100 ára kaupstaðarafmæli

Hátíðarthöfn á Skansinum

 

Dagskrá afmælishátíðar á Skansinum:

 

Kl. 15:30. Leikhópurinn Lotta. Litla hafmeyjan. Lýkur kl. 16:30.

Kl. 16:30. Skotið verður úr fallbyssu á Skansinum. Formleg dagskrá hefst.

Kl. 16:30. Helga kynnir dagskrána og hún hefst með tveimur lögum Lúðrasveitar Vestmannaeyja.

Kl. 16:40. Stutt ávörp Helga kynnir hvern ræðumann. Með ávörpin fara:

Bjarni Benediktsson, hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra,

Sigurður Ingi Jóhannsson, hæstvirtur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra,

Eliza Reid, forsetafrú

Íris Róbertsdóttir, frú bæjarstjóri,

Arnar Sigurmundsson, fulltrúi afmælisnefndar um 100 ára kaupstaðarafmæli Vestmannaeyja

Sr. Guðmundur Örn Jónsson, sóknarprestur í Landakirkju.

Kl. 17:20. Tónlist. Sverrir Bergmann og Halldór Gunnar Pálsson (Fjallabróðir) leika 2-3 lög. Að þessu loknu verður gert hlé þar til tónleikar í boði Vestmannaeyja hefjast kl. 18 annars vegar og 21 hins vegar. Minna á þá og að allir sem eigi miða komi á tónleikana.

Cirkus Flik Flak leika listir sínar innan um gesti hátíðarinnar.

 

 

 

Helga Hallbergsdóttir - Goslok – 100 ára kaupstaðarafmæli:

 

 

Gleðjumst yfir unnum sigrum og verum stolt af menningu okkar og sögu

 

Helga Hallbergsdóttir, fráfarandi forstöðukona Sagnheima stýrði afmælisathöfninni á Skansinum þar sem forsetafrúin og ráðherrar voru meðal gesta. Helga stjórnaði af skörungsskap og reisn og flutti eftirfarandi ávarp við setningu:

 

Heiðursgestur, frú Elíza Reed,  ráðherrar,  bæjarbúar og aðrir hátíðargestir.

Lúðrasveit Vestmannaeyja hóf hátíðardagskrána hér á Skansinum í dag með þremur lögum eftir Oddgeir Kristjánsson. Stjórnandi var Jarl Sigurgeirsson. Lúðrasveitin fagnar í ár 80 ára afmæli sínu.

 

Hún rís úr sumarsænum

í silkimjúkum blænum

með fjöll í feldi grænum,

mín fagra Heimaey.

 

…….orti Ási í Bæ og það á vissulega við í dag, þegar við fögnum 100 ára afmæli Vestmannaeyjakaupstaðar og jafnframt því að nú eru liðin 46 ár frá því að gosi lauk á Heimaey.

 

Verið hjartanlega velkomin!

 

Við gleðjumst yfir unnum sigrum og kynnum bæinn okkar, menningu og sögu með stolti með margvíslegum sýningum og viðburðum. Vonum við að þar geti jafnt ungir sem aldnir, heimamenn sem gestir fundið eitthvað við sitt hæfi og taki virkan þátt í sem flestum viðburðum hátíðarinnar.

 

Leikhópurinn Lotta var rétt í þessu að ljúka sýningu á Litlu hafmeyjunni og félagar úr danska sirkusnum Flik Flak leika listir sínar hér á meðal hátíðargesta.

 

Áður fyrr var blússið einmitt gefið hér á Skansinum, en það merkti að hinir fjölmörgu fiskibátar Eyjamanna gátu lagt af stað í róður á vetrarvertíðum og kepptust þeir þá við að keyra vélarnar sem mest þær máttu, svo undir tók í klettunum  til að vera fyrstir á bestu fiskislóðina.

 

Í dag gaf fallbyssan blússið og markaði þar með upphaf þessarar hátíðardagskrár í tilefni aldarafmælis Vestmannaeyjakaupstaðar.

 

Við göngum nú til dagskrár:

Fyrstur flytur ávarp hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson,

síðan hæstvirtur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson

þá heiðursgestur okkar, frú Elíza Reid, forsetafrú,

bæjarstjóri Vestmannaeyja, Íris Róbertsdóttir,

fulltrúi afmælisnefndar um 100 ára kaupstaðarafmæli Vestmannaeyja, Arnar Sigurmundsson, og loks flytur

 sr. Guðmundur Örn Jónsson sóknarprestur í Landakirkju blessunarorð.

