Ljósopið hefur slegið í gegn

 

Þegar Stefán Jónasson, í 100 ára afmælisnefnd Vestmannaeyjabæjar stakk upp á að fá ljósmyndara í bænum til að sýna myndir sínar á tjaldi í Einarsstofu óraði engan fyrir umfanginu. Reiknað var með kannski þremur eða fjórum laugardögum og kannski tíu ljósmyndurum og fékk verkefnið nafnið Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt.

 

Reyndin varð önnur og hafa sýningar verið um hverja helgi frá 14. september og verður sú síðasta og þrettánda og síðasta laugardaginn 7. desember.

 

 Ljósmyndararnir eru yfir 40 og myndirnar  sennilega á bilinu 3000 til 4000. Þetta hefur verið einstaklega ánægjulegt verkefni og aðsókn farið fram úr vonum. Eru gestir að nálgast þúsundið og fara örugglega í á annað þúsundið þegar upp verður staðið.

 

Mikil vinna hefur farið í kynna sýningarnar sem hefur skilað sér í góðri aðsókn. Er almenn ánægja með framtakið og spurning um að taka upp þráðinn að nýju þó seinna verði.