alveg örugglega! Það er ekki nægjanlegt svar. Þetta er grundvallaratriði og þarf að vera í mjög góðu lagi.“

 

Borgríkið Ísland

Næst kom Ágúst inn á þá staðreynd að Ísland er löngu orðið borgríki. „Borgir eru að stækka og eflast, alls staðar. Þar eru skapandi atvinnugreinar og skapandi stéttir. Þar er framleiðnin eða afköstin og tekjurnar. Tveir þriðju þjóðarinnar býr á höfuðborgarsvæðinu. Það eru meira að segja þrír fjórðu hlutar landsmanna sem búa á stórhöfuðborgarsvæðinu ef tekin er vegalengdin sem nemur klukkutímaakstri frá miðborg Reykjavíkur. Þetta er nær einsdæmi í heiminu. Ísland er fyrir löngu orðið borgríki. Það eru einungis 5 til 6 lönd í heiminum af um 200 löndum þar sem svona stór hluti íbúa býr nánast á sama blettinum. Þetta er nær aldrei rætt hérlendis.“

 

Kominn tími á að skoða göng

Ágúst sagðist vera áhugamaður um samgöngur og þá einkum um göng til Vestmannaeyja. Sagði hann kominn tíma til að skoða göng betur. „Færeyjar eru 18 talsins. Göng í Færeyjum í byggingu frá 2017 eru 11 km, kosta 17 milljaða króna. Tekur 3 til 4 ár að byggja göngin sem eru fjármögnuð með veggjöldum. Vegalend frá Eyjum til lands er um 12 km en göng yrðu lengri. Hvalfjarðargöng (6 km) myndu nú kosta 12 milljarða. Vaðlaheiðagöng (7 km.) kosta 17 milljarðar (áætlun var 9 milljarðar). Ástæðan fyrir framúrkeyrslu í Vaðlaheiðagöngum er einföld eða ónógar rannsóknir. Það er ekki nefnt er svörin við spurningum eru oft einföld.

 

Lengd jarðganga segir alls ekki allt um kostnað. Lengd ganga til Eyja er ekki vandamál en bergið getur verið það. Það eru til fjölmörg göng sem eru lengri en væntanlega göng til Vestmannaeyja. Kostnaður jarðganga er um 50 til 100 milljarðar á núverandi verðlagi. Eldri kannanir sýna lægri kostnað en þær nýjustu hærri.“

 

Landeyjahöfn rétt ákvörðun en göng næst á dagskrá

Ágúst sagði fimm kannanir til um göng til Eyja, frá 1998 til 2007, kostnaður væri 50 til 100 milljarðar, meiri rannsóknir þarf, m.a. vegna jarðlaga.  „Síðustu athuganir eru frá 2006 og 2007 og þá var aðaláherslan og ákvörðunin um Landeyjarhöfn.

Göng voru þar ekki alvöru kostur enda er það ekki kannað nægjanlega. Ég tel að Landeyjarhöfn hafi verið rétt ákvörðun og styð hana eindregið. Göng eru einfaldlega næsta skref. Kannanir eru sammála um að málið þurfi að skoða betur. Það legg ég til, enda tæp 15 ár síðan þetta var skoðað síðast og það var alls ekki fullkannað og enginn hefur heldur haldið því fram.

 

Það er fjöldi jarðganga í heiminum, í smíðum eða tilbúin, í sjó eða ekki, til dæmis í Noregi og Japan. Hvalfjarðargöng og göngin á Kárahnjúkum eru helstu göngin hérlendis og þau tókust vel. Ónógar rannsóknir í Vaðlaheiðagöngum sýna sem dæmi að ekki er mikil þekking og umsvif hérlendis á gangagerð. Það er ekkert einkennilegt. Áherslur okkar hafa ekki verið sérstaklega á því sviði enda stendur vegagerð eðlilega framar hérlendis,“ sagði Ágúst.