Dagskránni lýkur síðan með tónlistaratriði Sverris Bergmanns og Halldórs Gunnars Pálssonar.

 

Helga kynnti þá sem komu fram en að athöfn lokinni minnti hún á dagskrárliði eins og stórtónleikana.

 

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra:

Hafa átt mikla eldhuga og afreksfólk á ýmsum sviðum - hvort sem um er að ræða listir og menningu, íþróttir eða samfélagsmál

 

 

Eftir að hafa heilsað þeim fjölmörgu sem mættir voru á Skansinn til að fylgjast með hátíðarhöldunum og óska fólki gleðilegrar hátíðar dáðist Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra að fundvísi Eyjamanna á tækifæri til að lyfta sér upp.

 

„Það eru fáir betri en þeir hér í Vestmannaeyjum að halda glæsilegar hátíðir. Hér er nú slegið upp hátíð af tvennskonar tilefni, 100 ára afmæli Vestmannaeyjabæjar og goslokum fyrir 46 árum. Mér var hugsað til þess á leiðinni hingað, hvað geta Vestmannaeyingar haldið margar góðar hátíðir? Og svarið var, það virðast engin takmörk fyrir því hversu oft menn geta lyft sér upp hér og fundið til þess gott tilefni.

 

Það er í dag ærið en aðalatriðið er að það er gert af miklum krafti og það er gert vel. Það laðar fólk að eins og mig sem ungan mann og svo börnin mín. Ekki  vorum við þó alveg áhyggjulaus, foreldrarnir að vita af þeim hér um verslunarmannahelgi og við annars staðar. Við ræddum það hjónin áðan að við sáum kannski mest eftir því, að taka ekki þá yngstu með að þessu sinni en hún er sjö ára. Þannig koma kynslóðirnar saman til þess að samfagna þegar ærið tilefni er til. Ekki síst þegar eins vel er staðið að hlutum og hér.

 

Dóttirin í björgunarleiðangur til Eyja

Reyndar var það einu sinni á okkar heimili að dóttir okkar ætlaði fara til Vestmannaeyja, ekki vegna sérstakrar hátíðar en hafði fundið til þess annað tilefni. Hún var þá ellefu ára og hafði ekki verið með foreldra sína í ráðum. Það endaði með því að það hringdi í okkur flugmaður og vildi grennslast fyrir um það hvort foreldrarnir væru á bak við það að hún væri að fara til Vestmannaeyja yfir helgina, ellefu ára. Við könnuðumst ekki við málið. Gengum á hana og spurðum, hvað stendur til? Hún var þá mjög stórvirkur kanínubóndi í Garðabæ og sagðist þurfa að fara til að bjarga kanínunum sem átti að koma fyrir kattarnef vegna þess að þær væru að gera lundanum erfitt fyrir að komast í holurnar. Og með hennar eigin orðum; -common, þetta er bara ein helgi.

 

Allt í nafni einföldunar

Ég heyrði það á leiðinni yfir sundið að það hafi verið í lok fyrri heimstyrjaldarinnar að menn sáu að mikilvægt var að Vestmannaeyjabær fengi kaupstaðarréttindi. Þetta var sett í beint samhengi, lok styrjaldarinnar og kaupstaðarréttindi fyrir Vestmannaeyjabæ. Ég tók það nú ekki alveg trúanlegt en það var vorið 1918 að Karl Einarsson, sýslumaður og alþingismaður Vestmannaeyja úr Sjálfstæðisflokknum eldri mælti fyrir frumvarpi til laga um bæjarstjórn í Vestmannaeyjum. Þetta var ýtarlegt frumvarp í 34 greinum og sagt að þetta væri allt til einföldunar sem enn þann dag í dag er notað sem bestu rökin fyrir breytingum á stjórnsýslunni.

 

Ég ætla að leyfa mér að vitna beint í þessa greinagerð. Þar stóð: -Af eyjum þeim sem Vestmannaeyjasýsla nær yfir er aðein ein, Heimaey byggð og af henni er að segja, að öll byggðin er á einum stað, norðast á eyjunni, sunnan við höfnina. Það virðist því vera heldur óviðfeldið stjórnarfyrirkomulag að hafa þar bæði hreppsnefnd og sýslunefnd. Báðar á sama svæðinu og með sama verkefni. Sem sé, að stjórna málefnum bæði hrepps og sýslu sem eru eitt og hið sama. Það sem íbúatala Eyjanna er komin á þriðja þúsund, velmegun sæmileg, næg verkefni fyrir hendi, hafnargerð, vatnsveita, vegagerðir, heilbrigðismál og margt fleira virðist kominn tími til að öll málefni Eyjanna lúti sömu stjórn.

