Ásgeir Jónsson, kennari við Háskólann í Reykjavík – Nýsköpun og menntun í bláa hagkerfinu:

 

Í Eyjum er allt til alls til þess að vera leiðandi á öllum sviðum sjávarútvegs

 

Þekking til staðar og það er verið að efla menntun - Eyjamenn eiga að vera úti með kassann með þetta allt og sækja fram

 

 

Ásgeir Jónsson, sem var fjórði í röð ræðumanna þekkir vel til í Eyjum. Bjó hér í tvö ár og stýrði námi í Haftengdri nýsköpun sem hér fór fram í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Þar starfar Ásgeir í dag sem aðjunkt. Hann hefur reynslu í fjölmiðlum, starfaði m.a. hjá RÚV áður en hann söðlaði um og nam sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri og matvælafræði við Háskóla Íslands. Ásgeir hefur stundað rannsóknir á útflutningi á ferskum fiski.

 

Erindið kallaði Ásgeir Nýsköpun og menntun í bláa hagkerfinu. „Ég hef verið að skoða menntun í sjávarútvegi, bláa hagkerfinu hér á Íslandi og hvar við getum bætt okkurr. Við erum að gera margt frábært en við getum gert betur. Haftengda nýsköpunin er diplómanám sem kennd er í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Það er eins árs nám á grunnstigi í háskóla, blanda af viðskipta- og sjávarútvegsfræði með áherslu á nýsköpun og nýtast einingar til áframhaldandi náms,“ sagði Ásgeir.

 

Gluggi inn í greinina

Hann sagði takmarkað hvað hægt er að gera á einu ári og því sé námið hugsað sem gluggi inn í greinina með áherslu á nýsköpun. „Sjávarútvegur er því miður of lokaður almenningi en á móti er hin vísindalega drifna nýsköpun sem við getum státað okkur af. Þar höfum við staðið okkur vel og þar hefur Hólmfríður verið ein af frábærum leiðtogum.“

 

Ásgeir sagði að námið hefði gengið vel þó aðsókn hefði mátt vera meiri. Þessu til staðfestingar benti hann á árangur sem nemendur hafa náð að námi loknu. „Þau hafa farið út í atvinnulífið og í  áframhaldandi nám. Hjá Vinnslustöðinni varð til eitt stöðugildi og hafa nemendur fengið vinnu hjá  Iðunn Seafoods, Grími kokk, Sjávarklasanum, Bacco Seaproducts og Samskip. Við höfum séð þrjú  nýsköpunarverkefni verða til, Volcano Seafood  sem þegar er komið á markað, Doggo og Hið íslenska sjávarsoð sem hefur unnið til verðlauna. Þetta sjáum við gerast á aðeins þremur árum og vonandi fara einhverjir af þessum nemendum í áframhaldandi nám og vísindastörf. Helst hér í Vestmannaeyjum. Ég gæti ekki verið meira sammála því sem hér hefur komið fram að hér er allt til alls á þessu sviði,“ sagði Ásgeir.

 

Engin raunveruleg stefna

Þrátt fyrir þetta sagði Ásgeir að menntun í sjávarútvegi sé ekki eins öflug og greinin þar sem góður árangur hefur náðst á mörgum sviðum. Þetta er í skoðun og tekur Ásgeir þátt í samráðsvettvangi háskóla og framhaldsskóla sem ætlað er að finna leiðir til úrbóta. „Það sem blasir við okkur er, að það er engin raunveruleg stefna í gangi. Það er hver að vinna í sínu horni og margir mjög vel en stjórnvöld hafa enga alvöru yfirsýn eða stefnu til að vinna eftir í þessari burðaratvinnugrein Íslands. Sem er svo lítið skrýtið.

 

En þetta er að breytast og er samstarfið á milli HA og HR dæmi um það. HA og HÍ eru líka að vinna saman að nýrri námsbraut. Það er líka verið að vinna að námsefni fyrir grunn- og framhaldsskóla og svo er það þessi samráðsvettvangur sem ég nefndi en betur má ef duga skal,“ sagði Ásgeir en næsta skref var að skoða það sem Norðmenn hafa verið að gera.

 

Norðmenn á réttri leið

Norðmenn stóðu frammi fyrir lokun deilda og skóla í sjávarútvegsfræðum og tengdum greinum fyrir sjö árum en nú er aðsókn í nám umfram framboð. Er mikill áhugi hjá ungu fólki í Noregi á Bláa hagkerfinu. „Það sem skipti máli, er að það var eitthvað gert, sett stefna og því fylgdi fjármagn og aðgerðir. Það er ekki nóg að setja eitthvað fallegt á blað án þess að því fylgi ábyrgð eða fjármagn.“

 

Norðmenn settu upp vefsíðuna, Settsjobein.no sem er upplýsingasíða til að vekja athygli á fjölbreytni og tækifærum í sjávarútvegi og hvaða menntun er í boði. Síðunni er haldið við og það eru haldnar ráðstefnur og málstofur um málefni sjávarútvegs. Aðrir þættir eru að fjármagn fylgir og blómleg nýsköpun sem vekur athygli fær góðan stuðning. Menntastofnanir leggja áherslu á að fræða yngri nemendur. Samstarf er milli atvinnulífs og akademíu. Uppgangur er í Bláa hagkerfinu og af stað fór markaðssetning sem skilaði sér líka heima. Niðurstaðan að mati Ásgeirs er að ekkert gerist án fjármagns.