 

Stærsti útgerðarstaðurinn

Vestmannaeyjar eru stærsti útgerðarstaður landsins. Ágúst benti á þrjá mælikvarða því til staðfestingar. Vestmannaeyjar eru stærstar í lönduðum afla, í lönduðum afla miðað við heimahöfn og í aflaverðmæti miðað við heimahöfn. „Sjávarútvegur í hátækniatvinnugrein sem skapar mikil verðmæti en þarf sífellt færra starfsfólk  í hefðbundnum veiðum og vinnslu enda er sjálfvirknin mjög áberandi. Sjávarútvegur er eina atvinnugrein Íslendinga á heimsmælikvarða. Þar þarf fleira fólk í tækniframleiðslu og markaðsmál og þar eru mjög mörg tækifæri.“

 

Lærum af öðrum – Eyjar verði barnaparadís

En lífið er ekki bara menning, ferðamenn og fiskur. Það þarf líka að huga að íbúunum og líta til reynslu annarra eyjasamfélag að því er kom fram hjá Ágúsi. „Við þurfum að læra af öðrum eyjasamfélögum, sem eru til um allan heim og hafa mikið verið skoðuð erlendis. Læra af öðrum og ekki finna aftur upp hjólið. Það er mikilvægt að kynna sér það sem önnur eyjasamfélög eru að gera en fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar erlendis. Við eigum að kynna okkur þetta en ekki alltaf að vera í því að finna upp hjólið,“ sagði Ágúst sem vill stíga stór skref til að fá hingað fólk.

 

„Að mínu mati eiga Vestmannaeyjar að markaðssetja sig sem barnaparadís, með gjaldfrjálsum leikskóla frá 12 mánaða aldri. Einnig á að vera mögulegt að bjóða hér upp á ódýrustu fyrstu íbúð á landinu. Það verður að gera hlutina betur en aðrir ef það á að ná árangri. Það á ekki að þurfa að kenna Eyjamönnum. Það að fá barnafjölskyldur hingað er lykilatriði, gera Vestmannaeyjar öruggar, ódýrar og spennandi fyrir börn. Þetta er vel hægt, enda gott nærsamfélag og litlar vegalengdir.“

 

Heilsuþjónusta, rannsóknir og nýsköpun

Heilsuþjónusta verður mjög vaxandi atvinnugrein á næstu árum og áratugum. Þar eru margir möguleikar, eins og heilsustofnanir fyrir útlendinga. Nefndi Ágúst í því sambandi Heilsustofnun NLFÍ sem, er fyrir Íslendinga og útlendinga, þjónustu SÁÁ og Vog fyrir útlendinga og náttúru-SPA og sjósund sem er að finna víða um land. Rannsóknir á eldfjöllum og jarðhræringum, hafinu og fuglum. Fá erlenda sérfræðinga utan og innan ESB til að setjast hér að. Hver fjölskylda telur og nýsköpun með húsnæði án fasteignagjalda og ókeypis net,“ gæti hjálpað til að fá hingað fólk.

 

Eigum okkar Mónu Lísu

Þá kom Ágúst að ferðaþjónustu sem hann sagði góða en almennt er hún ekki atvinnugrein sem skilar háum launum enda yfirleitt ekki sérhæfð. Áhersluna verði því að leggja á hið dýra og hið sérstaka.

 

„Náttúrufegurð er almennt ekki sérstök en hér í Eyjum er náttúrufegurð, með eldgosinu og hvölunum einstök borið saman við ferðamannastaði í Norður-Evrópu. Sú samsetning, það er öll þrjú atriðin, er á við Mónu Lísu. Vestmannaeyjar eru gimsteinn hvað varðar náttúrufegurð, að minnsta kosti í Norður-Evrópu, ef ekki mun víðar. Hér eru aðstæður alveg einstakar og upplifunin stórkostleg.

Bláa lónið, sem er bæði í heilsu- og hefðbundinni ferðaþjónustu veltir 12 milljörðum á ári eða svipað og stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Það eru mikil viðskiptatækifæri á mörgum sviðum í heilsu- og ferðaþjónustu.