 

Þannig var það orðað á sínum tíma fyrir 100 árum. Um þetta var mikil sátt á Alþingi, frumvarpið samþykkt í lok maí 1918 og gekk breytingin í gildi í upphafi árs 1919.

 

Miklir málafylgjumenn

Vestmannaeyjar hafa átt í gegnum tíðina mikla eldhuga og afreksfólk á ýmsum sviðum hvort sem um er að ræða listir og menningu, íþróttir eða samfélagsmál. Við sem sitjum við ríkisstjórnarborðið erum því vön, að þegar skilaboð berast frá Vestmannaeyjum þá erum þau ekki undir rós. Hvort sem um er að ræða málefni Herjólfs, sjávarútveg, þjónustu við íbúana, heilbrigðismál, ödlrunarmál eða hvað sem vera kann. Það eru málafylgjumenn sem búa hér. Vestmannaeyjar hafa mikla sérstöðu, menningarlega, landfræðilega og þegar kemur að verðmætasköpun.

 

Þær voru allt frá því um 1400 sérstök konungseign og mikilvægar sem slíkar enda ein stærsta tekjulind krúnunnar. Voru sérstakt lén og giltu um þær önnur lög en almennt á Íslandi sem segir mér að hljómi ekki svo galið í eyrum margra Eyjamanna. Fá að grípa fullt sjálfstæði.

 

Traust stjórnun

En hvað sem öllu líður þá hefur tekist vel til við stjórnun í Vestmannaeyjum. Hér er öflugt mannlíf, traustir innviðir og við erum hér samankomin meðal annars til þess að minnast goslokanna. Hér rétt við hraunjaðarinn sem virkar eitthvað svo hrykalegur þegar maður hugsar til þessa tíma. Goslokin minna okkur á hversu mikill samtakamáttur Eyjamanna var og er. Bæði á meðan á gosinu stóð og eftir að því lauk.

Góðir gestir, ég vil fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, færa Eyjamönnum öllum árnaðar óskir í tilefni 100 ára afmælisins. Megi framtíðin verða ykkur björt og áfram gifturík,“ sagði Bjarni.

 

 

Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgönguráðherra:

Eyjar eru fallegar úr fjarlægð en fallegri í nálægðinni

 

 

Það kemur fyrir að ég aki austur fyrir fjall, yfir Hellisheiðina, því ekki er enn búið að færa ráðuneytið í Hrunamannahreppinn. Það kemur fyrir að ég ek austur og þá er það enn og alltaf að bærist smá gleðitilfinning í brjóstinu þegar ég sé austur yfir Kambana og yfir Suðurlandið. Stundum nær skyggnið ekki langt en stundum blasir það við, Suðurlandið, í allri sinni dýrð með sínum blómlegu héruðum og fagurri fjallasýn. Og þarna út fyrir ströndinni rísa þær, Vestmannaeyjar, eins og mikilfenglegur fjallgarður sem virðist stundum eins og án jarðtengingar, stundum eins og þær fljóti á hafinu, stundum eins og þær hangi í lausu lofti. Þær eru fallegar úr fjarlægð en, eins og við þekkjum öll hér, fallegri í nálægðinni.

 

Það væri hægt að halda langar ræður um þennan ævintýrastað því ég veit að í huga margra Íslendinga eru Vestmannaeyjar ævintýraheimur með allri sinni einstöku náttúru, hvort sem hún birtist í landslaginu eða í Herjólfsdal við brennuna á Þjóðhátíð. Það væri hægt að halda ræðu um allt sem við vitum um sögu eyjanna og íbúa hennar og þennan ótrúlega kraft sem einkennir þá sem hér fæðast og deyja. En eigum við bara að láta það bíða betri tíma. Það styttist jú bara í 200 ára afmælið.

 

100 ár eru góður aldur. Og þessi hundrað ár sem Vestmannaeyjar hafa verið kaupstaður er ótrúlegur framfaratími í sögu Íslands. Hvað næstu 100 ár munu hafa að geyma er okkur hulin ráðgáta en við vitum þó að það verður sungið og að það verður gaman og það verður hlegið og það verður grátið.

 

Ég óska ykkur Vestmannaeyingum til hamingju með 100 ára afmælið.

 

Ávarp Elizu Reid forsetafrúar:

Vestmannaeyjar alltaf efstar á óskalista barnanna

 

 

Ráðherrar, bæjarstjóri og bæjarstjórn, aðrir góðir gestir, elsku Eyjamenn!