 

Að fræða unga fólkið

„Norðmenn leggja mikla áherslu á að fræða unga fólkið sem er eitthvað sem við erum að klikka á. Það er hárétt, að við þurfum að leggja áherslu á æðri menntun og vísindi en um leið að gera greinina aðgengilegri fyrir krakka miklu fyrr en við gerum. Af hverju íslenskur sjávarútvegur er ekki meira áberandi í námsskrám er mér algjörlega hulin ráðgáta?

 

Þessu tek ég eftir með mína nemendur, hvað litla innsýn þeir hafa inn í greinina. Það þarf að sýna hvað sjávarútvegur og bláa hagkerfið býr yfir miklum krafti. Það gæti breytt þessum ímyndavanda sem alltaf er verið að tala um. Ábyrgðin hlýtur að vera stjórnvalda fyrst og fremst. Það er hagur okkar allra að vekja athygli á þessari mögnuðu grein.“

 

Krafa um stefnumörkun

Ásgeir sagði að fundað hefði verið með ráðherra til að vekja athygli á þessu og fá fram stefnumótun í sjávarútvegi. Það séu alltof fáir sem hafa reynslu og þekkingu sem þeir geta miðlað öðrum. „Bílslys á leiðinni á ráðstefnu gæti haft verulega skaðleg áhrif á menntun í sjávarútvegi. Það eru bara nokkrir sem hafa þekkingu og reynslu á þessu sviði. Ég held að það séu ekki margir sem gera sér grein fyrir hvað þetta er á fáum höndum,“ sagði Ásgeir sem vill að markvisst verði unnið að því að efla og markaðssetja bláa hagkerfið. Bæði menntunina og innsýn almennings inn í greinina.

 

„Gangi allt eftir verður eitthvað um þetta á næstu sjávarútvegssýningu. Þetta skiptir máli því við höfum svo sannarlega sögu að segja og þekkingu en þurfum við ekki að ná utan um hana sjálf fyrst? Þegar það gerist getum við farið að flytja hana út.“

 

Getum verið í fararbroddi

Ásgeir sagði að Ísland gæti orðið Kísildalur sjávarútvegs miðað við þá þekkingu sem hér er að finna. „En er það hægt án þess að þekkja eigin stöðu og vita hvert við ætlum?,“ spurði Ásgeir og vitnaði næst í orð Sveins Margeirssonar, fyrrverandi forstjóra Matís sem sagði: „Að mínu mati ættum við að samhæfa stefnuna í sjávarútvegsmálum, utanríkismálum og viðskiptamálum, Ráðast í tangarsókn. Núna er einmitt rétti tíminn enda er því spáð að bláa lífhagkerfið muni vaxa gríðarlega og að um allan heim verði miklu fjármagni varið í þennan hluta atvinnulífsins. Ísland þarf að vera í fararbroddi í þessari þróun, því annars er hætta á að við drögumst aftur úr.“

 

Meiri þörf fyrir fisk

Og aftur spurði Ásgeir: „Af hverju?“ og sýndi á tjaldi matardisk jarðarbúa eins og færustu vísindamenn sjá hann fyrir sér árið 2050. „Þetta eru vísindamenn í sviði matvæla og loftslagsmála og svona mun matardiskurinn líta út ef við ætlum að brauðfæða meira en tíu milljarða án þess að rústa jörðinni,“ sagði Ásgeir en eftir 30 ár verður grænmeti ríflega helmingur af fæðu mannkyns og fiskur 14 prósent af prótein þörf mannsins.

 

„Þarna sést að dýraafurðir eru miklu minni hluti af matardisknum heldur en hann er í dag. Fiskur er í dag 8 til tíu prósent en samkvæmt þessari sviðsmynd verður hann um 14 prósent af próteinneyslunni. Í dag erum við rúmir sjö milljarðar en verðum árið 2050 um tíu milljarðar. Við þurfum því ekki bara að auka hlutfallið. Það verður líka að nýta enn frekar það sem við erum að taka úr sjónum. Aukin neysla á grænmeti kallar á nýjar leiðir og þar getum við komið inn í því um 85 prósent af öllu plöntulífi er í sjónum. Þangað getum við sótt mun meira en við gerum.“

 

Allt til alls

Að lokum sagði Ásgeir að allt þetta skipti Vestmannaeyjar miklu máli. „Þó Eyjarnar séu grænar og fallegar er svo sannarlega blátt blóð í þeim. Þetta er ekki bara sjálfstæðisbrandari. Hér er blátt hagkerfi og allt til alls til þess að vera leiðandi á öllum þessum sviðum. Hér er þekking og það er verið að efla menntun. Eyjamenn eiga að vera úti með kassann með þetta allt og sækja fram. Haftengd nýsköpun er bara skref á þessari leið. Ég held að það sé auðvelt að fá hingað nemendur til að vinna með fyrirtækjum því nú höfum við þessa frábæru aðstöðu í Þekkingasetrinu. Ég er ekki bara að tala um sjávarútveginn heldur líka um ferðamannaiðnaðinn og aðrar rannsóknir tengdum hafinu með komu Merlin hingað.

 

Það er mikið talað um samgöngur og vonandi verður nýr Herjólfur sú bót sem verið hefur lofað. Og að lokum, hér er allt til alls,“ sagði Ásgeir Jónsson að lokum.