 

Meðafli, eins og góð vinna og lífskjör, kemur með menningarstarfsemi og aukinni menntun. Það þýðir meiri vinnu, skemmtilegri og eftirsóknarverðri búsetu. Þetta er grundavallaratriði.“

 

Ekki nóg að eiga flottroll

„Ef við eigum flottroll gerum við ekkert með það ef við eigum aðeins smábát. Annars liggur flottrollið uppi á kambi og gerir ekki neitt. Þess vegna verður hin lífvænlega umgjörð, menning og menntun, að vera í lagi. Byrjum á þessu. Ef það er ekki gert lækkar hlutfall íbúa Vestmannaeyja niður fyrir 1% af landsmönnum. Munið eftir að nú búa 1,2% landsmanna í Vestmannaeyjum. Við eigum að sækjast eftir fólki erlendis frá og sem er vel menntað.“

 

Engin draumsýn að hér búi 8000

Næst brá Ágúst upp mynd af Herjólfi á siglingu úr höfn í Vestmannaeyjum sem hann sagði sýna leiðina til lands. „Það að eiga Mónu Lísu eða ígildi hennar er mikið viðskiptatækifæri. Er ekki Móna Lísa ástæða til að skoða alvarlega  göng til Vestmannaeyja, en göngin vantar einmitt á þess mynd.

 

Hugsum til framtíðar og þá er það engin draumsýn að hér búi 8000 manns í öflugu samfélagi. Vestmannaeyingar hafa áður tekist á við miklar breytingar og þetta getur orðið að raunveruleika á næstu árum,“ sagði Ágúst að lokum.

 

Um höfundinn

Dr. Ágúst Einarsson er prófessor emeritus við Háskólann á Bifröst og fyrrverandi rektor skólans. Fjölskylda hans er úr Vestmannaeyjum og hann hefur mikil tengsl við Eyjar.

 

Ágúst lauk stúdentsprófi 18 ára gamall utanskóla frá Menntaskólanum í Reykjavík og nam hagfræði í Þýskalandi. Ágúst starfaði um árabil sem framkvæmdastjóri útgerðar og fiskvinnslu. Hann gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum í samfélaginu og var formaður stjórnar í fyrirtækjum og stofnunum, meðal annars í bankaráði Seðlabanka Íslands, Landsvirkjun, Samninganefndar ríkisins og Framtakssjóði Íslands.

 

Ágúst tók virkan þátt í stjórnmálum og var alþingismaður. Hann hefur gegnt ýmsum opinberum störfum og var um árabil prófessor og deildarforseti við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Ágúst hefur skrifað yfir 30 bækur, flutt erindi, hérlendis og erlendis, og birt greinar í tímaritum, bókum og ráðstefnuritum um hagfræði, menningu, sjávarútveg og heilbrigðismál.

 

Meðal bóka hans er Íslenskur sjávarútvegur í alþjóðlegu samhengi. Í næsta mánuði kemur út bók eftir hann um íslensk heilbrigðismál. Ágúst var varaforseti samtaka evrópskra fræðimanna um frumkvöðla og lítil og meðalstór fyrirtæki og er nú formaður ráðgjafarnefndar Hafrannsóknastofnunar.

 

Um erindið

Ágúst fjallar í erindi sínu um markmið Vestmannaeyja, meðal annars hvað varðar fjölda búsettra, þróun byggðar í sögulegu samhengi og verðmætasköpun hér sem er miklu meiri en sem nemur fólksfjölda. Hann gerir grein fyrir þróun í Evrópu, sókn borga og skapandi atvinnugreinum. Menningarstarfsemi gegnir lykilhlutverki til að byggja hér upp öflugt og eftirsóknarvert mannlíf að mati hans. Ágúst leggur það til að skoða eigi hönnun jarðganga til Vestmannaeyja í fullri alvöru en margt hefur breyst í þeim efnum á undanförnum árum. Hann setur einnig fram ýmsar hugmyndir um áherslur fyrir Vestmannaeyjar og gerir grein fyrir tækifærum í framtíðinni, sem eru miklu fleiri en almennt er talið.