 

Gaman er að vera með ykkur hér í dag. Það var fyrir nokkrum árum að ég sótti einn strákinn okkar á leikskóla. Þá var búið að festa upp á vegg svokallaða „gullmola“ krakkanna. Það kom á daginn að í þetta sinn höfðu kennararnir verið að ræða plön helgarinnar og þriggja ára guttinn minn var með allt á hreinu:

„Við gætum farið til Kúala Lúmpúr, eða kannski til afa og ömmu í Kanada.“ En hvað langaði hann þó mest af öllu? „Ég myndi elska að fara til Vestmannaeyja því að í sundlauginni þar er rennibraut með trampólíni.“

 

Þetta var um það bil það fyrsta sem ég heyrði frá fyrstu hendi um kosti þessarar indælu eyju. Við komumst því miður ekki til Vestmannaeyja þessa helgi – og reyndar ekki heldur til Kúala Lúmpúr né Kanada. En þegar ég kom fyrst með börnin hingað, fyrir um sjö árum að mig minnir, olli sundlaugin sko ekki vonbrigðum.

 

Hér er auðvitað ótal margt fleira sem getur glatt gesti nær og fjær. Hér má fylgjast með lundum og öðrum fuglum, hér getum við gengið upp yngsta eldfjall Evrópu og farið í Eldheima, það frábæra safn. Hér má spranga og hér er auðvitað hægt að kaupa dýrindis ís eins og börnin geta vitnað um, eftir margar heimsóknir síðustu ár. Já, ætli þetta sé ekki staðurinn og stundin til að nefna fullum fetum að þegar rætt er um hugsanlega staði að heimsækja eru Vestmannaeyjar alltaf efstar á óskalista þeirra. – En ég nefni þetta bara hér, ekki á fastalandinu.

 

Öflugt samfélag

Já, fyrir okkur sem ferðumst hingað er eyjan fagra fyrirtaks áfangastaður. En hér er líka gott að búa, hér er gott samfélag – öflugt samfélag. Hér er útgerð í miklum blóma, undirstaða atvinnulífsins. Og hér er íþróttastarf í öndvegi eins og Guðni og einn strákurinn okkar geta vitnað um eftir vel heppnað fótboltamót í síðustu viku. Ekki má gleymi merkri sögu íbúanna hér, einstakri náttúrufegurð og einmuna veðurblíðu alla daga – en nú er ég kannski komin út á hálan ís …

 

Standið saman þegar á reynir

Hitt eru þó engar ýkjur að eitt af því, sem mér þykir hvað vænst um í mínu hlutverki sem forsetafrú, er að geta farið víða og hitt fjölmarga, geta kynnst fólki um land allt, ungu fólki sem á sér drauma og fögur áform, eldra fólki sem vill miðla af langri reynslu; geta kynnst fólki sem vill gera vel, sjálfu sér til heilla og samfélaginu öllu um leið. Þetta getið þið Eyjamenn gert svo vel. Þið hafið auðvitað ykkar galla – hver hefur þá ekki? En þegar á reynir standið þið saman og það er svo mikils vert.

 

Kæru vinir! Við Guðni vorum hérna fyrir nokkrum vikum í fylgd með forsetahjónum Þýskalands. Í móttöku þeim til heiðurs sagði Íris bæjarstjóri að Vestmannaeyjar væru helst þekktar fyrir þrennt:

Sjávarútveg, náttúrufegurð og íþróttir.

 

Ég tek þar undir hvert orð en leyfið mér að bæta við þremur þáttum sem koma í minn huga þegar Vestmannaeyjar eru annars vegar: Traust fólk, tækifæri fyrir alla til að sýna hvað í þeim býr – og auðvitað trampólín.

 

Elsku Eyjamenn: Hjartanlega til hamingju með aldarafmæli kaupstaðarins! Megi ykkur farnast vel um alla tíð.

 

Ávarp Írisar Róbertsdóttur, bæjarstjóra:

Samkennd, samtakamáttur, bjartsýni, jákvæðni, dugnaður og baráttuvilji lykillinn að velgengni

 

 

Elísa Reid forsetafrú, ráðherrar, og aðrir góðir gestir.

 

Á þessu ári eru 100 ár liðin frá því að haldinn var fundur í  húsinu Borg, sem stóð neðst við Heimagötu hér í bænum, og fór undir hraun í gosinu. Sá fundur var fyrsti fundur fyrstu bæjarstjórnar Vestmannaeyja.

 

Til að fá að bjóða fram í kosningunum 1919 þurfti framkominn listi einungis fimm meðmælendur á móti 40 til 80 í dag. Alls greiddu 556 atkvæði í fyrstu bæjarstjórnarkosningunum af ríflega 2000 íbúum; um helmingi færri en búa í Vestmannaeyjum í dag. Listabókstafirnir voru einnig með allt öðrum hætti en nú tíðkast, þar sem kjörstjórn merkti listana einfaldlega með bókstöfum í stafrófsröð í þeirri tímaröð sem framboðunum var skilað inn. Þannig var t.d. B-listinn borinn í fyrsta sinn fram af flokki árið 1930 og þá af Sjálfstæðisflokki, fjórum árum síðar af Alþýðuflokknum og loksins 1938 af Framsóknarflokknum. En þá lauk þessari hringekju og flokkarnir fengu fasta listabókstafi.

 

Árið 1930 markaði tímamót

Þá árið 1930 var merkilegt fyrir margar sakir í sögu bæjarstjórnarkosninga. Í fyrsta lagi voru lögin um kosningarétt rýmkuð verulega það ár og kosningaaldur bæði fyrir karla og konur færður niður í 21 ár ásamt fleiri breytingum. Meðal  annars varð sú breyting, að það að þiggja sveitarstyrk varðaði ekki lengur missi

kosningarréttar nema menn væru í skuld við bæjarsjóð vegna „leti eða ómennsku“ eins og það var orðað í samþykktinni. Í framhaldinu varð einum ónefndum bæjarfulltrúanum að orði að Vestmannaeyjar væru kyndugur staður því hér mættu letingjar aðeins kjósa ef þeir væru ríkir.

 

Hæg þróun í jafnréttisátt

Í fyrstu bæjarstjórn Vestmannaeyja átti engin kona sæti - og kemur sú staðreynd líklega fáum á óvart miðað við jafnréttið, eða öllu heldur misréttið, í þá daga. Fyrsta konan sem sat fundi í bæjarstjórn Vestmannaeyja var Ólafía Óladóttir, verkakona í Stíghúsi, en það var árið 1934. 

 

Hitt er ótrúlegt að fyrsta kjörna konan í bæjarstjórn Vestmannaeyja var Sigurbjörg Axelsdóttir, Dadda skó eins og hún var kölluð, og var hún á lista Sjálfstæðisflokksins. Og þetta var ekki fyrr en 1974, eða heilum 55 árum eftir að bæjarstjórn Vestmannaeyja kom fyrst saman. Í dag er meirihluti bæjarfulltrúa konur.

 

Fyrsta konan bæjarstjóri

Af samtals 16 bæjarstjórum Vestmannaeyja á þessum 100 árum komu svo auðvitað fyrst 15 karlar í röð, en svo breyttist það líka – í fyrra.

 

En allir þessir bæjarstjórar lögðu sitt af mörkum við uppbygginu bæjarins á þessum 100 árum. Verkefni þessara bæjarstjóra voru mörg og mismunandi eins og gefur að skilja. Sumir fengu stærri og erfiðari verkefni en aðrir - en ætli þau hafi gerst  miklu  stærri en að fá heilt eldgos yfir bæinn. Það fékk Magnús H. Magnússon að reyna en hann var bæjarstjóri 1966 til 1975. Ég minnist á hann hér því að hann er líklega aðal ástæðan fyrir því að ég er hér.

 

Viðtal sem var við Magnús í útvarpinu á sínum tíma, þar sem hann hvatti fólk til að snúa heim og byggja aftur upp Eyjuna okkar eftir gos, sannfærði mömmu um að gera einmitt það: koma aftur heim og byggja upp. Pabbi var tilbúinn að flytja til Noregs með fjölskylduna en mamma réði ferðinni að þessu sinni - og hún hlýddi kalli Magnúsar bæjarstjóra.

 

Það skiptir auðvitað sköpum í sögu Vestmannaeyja að svo margir svöruðu kallinu;  komu aftur heim og glæddu eyjuna okkar lífi á ný.

 

Með jákvæðni að vopni

Ég nefni þetta hér því að ég er sannfærð um að nákvæmlega sömu eiginleikar og tryggðu enduruppbyggingu Vestmannaeyja eftir gosið 1973 munu tryggja áframhaldandi vöxt og viðgang bæjarins. Samkennd, samtakamáttur, bjartsýni, jákvæðni, dugnaður og baráttuvilji munu hér eftir sem hingað til vera lykillinn að velgengni Vestmannaeyja og þeirra sem hér kjósa að búa.

 

Hugsið ykkur bara þessa ótrúlegu ákvörðun sem var tekin af nokkrum mönnum í svartnættinu 1973, að freista þess að stýra óstöðvandi hraunstraumnum frá innsiglingunni til austurs með því að kæla hraunkantinn. Þessi ákvörðun og framkvæmd hennar endurspeglar alla eiginleikana sem ég taldi upp hér áðan. Og þessi eina ákvörðun er líklega ástæðan fyrir því að við stöndum hér í dag. Og þessir eiginleikar eru ekki bara lykillinn að fortíðinni og nútíðinni hér í Eyjum – heldur framtíðinni líka.

 

En í dag fögnum við 100 ára afmæli Vestmannaeyjakaupstaðar.

 

Fyrir hönd bæjarstjórnar Vestmannaeyja þakka ég öllum þeim sem á undan okkar komu, lífs og liðnum, fyrir þeirra framlag í að gera bæinn okkar að því sem hann er. Ég vil þakka afmælisnefndinn fyrir sín störf og hlakka til framhaldsins. Við horfum björtum augum fram á veginn fyrir hönd okkar einstaka bæjarfélags.

Til næstu 100 ára að minnsta kosti!

 

Ég segi þessa afmælis- og goslokahátíð setta.

 

Arnar Sigurmundsson  - Ávarp á 100 ára afmælidagskrá:

Skanssvæðið er heill heimur í fingurbjörg

 

 

Frú Elíza Reed forsetafrú, ráðherrar, bæjarbúar og aðrir  hátíðargestir. Þegar afmælisnefnd sem bæjarstjórn skipaði í tilefni 100 ára afmælis kaupstaðarréttinda Vestmannaeyja  tók til starfa í september sl. biðu hennar nokkur krefjandi verkefni.

 

Fjölbreytt dagskrá hefur einkennt afmælisárið, fyrst skal telja 22. nóvember sl. þegar 100 ár voru liðin frá því Kristján konungur undirritaði lögin um kaupstaðarréttindi Vestmannaeyja sem tóku  gildi 1. janúar 1919.  Fyrsti fundur bæjarstjórnar var haldinn  14. febrúar 1919.  Þess atburðar var minnst á hátíðarfundi bæjarstjórnar réttum 100 árum síðar , þar sem samþykkt var að ráðast í endurbætur á Ráðhúsinu við Stakkagerðistún og að það hýsi að þeim loknum fjölþættu hlutverki tengdum menningu og  sérsöfnum Vestmannaeyjabæjar. Haldinn var  bæjarstjórnarfundur unga fólksins og fram fór opið málþing um framtíð Vestmannaeyja – ógnanir og tækifæri.  Þá var gefið út sérstakt Vestmanneyjafrímerki í tilefni  afmælisins. 

 

Ákveðið var að gefa út 100 ára afmælisrit Vestmannaeyjabæjar sem inniheldur greinar, viðtöl, myndaannál og ýmsar upplýsingar úr sögu bæjarfélagsins. Ritinu var dreift í öll hús innanbæjar og víðar um  síðustu helgi. Hér hefur eingöngu verið stiklað á stóru á atburðum tengdum afmælisárinu.

 

Fljótlega eftir að nefndin tók til starfa var ákveðið að hafa sérstakan hátíðisdag, tengdan 46 ára gosloka-hátíðinni. Föstudagurinn 5. júlí varð fyrir valinu og er samkoman hér í dag og tvennir  stórtónleikar í Íþrótta-miðstöðinni í kvöld, í boði Vestmannaeyjabæjar hluti af dagskrá 100 ára afmælisins.

 

Þegar ákveða átti hvar hátíðarsamkoman í dag skyldi  fara fram varð Skanssvæðið fyrir valinu og fyrir því eru gildar ástæður.

 

Undirlendi myndaðist á Heimaey fyrir 5000 til 6000 árum af völdum  eldgosa í Helgafelli, Sæfjalli og Stórhöfða. Heimaklettur,  Ystiklettur , Klifið, Háin og Dalfjall   eru öll mun eldri. Hraunrennslið sem myndaði undirlendið á Heimaey  náði sem betur fer ekki að norðurklettunum og þannig varð til vogur,  vísir að hafnaraðstöðu  sem átti eftir að skipta öllu fyrir þróun  byggðar í Eyjum.

 

Hér kallar sagan á okkur

Þegar við erum stödd hér á Skanssvæðinu kallar sagan á okkur.  Hér hafa gerst atburðir sem hafa skipt sköpum fyrir byggð og mannlíf í Eyjum.   Vestmannaeyjar eru taldar í hópi elstu verstöðva við Norður- Atlantshaf.  Þegar horft er hér yfir Skanssvæðið er víða hægt að staldra við.  Gissur Hvíti og Hjalti Skeggjason komu hingað með kirkjuviðinn árið 1000 og Stafkirkjan þjóðargjöf Norðmanna árið 2000 minnir okkur á hin kristnu gildi  og menningararfinn. Aldirnar líðu og Vestmannaeyjar urðu eign Danakonungs.  Danir komu hér  upp vísi að varnarvirki við höfnina – Skansinum árið 1586.

 

En 16. til 19. júlí 1627  dundu ósköpin yfir, svokallað  Tyrkjarán sem var blóðug innrás  sjóræninga.  Íbúar í Eyjum voru þá tæplega fimm hundruð.   Af þeim var liðlega 240 rænt og komið um borð í ræningaskipin sem lágu hér við Skansinn og um 30  voru  brenndir inn í  dönsku  húsunum á Skansinum. Þetta var gríðarleg blóðtaka fyrir  samfélagið þegar ríflega helmingur íbúanna hverfur af vettvangi og  seldur í ánauð til Algiersborgar og eingöngu um 30 áttu afturkvæmt til Íslands  tíu árum síðar.  Árið 1630 var virkið á Skansinum endurbætt að nokkru í þá veru sem það er í dag.

 

Þjóðfélagslegt umrót

Árið 1703 voru íbúar í Eyjum rúmlega 300. Ef lífið hélt áfram. Sjúkdómar og fátækt einkenndu þessar aldir ,  Eyjamenn sóttu sjóinn á árabátum en sjóslys voru tíð.  Árið 1848 vannst sigur á ginklofanum – stívkrampanum – sjúkdómi sem lagðist á nýfædd börn og olli  miklum ungbarnadauða.  Danskir læknar  sem hingað komu unnu þrekvirki við erfiðar aðstæður og fundu orsök sjúkdómsins.  Komið upp fæðingarstofu í Danska–Garði við Skansinn. Um sama leiti var húsið Landlyst reist við Strandveg  íbúðarhús ljósmóðurinnar og sem fæðingarstofnun.-  Landlyst var tekin niður seint á síðustu öld , en endurbyggð  og komið fyrir á Skanssvæðinu árið 2000.

 

Skömmu eftir 1850 og fram eftur nítjándu öldinni gerðust fjölmargir Eyjamenn mormónatrúar og fluttu til Utah í Bandarríkjum.  Þessir flutningar höfðu mikil áhrif á þróun íbúafjöldans, en fólk flutti einnig til Eyja. Herfylking Vestmannaeyja hafði hér einnig aðsetur.  Allt gerðist þetta hér á Skanssvæðinu, því hér voru samskiptin, skipin fest við ból, en þá voru engar bryggjur til staðar.

 

Rofar til

Höfnin var opin fyrir austan  áttum og  mjög erfitt að komast hjá skemmdum á fiskibátum Eyjamanna.  Vélbátaöldin sem gekk í garð 1906 olli hér atvinnubyltingu   og mikla grósku í atvinnulífinu og íbúum fjölgaði úr 700 í 2000 á nokkrum árum. Ráðist var í framkvæmdir við hafnargarðanna 1914 og lauk byggingu þeirra tíu árum síðar. Þetta var aðkallandi   verkefni fyrir bæjarfélag í örum vexti.

 

Sjóveita var tekin í notkun hér árið 1931 – sjó dælt utan hafnargarðs   í dælustöð hér fyrir ofan og dælt  í fiskhúsin við Strandveg og í Sundlaug  Vestmannaeyja.   Við sjáum sjóveitutankinn sem hraunið braut niður að mestu í lok mars 1973   sama sólarhring og sundlaugin og byggðin í nágrenninu varð hrauninu að bráð. Í eldgosinu var fyrsti  hluti dælubúnaðar til að hefta hraunrennslið staðsettur hér á hafnargarðinum og í lok gossins var hafnargarðurinn í hlutverki varnargarðs.

 

Mikil framfaramál fyrir samfélagið fara í gegnum svæðið.  Rafmagns- og vatnsleiðslur frá meginlandinu til Eyja  voru teknar á land fyrir rúmlega 50 árum.  Þá hefur Blátindur VE nýlega tekið hér bólfestu,  fiskbátur sem var smíðaður hér í Eyjum um miðja síðustu öld og dæmigerður fulltrúi fiskiskipa frá þessum blómatíma vélbátaútgerðar.

 

Segja má að Skanssvæðið sé heill heimur í fingurbjörg.

 

Hér erum við og horfum til baka og um leið til framtíðar.  Sjávarútvegur er og verður burðarstoðinn í atvinnulífi Eyjamanna ásamt margvíslgeri þjónustu. Bættar samgöngur á sjó við Vestmannaeyja verður lykilatriði til framtíðar. 

 

Afmælisnefnd  þakkar þeim fjölmörgu einstalingum og fyrirtækjum  innanbæjar og utan sem hafa  aðstoðað  við  undirbúning  og framkvæmd dagskrár afmælisárins með einum eða öðrum hætti.  Jafnframt þökkum við  bæjaryfirvöldum og  goslokanefnd fyrir samskiptin sem gera það mögulegt að halda upp á þennan merkisatburð í sögu Vestmannaeyjabæjar með þeim hætti sem hann á sannarlega skilið.

 

 Takk fyrir.

 

Séra Guðmundur Örn:

Uppskeran í lífinu helst í hendur við það sem sáð er

 

 

Séra Guðmundur Örn Jónsson, sóknarprestur byrjaði hugvekju sína á að vitna í Orðskviðina 3.27-31, sem fjalla í grunninn um að elska náungann sem var megin innihald orða hans.

 

„Vestmannaeyjabær, sem fagnar 100 ára kaupstaðarafmæli minnir okkur auðvitað á reynslu kynslóðanna. Það er okkur öllum nauðsyn að læra af þeim sem eldri eru.  Ungur nemur gamall temur segir máltækið og það eru svo sannarlega orð að sönnu.  En máltækið getur bæði virkað hvetjandi og hamlandi, allt eftir því hvernig á er horft.

 

Boðskapur Jesú Krists minnir okkur á þau sannindi að uppskeran í lífinu helst í hendur við það sem sáð er.  En það þarf að rækja lífið, hlú að því og sýna þolinmæði og það þarf að velja og hafna.  Það er okkar, sem nú lifum, að lifa lífinu og gera eins gott úr því og við getum og þess vegna eigum við að gefa nýjum tímum, nýjum kynslóðum tækifæri til þess að sýna sig og sanna á lífsgöngunni, því heimur fer ekki endilega versnandi nema við leyfum honum að gera það.  Við skulum byggja á reynslu kynslóðanna, það er okkur algjör nauðsyn.  En um leið og við gerum það þá skulum við líka fleygja frá okkur gömlum fordómum og afturhaldi, slíkt á ekki að eiga erindi inní framtíð, sem við viljum að byggist á kærleika og elsku til náunga okkar.

 

Í þessu bæjarfélagi vinna auðvitað fjölmargir að sama marki. Fólk leggur mikið á sig til þess að létta undir með byrðum náungans og það skilar sem betur fer oft árangri. Fólk fær dýrmæta næringu og ekki aðeins fyrir hinn líkamlega vöxt heldur líka til þess að geta haldið áfram að vaxa og dafna sem manneskjur – mennta sig, umgangast aðra og skila sjálft af sér framlagi sínu til samfélagsins. Umhyggjan fyrir náunganum er sá drifkraftur sem lætur kraftaverk hversdagsins verða að veruleika.  Það er þessi tilfinning að annað fólk komi okkur við, að við getum lagt okkar af mörkum til þess að breyta lífi annarra og þar með heiminum sem við tilheyrum.

 

Það er held ég bara ágætis markmið inní næstu 100 árin að við bætum samfélagið sem við búum í með því að vera besta útgáfan af sjálfum okkur og metum þarfir náunga okkar á sama hátt og okkar eigin, og fylgjum þannig í fótspor frelsarans Jesú Krists.

 

Ég bið Drottinn að hjálpa okkur öllum, að elska náungann eins og okkur sjálf.  Lát okkur vera gestrisin og örlát.  Lát okkur vera samhuga, gleðjast með glöðum, gráta með þeim sem gráta.  Gef að við hreykjum okkur ekki yfir aðra, gjöldum engum illt fyrir illt, heldur hjálpum hvert öðru að bera byrðar lífsins.  Lát okkur ástunda hið góða og halda frið við allt fólk.  Hjálpa okkur að sigra illt með góðu.

 

Að lokum bið ég algóðan Guð að blessa samfélagið hér í Eyjum um ókomin ár, blessa íbúana hér og alla þá gesti sem hingað koma.  Í Jesú blessaða nafni. Amen,“ sagði Guðmundur.